Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hlíðarhreppur, Jökuldalshreppur og Tunguhreppur - Úrskurður um sameiningarkosningar 29. mars 1997

Björn Hallur Gunnarsson                                     6. júní 1997                                                        97040087

Rangá II, Tunguhreppi                                                                                                                               1022

701 Egilsstaðir

            

 

             Þann 6. júní 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 25. apríl 1997, framsendi sýslumaðurinn á Seyðisfirði erindi Björns Halls Gunnarssonar og Helga Rúnars Elíssonar, sem barst sýslumanninum sama dag, þar sem skotið er til ráðuneytisins úrskurði, dagsettum 20. apríl 1997, sem kjörnefnd skv. 1. málsl. 2. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, kvað upp þess efnis að atkvæðagreiðslur um sameiningu Jökuldalshrepps, Hlíðarhrepps og Tunguhrepps þann 29. mars 1997 skuli vera ógildar.

 

             Öll önnur gögn málsins bárust síðan ráðuneytinu frá sýslumanninum á Seyðisfirði þann 29. apríl og 4. júní 1997.

 

I.          Málavextir.

 

             Þann 29. mars 1997 voru greidd atkvæði í Hlíðarhreppi, Jökuldalshreppi og Tunguhreppi um tillögu um sameiningu þessara þriggja sveitarfélaga. Niðurstöður urðu þær að í Hlíðarhreppi samþykktu 45 sameiningu og 7 voru andvígir, í Jökuldalshreppi voru 52 fylgjandi sameiningu og 30 andvígir og í Tunguhreppi voru 22 fylgjandi sameiningu og 26 andvígir.

 

             Með bréfi, dagsettu 1. apríl 1997, kærðu Anna Bragadóttir, Kári Ólason og Hjörtur Friðriksson atkvæðagreiðslurnar til sýslumannsins á Seyðisfirði. Þann sama dag sendi Ingólfur H. Bragason einnig kæru til sýslumannsins.

 

             Í fyrrnefndu kærunni taka kærendur fram að þeir telji að kjörfundur og utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafi ekki verið auglýst “á löglegan hátt”. Kjörfundur hafi verið auglýstur 21. og 26. mars 1997 í svæðisútvarpi Austurlands og það heyrist aðeins á takmörkuðu svæði á landinu. Íbúar hinna þriggja sveitarfélaga hafi getað verið staddir annars staðar en í sínu sveitarfélagi og því hafi verið brotið á þeim með ónógum auglýsingum. Í Tunguhreppi hafi 13 manns ekki nýtt atkvæðisrétt sinn og einungis hafi munað fjórum atkvæðum þar að lokum.

 

             Í síðarnefndu kærunni vísar kærandi einnig til þess að hann telji hafa verið brotið á kosningarrétti sínum með ónógum auglýsingum.

 

             Þann 3. apríl 1997 skipaði sýslumaðurinn á Seyðisfirði, í samræmi við 1. málsl. 2. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, nefnd til að úrskurða um kæruna. Nefndin kvað síðan upp úrskurð þann 20. apríl 1997 á þá leið að atkvæðagreiðslurnar væru ógildar.

 

             Nefndin rökstuddi niðurstöðu sína á eftirfarandi hátt:

             “Af gögnum málsins má sjá, að auglýsing um framlagningu kjörskrár í hreppunum þremur var komið á framfæri með ódagsettu dreifibréfi, sem sent var á hvert heimili í hreppnum. Auglýsing um kjörfund vegna kosninganna var lesin í svæðisútvarpi Austurlands 21. og 26. mars s.l., einu sinni í hvort skipti. Í auglýsingunni var kveðið á um hvenær og hvar kjörfundir væru. Í téðri auglýsingu var ekki minnst á utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

             Af fyrirliggjandi gögnum og með hliðsjón af skýrslum kærenda og formanna kjörstjórna er í ljós leitt að í Hlíðarhreppi var fylgt venju um að boða til kosninga símleiðis á hvern bæ. Í Jökuldals- og Tunguhreppum var ekki boðað símleiðis til kosninganna heldur látið sitja við áðurgreinda útvarpsauglýsingu.

             Í öllum hreppunum voru tekin gild utankjörfundaratkvæði. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafði farið fram á sýsluskrifstofunni á Egilsstöðum, hjá ræðismanni erlendis, og hjá hreppstjórum hreppanna þriggja.

             Hvorki í sveitarstjórnarlögum né lögum um kosningar til Alþingis nr. 80/1987 er að finna skýrt lagaákvæði um hvernig skuli staðið að auglýsingum varðandi atkvæðagreiðslur þær sem hér um ræðir. Þó verður að telja samkvæmt eðli máls og með hliðsjón af 73. gr. kosningalaganna nr. 80/1987, sbr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 22. gr. sveitarstjórnarlaganna, að skylt sé að auglýsa atkvæðagreiðslurnar, þ.e. almennar upplýsingar um kjörfundi og kjörstaði. Þá er einnig skylt skv. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 80/1987, að auglýsa hvenær utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram. Skal það gert á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar á hverjum stað.

             Kjörnefndin telur að við undirbúning og framkvæmd atkvæðagreiðslnanna í hreppunum þremur hafi verið brotið gegn ákvæðum 63. gr. kosningalaga nr. 80/1987 um auglýsingu utankjörfundaratkvæðagreiðslu og jafnframt að atkvæðagreiðslan sjálf hafi ekki verið auglýst með fullnægjandi hætti. Kjörnefndin telur að fallast megi á rök kærenda um að atkvæðagreiðsluna beri að auglýsa á landsvísu. Þessir gallar á framkvæmd atkvæðagreiðslnanna verða að teljast til þess fallnir að geta hafa haft áhrif á úrslit þeirra, sér í lagi þegar litið er til úrslita atkvæðagreiðslunnar í Tunguhreppi. Ber því samkvæmt 36. gr. laga nr. 8/1986 að ógilda atkvæðagreiðslurnar í heild sinni.”

 

             Í bréfi Björns Halls Gunnarssonar og Helga Rúnars Elíssonar, þar sem úrskurði nefndarinnar er skotið til ráðuneytisins, kemur fram sú röksemd þeirra fyrir kærunni að í 63. gr. kosningalaganna segi hvergi að auglýsa eigi kosningu á landsvísu.

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um sameiningu sveitarfélaga gilda ákvæði X. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og í 6. mgr. 108. gr. laganna segir m.a. að um atkvæðagreiðslur samkvæmt þeirri grein fari eftir ákvæði III. kafla laganna um kosningu til sveitarstjórnar eftir því sem við getur átt. Í 12. gr. laganna segir síðan að lög um kosningar til Alþingis gildi um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við á með þeim frávikum sem sveitarstjórnarlögin ákveða.

 

             Ráðuneytið fellst í aðalatriðum á röksemdir og lagatilvísanir í úrskurði kjörnefndarinnar hvað varðar skyldu til að auglýsa atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga, þ.e. almennar upplýsingar um kjörfundi, kjörstaði og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Slík atriði ber því að auglýsa á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar á hverjum stað, sbr. 4. mgr. 63. gr. og 2. mgr. 73. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 80/1987, sbr. einnig 6. mgr. 108. gr. og 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Hins vegar telur ráðuneytið enga lagaskyldu hníga til þess að auglýsa beri þessi atriði “á landsvísu” eins og haldið er fram í úrskurðinum, þó slíkt sé að sjálfsögðu heimilt.

 

             Ráðuneytið telur ljóst af gögnum málsins að utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaganna þriggja hafi ekki verið auglýst sérstaklega eins og kveðið er á um í 4. mgr. 63. gr. laga nr. 80/1987. Með hliðsjón af kjörsókn og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í Tunguhreppi telur ráðuneytið að ætla megi að sá galli hafi verið til þess fallinn að hafa áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar, sbr. 36. gr. sveitarstjórnarlaga. Ber því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Atkvæðagreiðslur um sameiningu Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps, sem fram fóru þann 29. mars 1997, eru ógildar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Samrit:  Helgi Rúnar Elísson, Hallfreðarstöðum, Tunguhreppi, 701 Egilsstaðir.

Afrit:  Hlíðarhreppur, Jökuldalshreppur, Tunguhreppur og sýslumaðurinn á Seyðisfirði.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta