Borgarfjarðarhreppur - Beiðni um breytingu á mörkum þannig að fyrrum Loðmundarfjarðarhreppur færist í Seyðisfjarðarkaupstað
Stefán Smári Magnússon 14. janúar 2000 FEL00000044
Hafnargötu 16 B 1003
710 Seyðisfjörður
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 10. þessa mánaðar, þar sem óskað er eftir að ráðuneytið hlutist til um breytingu á mörkum Borgarfjarðarhrepps á þann veg að fyrrum Loðmundarfjarðarhreppur færist úr Borgarfjarðarhreppi yfir í Seyðisfjarðarkaupstað.
Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 eru svohljóðandi ákvæði:
„Sveitarfélag hefur ákveðin staðarmörk. Óheimilt er að breyta þeim nema með lögum.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ráðuneytið breytt mörkum sveitarfélaga í sambandi við sameiningu þeirra eða til staðfestingar á samkomulagi milli sveitarstjórna.“
Með vísan til sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaganna, sem tryggður er í 78. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. sveitarstjórnarlaga, telur félagsmálaráðuneytið að mjög veigamiklar ástæður sem varði almannahagsmuni þurfi að liggja fyrir til þess að lagt verði fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um breytingu á mörkum sveitarfélaga. Ekki verður séð að slíkir hagsmunir séu fyrir hendi í þessu tilviki.
Ákvæði 3. gr. sveitarstjórnarlaga eru ákaflega skýr að því er varðar heimildir ráðuneytisins til að staðfesta breytingar á mörkum sveitarfélaga. Samkvæmt þeim er ljóst að ráðuneytið getur ekki breytt mörkum Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar nema sveitarstjórnir þeirra geri samkomulag um breytingu á mörkum sveitarfélaganna eða þau sameinist. Á annan hátt er ekki unnt samkvæmt sveitarstjórnarlögum að breyta núverandi mörkum þessara tveggja sveitarfélaga.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)