Mörk sveitarfélaga til hafsins
Umhverfisráðuneyti
Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri
Vonarstræti 4
150 Reykjavík
Reykjavík, 19. október 2000
Tilvísun: FEL00100019/1003/GB/--
Vísað er til erindis yðar dags. 18. september s.l. um mörk sveitarfélaga til hafsins og hvaða heimildir sveitarstjórnir hafi til mála er varða skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar vegna sjókvíaeldis fyrir ströndum landsins.
Eins og fram kemur í bréfi yðar veita sveitarstjórnarlög, nr. 45/1998, litla leiðsögn um þetta atriði. 3. gr. laganna kveður þannig einungis á um að sveitarfélag hafi ákveðin staðarmörk og að óheimilt sé að breyta þeim mörkum nema með lögum. Í sérlögum er á hinn bóginn sums staðar að finna ákvæði er veita sveitarstjórnum valdheimild eða takmarka valdsvið þeirra og virðist þá hin almenna regla vera sú að lögsaga sveitarfélags takmarkist við svæði innan netlaga. Verður það að teljast rökrétt viðmiðun, þar sem af ákvæðum margvíslegra laga allt frá tímum Jónsbókar leiðir að eigandi landareignar sem liggur að sjó nýtur víðtæks eignarréttar innan netlaga. Ef slík eignarréttindi teljast til hlunninda verða þau einnig andlag fasteignaskatts, sem rennur til þess sveitarfélags sem landareignin tilheyrir.
47. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, er skýrasta ákvæðið er lýtur að stjórnsýslumörkum sveitarfélaga til hafsins. Ákvæðið er svohljóðandi:
47. gr. Heimild til efnistöku.
Um leyfi til efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga fer eftir ákvæðum laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Iðnaðarráðherra skal þó leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins áður en leyfi er veitt.
Öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þar sem ekki liggur fyrir samþykkt aðalskipulag sem Náttúruvernd ríkisins og náttúruverndarnefnd hefur gefið umsögn sína um, sbr. 33. gr., skal liggja fyrir umsögn þeirra um framkvæmdina áður en leyfi er veitt. Enn fremur gilda um efnistöku á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða landslagsgerðir sem njóta verndar skv. 37. gr.
Virðist hér vera um skýr valdmörk að ræða, þ.e. að sveitarstjórn hafi einar vald til útgáfu framkvæmdaleyfis innan netlaga. Ótvírætt er einnig að ákvæði skipulags- og byggingarlaga geta átt við um framkvæmdir innan netlaga.
Ákvæði 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi, frá 20. júní 1849, skýrir hugtakið netlög:
3. gr. Á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiði á haf út, 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans. Nú liggja eyjar eða hólmar undir jörð, þá skal mæla lóðhelgi jarðar á sama hátt frá landi og jafnt í allar áttir frá eyjum og hólmum. Ef jarðir þær eða eyjar eða hólmar, sem ekki er einn eigandi að, liggja tveim megin við firði og víkur eða sund, og er ekki hundrað faðma tólfrætt í milli, þá á hver jarðeigandi veiði út á miðjan fjörðinn eða víkina eða sundið. Þar sem varplönd eru eða látur eða lagnir, fer um það sem síðar segir.
Eins og sjá má af ákvæðinu fylgja netlög ekki einvörðungu föstu landi, heldur einnig eyjum eða hólmum sem tilheyra bújörðum. Hvað varðar fjarlægð frá landi skal tekið fram að 60 faðmar frá stórstraumsfjöruborði er eilítið skemmri vegalengd heldur en nú tíðkast að hafa í lögum, en með lögum nr. 33/1907 var metrakerfið lögfest hér á landi. Má í þessu sambandi benda á ákvæði 3. mgr. 2. gr. um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1988, þar sem miðað er við að netlög nái 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Sömu skilgreiningu er að finna í lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Telur ráðuneytið að réttara sé að miða við síðari fjarlægðina hvað varðar stjórnsýslumörk sveitarfélaga, til að gæta samræmis í lögum.
Af framangreindum ákvæðum, auk fjölda annarra ákvæða sem ekki er ástæða til að tíunda hér, telur ráðuneytið mega ráða að það sé í góðu samræmi við ákvæði íslenskra laga að lögsagnarumdæmi sveitarfélaga nái á haf út innan netlaga, þ.e. 115 metra frá stórstraumsfjöruborði. Gildir þetta einnig um netlög við hólma og eyjar sem tilheyra bújörðum. Innan þessara marka er sveitarfélögum því m.a. heimilt að veita framkvæmdaleyfi til sjókvíaeldis, að gættum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og náttúruverndarlaga. Að sjálfsögðu ber sveitarfélögum einnig að gefa gaum að öryggi sjófarenda áður en slíkt leyfi er veitt.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)