Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Seltjarnarneskaupstaður - Röð varamanna í nefndum, fundarboðanir

Seltjarnarneskaupstaður
7. nóvember 2005
FEL05110017

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri

Austurströnd 2

170 Seltjarnarnesi

Vísað er til fyrirspurnar yðar um röð varamanna í nefndum, sem barst ráðuneytinu í rafpósti

27. október sl. Fram kemur í fyrirspurninni að ekki sé um það að ræða að á Seltjarnarnesi sé

fyrir hendi ákveðin röð varamanna þegar framboðslisti á fleiri en einn aðalmann í nefnd nema

þá helst að hlutaðeigandi aðalmaður geri ráðstafanir til að tryggja að varamaður sé boðaður á

fund eða óski þess að bæjarstjóri sjái til þess að svo sé gert. Þetta hafi valdið ákveðnum vafa

um það hvort heimilt sé að kveðja til hvaða varamann sem er þegar aðalmaður forfallast um

stundarsakir. Í fyrirspurninni er óskað leiðbeininga ráðuneytisins um hvort til sé almenn regla

um þetta álitaefni.

Ekki verður séð að tekið sé á þessu álitaefni í IV. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með

síðari breytingum, sbr. einkum 43. gr. Umrætt ákvæði er nánast samhljóða 45. gr. samþykktar

um stjórn og fundarsköp Seltjarnarskaupstaðar frá árinu 2002. Einnig verður ekki séð að

fjallað hafi verið um sambærileg atvik í eldri úrskurðum eða álitum ráðuneytisins.

Af umræddum ákvæðum verður þó að draga þá ályktun að ef aðalmaður forfallast varanlega

skuli tiltekinn varamaður taka sæti hans, sbr. 1. mgr. 43. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæðið

virðist með öðrum orðum gera ráð fyrir því að varamenn séu kosnir í tiltekinni röð.

Minnt skal á að skv. 2. mgr. 47. gr. sveitarstjórnarlaga gilda í meginatriðum sömu reglur um

nefndir sveitarfélags og gilda um sveitarstjórn. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna er

meginreglan sú að varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir. Við

nefndakjör er í mörgum tilvikum borinn upp til atkvæða framboðslisti. Verður að telja það

nærtæka ályktun að varamenn í nefndum taki sæti í þeirri röð sem þeir eru tilgreindir á slíkum

listum eða í bókun sveitarstjórnar um niðustöðu nefndarkjörs, nema undantekningarregla 2.

mgr. 43. gr. sveitarstjórnarlaga eigi við. Þó verður að gera þann almenna fyrirvara að ef

aðalmaður forfallast með skömmum fyrirvara getur reynst nauðsynlegt að boða þann

varamann sem fyrst næst í, þótt hann sé ekki fyrsti varamaður. Verður að telja að slík tilvik

brjóti almennt ekki í bága við framangreinda meginreglu.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

7. nóvember 2005 - Seltjarnarneskaupstaður - Röð varamanna í nefndum, fundarboðanir (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta