Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Sveitarfélagið Árborg - Heimildir aukafundar til að kjósa nýja stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands

Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands                        6. september 2002                   FEL02090015/1001

Róbert Jónsson, framkvæmdastjóri

Austurvegi 56

800 SELFOSS 

Ráðuneytið hefur móttekið erindi framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands, dags. 29. ágúst 2002, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á því hvort heimilt sé að kjósa nýja stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands á aukafundi sem boðaður hefur verið 11. september 2002, án þess að samþykktum sjóðsins verði breytt. Fram kemur í gögnum málsins að núverandi stjórn var kjörin á aðalfundi sjóðsins sem haldinn var 15. mars 2002. Með bréfi, dags. 29. júlí 2002, óskuðu forsvarsmenn tveggja sveitarfélaga sem aðild eiga að sjóðnum eftir því að aukafundur yrði haldinn og hefur stjórn sjóðsins fallist á þá kröfu. Fundarefni er kosning nýrrar stjórnar í kjölfar nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga.

 

Í erindi framkvæmdastjóra sjóðsins til ráðuneytisins kemur fram að fulltrúar sveitarfélaga hafa látið í ljósi efasemdir um að kosning nýrrar stjórnar geri farið fram á öðrum tíma en á aðalfundi, samanber grein 8.01 í samþykktum sjóðsins. Er óskað álits ráðuneytisins um hvort nauðsynlegt sé að breyta samþykktum sjóðsins til að slík kosning geti farið fram á aukafundi.

 

Samkvæmt samþykktum sjóðsins greiða þau sveitarfélög sem aðild eiga að sjóðnum árlegt framlag skv. 2. gr. samþykktanna og bera þau ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, sbr. 4. gr. Í gr. 7.01 er kveðið á um að félagafundir hafa æðsta vald í málefnum sjóðsins. Með félagafundum er átt við aðalfundi, aukafundi og almenna félagafundi. Í gr. 7.02 er mælt fyrir um að aðalfund sjóðsins skuli halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Samkvæmt gr. 8.01 skal stjórn sjóðsins, sem skipuð er fimm aðalmönnum og fimm til vara, kosin á aðalfundi. Fram kemur í fundargerð síðasta aðalfundar að einn fundarmanna lagði fram tillögu um að kjöri stjórnar yrði frestað og aðalfundi yrði fram haldið að loknum sveitarstjórnarkosningum en tillagan var felld með þorra atkvæða.

 

Samkvæmt gr. 7.02 skal boða til aukafundar innan fjórtán daga ef kjörinn endurskoðandi eða eigendur, sem ráða yfir minnst einum tíunda hluta stofnfjár krefjast þess skriflega og greina fundarefni. Þau tvö sveitarfélög sem óskað hafa eftir aukafundi ráða samkvæmt gögnum málsins yfir tæpum helmingi stofnfjár. Í beiðni um aukafund er fundarefni tilgreint með skýrum hætti og virðist skilyrðum samþykktanna til að halda megi aukafund því vera fullnægt. Þarf eingöngu að taka afstöðu til þess hvort aukafundur hafi vald til að kjósa sjóðnum nýja stjórn, en að réttu rennur kjörtímabil núverandi stjórnar ekki út fyrr en í mars 2002.

 

Hvergi í samþykktum Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands er kveðið á um að stjórnarmenn geti sagt af sér. Þar er heldur ekki mælt fyrir um að eigendur geti lýst vantrausti á stjórn sjóðsins eða ákveðið að kjósa nýja stjórn áður en kjörtímabili rétt kjörinnar stjórnar lýkur. Hins er þó að gæta að hvergi er í samþykktunum kveðið á um neinar takmarkanir á valdi félagafunda, sem eins og áður segir hafa æðsta vald í málefnum sjóðsins. Virðast ekki haldbær rök til að ætla annað en að aukafundur sem boðað er til með lögmætum hætti geti ákveðið að kjósa nýja stjórn sjóðsins, í heild eða að hluta, og gilda þá um stjórnarkjörið ákvæði gr. 8.01 eftir því sem við á. Telur ráðuneytið að þessi niðurstaða sé í samræmi við meginreglu 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, um heimild sveitarstjórnar til að skipta um fulltrúa í nefndum hvenær sem er á kjörtímabili nefndar.

 

Með vísan til alls sem að framan greinir er það mat ráðuneytisins að ekki sé þörf á að breyta samþykktum Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands til að stjórnarkjör geti farið fram á aukafundi sjóðsins 11. september 2002.

 

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta