Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Húnaþing vestra - Stofnun veiðifélags Arnarvatnsheiðar og Tvídægru, gildi yfirlýsinga sameiningarnefndar

Aðalbjörn Benediktsson

Háaleitisbraut 54

108 Reykjavík

10. október 2000

Tilvísun: FEL00080001/16-5508/GB/--

 

        Vísað er til erindis yðar dags. 31. ágúst s.l., svo og erindis lögmanns yðar dags. 19. júlí s.l., þar sem farið er fram á að félagsmálaráðherra hlutist til um að breytt verði samþykktum nýstofnaðs veiðfélags Arnarvatnsheiðar og Tvídægru í Vestur-Húnavatnssýslu. Samþykktirnar voru staðfestar af landbúnaðarráðherra hinn 31. júlí s.l, en samkvæmt 9. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands er þeim ráðherra falin yfirstjórn veiðimála, að svo miklu leyti sem þau heyra ekki undir önnur ráðuneyti.

        Það leiðir af fyrrgreindri reglugerð og 8. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, að mál getur ekki átt undir úrskurðarvald tveggja ráðuneyta. Því er félagsmálaráðuneytinu ekki annað fært en að endursenda erindi yðar án efnislegrar afgreiðslu.

 

        Hvað varðar yfirlýsingar einstakra sveitarstjórnarmanna, áður en sameining sveitarfélaga í Vestur-Húnavatnssýslu fór fram, telur ráðuneytið að almennt hafi slíkar yfirlýsingar ekki lagalegt gildi við afgreiðslu einstakra mála. Ber í þessu sambandi að vísa til 1. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, sem hljóðar svo:

 

        Sveitarstjórnarmaður er einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála og honum ber að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi.

 

        Þetta ákvæði, sem er sambærilegt við ákvæði 48. gr. stjórnarskrárinnar varðandi alþingismenn, hefur verið túlkað svo að sveitarstjórnarmanni sé m.a. frjálst að breyta afstöðu sinni til einstakra mála sem sveitarstjórn fjallar um eða hefur fjallað um, sbr. álit ráðuneytisins frá 19. október 1989 varðandi Kjalarneshrepp (ÚFS 1986-1989:70).

        Ráðuneytið telur þó að nokkuð ríkari kröfur megi gera varðandi yfirlýsingar sem gefnar eru vegna kosninga um sameiningu sveitarfélaga, enda vel þekkt staðreynd að slíkar yfirlýsingar geta haft mikið að segja um niðurstöðu sameiningarkosninga.

        Á meðal framlagðra gagna í máli því sem hér er til umfjöllunar er fréttabréf, útgefið í október 1997 af framkvæmdanefnd um sameiningu sveitarfélaga í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram í kafla sem ber yfirskriftina "Afréttarmál-fjallskil":

 

"13.4           Réttur til silungsveiði á heiðum fylgi upprekstrarrétti svo sem verið hefur sbr. lög um lax- og silungsveiði."

 

        Ráðuneytið telur ekki unnt að útiloka að umrædd yfirlýsing kunni að hafa lagalegt gildi. Engu að síður telur ráðuneytið óhjákvæmilegt, með vísan til þess, eins og áður segir, að málið heyrir undir valdsvið landbúnaðarráðuneytisins, að endursenda verði erindi yðar án afgreiðslu.

        Er yður hér með bent á að leita annað hvort til Umboðsmanns Alþingis eða dómstóla um frekari úrlausn málsins. Við val á málsskotsleið skal bent á mikilvægi þess sem fram kemur í bréfi lögmanns yðar, dags. 17. ágúst s.l., að málshöfðunarfrestur fyrir dómstólum er 6 mánuðir, frá 31. júlí s.l. að telja, sbr. 53. gr. lax-og silungsveiðilaga, nr. 76/1970.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta