Reykjavík - lögmæti endurkröfuveitts afsláttar af fasteignagjöldum: Mál nr. 82/2008
Ár 2009, 30. júlí er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. 82/2008
A
gegn
Reykjavíkurborg
I. Aðild kærumáls, kröfur og kærufrestur
Með erindi, dags 9. desember 2008 fór A í Reykjavík (hér eftir nefndur kærandi) fram á að samgönguráðuneytið úrskurðaði að sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að endurkrefja hann um veittan afslátt af fasteignagjöldum hafi verið ólögmæt.
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
Nr. 1 Bréf kæranda til samgönguráðuneytisins dags. 9. desember 2008.
Nr. 2 Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda dags. 16. desember 2008.
Nr. 3 Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda dags. 9. janúar 2009.
Nr. 4 Afrit af greiðsluseðli vegna fasteignagjalds.
Nr. 5 Bréf samgönguráðuneytisins til Reykjavíkurborgar dags. 12. janúar 2009.
Nr. 6 Tvö tölvuskeyti milli Reykjavíkurborgar og samgönguráðuneytisins dags. 17. febrúar 2009.
Nr. 7 Þrjú tölvuskeyti milli samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar dags. 17. mars 2009.
Nr. 8 Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda dags. 26. mars 2009.
Nr. 9 Umsögn Reykjavíkurborgar dags. 18. mars 2009, móttekin 30. mars 2009.
Nr. 10 Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda dags. 1. apríl 2009.
Nr. 11 Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda dags. 22. maí 2009.
Nr. 12 Bréf samgönguráðuneytisins til Reykjavíkurborgar dags. 22. maí 2009.
Nr. 13 Tölvuskeyti Reykjavíkurborgar til samgönguráðuneytisins dags. 29. júlí ásamt sýnishorni af bakhlið álagningarseðils fasteignagjalda.
Ekki er vísað til kæruheimildar í kæru, en ráðuneytið telur ljóst að kært sé á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Óumdeilt er að kærandi sé aðili máls.
Kæra barst innan kærufrests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Gagnaöflun telst lokið.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Málsatvik í máli þessu eru í stuttu máli þau að í desember 2008 var kæranda tilkynnt að álagning fasteignagjalda hafi verið endurskoðuð og áður veittur afsláttur til hans hafi verið bakfærður þannig að skuld hans við Reykjavíkurborg næmi kr. 50.593. Gjalddagi þeirrar skuldar skyldi vera 1. janúar 2009 en eindagi þann 2. febrúar 2009.
Kærandi telur að honum beri ekki að greiða þessa fjárhæð þar sem hann hafi aldrei farið fram á honum yrði veittur fyrrgreindur afsláttur sem hann eigi þó rétt á sökum aldurs.
Þann 9. desember 2009 kærði kærandi þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að endurkrefja hann um veittan afslátt af fasteignagjöldum til samgönguráðuneytisins.
Með bréfi dags. 16. desember 2008 tilkynnti samgönguráðuneytið kæranda að það hefði móttekið erindi hans og óskaði frekari gagna frá honum. Bréf ráðuneytisins var ítrekað þann 9. janúar 2009. Í kjölfarið hafði kærandi símasamband við ráðuneytið og upplýsti að eina gagn hans varðandi endurkröfuna væri greiðsluseðill frá borginni. Afrit þess seðils barst ráðuneytinu þann 12. janúar 2009.
Með bréfi dags. 12. janúar 2009 var Reykjavíkurborg gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau þann 26. mars 2009.
Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum borgarinnar með bréfi dags. 26. mars 2009 en engar athugasemdir bárust.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi segir í kæru sinni að í upphafi árs 2008 hafi verið lögð á hann gjöld vegna fasteignar hans, þau hafi hann greitt og með því hafi hann uppfyllt skyldu sína gagnvart borginni. Álagning hafi tekið mið af aldurstengdum afslætti sem hann hafi ekki farið fram á.
Kærandi segir að það hafi síðan verið í lok árs 2008 að honum var sendur greiðsluseðill frá Reykjavíkurborg um breytingu á fasteignagjöldum fyrir árið 2008. Þar er tilgreint að álagning gjalda hafi verið endurskoðuð, veittur afsláttur verið bakfærður og skuld hans við borgina nemi kr. 50.593.
Kærandi bendir á að hann hafi aldrei farið fram á að fá þennan aldurstengda afslátt og því beri honum ekki að endurgreiða fjárhæðina. Hann tekur þó fram að engu að síður telji hann að hann eigi rétt á afslættinum sökum aldurs.
Kærandi telur vinnubrögð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar forkastanleg, sérstaklega um þessar mundir. Hann telur að strax í upphafi ársins hafi átt að tilkynna honum það að fjármálaskrifstofan teldi sig hafa einhver rök fyrir því að veita honum ekki þennan aldurstengda afslátt.
Kærandi telur fyrrgreind vinnubrögð grófa aðför að fjármálum 67 ára og eldri og segir að hann viti til þess að fleiri hafi fengið samskonar innheimtu frá borginni.
IV. Málsástæður og rök Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að gildandi reglur um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega hafi verið samþykktar í borgarstjórn Reykjavíkur þann 7. janúar 2009 og reglurnar séu eftirfarandi:
100% lækkun
Einstaklingar með tekjur allt að kr. 2.240.000
Hjón með tekjur allt að kr. 3.140.000
80% lækkun
Einstaklingar með tekjur á bilinu kr. 2.240.000 til kr. 2.580.000
Hjón með tekjur á bilinu kr. 3.140.000 til kr. 3.500.000
50% lækkun
Einstaklingar með tekjur á bilinu kr. 2.580.000 til kr. 3.000.000
Hjón með tekjur á bilinu kr. 3.500.000 til kr. 4.180.000.
Þá segir í greinargerðinni að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds séu þau að viðkomandi elli- og örorkulífeyrisþegi eigi lögheimili í Reykjavík, sé þinglýstur eigandi viðkomandi fasteignar og/eða geti átt rétt á vaxtabótum vegna hennar skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með síðari breytingum. Þá er einungis veitt lækkun vegna íbúðarhúss til eigin nota.
Reykjavíkurborg segir að reglurnar um fyrrgreindan afslátt hafi verið birtar á heimasíðu borgarinnar auk þess sem álagning sé auglýst í öllum helstu dagblöðum og jafnframt í Fréttabréfi eldri borgara í Reykjavík. Þá komi fram í skýringartexta á bakhlið álagningarseðils fasteignagjalda að fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar framkvæmi breytingar á fasteignaskatti og holræsagjaldi eftir yfirferð skattframtala elli- og örorkulífeyrisþega. Er þetta gert til þess að tryggja jafnræði en unnið sé eftir tekjuupplýsingum Ríkisskattstjóra.
Reykjavíkurborg segir að Ríkisskattstjóri gefi borginni upp hverjir falli undir afsláttarreglurnar. Kærandi hafi verið einn af þeim og því hafi fasteignaskattur hans og holræsagjald lækkað árin 2006, 2007 og 2008. Var honum sendur breytingaseðill um gjaldbreytinguna haustið 2006 ásamt reglum um lækkun gjaldanna sem í gildi voru á þeim tíma.
Reykjavíkurborg segir í greinargerð sinni að á haustin þegar staðfest framtal liggi fyrir sendi Ríkisskattstjóri borginni þær upplýsingar og þá sé byggt á tekjum undanfarandi árs. Til þess að tryggja réttan afslátt er við yfirferð næsta hausts miðað við tekjur skattársins sem leiði til þess að einhverjir fá viðbótarafslátt eða eru krafðir um viðbótargreiðslu en afsláttur flestra sé óbreyttur. Ef afsláttur breytist er viðkomandi sendur breytingaseðill ásamt skýringum og reglum um afslátt gjaldanna.
Í tilviki kæranda hafi fyrst verið um að ræða afslátt árið 2006. Þá hafi honum verið sendur breytingaseðill ásamt reglum um afslátt gjaldanna. Á sama grunni fékk hann afslátt 2007 og 2008 en við yfirferð Ríkisskattstjóra um haustið 2008 komu fram breytingar á tekjum hans sem leiddu til þess að hann var yfir viðmiðunarmörkum og átti hann þar af leiðandi ekki rétt á afslætti árið 2008. Af því tilefni var hann endurkrafinn um kr. 50.593.
V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
Efnislega er ágreiningsefni máls þessa hvort Reykjavíkurborg hafi verið heimilt endurkrefja kæranda um áður veittan afslátt af fasteignagjöldum.
Fasteignaskattur er einn af tekjustofnum sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, en auk hans eru tekjustofnar þeirra útsvör og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Auk þeirra tekna sem upp eru taldar í 1. gr. fyrrgreindra laga hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995.
Þá er sveitarstjórn heimilt sbr. 2. mgr. 2.gr. laganna að ákveða að gjalddagar vatnsskatts, holræsagjalds og lóðarleigu skuli vera þeir sömu og gjalddagar fasteignaskatts og jafnframt að innheimtu þeirra verði hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.
Í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir:
Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.
Reykjavíkurborg hefur nýtt sér þessa heimild og samþykkt lækkun fasteignaskatts og holræsagjalds hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Hefur borgin sett reglur í þessu sambandi og bundið réttinn til afsláttar við tekjur viðkomandi.
Ráðuneytið telur með vísan til 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 svo og þess skýra ákvæðis í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 að sveitarfélög hafa sjálfsákvörðunarrétt í þeim málum er lúta að lækkun eða niðurfellingu á fasteignaskatti sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Í því felst að sveitarstjórn ákveður hvort heimild 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 verði notuð og jafnframt við hvaða mörk skuli miða en ekki er deilt um það í máli þessu.
Ljóst er að til þess að unnt sé að beita þeirri ívilnun sem í afslættinum felst verða borgaryfirvöld að hafa upplýsingar um tekjur viðkomandi. Ráðuneytið telur að það vinnulag borgarinnar að endurskoða veittan afslátt með hliðsjón af yfirferð Ríkisskattstjóra á skattframtölum viðkomandi ár hvert sé í fyllsta máta eðlilegt en fyrr er í raun ekki unnt að sjá hvaða rétt viðkomandi á til afsláttarins.
Þá hefur ráðuneytið sannreynt þá staðhæfingu borgarinnar að á bakhlið álagningarseðils fasteignagjalda komi fram að fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar framkvæmi breytingar á fasteignaskatti og holræsagjaldi eftir yfirferð skattframtala elli- og örorkulífeyrisþega. Ráðuneytið telur því að Reykjavíkurborg hafi upplýst gjaldendur um að áður veittur afsláttur fasteignaskatts gæti breyst.
Áréttað skal að í máli þessu liggja ekki fyrir upplýsingar um tekjur kæranda. Úrskurður ráðuneytisins tekur því ekki til þess hvort það fjárhagslega skilyrði hafi verið fyrir hendi að endurkrefja kæranda um áður greitt fasteignagjald. Að því skilyrði uppfylltu gerir ráðuneytið ekki athugasemd við þá kröfu Reykjavíkurborgar að endurkrefja kæranda um áður veittan afslátt af fasteignagjöldum.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu A, um að ákvörðun Reykjavíkurborgar að endurkrefja hann um veittan afslátt af fasteignagjöldum hafi verið ólögmæt.
Ragnhildur Hjaltadóttir
Hjördís Stefánsdóttir