Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Sveitarfélagið Árborg - Málsmeðferð skipulags- og byggingarnefndar, framsending

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála
9. júní 2006
FEL06050051

Skúlagötu 21

101 Reykjavík

Félagsmálaráðuneytinu hefur borist stjórnsýslukæra frá Óskari Sigurðssyni hrl. f.h.

umbjóðenda hans, dags. 23. maí 2006, þar sem kærð er sú ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar

sem tekin var á fundi bæjarstjórnar þann 10. maí 2006 að staðfesta fundargerð skipulags- og

byggingarnefndar frá 9. sama mánaðar þar sem samþykkt var deiliskipulag fyrir Austurveg 51–

59, Selfossi.

Í kærunni kemur fram að lögmaður kærenda telur félagsmálaráðuneyti bært til að fjalla um

málið sem snýr að því að málsmeðferð hafi verið verulega áfátt og brotið hafi verið gegn

stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar við afgreiðslu málsins. Er þar vísað til þess

að ákvæði 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, um að unnt sé að skjóta til

úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála ágreiningi um skipulags- og byggingarmála,

komi ekki í veg fyrir að félagsmálaráðuneytið fjalli um málið og taki það til athugunar, sem og

kröfugerð kærenda, út frá sjónarmiðum þeirra um brot gegn stjórnsýslulögum og meginreglum

stjórnsýsluréttar, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Samkvæmt því sjónarmiði telji

kærendur að félagsmálaráðuneytið geti tekið til athugunar meðferð málsins og hvort brotið hafi

verið gegn stjórnsýslulögum, þar á meðal hæfisreglu laganna, rannsóknarreglu, reglunni um

meðalhóf og lögmætisreglu stjórnsýslulaga. Óumdeilt sé að kærendur hafi nægjanlegra

hagsmuna að gæta og hafi beina hagsmuni af úrlausn málsins.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið eftirfarandi fram:

Í erindi kærenda eru málsástæður greindar í fjóra þætti. Mun ráðuneytið fjalla um þá í þeirri

röð sem fram koma í kæru:

1. Vanhæfi sérfræðinga sem kvaddir voru til aðstoðar.

Um er að ræða ólögbundna álitsumleitan. Við álitaefnið reynir á skýringu á 4. gr.

stjórnsýslulaga þar sem segir að sá sem er vanhæfur til meðferðar máls megi ekki taka þátt í

undirbúningi þess. Það þýðir að þeir sem veita umsögn eða álit um mál verða að uppfylla

sérstakar hæfisreglur stjórnsýslulaga. Hæfisreglur stjórnvalda geta tekið til samninga við

einkaréttarlegt fyrirtæki, eins og lögmannsstofu, um að veita stjórnvaldi sérfræðilega aðstoð

við undirbúning máls. Verða þeir starfsmenn sem að málinu koma að uppfylla sérstakar

hæfisreglur, sbr. 2. og 3. mgr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Ráðuneytið telur að athugunarefnið í máli þessu um vanhæfi álitsgjafa sé það sértækt að það

falli með beinum hætti undir vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt vanhæfi.

Athugunarefnið tekur einungis til mats á því með hverjum hætti álitsgjafar komi að kæruefninu

um deiliskipulag og undirbúning þess. Við það mat reynir á skýringu á 4. gr. stjórnsýslulaga

sem er sérákvæði um sérstakt vanhæfi vegna undirbúnings máls.

Með hliðsjón af framansögðu telur ráðuneytið að mat á vanhæfi álitsgjafa í máli þessu falli

eingöngu undir vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga, en ekki öðrum þræði undir ákvæði 19. gr.

sveitarstjórnarlaga sem kveður á um vanhæfi sveitarstjórnarmanna. Breytir þar engu þótt

ákvæði 19. gr. sveitarstjórnarlaga taki jafnframt til nefndarmanna sveitarstjórna, starfsmanna

og álitsgjafa eftir því sem við á. Jafnframt breytir það ekki niðurstöðu ráðuneytisins um þetta

atriði þótt ljóst sé að við skýringu á hæfisákvæði 19. gr. sveitarstjórnarlaga geti jafnframt reynt

á hæfisákvæði stjórnsýslulaga, ákvæði 19. gr. til fyllingar. Í máli þessu telur ráðuneytið á hinn

bóginn að vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga eigi ein við. Mat á vanhæfi álitsgjafa heyri því undir

úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, samanber einkum 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997,

en þar er með beinum hætti vísað til stjórnsýslulaga hvað málsmeðferð við skipulagsmál

varðar.

2. Rannsóknarskylda. Málið ekki nægjanlega upplýst.

Málsástæða þessi tengist því að leitað var utanaðkomandi álits í málinu og að farið var eftir

því. Það þýddi að mati kærenda að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað skv. 10. gr.

stjórnsýslulaga. Inn í þá málsástæðu fléttast síðan það sjónarmið kærenda að meðalhófsreglu

12. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt því þar sem farið var eftir álitinu hafi ekki verið

kannað hvort aðrar leiðir væru færar en að byggja sex hæða blokk.

Ráðuneytið telur málsástæðu þessa tengjast svo mjög því sértæka efni sem málið snýst um, þ.e.

samþykkt deiliskipulags fyrir Austurveg 51–59, Selfossi, að mat á rannsóknarskyldu

stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum verði best unnið innan málaflokks skipulags- og

byggingarmála. Úrlausnarnefnið eigi því heima hjá úrskurðarnefnd skipulags- og

byggingarmála, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997, samanber einkum 6. mgr. 8. gr. laganna.

3. Brot gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Kærendur byggja kæru sína einnig á því að skipulags- og byggingarnefnd, sem og bæjarstjórn,

hafi við afgreiðslu málsins brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Skýring á því

sjónarmiði er sú að félagið Fossafl ehf. hafi ritað undir yfirlýsingu þess efnis að það tæki á sig

alla ábyrgð og beri kostnað vegna hugsanlegra krafna og tjóns nágranna. Slík afgreiðsla eða

skilyrði eigi sér ekki stoð í skipulags- og byggingarlögum.

Ráðuneytið telur að það athugunarefni, hvort nefnd sveitarstjórnar og bæjarstjórn sé heimilt að

gera framangreindan samning við einkaaðila, feli út af fyrir sig í sér sveitarstjórnarmálefni sem

talist geti til vafaatriðis sem upp geti komið við framkvæmd sveitarstjórnarmála og sem slíkt

kæranlegt til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem

stjórnsýslukæran hins vegar byggir á því að gerð samningsins og skilyrði í honum eigi sér ekki

stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, telur ráðuneytið rétt að úrskurðarnefnd

skipulags- og byggingarmála fjalli jafnframt sérstaklega um þetta atriði. Telji kærendur tilefni

til þess að skoða þetta atriði enn frekar þegar úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og

byggingarmála liggur fyrir mun félagsmálaráðuneytið taka hið afmarkaða kæruefni til

sérstakrar umfjöllunar.

Í þessu sambandi vill ráðuneytið þó taka fram að það lítur svo á að samningur á milli

sveitarstjórnar og félags, á borð við þann sem gerður var í máli þessu, geti út af fyrir sig verið

gildur milli þeirra tveggja. Á hinn bóginn telur ráðuneytið það vera úrlausnarefni dómstóla ef á

það reynir að samningur firri sveitarfélag ábyrgð gagnvart íbúum sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að það sé úrlausnarefni dómstóla komi til þess

að skera þurfi úr um ábyrgð sveitarfélagsins gagnvart íbúum í þessu sambandi.

4. Íbúar áttu ekki aðgang að fundi skipulags og byggingarnefndar.

Bent skal á að skv. 46. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skulu fundir nefnda að jafnaði

haldnir fyrir luktum dyrum. Sams konar ákvæði er að finna í 52. gr. samþykktar um stjórn

Sveitarfélagsins Árborgar og fundarsköp bæjarstjórnar, dags. 17. desember 2000.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga,

nr. 37/1993, framsendist málið úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Meðfylgjandi eru gögn málsins.

Fyrir hönd ráðherra

Ragnhildur Arnljótsdóttir (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

9. júní 2006 - Sveitarfélagið Árborg - Málsmeðferð skipulags- og byggingarnefndar, framsending (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta