Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Austur-Eyjafjallahreppur - Greiðsla lögmannskostnaðar í málarekstri einstaklings gegn fulltrúum í skólanefnd

Sigurður Sigurjónsson
2. febrúar 1999
98110020

Ytri-Skógum, A-Eyjafjallahreppi 16-8601

861 Hvolsvöllur

 

 

Vísað er til erindis yðar, Guðrúnar Ingu Sveinsdóttur og Ástrúnar Svölu Ólafsdóttur til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 1. október 1998, varðandi ákvörðun hreppsnefndar Austur-Eyjafjallahrepps um að synja beiðni yðar um að greiða lögmannskostnað vegna málssóknar Vigfúsar Andréssonar á hendur yður og sveitarfélaginu. Erindið barst ráðuneytinu þann 2. nóvember 1998.

Málið var höfðað af Vigfúsi Andréssyni gegn Sigurði Sigurjónssyni, Guðrúnu Ingu Sveinsdóttur, Ástrúnu Svölu Óskarsdóttur og sveitarsjóði Austur-Eyjafjallahrepps. Auk sveitarfélagsins var því þessum þremur einstaklingum stefnt persónulega vegna meintra meiðyrða. Dómur í framangreindu máli var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands hinn 12. júní 1998. Niðurstaðan varð sú að tilteknum kröfum var vísað frá og jafnframt voru nánar tilgreind ummæli dæmd dauð og ómerk. Síðan segir meðal annars svo í dómsorði:

„Stefndu, Sigurður Sigurjónsson og sveitarsjóður Austur-Eyjafjallahrepps, greiði stefnanda kr. 160.000 með dráttarvöxtum frá 12. júní 1998 til greiðsludags og kr. 140.000 í málskostnað.

Málskostnaður milli stefnanda og stefndu Guðrúnar Ingu Sveinsdóttur og Ástrúnar Svölu Óskarsdóttur fellur niður."

Í 1. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði: „Sveitarstjórnarmaður er einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála og honum ber að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi." Ákvæði þetta gildir einnig um fulltrúa í nefndum á vegum sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 47. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í sveitarstjórnarlögum eða öðrum lögum er ekki að finna ákvæði um ábyrgð sveitarsjóðs á málskostnaði gagnvart nefndarmönnum, sem stefnt hefur verið persónulega vegna háttsemi þeirra, eða vísbendingu um hvernig fara skuli með mál af slíku tagi. Ekki verður því talið að þau lög leggi fjárhagslegar skyldur á sveitarsjóð Austur-Eyjafjallahrepp í tilvikum sem þessum. Með hliðsjón af því telur ráðuneytið að ekki séu forsendur til að það endurskoði ákvörðun hreppsnefndar Austur-Eyjafjallahrepps frá 26. júní 1998.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta