Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Broddaneshreppur - Afsögn hreppsnefndarmanns

Broddaneshreppur                                                 24. janúar 1997                                                  97010145

Franklín Þórðarson oddviti                                                                                                                        1001

Litla-Fjarðarhorni

510 Hólmavík

 

 

 

 

 

             Vísað er til símtals yðar við ráðuneytið í dag þar sem óskað er eftir leiðbeiningum varðandi “úrsögn” eins hreppsnefndarmanna úr hreppsnefnd Broddaneshrepps.

 

             Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er þeim, sem er kjörgengur, heill og hraustur og yngri en 65 ára, skylt að taka kjöri í sveitarstjórn. Þetta þýðir að þeim sem kjörinn hefur verið er að jafnaði skylt að sitja í sveitarstjórn til loka kjörtímabils.

 

             Í 3. mgr. 43. gr. laganna segir hins vegar svo:

             “Nú telur sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum sínum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags og getur sveitarstjórn þá létt af honum störfum eða veitt honum lausn að eigin ósk um tiltekinn tíma eða til loka kjörtímabils.”

 

             Með síðargreinda lagaákvæðinu hefur löggjafinn tryggt sveitarstjórnarmönnum rétt til að biðjast lausnar að eigin ósk en jafnframt hefur löggjafinn bundið þennan rétt tveimur skilyrðum.

 

             Annað skilyrðið er að sveitarstjórnarmaður telji sig ekki geta gegnt skyldu sinni í sveitarstjórn án “óhæfilegs álags”. Í ákvæðinu er aftur á móti enga skýringu að finna á því hvað teljist óhæfilegt álag í þessu sambandi, heldur virðist löggjafinn hafa ætlað sveitarstjórn að meta það í hverju einstöku tilfelli, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, en samkvæmt því lagaákvæði er það sveitarstjórn sem úrskurðar hvort veita skuli sveitarstjórnarmanni lausn.

 

             Hitt skilyrðið samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laganna er að lausn verður að vera bundin við tiltekinn tíma eða vera endanleg, þ.e. til loka kjörtímabilsins.

 

             Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að ósk sveitarstjórnarmanns um lausn frá störfum í sveitarstjórn þurfi að vera rökstudd, þ.e. tilgreina ber í hverju hið óhæfilega álag er fólgið. Síðan er það í valdi sveitarstjórnarinnar sjálfrar að meta hvort umrætt skilyrði 3. mgr. 43. gr. sé fyrir hendi og í framhaldi af því að taka afstöðu til framkominnar beiðni um lausn. Að auki ber viðkomandi sveitarstjórnarmanni að taka fram hvort óskað er lausnar um tiltekinn tíma eða til loka kjörtímabilsins.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta