Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Mýrdalshreppur - Breytingar á skipulagi heimanaksturs grunnskólanemenda úr dreifbýli, jafnræðisregla

Mýrdalshreppur 11. júní 2003 FEL02100086/1001

B.t. Sveins Pálssonar sveitastjóra

Mýrarbraut 13

870 Vík í Mýrdal

Hinn 11. júní 2003 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 25. október 2002, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra frá Guðrúnu S. Ingvarsdóttur, Ómari H. Halldórssyni, Sævari Halldórssyni, Höllu G. Emilsdóttur, Einari G. Þorsteinssyni, Petru K. Kristinsdóttur, Hrönn Lárusdóttur, Bergi Elíassyni, Jóhanni V. Hróbjartssyni, Margréti Harðardóttur, Sesselju Jónsdóttur og Finnboga Gunnarssyni varðandi skólaakstur í Mýrdalshreppi. Kærð er ákvörðun sveitarfélagsins, dags. 14. október 2002, um að öllum börnum sem eiga búsetu innan við 500 metra frá þjóðvegi beri að aka í veg fyrir skólabíl og hætt verði að sækja börnin heim að bæjum í myrkri og vondum veðrum.

Krefjast kærendur svara við spurningum sem tilgreindar eru í kæru. Þær eru eftirfarandi:

  1. Hvort ákvörðun sveitastjórnar standist.
  2. Hvort hægt sé að skylda foreldra til að fylgja börnum sínum í veg fyrir skólabílinn og sækja þau aftur eftir skóla, hvernig sem standi á gagnvart atvinnu þeirra.
  3. Hvort það sé ekki skylda sveitarfélagsins að sjá börnum fyrir skólaakstri.
  4. Hvort heimilt sé að mismuna börnum með því að sum fái akstur frá heimili en önnur ekki.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2002, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Mýrdalshrepps um málið. Umsögn Mýrdalshrepps barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 3. desember 2002, og frekari athugasemdir kærenda bárust með bréfi, dags. 29. desember 2002.

I. Málavextir

Kærendur eru foreldrar skólabarna í Mýrdalshreppi. Í kæru kemur fram að síðastliðin 10–15 ár hafi skólaakstur verið skipulagður með þeim hætti að ef börn hafi ekki verið komin út á þjóðveg, í vondu veðri og myrkri, hafi þau verið sótt heim undir bæi og sömuleiðis keyrð heim að bæjum ef veður hafi verið vont.

Verulegar breytingar hafa orðið á skólastarfi í Mýrdalshreppi á undanförnum árum og fer nú öll kennsla fram í Vík. Kallaði þetta á breytingar í skólaakstri. Á fundi sveitarstjórnar Mýrdalshrepps þann 29. júlí 2002 var sveitarstjóra ásamt öðrum fulltrúa í sveitarstjórn falið að ganga frá samningum um skólaakstur. Settu þeir fram tillögur um breytingar sem gerðu ráð fyrir að þar sem fjarlægð heimila frá þjóðvegi væri minni en 500 metrar skyldu börn koma í veg fyrir skólabílinn. Gerðu tillögurnar einnig ráð fyrir að í vissum tilvikum þar sem um lengri vegalengd væri að ræða yrði samið sérstaklega við foreldra um að þeir kæmu börnum sínum í veg fyrir skólabílinn. Var ráðgert að sett yrði upp tímatafla yfir ferðir skólabílsins til að lágmarka biðtíma barnanna.

Umræddar tillögur og drög að samkomulagi við skólabílstjóra voru kynnt á fundi skólanefndar sveitarfélagsins 19. ágúst 2002. Einnig fjallaði skólastjóri um skipulag skólaaksturs í ræðu sinni við setningu skólans 22. ágúst 2002. Þann 2. september 2002 lögðu nokkrir foreldrar í sveitarfélaginu fram undirskriftalista þar sem farið var fram á breytingar á umræddu fyrirkomulagi. Boðað var til kynningarfundar um skólaakstur 5. september sama ár. Fjallaði foreldraráð um málið 19. september og samþykkti skólanefnd fyrirkomulag skólaaksturs 14. október 2002. Þeim er stóðu að undirskriftalistanum var svarað með bréfi sveitastjóra dags. 18. september 2002. Þann 24. október 2002 barst sveitastjóra annar undirskriftalisti frá foreldrum sem var svarað með bréfi sveitastjóra dags. 5. nóvember 2002. Í kjölfar þessa réðist sveitarfélagið í gerð viðhorfskönnunar hjá foreldrum skólabarna í sveitarfélaginu. Á fundi skólanefndar 19. nóvember 2002 fjallaði nefndin um skólaakstur og var hluta nefndarinnar ásamt skólastjóra og sveitarstjóra falið að skila áliti til sveitarstjórnar um málið. Skilaði hópurinn tillögum til sveitarstjórnar sem fólu m.a. í sér að börn yrðu keyrð heim að bæjum ef bílstjóri mæti það svo að ótryggt væri að láta börn út á stoppistöð í heimferð. Samþykkti sveitarstjórn umræddar tillögur á fundi sínum 21. nóvember 2002. Var fundargerð fundarins dreift heim til íbúa sveitarfélagsins.

II. Málsrök kærenda

Í kæru, dags. 25. október 2002, halda kærendur því fram að ákvörðun um breytingar á skólaakstri hafi ekki verið kynnt foreldrum, né foreldraráði skólans. Við skólasetningu hafi skólastjóri tilkynnt að skólaakstur yrði með svipuðu sniði og verið hefði.

Kærendur segja að ákvörðun sveitarstjórnar hafi ekki fengist endurskoðuð og beri sveitarstjórnin fyrir sig að verið sé að lágmarka tíma barnanna í skólabílnum. Benda kærendur á að um óverulega breytingu sé að ræða úr u.þ.b. 37–40 mínútur í u.þ.b. 30 mínútur.

Í frekari athugasemdum kærenda kemur fram að þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á fyrirkomulagi skólaaksturs, eins og rakið er í málavaxtalýsingu, telji kærendur að sveitarfélaginu beri að sjá börnum fyrir akstri í skólann án þess að foreldrar aki þeim til móts við skólabílinn. Það sé ábyrgðarhlutur að senda börn frá sex ára aldri út í myrkur á morgnana til móts við skólabílinn, í sumum tilvikum út á þjóðveg nr. 1.

Hvað varðar viðhorfskönnun þá er gerð var um skólaakstur í sveitarfélaginu telja kærendur hana ekki marktæka. Benda kærendur á að aðilar sem komið hafi að umræddu fyrirkomulagi hafi tekið þátt í könnuninni, svo sem skólastjóri, oddviti, skólabílstjórar sem eigi börn á skólaaldri og þeir foreldrar sem fái greitt fyrir að aka börnum sínum í veg fyrir skólabílinn.

Kærendur segja tímaáætlun skólabíla, sem lögð hefur verið fram í málinu, ekki hafa verið senda til foreldra skólabarna í sveitarfélaginu.

Afgreiðslu foreldraráðs frá 19. september 2002 telja kærendur marklausa þar sem ráðið hafi ekki verði fullskipað og annar þeirra sem sat fundinn sé varamaður í sveitarstjórn. Þessu til stuðnings vísa kærendur til þess að ráðið sjálft hafi ekki talið sig starfhæft og komi það fram í fundargerð þess.


III. Málsrök kærða

Í athugasemdum Mýrdalshrepps, dags. 3. desember 2002, kemur fram að við endurskoðun reglna um skólaakstur hafi verið reynt að hafa hagsmuni skólabarna að leiðarljósi. Kvartanir foreldra hafi löngum beinst að því að börn þyrftu að sitja of lengi í skólabílnum eða í allt að 50–60 mínútur í hverri ferð. Því hafi verið ákveðið að haga akstri þannig að tími barna í skólabílnum yrði sem stystur. Niðurstaðan hafi verið að nota þrjá skólabíla. Til að lágmarka þann tíma sem börn þyrftu að sitja í skólabílnum hafi verið ákveðið að taka upp gamla reglu sem geri ráð fyrir að þar sem vegalengd frá heimili skólabarns að þjóðvegi sé styttri en 500 metrar skuli skólabörn koma í veg fyrir skólabílinn. Þá hafi einnig verið ákveðið að þar sem um lengri vegalengdir væri að ræða skyldu foreldrar koma börnum sínum fyrir skólabílinn samkvæmt sérstöku samkomulagi milli sveitarfélagsins og þeirra. Til að umrætt fyrirkomulag gengi upp hafi verið ákveðið að setja upp tímatöflu til að bið á stoppistöðvum yrði lágmörkuð.

Nýtt skipulag skólaaksturs hafi verið lagt fyrir fund skólanefndar 19. ágúst 2002 og engar athugasendir hafi verið gerðar af nefndinni. Kærði bendir á að erfiðlega hafi gengið að finna foreldraráð skólans þar sem formaður þess hafi verið orðinn formaður skólanefndar, annar fulltrúi í foreldraráði hafi verið orðinn fulltrúi í skólanefnd og sá þriðji hefði sagt sig úr ráðinu sökum þess að kona hans hefði tekið sæti í skólanefnd. Það hafi ekki verið fyrr en í október 2002 sem foreldraráðið hafi þótt starfhæft og hafi það þá fjallað um fyrirkomulag skólaaksturs án þess að gera athugasemdir.

Kærði segir einnig að á kynningarfundi með foreldrum 5. september 2002 hafi verið farið yfir forsendur og fyrirkomulag skólaaksturs og hafi virst sem meirihluti fundarmanna væri sáttur við hið nýja fyrirkomulag þótt óánægjuraddir hafi heyrst.

Í kjölfar kynningarfundarins hafi sveitarfélagið staðið fyrir viðhorfskönnun á meðal foreldra skólabarna. Af 33 foreldrum hafi 16 viljað hið nýja kerfi, 11 hafi verið ósáttir, 3 hlutlausir og 3 hafi ekki svarað.

Bendir kærði á að skólabílstjórar hafi flestir sinnt sínu starfi í áratugi, áfallalaust, og hafi þeir orð á sér fyrir varkárni. Það að börn skuli ganga allt að 500 metra leið til móts við skólabíl sé ekki ný viðmiðun, heldur hafi hún verið við lýði í áraraðir. Bílstjórar hafi þó verið sveigjanlegir og jafnvel keyrt heim að bæ ef börn hafi verið sein fyrir. Þetta sé góð þjónusta fyrir þann sem sé sóttur, en um leið verra fyrir þau börn sem þurfi að sitja í bílnum meðan honum er ekið heim að bæ. Forsenda þess að hægt sé að fá foreldra sem búi langt frá aðalleið til að keyra í veg fyrir skólabíl sé að bíllinn sé stundvís, en það sé ekki hægt ef stundum þurfi að sækja heim og stundum ekki. Segir kærði valið standa milli þess að sum börn þurfi að eyða 30 mínútum í skólabíl hvora leið eða um 50–60 mínútum hvora leið. Það sé mat skólanefndar, foreldraráðs, sveitastjórnar og meirihluta foreldraráðs að hagsmunum barna sé betur borgið með hinu nýja fyrirkomulagi.

Einnig segir kærði að tekin hafi verið ákvörðun um að koma til móts við foreldra í sveitarfélaginu með þeim hætti að börn verði keyrð heim að bæjum á heimleið, meti skólabílstjóri það ótryggt að láta skólabörn út á stoppistöð.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

A. Réttarreglur um skólaakstur.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skulu sveitarfélög annast þau verkefni sem þeim eru falin að lögum. Í 1. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, er sveitarfélögum falið það verkefni að annast rekstur grunnskóla. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. sömu laga er mælt fyrir um skólaakstur í strjálbýli. Skólaakstur í sveitarfélögum telst því til verkefna sveitarfélaga skv. 7. gr. laga nr. 45/1998.

Um skólaakstur er fjallað í grunnskólalögum nr. 66/1995. Í 1. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að í strjálbýli skuli miðað við heimanakstur nemenda þar sem því verði við komið en ekki heimavist. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til grunnskólalaga kemur einungis fram að sveitarfélög kosti og beri ábyrgð á skipulagi skólaaksturs og að mikilvægt sé að nemendum sé ekki ofgert með löngum akstursleiðum eða löngum tíma í skólabíl. Í athugasemdum við samhljóða ákvæði eldri grunnskólalaga, nr. 49/1991, segir hins vegar eftirfarandi:

„Merking greinarinnar er nánast óbreytt frá gildandi lögum. Áfram er stefnt að heimanakstri í stað heimavistar. Sveitarstjórnum er heimilt að fengnu samþykki ráðuneytisins að koma á fót skólaseljum þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið. Frumkvæðið er hér fært frá ráðuneytinu til sveitarstjórna. Í greininni er mörkuð sú stefna að yngri börn en 10 ára dvelji ekki í heimavist nema í undantekningartilvikum. Skólasel, sem eru eins konar útibú frá aðalskóla, skulu því koma í stað heimavista fyrir umrædda aldurshópa. Sú stefna að miða við heimangöngu eða akstur í stað heimavista þýðir aukinn skólaakstur. Í gildandi reglugerð um skólaakstur er sú viðmiðun notuð að nemendur séu að jafnaði ekki lengur en 90 mínútur á dag í akstri milli heimilis og skóla eða 45 mínútur hvora leið. Deila má um hver viðmiðunin eigi að vera en margir skólamenn og foreldrar telja 45 mínútna akstur í byrjun og lok hvers skóladags of mikið álag á nemendur, einkum þá yngstu.“

Reglugerðin sem vitnað er til í athugasemdunum er nr. 213/1975, um rekstrarkostnað grunnskóla, en hún er fallin úr gildi án þess að menntamálaráðherra hafi sett nýja reglugerð í hennar stað. Er því ekki unnt að byggja efnislegan rétt á ákvæðum hennar en þó er eðlilegt að hafa ákvæði hennar til hliðsjónar. Um skipulag skólaaksturs og skilyrði fyrir því að ríkissjóður endurgreiddi hluta kostnaðar af akstrinum var fjallað í 22.–30. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 24. gr. var skólanefnd heimilað að ráðstafa framlagi ríkissjóðs til:

a. Kostnaðar vegna skipulagðs skólaaksturs innan eða út fyrir skólahverfi.

b. Kostnaðar við að koma nemanda í vist í nágrenni skóla og/eða á eðlilegri skólaakstursleið.

c. Greiðslu til forráðamanna til þess að aka nemendum að skóla eða að akstursleið skólabifreiðar.

d. Kostnaðar við að koma nemanda að heimavistarskóla utan skólahverfis.

Í 3. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar sagði eftirfarandi:

„Skólanefndum í umboði sveitarstjórna er heimilt að bjóða foreldrum nemenda einn þeirra kosta, er taldir eru að framan undir lið b-d en er þó ekki skylt að skipuleggja akstur þeirra vegna, verði sá kostnaður meiri en kostnaður vegna einhvers valkostar b-d hér að framan, enda sé að dómi fræðslustjóra tryggt, að nemandi fái jafngóða námsaðstöðu við þann valkost.“

Rétt er að geta þess að í álitsgerð umboðsmanns barna frá 9. júlí 1998 eru gerðar alvarlegar athugasemdir við að ekki skuli hafa verið settar lágmarksreglur um tilhögun skólaaksturs hér á landi. Í ársskýrslum umboðsmanns fyrir árin 1999 og 2000 eru einnig rakin með ítarlegum hætti viðbrögð stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga við álitsgerðinni og bréfum umboðsmanns um málið og er ljóst að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir umboðsmanns barna hafa slíkar reglur ekki verið settar. Skal þess getið að í bréfi félagsmálaráðuneytis til umboðsmanns barna, dags. 9. apríl 2001, var tekið undir þau sjónarmið sem rakin eru í fyrrgreindri álitsgerð og lýsti ráðuneytið sig reiðubúið til að taka þátt í undirbúningi reglna um skólaakstur enda þótt það teldi sig ekki að óbreyttum lögum hafa lagaheimild til þess að hafa forgöngu um það verkefni. Þessi sjónarmið ráðuneytisins voru ítrekuð í bréfi til menntamálaráðuneytisins, dags. 11. desember 2002, en svar hefur ekki borist frá ráðuneytinu.

Þrátt fyrir skort á reglum um inntak og útfærslu skólaaksturs má leiða þá reglu af 12. gr. grunnskólalaga nr 66/1995, að þar sem skólanefnd er skylt sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfi njóti lögboðinnar fræðslu, beri henni og sveitarstjórn að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru miðað við aðstæður á hverjum stað til að skólaskyld börn geti sótt skóla, þ.m.t. að tryggja aðgang barna að skóla með skólaakstri. Að þessu virtu má draga þá ályktun að á sveitarfélögum hvíli skylda til að halda úti skólaakstri þar sem þess gerist þörf. Í ljósi skorts á reglum um þessa þjónustu hafa þau hins vegar verulegt svigrúm til ákvörðunar varðandi tilhögun hennar og byggist það m.a. á 1. mgr. 1. gr. sveitastjórnarlaga, nr. 45/1998.

Ákvörðun sveitarstjórnar um tilhögun skólaaksturs er stjórnvaldsákvörðun, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk ákvæða grunnskólalaga sæta ákvarðanir sveitarstjórnar um tilhögun skólaaksturs því takmörkunum samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, svo sem jafnræðisreglu 11. gr. laganna, sem og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar, m.a. um málefnaleg sjónarmið við töku ákvarðana.

Við úrlausn máls þessa verður að mati ráðuneytisins einnig að hafa til hliðsjónar meginreglu barnaréttar um að leitast skuli við að komast að þeirri niðurstöðu sem samrýmist best hagsmunum barnsins, sbr. einnig ákvæði 3. gr. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Telur ráðuneytið jafnframt að meðan á skólaakstri stendur beri sveitarfélagið ábyrgð á öryggi skólabarna og beri því að sjá til þess að börnum sé ekki stofnað í hættu í tengslum við hann. Við afmörkun inntaks og útfærslu þjónustunnar ber aukinheldur að taka mið af mismunandi þörfum barna, t.d. eftir aldri og þroska.

B. Niðurstaða um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar

Í stjórnsýslukæru sinni krefjast kærendur svara við tilteknum spurningum varðandi þá ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps að breyta fyrirkomulagi skólaaksturs í sveitarfélaginu. Um kæruheimild vísast til 103. gr. sveitastjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, en jafnframt mun ráðuneytið leitast við að svara spurningum kærenda sem settar eru fram í stjórnsýslukærunni.

Af gögnum málsins má ráða að kærendur telji að kærða beri að haga skólaakstri þannig að börn þeirra verði sótt heim að bæjum í vondu veðri og myrkri. Telja þeir jafnframt það fyrirkomulag skólaaksturs sem kærði hefur ákveðið standist ekki lög.

Ráðuneytið hefur áður, með úrskurði dags. 10. desember 2002, fjallað um svigrúm sveitarfélaga við skipulagningu skólaaksturs. Var það niðurstaða ráðuneytisins að almennt mætti leiða af 12. gr. grunnskólalaga skyldu sveitarfélaga til að halda úti skólaakstri þar sem þess gerist þörf. Hins vegar taldi ráðuneytið að af hugtakinu „heimanakstur“ í 1. mgr. 4. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, verði ekki leidd svo víðtæk skylda að sveitarfélögum beri að aka grunnskólanemendum alla leið til og frá heimilum sínum. Taldi ráðuneytið, með hliðsjón af ákvæðum grunnskólalaga, nr. 66/1995, sveitarfélögum almennt heimilt að skipuleggja skólaakstur þannig að í stað þess að skólabíll keyrði nemendur til og frá heimili þeirra, væri foreldrum eða forráðamönnum nemenda greidd þóknun fyrir að aka þeim að akstursleið skólabifreiðar.

Eins og rakið var að framan virðist sveitarstjórnum um langt skeið hafa verið heimilt að ákveða, meðal annars á grundvelli 24. gr. reglugerðar nr. 213/1975 um rekstrarkostnað grunnskóla, hvaða fyrirkomulag skólaaksturs hentaði best í þeirra sveitarfélagi. Þar sem lög, þ.m.t. gildandi grunnskólalög, nr. 66/1995, kveða ekki á um annað verður ekki séð að hægt sé að skylda sveitarfélög til að haga skólaakstri sínum með tilteknum hætti. Hins vegar bendir ráðuneytið á að eins og áður er rakið er svigrúm sveitarfélaga í þessum efnum er ekki ótakmarkað og verður þá sérstaklega að líta til hagsmuna skólabarna í því tilliti sem og ólíkra þarfa þeirra, t.d. eftir aldri.

Kærendur hafa haldið því fram að skipulag skólaaksturs í Mýrdalshreppi feli í sér mismunun milli einstakra barna í sveitarfélaginu. Við afmörkun þess hvort ólögmæt mismunun hafi átt sér stað, sem brjóti gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður að líta til þess hvort ólögmæt sjónarmið hafi orðið þess valdandi að farið var ólíkt með sambærileg tilvik. Af athugasemdum Mýrdalshrepps, dags. 3. desember 2002, má ráða að meginmarkmið umræddrar endurskoðunar skólaaksturs í sveitarfélaginu hafi verið að stytta þann tíma sem börn verða að eyða í skólabíl á leið til og frá skóla, en umrætt sjónarmið á sér skýra stoð í lögskýringargögnum með grunnskólalögum nr. 66/1995. Hafa kærendur ekki bent á aðrar leiðir til að ná þessu markmiði. Í ljósi þeirra takmörkuðu reglna sem um skólaakstur gilda verður því ekki séð að hið umdeilda fyrirkomulag sé byggt á ólögmætum sjónarmiðum eða feli í sér ólögmæta mismunun sem brjóti í bága við 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1997.

Af athugasemdum kærða má einnig ráða að sveitastjórnin hafi samþykkt að koma að einhverju leyti til móts við kærendur, með því að gefa skólabílstjórum fyrirmæli um að aka börnum heim að bæjum við heimferð, meti þeir aðstæður með þeim hætti að ótryggt sé að láta þau út á stoppistöð. Verður að telja að með þessu móti sé komin nokkur trygging fyrir öryggi barnanna, sem eins og áður er rakið er á ábyrgð sveitarfélagsins, en ráðuneytið leggur áherslu á að sveitarfélagið geri nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni.

Að öllu þessu virtu telur ráðuneytið að í ljósi skorts á reglum um tilhögun skólaaksturs, verði ekki komist að annarri niðurstöðu en að ákvörðun kærða um skipulag skólaaksturs, dags. 14. október 2002, með síðari breytingum, sé lögmæt og byggist á málefnalegum sjónarmiðum.

Telur ráðuneytið þó rétt að gera athugasemdir við málsmeðferð sveitastjórnar, en skv. 16. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, skal starfa foreldraráð við grunnskóla og tilvist þess á ábyrgð skólastjóra og sveitarfélags. Athugasemdir kærða, dags. 3. desember 2002, eru misvísandi hvað þetta varðar en af gögnum málsins má þó ráða að hluti foreldraráðs hafi fjallað um málið 19. september 2002, þótt kærði telji að foreldraráð skólans hafi ekki verið starfhæft fyrr en í október 2002. Hefur kærði því ekki sýnt fram á að löglega skipað foreldraráð, skv. 16. gr. grunnskólalaga, hafi fjallað um breytingar á skólaakstri í sveitarfélaginu. Að mati ráðuneytisins er annmarki þessi hins vegar ekki svo verulegur að leitt geti til ógildingar umræddrar ákvörðunar.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun sveitastjórnar Mýrdalshrepps um skipulag skólaaksturs í sveitarfélaginu, dags. 14. október 2002, skal standa óhögguð

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðmundur Ómar Hafsteinsson (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta