Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Snæfellsbær - Heimildir bæjarráðs í sumarleyfi bæjarstjórnar, breyting á samþykkt um stjórn og fundarsköp.

Gunnar Örn Gunnarsson, bæjarfulltrúi
10. ágúst 2006
FEL06070019

Vallholti 7

355 Snæfellsbæ - Ólafsvík

Með erindi, dags. 4. júlí 2006, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra frá Gunnari Erni Gunnarssyni,

bæjarfulltrúa í Snæfellsbæ, á hendur meirihluta bæjarstjórnar og bæjarstjóra Snæfellsbæjar vegna

málsmeðferðar á afgreiðslu breytingar á 67. gr. samþykktar um stjórn Snæfellsbæjar og fundarsköp

bæjarstjórnar. Í erindinu er málsmeðferð lýst og lögð fram gögn.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. júlí 2006, var Snæfellsbæ kynnt erindið og gefinn kostur á að veita

umsögn um það. Umsögn, undirrituð af bæjarstjóra Snæfellsbæjar, Kristni Jónassyni, barst ráðuneytinu

með bréfi, dags. 18. júlí 2006.

Í ljósi þess að ráðuneytinu hefur jafnframt borist beiðni frá Snæfellsbæ um staðfestingu á samþykkt um

stjórn og fundarsköp lítur ráðuneytið svo á að í erindi málshefjanda felist ósk um að ráðuneytið hafni

staðfestingu samþykktarinnar. Er erindið tekið til afgreiðslu á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga, sem

kveður á um eftirlitshlutverk ráðuneytisins með sveitarfélögum, og felur eftirfarandi niðurstaða í sér álit

ráðuneytisins á lögmæti málsmeðferðar bæjarstjórnar og bæjarráðs Snæfellsbæjar.

I. Málavextir og málsástæður

Þann 2. mars 2006 var tekin á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar ákvörðun um endurskoðun á samþykkt

um stjórn Snæfellsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr. 460/2000. Í samræmi við c-lið 21. gr.

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, fóru fram tvær umræður í bæjarstjórn um breytta samþykkt, hin fyrri 30.

mars 2006 og hin síðari 27. apríl 2006. Með bréfi og tölvupósti, dagsettum 11. maí, var

félagsmálaráðuneytinu sent erindi með ósk um staðfestingu ráðuneytisins á samþykktinni og birtingu

hennar í Stjórnartíðindum. Í samræmi við venju var samþykktin yfirfarin af ráðuneytinu. Að þeirri yfirferð

lokinni voru gerðar nokkrar athugasemdir við orðalag og uppsetningu í samþykktinni í tölvupósti til

bæjarstjóra Snæfellsbæjar, dags. 14. júní 2006. Fyrir liggur að málshefjandi gerir engar athugasemdir við

þennan hluta málsmeðferðarinnar.

Á 155. fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þann 15. júní 2006 var borin upp og samþykkt tillaga bæjarstjóra

þess efnis að breyting yrði gerð á 67. gr. samþykktarinnar. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum

gegn þremur. Jafnframt var samþykkt að vísa tillögunni til seinni umræðu í bæjarráði. Á þessum sama

fundi samþykkti bæjarstjórn sumarleyfi bæjarstjórnar í júlí og ágúst, sbr. 15. gr. sveitarstjórnarlaga, nr.

45/1998, og jafnframt var samþykkt samhljóða tillaga forseta bæjarstjórnar þar sem bæjarráði er veitt fullt

umboð til að starfa sem bæjarstjórn á meðan leyfi bæjarstjórnar varir.

Á fundi bæjarráðs þann 27. júní 2006 fór fram síðari umræða um breytingu á 67. gr. samþykktarinnar og

var hún samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu atkvæði (18. liður). Á sama fundi (19. liður) voru

lagðar fram athugasemdir félagsmálaráðuneytisins við áður senda samþykkt um stjórn Snæfellsbæjar og

fundarsköp bæjarstjórnar, sbr. tölvupóst frá ráðuneytinu dags. 14. júní 2006, og var samþykktin borin upp

með áorðnum breytingum. Tillagan var einnig samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði

málshefjanda sem lagði fram bókun þar sem hann mótmælir meðal annars málsmeðferðinni.

Fram kemur í erindi til ráðuneytisins að málshefjandi telur að málsmeðferð bæjarráðs fari í bága við 21.

gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem seinni umræða geti ekki farið fram um svo alvarlegt mál í

bæjarráði í sumarfríi bæjarstjórnar. Þá vísar hann einnig í 39. gr. sömu laga þar sem „fjallað er um

byggðarráð (bæjarráð) og tekið sérstaklega fram að ekki megi vera ágreiningur innan ráðsins eða við

framkvæmdastjóra.”

Í umsögn meirihluta bæjarstjórnar er rakin sú meðferð sem breytingar á samþykktum um stjórn

Snæfellsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar fékk í bæjarstjórn og bæjarráði. Í umsögninni er því meðal

annars haldið fram að hugsanlega hafi verið óþarft að vísa breytingu á 67. gr. samþykktarinnar til

bæjarráðs líkt og gert var á bæjarstjórnarfundi 15. júní 2006 þar sem samþykktin í heild hafði áður verið

rædd tvisvar í bæjarstjórn. Á umræddum bæjarstjórnarfundi hafi aðeins verið gerð ein breyting, á 67. gr.

samþykktarinnar. Sú breyting geti hvorki talist óeðlileg né veruleg.

Einnig telur meirihlutinn ljóst að bæjarráði hafi verið falið fullt og ótakmarkað umboð frá bæjarstjórn á

sama fundi til að afgreiða samþykktina endanlega. Það umboð hafi verið í fullu samræmi við 3. mgr. 39.

gr. sveitarstjórnarlaga, samanber breytingu sem gerð á því ákvæði með lögum nr. 69/2004.

II. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Í 10. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, segir: „Sveitarstjórnir skulu gera sérstaka samþykkt um stjórn og

stjórnsýslu sveitarfélagsins og meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Slík samþykkt skal send

ráðuneytinu til staðfestingar“.

 

Í 21. gr. sömu laga er ákvæði sem segir til um málsmeðferð við breytingar á samþykktum, en þar segir:

„Sveitarstjórnir skulu hafa tvær umræður með a.m.k. einnar viku millibili um eftirtalin málefni: a)

fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja, b) ársreikninga sveitarfélagsins, stofnana

þess og fyrirtækja, c) samþykktir og reglugerðir sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu

ráðherra, d) áætlanir fyrir sveitarfélagið sem gilda eiga til lengri tíma, svo sem skipulags- og

framkvæmdaáætlanir, e) beiðni um aðstoð skv. 75. gr.“

 

Ákvæði c-liðar 21. gr. gildir bæði um setningu nýrrar samþykktar og breytingu á eldri samþykkt um stjórn

og fundarsköp sveitarfélags. Breyting á samþykkt þarfnast því tveggja umræðna í sveitarstjórn áður en

ráðherra er heimilt að staðfesta samþykkt um slíka breytingu. Ákvæðið útilokar hins vegar ekki að nýjar

tillögur um breytingu á samþykkt séu lagðar fram á milli umræðna í sveitarstjórn og einnig við síðari

umræðu á sveitarstjórnarfundi. Séu slíkar breytingartillögur rétt fram bornar og samþykktar í sveitarstjórn

verða þær hluti af samþykktinni og þurfa ekki að fara í fleiri umræður.

Ráðuneytið leggur þann skilning í erindi málshefjanda að byggt sé á þeirri málsástæðu að endurskoðun á

samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélags sé svo sérstakt mál að það sé eingöngu sveitarstjórn en

ekki byggðarráð sem geti tekið ákvörðun um þá afgreiðslu. Ráðuneytið fellst á að þrátt fyrir niðurlag 3.

mgr. 39. gr. laganna, þar sem byggðarráði eru veittar sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella meðan

sveitarstjórn er í sumarleyfi, verði að túlka þau sérstöku fyrirmæli um málsmeðferð sem fram koma í 21.

gr. laganna samkvæmt orðanna hljóðan. Ákvörðun í þeim málum sem þar eru tilgreind verður því einungis

tekin af sveitarstjórn að undangengnum tveimur umræðum.

Ekki er deilt um það í málinu að málsmeðferð bæjarstjórnar Snæfellsbæjar á bæjarstjórnarfundum þann

30. mars 2006 og 27. apríl 2006 hafi verið í samræmi við c-lið 21. gr. sveitarstjórnarlaga, en á þeim

fundum samþykkti bæjarstjórn með öllum greiddum atkvæðum nýja samþykkt um stjórn Snæfellsbæjar og

fundarsköp bæjarstjórnar. Samþykktin var send félagsmálaráðuneytinu til staðfestingar með bréfi, dags.

11. maí 2006. Staðfesting ráðuneytisins á samþykktinni dróst vegna sveitarstjórnarkosninga er fram fóru

27. maí 2006. Það var síðan ekki fyrr en 14. júní sem bæjarstjóra voru sendar athugasemdir ráðuneytisins

um orðalag og uppsetningu sem betur mættu fara í samþykktinni en ekki var um að ræða atriði sem gátu

talist efnisbreytingar.

Á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þann 15. júní 2006 var borin upp tillaga um að gerð yrði ein breyting

á samþykktinni, þess efnis að bæjarstjóra yrði veitt vald til að ráða almenna starfsmenn sveitarfélagsins að

höfðu samráði við hlutaðeigandi sviðstjóra. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur og

jafnframt samþykkt að vísa henni til síðari umræðu í bæjarráði.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti á sama fundi tillögu forseta bæjarstjórnar þar sem bæjarráði er veitt

fullt umboð til starfa sem bæjarstjórn vegna sumarleyfa bæjarstjórnar í júlí og ágúst. Samþykkt þeirrar

tillögu var raunar ekki nauðsynleg að mati ráðuneytisins þar sem valdheimildir bæjarráðs á meðan

bæjarstjórn er í sumarleyfi eru skýrt orðaðar í sveitarstjórnarlögum. Í 3. mgr. 39. gr. laganna, eins og því

ákvæði var breytt með lögum nr. 68/2004, segir: „Byggðarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi

varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins eða við

framkvæmdastjóra um ákvörðunina, en meðan sveitarstjórn er í sumarfríi fer byggðarráð með sömu

heimildir og sveitarstjórn hefur ella.

 

Þar sem samþykktin hafði ekki enn hlotið staðfestingu ráðuneytisins telur ráðuneytið rétt að líta svo á að á

fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þann 15. júní 2006 hafi verið um að ræða endurupptöku á fyrri

afgreiðslu bæjarstjórnar, sem fól í sér að málið var tekið til þriðju umræðu. Að mati ráðuneytisins var því

óþarft að vísa breytingu á samþykktinni til síðari umræðu í bæjarráði líkt og bæjarstjórn gerði á

umræddum fundi þrátt fyrir að um hafi verið að ræða breytingu á þeirri samþykkt sem send var

ráðuneytinu til staðfestingar hinn 11. maí 2006. Ekki reynir því á það í þessu máli hvort bæjarstjórn hafi

framselt bæjarráði ákvörðun sem aðeins var á valdi bæjarstjórnar að leiða til lykta, en eins og áður segir

telur ráðuneytið rétt að túlka 21. gr. sveitarstjórnarlaga samkvæmt orðanna hljóðan og að það sé því

eingöngu sveitarstjórn sem hafi vald samkvæmt lögum til að breyta samþykkt um stjórn og fundarsköp

sveitarfélags.

Á fundi bæjarráðs Snæfellsbæjar sem haldinn var 27. júní 2006 var áðurnefnd breyting á 67. gr.

samþykktarinnar samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu. Með vísan til þess er að framan er rakið

telur ráðuneytið þessa afgreiðslu bæjarráðs ekki hafa verið nauðsynlega þar sem breyting á samþykktinni

hafði þegar hlotið tilskilinn fjölda umræðna í bæjarstjórn. Á sama fundi var einnig gerð grein fyrir

athugasemdum ráðuneytisins við þá samþykkt sem send var til staðfestingar hinn 11. maí 2006 og var

samþykktin samþykkt með áorðnum breytingum með tveimur atkvæðum gegn einu. Eins og áður er fram

komið fólust engar efnisbreytingar í athugasemdum ráðuneytisins og hefur ekki verið venjan að

leiðréttingar á uppsetningu og aðrar lagfæringar við prófarkarlestur séu bornar upp til samþykktar í

sveitarstjórn áður en gengið er frá endanlegri staðfestingu. Með vísan til þeirrar venju er það niðurstaða

ráðuneytisins að bæjarráð hafi verið til þess bært að fjalla um samþykktina svo breytta og samþykkja hana

fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð bæjarstjórnar Snæfellsbæjar við

endurskoðun samþykktar um stjórn Snæfellsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar hafi uppfyllt skilyrði 21.

gr. sveitarstjórnarlaga. Jafnframt er það niðurstaða ráðuneytisins að atkvæðagreiðsla sem fram fór í

bæjarráði Snæfellsbæjar um breytingu á samþykktinni hafi ekki áhrif á lögmæti samþykktarinnar. Með

vísan til þessarar niðurstöðu mun ráðuneytið staðfesta samþykktina og senda hana til birtingar í B-deild

Stjórnartíðinda.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Stefanía Traustadóttir (sign.)

10. ágúst 2006 - Snæfellsbær - Heimildir bæjarráðs í sumarleyfi bæjarstjórnar, breyting á samþykkt um stjórn og fundarsköp. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta