Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Stykkishólmsbær - Ráðning í stöðu hafnarvarðar, rannsóknarskylda stjórnvalds, rökstuðningur

Þröstur Magnússon
1. júní 2005
FEL04120033/1001

Laufásvegi 11

340 STYKKISHÓLMUR

Hinn 1. júní 2005 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með bréfi, dags. 12. desember 2004, óskaði Þröstur Magnússon, Laufásvegi 11, 340 Stykkishólmi, hér

eftir nefndur kærandi, eftir úrskurði ráðuneytisins um það hvort bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar, hér eftir

nefnd kærði, hafi ráðið í stöðu hafnarvarðar í Stykkishólmi á grundvelli menntunar og starfsreynslu.

Með bréfi, dags. 15. desember 2004, leiðbeindi ráðuneytið kæranda um að afla rökstuðnings kærða fyrir

hinni kærðu ákvörðun áður en málið yrði tekið til meðferðar í ráðuneytinu, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr.

37/1993.

Með bréfi kæranda til ráðuneytisins, dags. 9. janúar 2005, fylgdi afrit af bréfi kærða, dags. 4. janúar 2005,

þar sem ráðning hafnarvarðar var skýrð. Í bréfi kæranda var ósk um úrskurð ráðuneytisins í málinu

ítrekuð.

Með bréfi ráðuneytisins til kærða, dags. 23. mars 2005, óskaði ráðuneytið eftir umsögn um kæruna.

Jafnframt óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir því að kærði lýsti afstöðu sinni til þess hvort bréf hans til

kæranda, dags. 4. janúar 2005, fæli í sér rökstuðning sem uppfyllti kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga.

Umsögn kærða, dags. 6. maí 2005, ásamt öðrum gögnum varðandi stöðuveitinguna, barst ráðuneytinu

samdægurs.

Þann 24. maí sl. barst ráðuneytinu, að beiðni þess, fundargerð bæjarstjórnar Stykkishólms, frá 25.

nóvember 2004.

Með hliðsjón af framansögðu lítur ráðuneytið svo á að það sé ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar

frá 25. nóvember 2004, þar sem tillaga hafnarnefndar um ráðningu hafnarvarðar frá 15. nóvember 2004

var staðfest, sem kærð er til ráðuneytisins.

I. Málavextir

 

Kærandi sótti um stöðu hafnarvarðar í Stykkishólmsbæ sem var auglýst í Morgunblaðinu þann 10.

október 2004. Í auglýsingunni kemur fram að gerðar séu kröfur um skipstjórnarréttindi og reynslu af

skipstjórn. Kærandi hefur 3. stigs réttindi sem skipstjórnarmaður og hefur verið til sjós í 23 ár, auk ýmissa

námskeiða því tengdu, svo sem slysavarnaskóla sjómanna, fjarskiptanámskeið, námskeið í flutningi

eiturefna, öryggisstjórnunarnámskeið og fleira ásamt því að hafa unnið með vottað gæðakerfi, svonefndan

ISO staðal.

Fjórir umsækjendur voru teknir í viðtal þar á meðal kærandi. Á fundi hafnarnefndar kom fram að allir þeir

viðmælendur höfðu menntun og starfsreynslu til að gegna starfinu, en það höfðu aðrir umsækjendur

einnig.

Á fundi hafnarnefndar 15. nóvember 2004 var tillaga að ráðningu afgreidd til bæjarstjórnar með skriflegri

atkvæðagreiðslu. Tillaga hafnarnefndar fól í sér að sá umsækjandi, sem fékk meirihluta atkvæða

hafnarnefndar, fengi stöðuna. Bæjarstjórn staðfesti tillögu hafnarnefndar á fundi sínum 25. nóvember

2004 með sex atkvæðum, en þrír sátu hjá.

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi tekur fram að hann hafi 3. stigs réttindi sem skipstjórnarmaður og hafi verið til sjós í 23 ár, auk

þess sem hann hafi sótt ýmis námskeið sem tengdust starfi hans, svo sem hjá slysavarnaskóla sjómanna,

fjarskiptanámskeið, námskeið í flutningi eiturefna, öryggisstjórnunarnámskeið o.fl., ásamt því að hafa

unnið með vottað gæðakerfi, svonefndan ISO staðal. Kærandi tekur fram að Stykkishólmshöfn hafi hlotið

evrópska vottun.

Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 7. mars 2005, upplýsti ráðuneytið að það legði þann skilning í

erindi hans að óskað væri eftir að ráðuneytið úrskurðaði um hvort ákvörðun bæjarstjórnar

Stykkishólmsbæjar frá 25. nóvember 2004, þar sem bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu

hafnarnefndar 15. nóvember 2004 um ráðningu hafnarvarðar, væri lögmæt. Ekki bárust mótmæli við þeim

skilningi ráðuneytisins.

III. Málsástæður kærða

 

Í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni, dags. 4. janúar 2005, kemur fram að allir umsækjendur sem teknir

voru í viðtal vegna ráðningar í starf hafnarvarðar hafi haft menntun og starfsreynslu til að gegna starfinu.

Sama væri að segja um aðra umsækjendur. Þegar málið var tekið fyrir á fundi hafnarnefndar 15.

nóvember 2004 var gengið til skriflegrar atkvæðagreiðslu. Í þeirri atkvæðagreiðslu fékk einn umsækjandi

meiri hluta atkvæða í hafnarnefnd. Tillaga hafnarnefndar um ráðningu þess einstaklings var send

bæjarstjórn sem staðfesti hana á fundi sínum 25. nóvember 2004.

Í umsögn kærða, dags. 6. maí 2005, kemur fram að í auglýsingu um starfið hafi komið fram að

hæfniskröfur væru skipstjórnarréttindi og reynsla af skipstjórn. Alls bárust 12 umsóknir um starfið og var

hafnarnefnd falið að yfirfara umsóknir og mæla með umsækjanda við bæjarstjórn. Hafnarnefnd fór yfir

allar umsóknir þar sem meðal annars menntun og reynsla var metin. Niðurstaðan var sú að fjórir

umsækjendur, sem allir stóðust þær kröfur sem gerðar voru, þóttu helst koma til greina. Meðal þeirra

fjögurra var kærandi. Voru þessir fjórir menn kallaðir í ítarleg starfsviðtöl þar sem ljóst var að velja þyrfti

milli þeirra. Að þessu loknu og að virtum framangreindum starfsviðtölum var það mat hafnarnefndar að

mæla með einum umsækjanda í starfið. Niðurstaða hafnarnefndar var fengin með atkvæðagreiðslu og

segir svo um hana í umsögn kærða: „Hafnarnefnd skipa fimm einstaklingar og verður því ákvörðun ekki

tekin öðruvísi en með atkvæðagreiðslu. Sá sem ráðinn var hlaut þrjú atkvæði og tveir aðrir umsækjendur

eitt atkvæði hvor.“ Bæjarstjórn réð síðan þann umsækjanda sem hafnarnefnd mælti með. Ljóst sé því af

framangreindu að ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar um það hver skyldi ráðinn hafnarvörður í

Stykkishólmi hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og sé í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Er því

öllum kröfum um ógildingu hennar mótmælt.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Kæran lýtur að því hvort kærði hafi ráðið í stöðu hafnarvarðar á grundvelli menntunar og reynslu, þ.e.

hvort ákvörðun kærða um ráðningu hafnarvarðar sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Kæruheimild til félagsmálaráðuneytisins byggist á ákvæði 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr.

45/1998. Kæran er fram komin innan kærufrests sem er þrír mánuðir.

Við ráðningar í stöður hjá sveitarfélögum hafa sveitarfélög ekki frjálsar hendur um val á umsækjendum

þegar fleiri en einn hæfur umsækjandi sækir um stöðu. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að þegar

svo stendur á beri að velja þann umsækjanda sem hæfastur verður talinn á grundvelli málefnalegra

sjónarmiða um menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og aðra persónulega eiginleika er máli skipta,

samanber álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 382/1991. Enn fremur geta sérlög sett sveitarfélögum

ákveðnar skorður, en svo er ekki í þessu tilviki þar sem hafnalög, nr. 61/2003, kveða ekki á um

hæfisskilyrði hafnarvarðar.

Um skyldu stjórnvalda til að veita rökstuðning fyrir ákvörðunum sínum er fjallað í 20.–22. gr.

stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt 22. gr. sömu laga skal í rökstuðningi fyrir matskenndum

ákvörðunum reifa þau meginsjónarmið sem ráðandi voru við matið. Hafi stjórnsýslunefnd ekki samþykkt

rökstuðning með ákvörðun sinni skal formaður færa rök fyrir henni.

Eins og áður hefur komið fram byggðist ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar um stöðuveitinguna á

atkvæðagreiðslu í hafnarnefnd.

Samkvæmt fundargerð bæjarstjórnar Stykkishólms, 25. nóvember 2004, var ráðning hafnarvarðar

samþykkt með sex atkvæðum, en sátu þrír fulltrúar hjá og létu frá sér svofellda bókun: “Ástæða þess að

við sitjum hjá við ráðningu hafnarvarðar er sú að ekki kemur fram rökstuðningur við meðmæli meirihluta

hafnarnefndar og að ekki var rætt við alla umsækjendur sem uppfylla kröfur samkvæmt auglýsingu. Þar

af leiðandi höfðu ekki allir jafna möguleika á að kynna sig og sín fyrri störf fyrir nefndarmönnum.”

 

Í máli þessu óskaði kærandi eftir rökstuðningi hjá kærða fyrir stöðuveitingunni. Rökstuðningur kærða

sem fram kemur í bréfi til kæranda, dags. 4. janúar 2005, er eftirfarandi: „Á fundi hafnarnefndar 15.

nóvember sl. var tillaga að ráðningu afgreidd til bæjarstjórnar með skriflegri atkvæðagreiðslu. A fékk

meirihluta atkvæða og var það niðurstaða sem bæjarstjórn staðfesti síðan á fundi sínum 25. nóvember

sl.

Tekið skal fram að hafnarnefnd er ekki lögbundinn umsagnaraðili um stöðuveitingar samkvæmt

hafnalögum, nr. 61/2003. Í máli þessu fól bæjarstjórn hafnarnefnd á hinn bóginn það hlutverk að gera

tillögu um val á umsækjanda. Við framkvæmd þess verkefnis bar nefndinni að fara að ákvæðum

stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar.

Ráðuneytið telur ljóst af gögnum málsins að við málsmeðferð bæjarstjórnar hafi eingöngu verið byggt á

afstöðu meiri hluta hafnarnefndar til umsækjenda. Að mati ráðuneytisins er slík málsmeðferð

veitingarvaldshafa í sjálfu sér heimil. Á hitt ber á þó að líta að í bókun minni hluta bæjarstjórnar á fundi

bæjarstjórnar 25. nóvember 2004 er réttilega bent á að engin gögn voru lögð fram á fundinum um það á

hvaða grundvelli hafnarnefnd mat A hæfastan. Í bókun hafnarnefndar frá 15. nóvember 2004 kemur

ekkert fram um hvaða sjónarmið hafi ráðið afstöðu meiri hluta nefndarmanna og telur ráðuneytið að

bæjarstjórn hefði átt að hlutast til um að upplýsa málið betur hvað þetta varðar áður en ákvörðun var tekin

um ráðningu í starf hafnarvarðar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Ella átti bæjarstjórn þess kost að taka sjálf

efnislega afstöðu til umsækjenda en af rökstuðningi sem kæranda var látinn í té verður ekki dregin önnur

ályktun en sú að engin efnisleg umræða hafi átt sér stað um málið í bæjarstjórn.

Á rökstuðningi kærða fyrir hinni kærðu ákvörðun er sá ágalli að ekkert kemur þar fram um það hvaða

sjónarmið réðu mestu við mat á umsækjendum, sem eins og áður er fram komið uppfylltu allir almennar

hæfniskröfur sem gerðar voru til umsækjenda. Rökstuðningurinn uppfyllir þar af leiðandi ekki kröfur sem

gerðar eru í 22. gr. stjórnsýslulaga enda ber hann ekki með sér að efnislegt mat hafi verið lagt á

umsækjendur eins og opinberum veitingarvaldshafa er skylt samkvæmt grundvallarreglum

stjórnsýsluréttar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð bæjarstjórnar við

stöðuveitinguna hafi ekki verið í samræmi við 11. gr. stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttar um

málsmeðferð við stöðuveitingar. Einnig var rökstuðningur bæjarstjórnar fyrir hinni kærðu ákvörðun

ófullnægjandi, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Beðist er velvirðingar á því að vegna annríkis í ráðuneytinu hefur meðferð þessa máls tekið lengri tíma en

gert er ráð fyrir í 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar við ákvörðun um ráðningu hafnarvarðar þann 25.

nóvember 2004 og rökstuðningur fyrir stöðuveitingunni var ekki í samræmi við grundvallarreglur

stjórnsýsluréttar og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

Afrit:

Stykkishólmsbær

 

1. júní 2005 - Stykkishólmsbær - Ráðning í stöðu hafnarvarðar, rannsóknarskylda stjórnvalds, rökstuðningur (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta