Skorradalshreppur - Túlkun á viðmiðun varðandi lágmarksfjölda íbúa
Inger Helgadóttir 20. febrúar 1998 98020044
Indriðastöðum 1001
311 Borgarnes
Vísað er til erindis yðar, Pálma Ingólfssonar og Jóns Jakobssonar, dagsett 15. febrúar 1998, um viðmiðun varðandi fjölda íbúa og fleira tengt hugsanlegum afskiptum félagsmálaráðuneytisins af sameiningu Skorradalshrepps á grundvelli 5. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.
Í 1. tölul. 3. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962 segir að hlutverk þjóðskrár sé að láta opinberum aðilum í té árlega íbúaskrá samvæmt nánari ákvæðum laganna. Í 9. gr. sömu laga er síðan svohljóðandi ákvæði:
“Eftir gögnum þeim um breytingar skráningaratriða, sem þjóðskráin fær í hendur, skal gera árlega íbúaskrá fyrir hvert sveitarfélag, miðað við 1. desember, með nöfnum allra einstaklinga, er aðsetur hafa í því þann dag, ásamt upplýsingum um fæðingardag og þau atriði önnur um hvern einstakling, er máli skipta fyrir opinber not skránna.
Að því er snertir skráningaratriði, sem vandkvæðum er bundið að fá skýrslur um í tæka tíð, er heimilt að miða íbúaskrár við annan tíma á hausti en 1. desember. Um aðsetur manna skal þó ávallt miða við 1. desember í íbúaskrám.“
Lög þessi eru síðan túlkuð saman með lögum um lögheimili nr. 21/1990, með síðari breytingum, en í 1. mgr. 1. gr. þeirra laga segir að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Föst búseta er síðan skilgreind nánar í 2. og 3. mgr. 1. gr. laganna.
Í 1. mgr. 5. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir að lágmarksíbúatala sveitarfélags sé 50 íbúar. Í 2. mgr. 5. gr. segir að hafi íbúafjöldi sveitarfélags verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt skuli ráðuneytið eiga frumkvæði að því að sameina það nágrannasveitarfélagi eða skipta hinu fámenna sveitarfélagi milli nágrannasveitarfélaga.
Ráðuneytið telur að við mat þess á því hvort 5. gr. sveitarstjórnarlaga eigi við sé einvörðungu unnt að líta til formlegra opinberra talna. Eins og áður segir gera lög nr. 54/1962 ráð fyrir að þjóðskrá Hagstofu Íslands gefi út íbúaskrá einu sinni á ári miðað við 1. desember. Með hliðsjón af þessum lagaákvæðum telur ráðuneytið að því beri að líta eingöngu til þeirrar opinberu íbúaskrár þjóðskrár Hagstofu Íslands, sem gefin er út einu sinni á ári, við mat á hvort 5. gr. sveitarstjórnarlaga eigi við.
Að auki telur ráðuneytið rétt að taka fram að í þeim tilvikum þegar sveitarfélög hafa verið með innan við 50 íbúa í þrjú ár samfleytt hefur almennt verið gengið varlega fram og hófs gætt við beitingu lagaákvæðisins. Í ýmsum tilfellum hefur viðkomandi sveitarfélagi verið gefinn kostur á að vinna sjálft að sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög, sbr. nú Skefilsstaðahrepp og Þingvallahrepp. Hafi slíkt starf ekki skilað árangri hefur ráðuneytið tekið af skarið og unnið að málunum á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga eins og því er skylt að gera skv. 2. mgr. 5. gr. sömu laga.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)