Rangárþing ytra - Heimildir sveitarfélaga til að ábyrgjast lántöku hitaveitu í þeirra eigu
Rangárþing ytra 10. júlí 2003 FEL03070015/1001
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sveitarstjóri
Laufskálum 2
850 HELLA
Vísað er til erindis yðar, dags. 8. júlí 2003, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á því hvort eigendum Hitaveitu Rangæinga sé heimilt að ábyrgjast sameiginlega lántöku hitaveitunnar að fjárhæð 300 m.kr. sem gilda á til 25 ára. Eigendur hitaveitunnar eru sveitarfélögin Rangárþing ytra, Rangárþing eystra og Ásahreppur. Um starfsemi veitunnar gildir reglugerð fyrir Hitaveitu Rangæinga, nr. 632/1982, og samningur frá 13. nóvember 1981 milli stofnenda veitunnar, sem voru Rangárvallahreppur, Hvolhreppur og Holtahreppur. Ekki kemur fram í gögnum málsins að stofnsamningur hafi verið endurskoðaður vegna breyttrar eignaraðildar.
Þar sem annað er ekki tekið fram í fyrrgreindri reglugerð og samningi verður að miða við að hitaveitan sé í sameign þeirra sveitarfélaga sem að henni standa. Ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 um byggðasamlög, sbr. 82.-85. gr. laganna, eiga því a.m.k. ekki með beinum hætti við um starfsemi veitunnar og ábyrgð eigenda á skuldbindingum hennar, en í úrskurði ráðuneytisins frá 26. mars 2002, varðandi Sorpstöð Suðurlands bs., komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að eigendum byggðasamlags væri heimilt að ábyrgjast skuldbindingar byggðasamlags, þar sem það teldist vera stofnun hlutaðeigandi sveitarfélaga í skilningi 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga.
Í áliti ráðuneytisins frá 23. mars 1987 (ÚFS 1986-1989:45) var fjallað um aðstæður sem virðast sambærilegar við mál það sem hér er til umfjöllunar. Var ráðuneytið þar innt álits á því hvort eigendur Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar mættu takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum veitunnar. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að þetta væri heimilt þar sem hitaveitan teldist stofnun þeirra sveitarfélaga sem að henni stóðu, sbr. 4. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
Einnig skal vísað til álits ráðuneytisins frá 28. nóvember 2000 varðandi Húsavíkurbæ, þar sem ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að Orkuveita Húsavíkur teldist vera stofnun sveitarfélagsins, í skilningi 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, þrátt fyrir að í reglugerð nr. 647/1995 um Orkuveitu Húsavíkur kæmi fram að orkuveitan væri ,,fyrirtæki” í eigu Húsavíkurkaupstaðar.
Það er mat ráðuneytisins að sömu sjónarmið og að framan hafa verið rakin eigi einnig við um Hitaveitu Rangæinga og að ákvæði 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 standi því þ.a.l. ekki í vegi að eigendur hennar ábyrgist lán sem tekin eru í nafni hitaveitunnar.
Að lokum telur ráðuneytið rétt að benda á að þörf er á að endurskoða ákvæði reglugerðar nr. 632/1982 og samnings um Hitaveitu Rangæinga vegna breyttrar eignaraðildar og sameiningar sveitarfélaga á starfsvæði hitaveitunnar.
F. h. r.
Garðar Jónsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)