Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Akraneskaupstaður - Ósk um svör við spurningum, aðgangur bæjarstjórnarmanna að gögnum

Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi
27. júlí 2006
FEL06040051

Espigrund 3

300 Akranesi

Vísað er til erindis yðar, dags. 28. mars 2006, þar sem óskað er eftir liðsinnis ráðuneytisins til þess að

knýja fram svör við tilteknum spurningum sem fram koma í meðfylgjandi bréfi til bæjarstjórans á

Akranesi dags. 31. janúar 2006. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 4. maí 2006, var óskað umsagnar

Akraneskaupstaðar um erindið og barst hún ráðuneytinu með bréfi dags. 8. júní 2006. Einnig var

ráðuneytinu sent afrit af bréfi Akraneskaupstaðar til yðar, dags. 3. apríl 2006, og fleiri gögn er málið

varða.

Framangreindar spurningar yðar varða bréf Endurskoðunarskrifstofu JÞH um “Endurskoðun á upplýsinga

kerfum vegna launagjalda Akraneskaupstaðar”, dags. 18. nóvember 2005. Í umræddu bréfi komu fram

upplýsingar, sem fengnar voru með úrtakskönnun, um ýmis atriði sem talið var að gera þyrfti úrbætur á

varðandi vinnutímaskráningu. Í kjölfar bréfsins kröfðust þér svara við eftirtöldum spurningum:

Hvers vegna komast yfirmenn upp með það að staðfesta ekki vinnuskýrslur?

Um hvaða yfirmenn er að ræða?

Hvers vegna eru laun greidd út án þess að vinnuskýrslur séu staðfestar af viðkomandi yfirmönnum?

Hvers vegna er stimplun einstakra starfsmanna ábótavant?

Hvers vegna þurfa einstakir deildarstjórar að leiðrétta mikið af eigin stimplunum?

Um hvaða deildarstjóra er að ræða?

Hvaða dæmi eru um að einstakir starfsmenn hafi ekki uppfyllt vinnuskyldu sína?

Til hvaða ráðstafana var gripið í kjölfar viðræðna endurskoðanda við bæjarritara?

Hvað hefur verið gert til að samræma reglur um stimplanir inn og út af vinnustað?

Hvað hefur verið gert til að tryggja að forstöðumenn/deildarstjórar setji inn skýringar vegna handvirkra

breytinga á stimplunum?

Álit ráðuneytisins

 

Mál þetta er tekið fyrir á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, þar sem kveðið er á um að

ráðuneytið skuli hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum skv. þeim lögum og öðrum

löglegum fyrirmælum.

Í 30. gr. sveitarstjórnarlaga segir:

Aðalmenn í sveitarstjórnum skulu vegna starfa sinna í sveitarstjórn hafa aðgang að bókum og skjölum

sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi.”

 

Í ákvæðinu er kveðið á um mjög víðtækan rétt sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum. Réttur

sveitarstjórnarmanna er því skýr að þessu leyti og bæjarstjóra eða öðrum aðilum er almennt ekki heimilt

að takmarka þann rétt. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á ákvæði 32. gr. sveitarstjórnarlaga en þar

er kveðið á um að sveitarstjórnarmenn skuli gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi

sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

Í rétti sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum felst ekki fyrirvaralaus réttur til að fá svör við

spurningum sem beint er til bæjarstjóra eða sveitarstjórnarmanna. Auk þess hefur réttur til gagna almennt

verið skýrður sem réttur til fyrirliggjandi gagna, en ekki réttur til að láta útbúa eða taka saman gögn. Þar

sem í fyrrnefndu bréfi yðar til bæjarstjóra var ekki að finna beiðni um aðgang að tilgreindum

fyrirliggjandi gögnum telur ráðuneytið ekki unnt að fallast á kröfu yðar um að knýja bæjarstjóra Akraness

til að svara þeim spurningum sem beint var til hans í bréfi yðar, dags. 31. janúar 2006.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Stefanía Traustadóttir (sign.)

 

 

27. júlí 2006 - Akraneskaupstaður - Ósk um svör við spurningum, aðgangur bæjarstjórnarmanna að gögnum (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta