Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu - synjun endurveitingu ökuréttinda: Mál nr. 51/2009
Þann 13. ágúst 2009 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður
í stjórnsýslumáli nr. 51/2009
A
gegn
lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu
I. Aðild, kröfur og kærufrestur
Með stjórnsýslukæru þann 21. júlí 2009 kærði A (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, frá 14. júlí 2009 að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.
Eftirfarandi skjöl liggja fyrir í málinu:
Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 21.7.2009.
Nr. 2. Tp.samskipti ráðuneytisins og lögreglustj. höfuðborgarsvæðisins, 27.–30.7.2009.
Nr. 3. Umsókn kæranda um endurveitingu ökuréttinda dags. 3.6.2009.
Nr. 4. Sakarvottorð dags. 13. júlí 2009.
Nr. 5. Bréf lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins til kæranda dags. 14.7.2009.
Nr. 6. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 30.7.2009.
Kæran barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er í 3. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og ekki er ágreiningur um aðild.
II. Málsatvik
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru málavextir þeir að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, var kærandi sviptur ökurétti ævilangt frá 30. maí 2004 að telja vegna brots gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Með umsókn þann 3. júní 2009 sótti kærandi um endurveitingu ökuréttinda til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Umsókn kæranda var synjað með bréfi embættisins þann 14. júlí 2009. Kærandi kærði synjunina til ráðuneytisins með bréfi dags. 21. júlí 2009 sem móttekið var hjá ráðuneytinu 23. júlí sl.
Þar sem engin gögn fylgdu kærunni óskaði ráðuneytið eftir því við lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, með tölvupósti þann 27. júlí sl., að því yrðu send gögn málsins, s.s. umsókn kæranda og synjunarbréf embættisins auk annars sem málið varðaði. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu þann 30. júlí sl. auk sakavottorðs kæranda dags. 13. júlí 2009.
Þar sem ráðuneytið taldi sjónarmið aðila koma fram í fyrirliggjandi gögnum var með tölvupósti 30. júlí sl. leitað upplýsinga um það hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hvort ástæða þætti til að veita frekari umsögn um málið. Í svari embættisins kom fram að svo væri ekki. Ráðuneytið staðfesti við embættið að umsagnar yrði ekki leitað og upplýsti kæranda um þessa málsmeðferð og gaf honum færi á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari sjónarmiðum sínum og/eða gögnum teldi hann ástæðu til. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þessa meðferð málsins.
Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi vísar til þess í kæru að rúm fimm ár séu frá því hann var sviptur ökuréttindum með dómi en það hafi verið í maí 2004. Bendir kærandi á að í því máli hafi blóðsýni ekki legið fyrir heldur einungis öndunarsýni og því ekki fyllilega legið fyrir sönnun um ástæðu sviptingar. Kærandi kveðst nú vera að ljúka afplánun fyrir að hafa ekið án ökuréttinda og sé því verið að refsa honum tvisvar fyrir sama brotið. Þá vísar kærandi til þess að í öll þau skipti sem hann var tekinn við akstur án ökuréttinda hafi hann ekki verið undir áhrifum.
Kærandi kveðst hafa átt farsælan ökuferil, fyrir utan þessi skipti sem hann ók undir áhrifum, og hafi t.d. ekki neina punkta fyrir umferðarbrot. Þá séu liðin tvö ár frá því hann hætti áfengisneyslu. Kærandi kveðst vera vélamaður og þurfi því að ökuréttindum að halda til að geta stundað vinnu sína.
IV. Málsástæður og rök LRH
Í bréfi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, þar sem umsókn kæranda er synjað, kemur fram að ekki sé hægt að fallast á beiðni hans um endurveitingu að svo stöddu.
Þegar um ævilanga sviptingu sé að ræða komi endurveiting fyrst til álita að fimm árum liðnum frá sviptingardegi, sbr. 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga. Tími sviptingar lengist hins vegar ef umsækjandi gerist sekur um akstur án réttinda á sviptingartímabilinu, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 706/2004, um þrjá mánuði fyrir hvert brot en þó að hámarki í eitt ár.
Í málinu liggi fyrir að kærandi var sviptur ökuréttindum með dómi frá 30. maí 2004 að telja. Þá hafi hann á sviptingartímabilinu þrisvar hlotið dóm vegna aksturs án réttinda og komi endurveiting því fyrst til álita í febrúar 2010.
Í tölvupósti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins til ráðuneytisins, þar sem staðfest var að ekki væri þörf á sérstakri umsögn, er áréttað að sviptingardómurinn sé staðreynd þótt kærandi telji hann ekki réttan og hafi sviptingin tekið gildi 30. maí 2004. Um sé að ræða fimm ár en auk þess komi þrír mánuðir til viðbótar fyrir hvert brot á sviptingartíma.
V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
Ágreiningur í máli þessu lýtur fyrst og fremst að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda samkvæmt 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Í 1. málsl. 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga segir: „Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár.“ Þá segir í 2. mgr. : „Endurveitingu skal því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því. “
Ráðuneytið telur ákvæðið skýrt um að til að unnt sé að meta hvort heimilt er að veita ökuréttindi á ný sbr. 2. mgr. 106. gr., verði það skilyrði 1. málsl. 1. mgr. að verða uppfyllt, þ.e. að sviptingin hafi staðið í fimm ár.
Samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins var kærandi sviptur ökuréttindum með dómi frá 30. maí 2004 að telja. Fimm ára tímabili 2. mgr. 106. gr. umferðarlaga lauk því 30. maí 2009 og var því liðið þegar kærandi sótti um endurveitingu til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins þann 3. júní 2009.
Í reglugerð nr. 706/2004 eru settar nánari reglur um endurveitingu ökuréttinda og sækir sú reglugerð heimild í 3. mgr. 106. gr. umferðarlaga. Þar er í 3. gr. kveðið á um frestun endurveitingar ökuréttinda og segir þar í 1. mgr.: „Ef umsækjandi hefur gerst sekur um akstur án réttinda á sviptingatímabilinu lengist tími til endurveitingar um þrjá mánuði fyrir hvert brot, þó að hámarki eitt ár.“ Ákvæði 1. máls. 1. mgr. 106. gr. verður að skoða í samhengi við 3. gr. reglugerðarinnar í því skyni að meta hvenær viðkomandi sem hefur verið sviptur ökuréttindum getur á möguleika á því að fá þau á ný.
Í málinu liggur fyrir sakavottorð vegna kæranda þar sem fram koma upplýsingar um niðurstöður í opinberum málum, dags. 13. júlí 2009. Samkvæmt því hefur kærandi í nokkur skipti hlotið dóm fyrir brot gegn umferðarlögum með því að aka án réttinda frá því hann var sviptur ökuréttindum þann 30. maí 2004. Er nánar um að ræða að kærandi hafi í þrígang hlotið dóm fyrir akstur á tilskilinna réttinda, þ.e. brot gegn 1. mgr. 48. og 2. mgr. 55. gr. umferðarlaga.
Samkvæmt því sem að framan er rakið leiða umrædd brot, sem framin voru á sviptingartímabilinu, til þess að tími sviptingar lengist um alls níu mánuði, þ.e. þrjá mánuði fyrir hvert brot, eða til loka febrúar 2010.
Eins og fram hefur komið er endurveiting ökuréttar því aðeins heimil að sérstakar ástæður mæli með því og er lögreglustjórum falið mat á því. Það mat fer hins vegar ekki fram fyrr en sá tími er liðinn sem svipting ökuréttinda stendur. Þar sem niðurstaða ráðuneytisins er að fallist er á það með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins að sviptingartímabili sé ekki lokið, eru ekki efni til að fjalla um hvort slíkar sérstakar ástæður eru fyrir hendi að heimili endurveitingu enda mat embættisins á því ekki fyrirliggjandi.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu A í Reykjavík um endurveitingu ökuréttar er hafnað.
Unnur Gunnarsdóttir
Svanhvít Axelsdóttir