Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Húsavíkurkaupstaður - Innkoma varamanna vegna tímabundins leyfis aðalmanns í bæjarstjórn

Húsavíkurkaupstaður                                                            8. febrúar 2000                                                              FEL00020020

Reinhard Reynisson, bæjarstjóri                                                                                                                                                 1001

Ketilsbraut 9

640 Húsavík

 

 

 

        Vísað er til símbréfs yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett í gær, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins varðandi innkomu varamanna vegna tímabundins leyfis aðalmanns í bæjarstjórn.

 

        Samkvæmt erindinu hefur Aðalsteinn Skarphéðinsson óskað eftir tímabundnu leyfi frá störfum í bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar og óskar hann jafnframt eftir að fyrsti varamaður Framsóknarflokksins, Gunnlaugur Stefánsson, taki ekki aðeins sæti hans í bæjarstjórn heldur einnig í bæjarráði og framkvæmdanefnd. Staðan sé hins vegar sú að kjörinn varamaður Aðalsteins í bæjarráði er Anna Sigrún Mikaelsdóttir og kjörinn varamaður hans í framkvæmdanefnd er Sveinn Aðalgeirsson.

 

        Óskað er eftir áliti ráðuneytisins á því hvort Aðalsteinn geti með þessum hætti ráðstafað sæti sínu í bæjarráði og framkvæmdanefnd og ef ekki hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að þeir varamenn sem til þess eru kjörnir haldi ekki stöðu sinni.

 

        Samkvæmt 38. og 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er ljóst að það er á valdi bæjarstjórnarinnar að kjósa fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir á vegum Húsavíkurkaupstaðar. Bæjarstjórnin hefur þetta vald sem fjölskipað stjórnvald og hafa aðrir, þar á meðal einstakir bæjarstjórnarmenn, ekki heimild til að taka sér þetta vald í hendur.

 

        Í 1. mgr. 43. gr. sveitarstjórnarlaga segir svo: Þegar aðalmaður í nefnd forfallast um stundarsakir skal varamaður hans taka sæti í nefndinni. Þegar aðalmaður í nefnd fellur frá, flyst burt eða forfallast varanlega á annan hátt tekur varamaður sæti hans, sbr. fyrri málslið, nema sveitarstjórn ákveði að kjósa aðalmann að nýju.

 

        Samkvæmt gögnum málsins hefur framangreindur bæjarstjórnarmaður óskað eftir leyfi frá störfum í þrjá mánuði. Í skilningi 1. mgr. 43. gr. laganna teljast það vera forföll um stundarsakir og því er almenna reglan sú að kjörnir varamenn taka sæti hans þesssa þrjá mánuði. Þó verður aðtelja að bæjarstjórnin hafi heimild til að kjósa nýjan aðalmann/aðalmenn tímabundið í stað bæjarstjórnarmannsins. Hann hefur að sjálfsögðu heimild til að koma á framfæri óskum sínum í þessum efnum, en bæjarstjórnin er þó ekki bundin af því.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta