Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Borgarbyggð - Synjun sveitarfélags um greiðslu kostnaðar vegna tónlistarnáms á framhaldsskólastigi

Margrét Guðjónsdóttir 29. júlí 2003 FEL03070043/1001

Hvassafelli, Norðurárdal

311 BORGARNES

Vísað er til erindis yðar og fleiri foreldra nemenda sem eiga lögheimili utan Reykjavíkur og stunda nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík, dags. 21. júlí sl., þar sem óskað er svars ráðuneytisins við tveimur spurningum er varða möguleika nemenda í tónlistarnámi á framhaldsstigi til náms í öðrum sveitarfélögum. Fram kemur í bréfi yðar að þeir nemendur sem bréfið varðar stundi nám á 6. og 7. stigi, sem jafngildi framhaldsstigi, og að þeir eigi ekki möguleika á að stunda sambærilegt nám við tónlistarskóla í heimabyggð. Þar sem sveitarfélög þeirra hafi neitað að greiða gjald fyrir kennslukostnað í Tónlistarskóla Reykjavíkur standi nemendur nú frammi fyrir því að þurfa að hverfa frá námi.

Um tónlistarnám gilda lög nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Í lögunum er kveðið á um á hvern hátt tónlistarskóla verði komið á fót og stuðning sveitarfélaga við slíka skóla. Er meginreglan samkvæmt lögunum að sveitarfélög styrkja einvörðungu skóla sem starfa í sveitarfélaginu og skóla sem sveitarfélagið á aðild að á grundvelli samnings við fleiri sveitarfélög. Af ákvæðum laganna verður ekki ráðið að sveitarfélögum beri skylda til að styrkja íbúa sína til náms í tónlistarskólum í öðrum sveitarfélögum í þeim tilvikum sem tónlistarskóli er ekki starfandi í sveitarfélagi eða það nám sem þar er boðið upp á hæfir ekki nemanda.

Fram kemur í gögnum málsins að synjun hlutaðeigandi sveitarfélaga byggist á þeirri ástæðu að þau telja að það sé ekki á meðal verkefna sveitarfélaga að greiða kostnað vegna tónlistarnáms á framhaldsstigi og er þar m.a. vísað til ályktana samtaka sveitarfélaga um þetta efni. Þá liggur fyrir að á næstunni munu hefjast viðræður milli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytisins um þá kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga að tónlistarnám á framhaldsstigi verði kostað af ríkinu eins og önnur framhaldsmenntun.

Það er mat ráðuneytisins að mál þetta falli undir valdsvið menntamálaráðuneytisins og er yður bent á að snúa yður til þess ráðuneytis um framhald málsins. Hugsanlegt er að unnt verði að finna lausn á málinu í fyrirhuguðum viðræðum menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaga. Jafnframt er það mat ráðuneytisins að ekki verði ráðið af gögnum málsins að synjun hlutaðeigandi sveitarfélaga á að greiða gjald fyrir kennslukostnað í Tónlistarskóla Reykjavíkur feli í sér brot á lögum eða að synjunin hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum.

Afrit þessa bréfs er sent menntamálaráðuneytinu ásamt gögnum málsins.

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Menntamálaráðuneytið




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta