Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Kópavogsbær - Áheyrnarfulltrúi í félagsmálaráði

Kópavogsbær
21. mars 2007
FEL07030031

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri

Fannborg 2

200 Kópavogi

Með erindi, dags. 8. mars 2007, óskaði Félagsþjónusta Kópavogs eftir áliti félagsmálaráðuneytisins á því hvort bæjarstjórn Kópavogsbæjar væri heimilt, lögum samkvæmt, að tilnefna áheyrnarfulltrúa úr minnihluta bæjarstjórnar, með málfrelsi og tillögurétt, í félagsmálaráð Kópavogsbæjar. Félagsmálaráð Kópavogsbæjar fer jafnframt með barnaverndarmál.

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að á fundi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar þann 27. febrúar 2007 var lögð fram tillaga um að bæjarstjórnin samþykki að á yfirstandandi kjörtímabili gæfist Vinstrihreyfingunni – grænu framboði heimild til að tilnefna áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í skólanefnd og félagsmálaráð. Var tillagan samþykkt einróma.

Álit ráðuneytisins

Ráðuneytið skilur erindið svo að óskað sé álits á því hvort bæjarstjórn Kópavogs sé heimilt að ákvarða að fulltrúi í bæjarstjórn Kópavogsbæjar taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í félagsmálaráði. Samkvæmt 5. tölul. B-liðar 62. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr. 262/1990, með síðari breytingum, eiga fimm menn sæti í félagsmálaráði. Félagsmálaráð fer með verkefni félagsmálanefndar, sbr. 5. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og barnaverndarnefndar skv. III. kafla barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Jafnframt fer ráðið með rekstur og stjórn gæsluvalla og daggæslu.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram að í sveitarstjórnarlögum er ekki kveðið almennt á um rétt eða skyldu sveitarstjórna til að heimila áheyrnarfulltrúa í nefndum og ráðum sveitarfélags. Í 29. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um málfrelsi og tillögurétt sveitarstjórnarmanna. Í athugasemdum í frumvarpi er síðar varð að sveitarstjórnarlögum er í skýringum við 29. gr. vikið að áheyrnarfulltrúum, en þar segir svo: „Rétt er þó að taka fram að nefndir geta hins vegar almennt heimilað sveitarstjórnarmönnum og öðrum að sitja fundi sína og taka þátt í umræðum."

Þá er í 38. gr. sveitarstjórnarlaga fjallað sérstaklega um rétt áheyrnarfulltrúa í byggðarráði. Í 5. mgr. 38. gr. laganna segir að sveitarstjórn geti heimilað framboðsaðila, sem fulltrúa á í sveitarstjórn en nær eigi kjöri í byggðarráð, að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt. Í 4. mgr. 49. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 262/1990, sbr. samþykktir nr. 59/1998 og 100 /1998, er að finna ákvæði í samræmi við 5. mgr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar segir að bæjarstjórn geti leyft að flokkur eða listi sem fulltrúa á í bæjarstjórn en ekki í bæjarráði megi tilnefna fulltrúa til að sitja fundi bæjarráðs með málfrelsi og tillögurétt.

Í þessu sambandi má einnig nefna að Reykjavíkurborg hefur sett almennt ákvæði í samþykkt sína um að framboðslista sem fulltrúa á í borgarstjórn sé heimilt að tilnefna borgarfulltrúa eða varaborgarfulltrúa til að sitja fundi borgarráðs eða fagráða með málfrelsi og tillögurétt, enda eigi listinn ekki fulltrúa í viðkomandi ráði. Umrætt ákvæði er byggt á almennum sjónarmiðum um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga í eigin málum og er markmið þess að auðvelda kjörnum fulltrúum í borgarstjórn að fylgjast með stjórnsýslu borgarinnar.

Í áðurnefndri samþykkt um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar er tekið fram í 3. mgr. 49. gr. að kjörnum fulltrúum sem ekki eiga sæti í bæjarráði sé heimilt að sitja fundi bæjarráðs sem áheyrendur

án málfrelsis og tillöguréttar. Forfallist kjörinn aðalmaður á varamaður hans sama rétt. Í 57. gr. samþykktarinnar segir hins vegar: „Nefndarfundur skal haldinn fyrir luktum dyrum. Nefnd getur kvatt á sinn fund einstaka starfsmenn bæjarins. Ennfremur getur nefnd boðað aðila að koma á fund til viðræðna um tiltekin mál."

Samkvæmt 11. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, fer félagsmálanefnd með fjölbreytt verkefni almenns efnis. Þá fer félagsmálanefnd einnig með ráðgjöf og aðra þjónusta við einstaklinga og fjölskyldur. Strangar reglur gilda um varðveislu gagna og þagnarskyldu nefndarmanna þegar um er að ræða mál sem varða persónulega hagi einstaklinga, sbr. 60. gr. laganna. Samkvæmt 12. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, fer barnaverndarnefnd fyrst og fremst með málefni einstaklinga, þ.e. barna og fjölskyldna þeirra.

Ráðuneytið telur þannig ástæðu til að hafa hugfast að félagsmálaráð Kópavogsbæjar þarf iðulega að fjalla um viðkvæm einstaklingsmál. Sérstaklega er tekið fram í 13. gr. barnaverndarlaga að sveitarstjórnum sé óheimilt að veita barnaverndarnefndum fyrirmæli um meðferð einstakra barnaverndarmála. Jafnframt er tekið fram í sömu grein að sveitarstjórn sé óheimill aðgangur að gögnum og upplýsingum um einstök barnaverndarmál og að ákvörðunum og úrskurðum barnaverndarnefndar verði ekki skotið til sveitarstjórnar. Hvorki í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga né í barnaverndarlögum er kveðið á um heimild sveitarstjórnar til að ákveða að áheyrnarfulltrúi sitji fundi félagsmálanefndar eða barnaverndarnefndar.

Með hliðsjón af framangreindu á ákvörðun bæjarstjórnar um að veita bæjarfulltrúa Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs áheyrnarrétt í félagsmálaráði sér ekki beina stoð í lögum eða samþykkt um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar. Ráðuneytið tekur jafnframt fram að seta áheyrnarfulltrúa í félagsmálaráði Kópavogsbæjar við meðferð barnaverndarmála er ekki í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga. Á hinn bóginn lítur ráðuneytið svo á að með hliðsjón af meginreglunni um sjálfsforræði sveitarfélaga geti bæjarstjórn ákveðið að framboðslisti, sem á fulltrúa í sveitarstjórn en nær ekki kjöri í félagsmálaráð, geti tilnefnt áheyrnarfulltrúa til setu á fundum félagsmálaráðs þegar nefndin fjallar um önnur mál en einstaklingsmálefni.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

21. mars 2007 - Kópavogsbær - Áheyrnarfulltrúi í félagsmálaráði (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta