Héraðsnefnd Árnesinga - Boðun fundar í tölvupósti, ákvæði í samþykktum um boðunarmáta
Ragnheiður Hergeirsdóttir
20. október 2006
FEL06080038
Lyngheiði 7
800 Selfossi
Ráðuneytinu hefur borist erindi tveggja bæjarstjórnarfulltrúa S-lista í Sveitarfélaginu Árborg, dags. 21.
ágúst 2006, í tilefni af því hvernig boðun til fundar Héraðsnefndar Árnesinga sem haldinn var þann 19. júlí
sl. fór fram.
Er þess krafist að fundurinn verði úrskurðaður ólögmætur og að allar ákvarðanir og afgreiðslur sem fram
fóru á fundinum verði felldar úr gildi.
Erindið var sent Héraðsnefnd Árnesinga til umsagnar með bréfi, dags. 29. ágúst 2006, og var þess óskað
að umsögn bærist eigi síðar en 18. september 2006. Lögmaður Héraðsnefndar Árnesinga óskaði eftir
framlengingu á umsagnarfresti vegna sumarleyfis og var veittur frestur til 27. september 2006. Umsögn,
dags. 26. september 2006, barst ráðuneytinu þann 27. september og var hún send málshefjendum þann 28.
september sl. Athugasemdir málshefjenda, dags. 5. október 2006, bárust ráðuneytinu þann 8. október
2006.
I. Málavextir.
Samningur 17 sveitarfélaga um Héraðsnefnd Árnesinga var samþykktur 15. desember 1989 samkvæmt
sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986.
Þann 15. janúar 2006 gekk í gildi nýr samningur um Héraðsnefnd Árnesinga sem starfar samkvæmt
ákvæðum 81. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Aðildarsveitarfélög eru: Sveitarfélagið Árborg,
Bláskógabyggð, Flóahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur,
Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær og Hrunamannahreppur.
Í 6. gr. samningsins segir meðal annars að fundi skuli boða bréflega með a.m.k. sjö daga fyrirvara. Um
fundarsköp héraðsnefndar gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, eftir því sem þau eiga við, sbr. II.
kafla laganna og fyrirmynd félagsmálaráðuneytisins að fundarsköpum sveitarstjórna. Sama eigi við um
réttindi og skyldur héraðsnefndarmanna, sbr. III. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
Með tölvupósti, dags. 12. júlí 2006, boðaði bæjarstjóri Árborgar, f.h. forseta bæjarstjórnar, til fundar
héraðsnefndarinnar sem haldinn skyldi á Selfossi þann 19. júlí kl. 14.00. Meðfylgjandi dagskrá var sem
hér segir:
„I. Kjör oddvita og varaoddvita, kjör í héraðsráð, tilnefning ritara og kjör skoðunarmanna.
II. Skipan í starfsnefndir: Allsherjarnefnd, Fjárhagsnefnd og Mennta- og menningarmálanefnd.
III. Kosning fulltrúa í stjórnir á vegum Héraðsnefndar Árnesinga.
IV. Önnur mál.“
Fulltrúi Samfylkingarinnar frá Sveitarfélaginu Árborg mætti ekki til fundarins af þeirri ástæðu að honum
var ekki kunnugt um boðunina.
II. Sjónarmið málshefjenda.
Fundarboð um fund héraðsnefndar þann 19. júlí 2006 var sent með tölvupósti til þeirra fulltrúa sem kjörnir
höfðu verið til setu á fundi í héraðsnefnd. Virðist sem tölvupósturinn hafi verið sendur út 12. júlí s.á. Fyrir
hönd S-lista hafi Gylfi Þorkelsson verið kjörinn fulltrúi í héraðsnefnd, sbr. 7. tölul. C-liðs 57. gr.
samþykktar um stjórn og fundarsköp Árborgar, nr. 396/2000, og 4. gr. samnings um Héraðsnefnd
Árnessýslu. Fundarboðið var sent á vinnunetfang hans sem ekki hafi verið virkt á þessum tíma. Raunar
hafi fulltrúar S-listans ekki haft vitneskju um fundinn fyrr en nokkru eftir að hann var haldinn. Hafi þá
þegar verið óskað eftir upplýsingum um hverju það sætti að ekki hafði verið boðað til fundarins. Í
tölvupósti frá bæjarstjóra frá 24. júlí sl. kom fundarboðunin fram og í tölvupósti frá honum, dags. 25. júlí
sl., voru veittar nánari skýringar á útsendingu fundarboðsins. Taka málshefjendur fram að ekki hafi verið
óskað sérstaklega eftir því að viðtakendur staðfestu móttöku tölvupóstsins.
Málshefjendur telja að fundarboðun á umræddan fund, sem gerð var með þeim hætti sem áður er lýst, hafi
verið með öllu ófullnægjandi. Óhjákvæmilegt sé því að úrskurða fundinn ólögmætan og þar með að fella
úr gildi allar ákvarðanir sem teknar voru á fundinum, svo sem kjör í nefndir og ráð og breytingar á
samþykktum.
Máli sínu til rökstuðnings vísa málshefjendur í 6. gr. samnings um Héraðsnefnd Árnesinga, en þar sé mælt
fyrir um hvernig staðið skuli að fundarboðun á fundi nefndarinnar. Þar sé skýrlega mælt fyrir um að fundi
skuli boða bréflega með a.m.k. sjö daga fyrirvara. Ljóst sé því að fundarboðun með tölvupósti fullnægi
ekki þessu skilyrði. Með því að boða til fundar með tölvupósti sé alls óvíst að fundarboðun nái til þeirra
fulltrúa sem eigi rétt til setu á fundinum. Með setu á fundinum geti kjörnir fulltrúar haft áhrif á umræðu
um mál með því að koma skoðunum sínum á framfæri og jafnframt hafi þeir áhrif á niðurstöðu mála með
því að greiða atkvæði um einstök mál. Með því að ekki hafi verið boðað til fundar með fullnægjandi hætti
sé veruleg hætta á að kjörnir fulltrúar hafi ekki getað „notið“ þessara réttinda sinna.
Þá er bent á að auk þess réttar sem því fylgir að sitja í héraðsnefnd beri kjörnir fulltrúar jafnframt skyldur
sem þeir geti ekki sinnt ef ekki er boðað til fundar með fullnægjandi hætti.
Þá segir orðrétt í erindi málshefjenda: „Þá er augljóst að með því að fundarboðun sé ófullnægjandi þá
getur það leitt til þess að reynt sé að komast hjá því að boða tiltekna fulltrúa til fundar t.d. til að komast hjá
því að þeir taki þátt í umræðum eða til að komast hjá því að þeir hafi áhrif á einstaka mál, sé litið svo á að
fundur sé lögmætur þrátt fyrir ófullnægjandi fundarboðun. Verður því að tryggja að réttilega sé staðið að
boðuninni til þess að fundur teljist lögmætur. Er þetta sérstaklega mikilvægt þegar efni fundarins er með
þeim hætti sem um ræddi í þessu tilviki þar sem m.a. fór fram kjör oddvita og varaoddvita auk kjörs til
héraðsráðs, skipan í starfsnefndir, kosning í stjórnir, nefndir o.fl.“
Í athugasemdum málshefjenda, dags. 5. október 2006, við umsögn Héraðsnefndar Árnessýslu kemur
meðal annars eftirfarandi fram:
Gerð er athugasemd við það sem segir í umsögn héraðsnefndarinnar um að það sé viðtekin venja við
fundarboðun að senda hana út með tölvupósti. Þetta sé beinlíns rangt. Undanfarin fjögur ár, sem er sá tími
sem málshefjendur hafi tekið þátt í störfum héraðsnefndar, hafi það einmitt verið viðtekin venja að senda
skriflegt fundarboð enda skal það gert samkvæmt samþykktum héraðsnefndar.
Þá er gerð athugasemd við það sem segi í umsögn héraðsnefndar að fundarboð hafi verið sent á netfang
aðalmanns S-lista sem hann hafi notað gegnum tíðina. Hið rétta sé að umrætt netfang [email protected] hafi
verið eitt af þeim netföngum sem notað var í samskiptum við skrifstofu sveitarfélagsins. Það hafi verið
viðtekin venja fyrrverandi bæjarstjóra að senda alla tölvupósta jafnhliða á heimanetfang viðkomandi.
Ævinlega hafi þó fundarboð á opinbera fundi, ásamt fundargögnum, verið send til fundarmanna bréflega.
Þá hafi jafnframt verið venja að ef einhver dráttur varð á útsendingu bréflegs fundarboðs hafi
undantekningarlaust verið hringt í nefndarmenn og þannig tryggt að þeim væri kunnugt um væntanlegan
fund.
Málshefjendur gera athugasemd við það atriði í umsögn héraðsnefndar að annar þeirra hafi hvatt lesendur
á heimasíðu sinni til að senda sér tölvupóst á sama netfang og fundarboðið var sent á. Hér sé farið með
rangt mál. Þeir sem höfðu samband við málshefjanda gegnum þáverandi heimasíðu hafi sent póst á annað
netfang en það sem fundarboðið var sent á.
Hvað það varði að tilkynna um breytt eða óvirkt netfang hafi málshefjandi ekki talið þörf á því þar sem
venja var að sveitarfélagið sendi honum tölvupóst á a.m.k. eitt annað netfang sem hafi einnig verið á skrá
hjá sveitarfélaginu.
Þá er gerð athugasemd við það sem fram komi hjá héraðsnefnd „að ekki er berum orðum tekið fram að
fundarboð megi senda út með tölvupósti“. Þetta sé rangt þar sem í samningnum sé hvergi boðið upp á
annan möguleika, hvorki beint né óbeint, en að senda fundarboð bréflega.
Að lokum taka málshefjendur fram að umsögn héraðsnefndar snúist öll um aukaatriði. Þar sé nánast
algjörlega sneitt hjá því að nefna kjarna málsins sem er sá að boða skuli héraðsnefndarfundi bréflega
samkvæmt samningi um nefndina. Miklu nær hefði verið fyrir héraðsnefndina að viðurkenna mistök við
fundarboðunina og boða annan fund löglega.
Ekki verði við það unað að komist sé hjá því að fara eftir samningi um héraðsnefndina enda hættulegt
fordæmi ef stjórnvald kemst upp með það að brjóta samþykktir sem um það gildir, hvort sem er við
fundarboðun eða aðrar stjórnvaldsaðgerðir.
III. Sjónarmið Héraðsnefndar Árnesinga.
Af hálfu Héraðsnefndar Árnesinga er krafist frávísunar málsins en að öðrum kosti að kröfugerð kæranda
verði hafnað.
a. Frávísunarkrafa.
Frávísunarkrafan er byggð á því að málefni héraðsnefnda lúti ekki sveitarstjórnarlögum. Svo virðist sem
kæran sé lögð fram með vísan til 103. gr. sveitarstjórnarlaga sem geri ráð fyrir að félagsmálaráðuneytið
úrskurði um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Ekki verði
séð að héraðsnefnd falli með þeim hætti undir framkvæmd sveitarstjórnarmálefna að hún eigi undir
eftirlitsvald ráðuneytisins. Héraðsnefnd Árnesinga starfi eftir ákveðnum samningi aðildarsveitarfélaga og
þar sé ákveðið að héraðsnefndin fari með yfirstjórn þeirra málefna sem tilgreind eru í 3. gr. samningsins.
Héraðsnefndin eigi undir aðildarsveitarfélögin með þeim hætti að viðkomandi sveitarstjórnir kjósi fulltrúa
til setu í nefndinni. Komi upp vafaatriði um sýslan nefndarinnar eða störf úrskurði nefndin sjálf þar um í
samræmi við lokamálslið 6. gr. samningsins. Hvergi í sveitarstjórnarlögum sé að finna heimild til þess að
ráðuneytið úrskurði um vafaatriði sem upp kunni að koma í störfum eða sýslan héraðsnefndar. Bent er á
tölvubréf félagsmálaráðuneytisins frá 9. ágúst 2006 í þessu sambandi, en þar sé látið í té það álit að
héraðsnefnd lúti ekki sveitarstjórnarlögum.
b. Boðun á fund Héraðsnefndar Árnesinga 19. júlí 2006.
Fundur sá sem hér um ræðir var fyrsti fundur héraðsnefndar eftir sveitarstjórnarkosningarnar síðastliðið
vor. Í samræmi við 5. gr. samnings um héraðsnefndina, þar sem segir að oddviti fjölmennasta
aðildarsveitarfélagsins skuli boða nefndina saman til fyrsta fundar, hafi oddviti Sveitarfélagsins Árborgar
tekið að sér að boða til fundarins. Þess misskilnings gæti í erindi fulltrúa S-lista að boðunin hafi átt sér
stað fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar. Hið rétta sé að boðunin hafi verið á vegum oddvita
sveitarfélagsins og oddvitinn hafi síðan fengið bæjarstjóra til að sjá um boðunina.
Fundarboðið hafi verið sent út með tölvupósti enda sé það viðtekin venja við fundarboðun. Var
fundarboðið sent á netfang aðalmanns S-lista, en það netfang hafi hann notað gegnum tíðina þegar gögn
og upplýsingar hafi verið sendar frá skrifstofu Sveitarfélagsins Árborgar til sveitarstjórnarfulltrúa.
Tekið er fram að komið hafi í ljós, eftir að mál þetta kom upp, að borist hafi upplýsingar um að
sveitarstjórnarfulltrúinn hafi á þessum tíma hvatt lesendur á heimasíðu sinni til að senda sér tölvupóst á
sama netfang og fundarboðið var sent á. Á heimasíðunni hafi einnig verið upplýst að
sveitarstjórnarfulltrúinn væri fjarverandi en myndi svara innsendum pósti þegar hann kæmi til baka.
Þá er bent á að í erindi fulltrúa S-lista segi að fundarboðið hafi verið sent á netfang aðalmanns í
héraðsnefndinni en það hafi ekki verið virkt á þeim tíma. Þess vegna hafi fundarboðið ekki borist honum.
Ótrúlegt verði að telja að sveitarstjórnarfulltrúi átti sig ekki strax á því að netfang hans virki ekki.
Netfangið hafi sveitarstjórnarfulltrúinn sjálfur gefið upp gagnvart sveitarstjórn. Eðlilegt sé að gera kröfu
til þess að sveitarstjórnarfulltrúar tilkynni um breytt eða óvirk netföng en það hafi ekki verið gert.
Þá er tekið fram að sveitarstjórnarmanni beri skylda til að sækja alla sveitarstjórnarfundi og fundi í þeim
nefndum sem hann er kjörinn til nema lögmæt forföll hamli, sbr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga. Hafi
umræddur sveitarstjórnarfulltrúi, aðalmaður S-lista í héraðsnefnd, verið fjarverandi eða í fríi á þeim tíma
er fundarboð var sent út og fundur haldinn þá hafi honum borið að tilkynna það. Hafi honum mátt vera
fullljóst af 5. gr. samnings um Héraðsnefnd Árnesinga að fyrsti fundur yrði haldinn um þetta leyti, en í
greininni segi að halda skuli fyrsta fund eftir sveitarstjórnarkosningar eigi síðar en 30. júlí það ár. Þessa
skyldu sína hafi fulltrúinn ekki rækt.
Þá er bent á að í erindi fulltrúa S-lista hafi þótt ástæða til að tiltaka sérstaklega að af hálfu fundarboðanda
hafi ekki verið gerð krafa um að viðtakandi staðfesti móttöku tölvupósts. Í því sambandi er bent á að í
samningnum sé einungis gert ráð fyrir því að fundarboð sé bréflegt. Með sama hætti sé ekki gert ráð fyrir
því að póstburðarmaður gangi sérstaklega úr skugga um að viðtakandi bréfs taki við því. Slíkt sé
óframkvæmanlegt nema gert sé ráð fyrir birtingu með sannanlegum hætti, svo sem með símskeyti eða
ábyrgðarbréfi, en slíku hafi ekki verið til að dreifa í samningi um héraðsnefndina.
Í samningi um Héraðsnefnd Árnesinga sé ekki tekið fram berum orðum að fundarboð megi senda með
tölvupósti. Á hinn bóginn sé sú aðferð viðurkennd og þekkt enda notuð hjá sveitarfélögum sem aðild eiga
að héraðsnefndinni. Þá bjóði tölvutæknin upp á þann möguleika að sendanda sé sjálfkrafa með svarpósti
gert viðvart ef viðtakandi fær ekki póstsendingu. Slíkur möguleiki sé ekki fyrir hendi varðandi almennar
póstsendingar. Af þessu megi leiða að tölvupóstsendingar séu a.m.k. ekki ótryggari samskiptaleið en
almennar póstsendingar.
Þá er tekið fram að fundarboð á umræddan fund hafi verið sent öllum sveitarstjórum
aðildarsveitarfélaganna sem síðan hafi séð um að boða sína fulltrúa. Fyrsti fundur héraðsnefndarinnar hafi
verið haldinn 19. júlí sl. og mættu þá til fundarins fulltrúar frá öllum aðildarsveitarfélögum
héraðsnefndarinnar. Á hinn bóginn hafi fulltrúi S-lista í Sveitarfélaginu Árborg ekki mætt á fundinn. Þar
sem allir aðrir kjörnir fulltrúar héraðsnefndar hafi setið fundinn teljist fundurinn hafa verið
ályktunarhæfur, sbr. 3. mgr. 6. gr. samningsins. Þegar af þeirri ástæðu verði að vísa hugmyndinni um
ólögmæti fundarins á bug.
Þá teljist, að gefnu tilefni, rétt að mótmæla aðdróttunum um að hjá fundarboðanda hafi verið annarlegar
hvatir í þá átt að komast hjá því að boða ákveðna fundarmenn á fundinn. Fundarboðanda hafi verið
ómögulegt að vita um fjarveru eins bæjarfulltrúa eða hvort netfang það sem hann gaf upp væri virkt eða
ekki.
Loks er tekið fram að að öllu framangreindu virtu verði ekki séð að efni standi til þess að fyrsti fundur
Héraðsnefndar Árnesinga eftir sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2006 teljist ólögmætur. Fundurinn hafi
verið ályktunarhæfur og ákvarðanir sem þar voru teknar séu í samræmi við samning aðildarfélaganna um
héraðsnefndina. Tilhögun fundarboðs, sem mál þetta snúist um, leiði ekki ein og sér til þess að fundurinn
hafi verið ólögmætur. Þá verði ekki séð að lögvarðir hagsmunir feli það í sér að boðað verði til fundarins á
nýjan leik.
IV. Niðurstaða ráðuneytisins.
a. Um frávísunarkröfu.
Í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, er ekki kveðið sérstaklega á um stöðu héraðsnefndar innan
sveitarstjórnarkerfisins. Öll samvinna sveitarfélaga fer fram á frjálsum grundvelli, sbr. IX. kafla laganna.
Héraðsnefnd er einn samvinnuvettvangur af fleirum sem sveitarfélög geta valið sér, sbr. 81. gr.
sveitarstjórnarlaga. Að öðru leyti er ekki kveðið á um héraðsnefnd í sveitarstjórnarlögum.
Um aðkomu félagsmálaráðuneytisins sem æðra stjórnvalds gagnavart ákvörðunum og málsmeðferð
héraðsnefndar fer eftir því hvers konar tengsl við sveitarstjórnarrétt koma fram í viðkomandi samningi um
héraðsnefnd.
Í endurskoðuðum samningi um Héraðsnefnd Árnesinga, sem tók gildi 15. maí 2006, kemur fram í 1. mgr.
3. gr. að héraðsnefndinni sé falið að fara með yfirstjórn tiltekinna stofnana Árnesinga, þ.e. byggða- og
náttúrusafns, héraðsskjalasafns, listasafns og tónlistarskóla. Þá segir í 3. mgr. 3. gr. samningsins að auk
framangreindra verkefna annist héraðsnefndin þau verkefni sem varði öll sveitarfélögin og
aðildarsveitarfélögin feli henni samkvæmt sérstakri samþykkt allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna.
Ekki er nánar tilgreint hvaða verkefni þar getur verið um að ræða. Með hliðsjón af þessu verður ekki ráðið
af samningnum að héraðsnefndinni séu falin lögbundin verkefni aðildarsveitarfélaganna.
Í 2. mgr. 6. gr. samningsins, sem fjallar um fundi og fundasköp, segir síðan að um fundarsköp
héraðsnefndar gildi ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, eftir því sem þau eiga við og sama gildi um
réttindi og skyldur héraðsnefndarmanna.
Í 3. og 4. mgr. 6. gr. samningsins er kveðið á um hvenær fundur sé ályktunarhæfur og hvernig héraðsnefnd
skuli standa að atkvæðagreiðslu einstakra mála.
Með hliðsjón af framangreindu lítur ráðuneytið svo á að beinar vísanir í 2. mgr. 6. gr. samningsins til
sveitarstjórnarlaga, hvað varðar fundarsköp héraðsnefndar og réttindi og skyldur héraðsnefndarmanna,
veiti ráðuneytinu tvímælalaust grundvöll til að veita álit sitt um þau atriði á grundvelli 102. gr.
sveitarstjórnarlaga. Á hinn bóginn er ekki að finna málskotsheimild skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga til
félagsmálaráðuneytisins í samningi um héraðsnefndina.
Framangreind niðurstaða þýðir í máli þessu að ráðuneytið mun með vísun í 102. gr. sveitarstjórnarlaga
veita álit sitt á því hvort sú aðferð sem beitt var við boðun fundar Héraðsnefndar Árnesinga, sem haldinn
var 19. júní 2006, hafi verið í samræmi við samning um héraðsnefndina svo og ákvæði stjórnsýslulaga um
rafræna stjórnsýslu.
b. Um fundarboðun á fund Héraðsnefndar Árnesinga 19. júlí 2006.
Ágreiningsefni í máli þessu snýst um boðun á fund héraðsnefndar 19. júlí 2006 sem fram fór með
tölvupósti þann 12. sama mánaðar.
Um fundarboðun segir í 5. gr. samnings um Héraðsnefnd Árnessýslu að oddviti fjölmennasta
aðildarsveitarfélagsins skuli boða nefndina saman til fyrsta fundar. Í 1. mgr. 6. gr. samningsins segir síðan:
„Fundi skal boða bréflega með a.m.k. 7 daga fyrirvara.“
Ráðuneytið telur að skýra beri orðið „bréflega“ í þessu sambandi eftir orðanna hljóðan og í hefðbundnum
skilningi, þ.e. að skriflegt fundarboð sé boðsent eða póstlagt.
Jafnframt lítur ráðuneytið svo á að ef ætlunin er að gera breytingar frá því sem fram kemur í samningnum
á því með hverjum hætti fundarboðun héraðsnefndarinnar fari fram, og taka upp þann hátt að boða fundi
með rafrænum hætti, þurfi að liggja fyrir breyting á samningi um héraðsnefndina um það atriði. Vísast til
hliðsjónar í þessu sambandi til 35. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. lög nr. 51/2003, þar sem fram
kemur að stjórnvald hafi heimild til að ákveða að tekin skuli upp rafræn miðlun upplýsinga við meðferð
máls.
Í gögnum máls þessa liggur ekki fyrir að aðildarsveitarfélög Héraðsnefndar Árnesinga hafi samþykkt að
gera breytingu á ákvæði samningsins um fundarboðun. Óbreytt er því að fundi héraðsnefndar skuli boða
bréflega.
Þegar af framangreindri ástæðu telur ráðuneytið að rafræn fundarboðun þann 12. júlí 2006 á fund
héraðsnefndar 19. júlí 2006 hafi ekki verið í samræmi við samning um héraðsnefndina.
Að framansögðu virtu er þeim tilmælum beint til oddvita Héraðsnefndar Árnesinga að hann beiti sér fyrir
því að álit ráðuneytisins verði tekið til meðferðar hjá héraðsnefndinni. Lagt verði mat á áhrif fjarveru
fyrrgreinds héraðsnefndarfulltrúa á afgreiðslu einstakra mála á fundi nefndarinnar 19. júlí sl. Mál verði þá
tekin til meðferðar á ný að því leyti sem þess verður krafist af einstökum nefndarmönnum. Er í þessu
samhengi sérstaklega bent á ákvæði 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, um heimild til að
endurskipa í nefndir.
Fyrir hönd ráðherra
Guðjón Bragason (sign.)
Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)