Sveitarfélagið Árborg - Aðkoma sveitarfélags vegna vörslusviptingar hrossa, úrskurðarvald ráðuneytisins
LEX ehf. Lögmannsstofa
29. júní 2007
FEL07020026
Dýrleif Kristjánsdóttir, hdl.
Sundagörðum 2
104 Reykjavík
Með erindi, dags. 12. febrúar 2007, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Lex lögmannsstofu ehf., fyrir hönd X (hér eftir nefndur málshefjandi), á hendur Sveitarfélaginu Árborg, þar sem kærð var annars vegar aðkoma sveitarfélagsins að vörslusviptingu hrossa í eigu málshefjanda sem framkvæmd var af sýslumanninum á Selfossi þann 22. júní 2006 og hins vegar aðbúnaður hrossa málshefjanda meðan þau voru í vörslu sveitarfélagsins.
Erindi málshefjanda var sent sveitarfélaginu til umsagnar með bréfi, dags. 19. febrúar 2007, og barst umsögn lögmanns sveitarfélagsins ráðuneytinu þann 20. mars sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. mars sl., var málshefjanda gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum í málinu teldi hann þess þörf og bárust athugasemdir hans ráðuneytinu þann 12. apríl sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. apríl sl., var sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum í málinu og bárust viðbótarathugasemdir ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. maí sl.
I. Málavextir.
Aðdraganda þessa máls má rekja til kæru sem málshefjandi sendi landbúnaðarráðuneytinu með bréfi, dags. 31. júlí 2006, þar sem kærð var „vörslusvipting sýslumannsins á Selfossi, dags. 22. júní 2006, á hestum í eigu kæranda". Jafnframt var kærð „varsla sú sem sveitarstjórn Árborgar útvegaði graðhestum í eigu kæranda á meðan á vörslusviptingu þeirra stóð". Hinn 23. janúar 2007 var í landbúnaðarráðuneytinu kveðinn upp úrskurður þar sem framangreindum kæruliðum var báðum vísað frá ráðuneytinu. Niðurstaðan var sú að fyrri kæruliðurinn, þ.e. sá er varðaði vörslusviptingu sýslumanns, ætti undir dómsmálaráðuneytið en sá síðari er varðaði vörslu sveitarstjórnarinnar á graðhestum í eigu kæranda ætti undir félagsmálaráðuneytið á grundvelli hinnar almennu kæruheimildar í 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Í framangreindum úrskurði landbúnaðarráðuneytisins er málavöxtum og aðdraganda málsins lýst ítarlega. Verða hér rakin helstu atriði sem máli þykja skipta varðandi aðkomu sveitarfélagsins.
Kærandi málsins hefur haldið hross á jörðinni Y í Sveitarfélaginu Árborg og veturinn 2005 til 2006 voru ítrekuð tilefni til sérstakra eftirlitsaðgerða búfjáreftirlitsmanns (ÓAJ), héraðsdýralæknis (KA) og héraðsráðunauts (KB) með hrossahaldi hans. Fóru þessir aðilar ásamt fleirum í nokkrar heimsóknir á staðinn og komu tilmælum á framfæri við kæranda um úrbætur.
Í bréfi ÓAJ til KA frá 15. febrúar 2006 greindi hann frá samskiptum sínum við kæranda. ÓAJ hafði farið að Y með KA í janúar til að skoða aðbúnað og fóðrun hrossa. Telur hann kæranda hafa, í bréfi hans frá 14. febrúar 2006, að tvennu leyti dregið rangar ályktanir af því sem hann hefði sagt honum, bæði um holdhnjóska og ástand stía. Hins vegar hefði ástandið á bænum verið betra í janúar en áður að því leyti að hrossum hefði fækkað. ÓAJ benti þó kæranda á að mörg hross væru í slæmu fóðurástandi og almennt væru hrossin í tæpum reiðhestholdum, og nokkuð mörg mjög mögur. Að lokum lýsti ÓAJ því yfir að hann teldi ástæðu til aðgerða á Y vegna þess ástands sem þar væri.
Í bréfi KA og KB, frá 15. febrúar 2006, er tölvupósti kæranda frá deginum áður svarað og andmælum hans hafnað. Í bréfinu segir að kærandi hefði lofað að lóga lélegustu hrossunum, slátra eins miklu og mögulegt væri og koma blóðhryssunum í hagagöngu eða selja þær. Engu hrossi hefði þó verið lógað, aðeins hefði verið slátrað 32 folöldum og níu fullorðnum. Blóðmerunum væri enn óráðstafað. Í bréfinu kemur fram að
hátt í 200 hross væru í Y, öll beit væri löngu uppurin og gjöf ekki nægileg, þannig að hross væru í aflögn, og var því hafnað þeirri fullyrðingu kæranda að óþarft væri að hafa frekari afskipti af fóðrun og aðbúnaði hrossa á jörðinni. Að lokum kemur fram í bréfinu að Sveitarfélagið Árborg hefði frá og með 15. febrúar 2006 skipað sérstakan tilsjónarmann með aðbúnaði og fóðrun hrossa í Y.
Í bréfi KA og KB dags. 28. febrúar 2006 til Sveitarfélagsins Árborgar er fjallað um fóðrunarástand og aðbúnað hrossa í Y. Öll beit er talin uppurin þó einhverjar snapir lélegar séu á mýrinni. Ljóst sé því að hrossin verði að standa í fullri gjöf alla daga. Einkum verði að hygla innihrossum og þeim 30 sem tekin voru frá við rögunina 22. febrúar 2006. Fram kemur að heybirgðir kæranda séu uppurnar og útvega verði því hey til áframhaldandi fóðrunar hrossanna. Meðfylgjandi bréfinu var álit á fóðurþörf þeirra 190 hrossa sem voru í Y fyrir tímabilið frá 24. febrúar til 15. júní (þegar hross yrðu komin á útibeit).
Í bréfi KA og KB til Sveitarfélagsins Árborgar frá 15. maí 2006 er fjallað um aðbúnað og meðferð hrossa í Y. Fram kemur í bréfinu að sveitarfélagið hefði haft tilsjónarmann með hrossunum í Y og að héraðsdýralæknir hefði fylgst grannt með þróun mála þar. Treglega hefði gengið að fullnægja lágmarksþörfum hrossanna og hefði nú ,,keyrt um þverbak". KA fór þangað 9. maí ásamt KB og eftirlitsdýralækni, og 12 maí hafði KA farið þangað í fylgd með eftirlitsmanni sveitarfélagsins. Aðstæðum er lýst þannig að kærandi hefði sett út töluvert af hrossum sem höfðu áður verið inni. Húshrossin væru mörg mjög grönn og skítug og gætu því lítt varist kulda, nokkur folöld væru auk þess rúin. Ekkert skjól væri fyrir hrossin og fóðrun þeirra ótrygg. Þau hross sem enn væru inni byggju við þröngan kost og slæmar aðstæður, mikill skítur og alls konar drasl í stíum með brotnar og laskaðar milligerðir. Hópur ógeltra fola væri vel á þriðja tug. Þeir væru í sérhólfi, litlu og nauðbitnu en hefði verið gefið þokkalega í vetur. Hins vegar væru þeir nú ,,eðli sínu samkvæmt farnir að smjúga út úr girðingunni, enda væri hún ekki held graðhestum". Fram kemur í bréfinu að PL, umráðamaður landsins, vilji ekki eyða tíma sínum og fé í að tryggja vörslu graðhesta sem hann segir vera á sínu landi gegn vilja sínum. Að lokum var skorað á Sveitarfélagið Árborg að ráðstafa hrossunum þegar til öruggrar fóðrunar og vörslu, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002.
Í bréfi KA og KB til Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. júní 2006 var enn á ný fjallað um aðbúnað og meðferð hrossa í Y, en þau höfðu þann dag farið að bænum. Aðkoma í hesthúsi var talin slæm. Tekið er fram að hross gangi á túnum sem nýta eigi til öflunar fóðurs fyrir kýr. Mýrin austan vegar sé töluvert bitin og því föl yfir að líta og telja KA og KB að hún geti ekki fullnægt fóðurþörfum hrossanna út yfir sprettutímann og grípa verði því til annarra ráðstafana strax í ágúst. Graðhestar heima í girðingu höfðu rótnagað hólf sitt og var girðing færð út að kálflagi og ekki talið unnt að stækka hana meir. Með fullri gjöf var talið að beit gæti enst út vikuna en ekki lengur. Gerðar voru síðan tilteknar kröfur um tafarlausar úrbætur. Afrit af þessu bréfi var sent til kæranda og annarra sem tengdust málinu.
Í bréfi Sveitarfélagsins Árborgar til lögreglustjórans á Selfossi, dags. 20 júní 2006, var þess krafist með vísun til 4. mgr. 18. gr. dýraverndunarlaga, nr. 15/1994, sbr. 3. gr. laganna og 3. mgr. 16. gr. búfjárhaldslaga, sbr. einnig 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna, að lögreglustjóri veitti atbeina sinn í samræmi við lög til að ráða bót á þeim vandamálum sem upp hefðu komið á jörðinni og greint var frá í bréfi KA og KB til sveitarfélagsins deginum áður.
Samkvæmt lögregluskýrslu sýslumannsins á Selfossi fór vörslusvipting hrossa í Y fram þann 22. júní 2006. Auk lögreglu, sem framkvæmdi vörslusviptinguna, voru viðstaddir hana KA, KB og PH frá Búnaðarsambandi Suðurlands. Einnig voru viðstaddir lögmaður Sveitarfélagsins Árborgar, GZ frá landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins, GS verkstjóri sveitarfélagsins auk tveggja smala frá sveitarfélaginu. Öll hross voru rekin heim í rétt þar sem þau voru skoðuð og flokkuð. Ógeltum hestum var komið fyrir í sérstöku vörsluhólfi á vegum sveitarfélagsins. Merum, folöldum, tryppum og geldum hestum var komið fyrir í öðru hólfi í landi Y. Níu hross, sem ekki tókst að handsama, voru skilin eftir í hólfi í Y. Fram kemur í skýrslunni að graðhestar hafi gengið lausir í blönduðu stóði þar sem meðal annars voru niður í
veturgömul tryppi. Á sama stað segir að girðingar hafi víðast hvar verið lélegar og að heima við bæ hafi graðir ungfolar verið haldnir í niðurbitnu litlu hólfi. Í hesthúsi var aðstaða talin slæm.
Í bréfi KA og KB til Sveitarfélagsins Árborgar frá 23. júní 2006 er þeim aðgerðum lýst sem fram fóru deginum áður. Þar segir að graðhestarnir hafi verið á ýmsum aldri í rótnöguðu hólfi og því hafi aðbúnaður þeirra verið óviðunandi. Ákveðið hafi því verið að taka þá úr vörslu kæranda og koma þeim í örugga vörslu og fóðrun. Í hólfinu voru 21 ógeltur foli, fjórir geldingar og tvær hryssur 2-3 vetra sem telja verði sennilegt að séu fylfullar. Allir graðir hestar sem komu fyrir þennan dag, að undanskildum nokkrum sem þurftu sérstakrar aðhlynningar við, voru fluttir að Eyrarbakka, alls 28 hestar. Fram kemur í bréfinu að graðhestarnir yrðu á húsi þar til frestur til andmæla væri liðinn og síðan fluttir í graðhestagirðingu Búfjáreigendafélags Eyrarbakka. Varðandi stóðhrossin voru þau örmerkt sem ekki voru það fyrir og þau rekin niður á mýri austan vegar. Alls fóru þangað 81 hross. Hliðinu á mýrinni var læst og segir í bréfinu að Sveitarfélagið Árborg muni heimila kæranda að flytja hross í sinni eigu annað geti hann sýnt fram á trygga fóðrun og aðbúnað.
Í bréfi Sveitarfélagsins Árborgar til kæranda frá 27. júní 2006 er honum tilkynnt um aðgerðirnar sem fram fóru 22. júní 2006 og gefinn fjögurra daga andmælafrestur til að koma á framfæri mótmælum við vörslusviptinguna. Í bréfinu segir að eftir að andmælafrestur renni út megi kærandi búast við því að graðhestarnir verði seldir upp í áfallinn kostnað eða eftir atvikum aflífaðir, með heimild í 4. mgr. 16. gr. búfjárlaga. Fram kemur í bréfi sveitarfélagsins að aðgerðirnar hafi átt sér stoð í 3. gr., sbr. 18. gr. dýraverndunarlaga og 3. mgr., sbr. 4. mgr., 16. gr. og 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um búfjárhald. Með bréfinu fylgdi yfirlit eða skráning yfir hrossin.
Vörslusviptingunni var mótmælt við Sveitarfélagið Árborg af lögmanni kæranda með bréfi, dags. 30. júní 2006, sem svarað var með bréfi sveitarfélagsins frá 5. júlí 2006. Sveitarfélagið aflétti síðan vörslusviptingunni 11. október sl.
II. Sjónarmið málshefjanda.
Í fyrsta lagi heldur málshefjandi því fram að Sveitarfélagið Árborg hafi farið út fyrir lagaheimildir með afskiptum sínum af þeirri vörslusviptingu sem framkvæmd var af hálfu sýslumannsins á Selfossi þann 22. júní 2006. Byggir málshefjandi þessa fullyrðingu sína á því að sveitarfélagið hafi átt milligöngu milli Landbúnaðarstofnunar og sýslumannsembættisins vegna vörslusviptingarinnar og bendir jafnframt á eftirfarandi erindisrekstur sveitarfélagsins í tengslum við bæði rökstuðning aðgerða og veitingu andmælaréttar vegna umræddrar vörslusviptingar. Í þessu sambandi vísar málshefjandi sérstaklega til bréfs bæjarstjóra til sýslumannsins á Selfossi, dags. 20. júní 2006. Telur málshefjandi að með bréfinu hafi sveitarfélagið farið út fyrir hlutverk sitt og vísar til aðgreiningarreglu stjórnsýsluréttarins því til stuðnings. Einnig vísar málshefjandi til bréfs bæjarstjóra, dags 27. júní sama ár, þar sem málshefjanda var veittur andmælaréttur í tengslum við vörslusviptinguna. Ráðuneytið skilur fullyrðingar málshefjanda svo að hann telji að sveitarfélagið hafi með bréfinu verið að veita honum andmælarétt vegna ákvörðunar sem var á valdi sýslumannsins á Selfossi. Þá telur málshefjandi að með framgöngu sinni í málinu hafi sveitarfélagið bakað sér ótvíræða skyldu til að kanna sjálfstætt grundvöll vörslusviptingarinnar.
Í öðru lagi heldur málshefjandi því fram að aðbúnaður sá er Sveitarfélagið Árborg útvegaði fyrir hross hans í framhaldi af vörslusviptingunni hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru á grundvelli laga. Byggir málshefjandi þessa fullyrðingu sína meðal annars á því að sú girðing sem hélt graðhestum hans sé netgirðing og hæð hennar frá því að vera 97 cm upp í 120 cm og því hafi hún ekki uppfyllt kröfur reglugerðar um girðingar, nr. 748/2002. Þá hafi aðbúnaðurinn stefnt í hættu hrossum málshefjanda vegna hættulegs drasls á víð og dreif í umræddum haga. Vísar málshefjandi í þessu sambandi sérstaklega til mynda er fylgdu kæru hans til ráðuneytisins.
III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar.
Sveitarfélagið Árborg mótmælir fullyrðingum málshefjanda um að farið hafi verið út fyrir lagaheimildir. Vísar sveitarfélagið til þess að það hafi enga afstöðu tekið til þess til hverra úrræða skyldi gripið vegna ástands mála hjá málshefjanda heldur hafi einungis verið óskað eftir því við lögreglustjóra að hann veitti atbeina sinn við að ráða bót á þeim vandamálum sem uppi voru með fóðrun hrossanna í samræmi við lög. Sveitarfélagið vísar jafnframt til þess að þar sem það hafi ekki staðið að umræddri vörslusviptingu þá þyki rétt að þeir aðilar sem stóðu að henni upplýsi um lagagrundvöll fyrir henni, þ.e. sýslumaður og eftir atvikum héraðsdýralæknir. Þá ítrekar sveitarfélagið að það hafi einungis komið upplýsingum um ástand hrossanna til sýslumanns með fyrrgreindu bréfi, dags. 20. júní 2006, og að það hafi verið gert í kjölfar ítrekaðra upplýsinga frá héraðsdýralækni (KA) um bágborið ástand mála.
Varðandi bréf bæjarstjóra, dags. 27. júní 2006, þar sem málshefjanda var veittur andmælaréttur í tengslum við vörslusviptinguna, bendir sveitarfélagið sérstaklega á að tilgangur bréfsins hafi verið að kynna málshefjanda hver hefði vörslur hrossa hans og einnig að veita honum tækifæri á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri af því tilefni. Sveitarfélagið telur að misskilnings hafi gætt hjá málshefjanda varðandi þetta atriði og þannig hafi málshefjandi talið að sveitarfélagið hafi verið að veita honum andmælarétt vegna vörslusviptingarinnar sjálfrar með umræddu bréfi. Þá vísar sveitarfélagið jafnframt í þessu sambandi til þess að í bréfi bæjarstjóra, dags. 5. júlí 2006, hafi enn verið áréttað að umrædd vörslusvipting hafi ekki verið á vegum sveitarfélagsins og að aðkoma þess að málinu snúi eingöngu að geymslu, fóðrun og umhirðu hrossanna.
Sveitarfélagið mótmælir þeirri staðhæfingu málshefjanda að það hafi skapað sér skyldu til að kanna sjálfstætt grundvöll vörslusviptingarinnar. Sveitarfélagið hafi ekki haft neitt forræði á málinu og því hafi ekki verið neinn grundvöllur eða þörf fyrir slíkri könnun af hálfu þess.
Varðandi aðbúnað þann sem sveitarfélagið útvegaði til vörslu og fóðrunar hrossanna vísar sveitarfélagið í umsögn sinni til þess að dýralæknir hafi skoðað öll hrossin eftir vörslur sveitarfélagsins og niðurstaða þeirrar læknisskoðunar hafi leitt í ljós að ekkert sem máli skipti í þessu sambandi hafi fundist að heilsu eða ástandi hrossanna. Því sé ljóst að vörslur, umönnun og fóðrun umræddra hrossa hafi verið forsvaranleg.
IV. Niðurstaða ráðuneytisins.
A. Almennt.
Málshefjandi setur erindi sitt fram í formi stjórnsýslukæru til félagsmálaráðuneytisins og krefst þess aðallega að málið verði tekið fyrir á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, en tekur fram í erindi sínu að telji ráðuneytið að þættir málsins séu ekki kæranlegir á þeim grundvelli þá sé þess krafist að ráðuneytið taki þá til athugunar á grundvelli eftirlitshlutverks síns, sbr. 102. gr. sömu laga.
Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Ákvæðið hefur verið túlkað á þann veg að ráðuneytið fjalli einkum um mál er varða stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir sem kveða einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.
Fyrra atriðið sem krafist er úrskurðar um varðar aðkomu Sveitarfélagsins Árborgar að ákvörðun sýslumannsins á Selfossi um vörslusviptingu hrossa. Ljóst er að mati ráðuneytisins að sveitarfélagið tók ekki stjórnvaldsákvörðun í þessu sambandi heldur annað lögbært embætti. Það eitt að koma á framfæri upplýsingum til annars stjórnvalds verður ekki talið til stjórnvaldsákvarðana sveitarfélags. Síðara atriðið er varðar aðbúnað þann er Sveitarfélagið Árborg útvegaði til vörslu hrossa málshefjanda varðar framkvæmd sveitarfélagsins á skyldum sínum í framhaldi af ákvörðun sýslumannsins um vörslusviptingu. Um var því
að ræða framkvæmdaatriði byggt á skyldu sveitarfélags, sbr. meðal annars 6. mgr. 16. gr. laga um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, sem ekki telst stjórnvaldsákvörðun í framangreindum skilningi.
Sú aðkoma sveitarfélagsins að máli þessu sem málshefjandi hefur krafist úrskurðar um er að mati ráðuneytisins því ekki þess eðlis að talin verði til stjórnvaldsákvarðana. Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið að málið sé ekki tækt til úrskurðar á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Ástæða er hins vegar til að ráðuneytið taki þetta mál til athugunar á grundvelli eftirlitshlutverks ráðuneytisins með því að sveitarstjórnir fari að lögum í störfum sínum, sbr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga.
B. Um aðkomu Sveitarfélagsins Árborgar að ákvörðun um vörslusviptingu.
Málshefjandi heldur því fram að Sveitarfélagið Árborg hafi farið út fyrir lagaheimildir með afskiptum sínum af þeirri vörslusviptingu sem framkvæmd var af hálfu sýslumannsins á Selfossi þann 22. júní 2006. Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. laga um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, skal lögreglustjóri taka ákvörðun um vörslusviptingu búfjár. Ljóst er af gögnum máls þessa að sýslumaðurinn á Selfossi, sem hefur embætti lögreglustjóra á hendi, tók þá ákvörðun að svipta málshefjanda vörslum framangreindra hrossa í samræmi við heimild 3. mgr. 16. gr. laga nr. 103/2002.
Málshefjandi telur að sveitarfélagið hafi haft áhrif á umrædda ákvarðanatöku með tilteknum bréfasendingum til sýslumannsins. Nánar tiltekið er hér átt við bréf bæjarstjóra, dags. 20. júní 2006, en málshefjandi heldur því fram að með bréfinu hafi bæjarstjóri krafist þess að hann yrði sviptur vörslum hrossanna.
Af ákvæðum laga nr. 103/2002 er ljóst að sveitarfélög hafa víðtækt hlutverk að því er varðar eftirlit með búfjárhaldi, sbr. meðal annars ákvæði IV. kafla þeirra laga, en aðgerðir í máli málshefjanda hafa byggst á ákvæðum þess kafla. Er rétt í þessu sambandi að tilgreina að í 16. gr. laga nr. 103/2002 segir meðal annars:
„Komi í ljós að fóðrun eða aðbúnaði búfjár er ábótavant skal búfjáreftirlitsmaður tilkynna það sveitarstjórn og héraðsdýralækni samdægurs. Hver sá sem verður var við að umráðamann búfjár skorti hús, fóður eða beit fyrir búfé sitt, hann vanfóðri það eða beiti það harðýðgi skal tilkynna það héraðsdýralækni. Berist upplýsingar um vanfóðrun, harðýðgi eða slæman aðbúnað búfjár beint til dýralæknis, búnaðarsambands eða lögreglu skal tilkynna það héraðsdýralækni samdægurs. Hann skal þá innan tveggja sólarhringa fara á staðinn og meta ástand búfjárins og aðbúnað. Héraðsdýralækni er skylt að kalla til héraðsráðunaut og/eða fulltrúa Landbúnaðarstofnunar sér til aðstoðar við aðgerðir samkvæmt þessari grein. Héraðsdýralæknir og héraðsráðunautur eða fulltrúi Landbúnaðarstofnunar skulu gefa umráðamanni búfjár skrifleg fyrirmæli um ráðstafanir telji þeir það nauðsynlegt og upplýsa sveitarstjórn um málið. Veita skal mest einnar viku frest til úrbóta ef um vanfóðrun eða harðýðgi er að ræða en mest þriggja vikna frest ef aðbúnaði er ábótavant og skal gefa umráðamanni búfjár mest fjögurra sólarhringa frest til andmæla.
...
Virði umráðamaður búfjár ekki þær ráðstafanir sem lagðar voru fyrir eða geti ekki orðið við þeim og/eða héraðsdýralæknir telur úrbætur ekki þola bið skal lögreglustjóri taka búfé úr vörslu umráðamanns búfjár innan tveggja sólarhringa.
Lögreglustjóri skal ráðstafa búfé í samráði við héraðsdýralækni og sveitarstjórn eftir vörslusviptingu. Heimilt er að aflífa búféð að undangengnum fjögurra sólarhringa andmælafresti umráðamanns búfjár."
Auk framangreindra ákvæða laga um búfjárhald o.fl. gilda í þessu sambandi ákvæði stjórnsýslulaga, svo sem ákvæði 7. gr. um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, en þar segir í 2. mgr.: „Berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er."
Að mati ráðuneytisins er ljóst að með umræddu bréfi frá 20. júní 2006 hafi sveitarfélagið verið að bregðast við ítrekuðum tilmælum og ábendingum héraðsdýralæknis um slæman aðbúnað hrossa málshefjanda. Fallist má á það með málshefjanda að miðað við ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 103/2002 hefði verið eðlilegra af héraðsdýralækni að tilkynna lögreglustjóra beint um umrætt ástand, en eftir að sveitarfélaginu höfðu borist tilmæli dýralæknisins verður að teljast eðlileg stjórnsýsluframkvæmd að sveitarfélagið geri lögreglustjóra viðvart um málið, ekki síst á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.
Ljóst er að lögreglustjóri tekur sjálfstæða ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna um hvort skilyrði fyrir vörslusviptingu á grundvelli 16. gr. laga nr. 103/2002 séu fyrir hendi. Það getur á engan hátt verið í verkahring félagsmálaráðuneytisins að leggja mat á hvaða gögn hafi vegið þyngst við ákvörðun lögreglustjóra í máli þessu, hvort fullnægjandi gögn hafi verið fyrir hendi eða hvort lögreglustjóri hafi verið undir einhvers konar óeðlilegum áhrifum við meðferð málsins.
Málshefjandi hefur bent á það að með bréfi bæjarstjóra, dags. 27. júní 2006, hafi málshefjanda verið veittur andmælaréttur vegna vörslusviptingar sem var á valdi lögreglustjóra. Sveitarfélagið hefur skýrt þetta svo að með bréfinu hafi það einungis verið að tilkynna málshefjanda um að hross hans væru í vörslum þess og gefa honum tækifæri á að koma að sjónarmiðum sínum í því sambandi.
Að mati ráðuneytisins verður vart litið öðruvísi á málið en svo að tilgangurinn með framangreindu bréfi bæjarstjóra hafi verið að tilkynna málshefjanda um vörslur sveitarfélagsins á hrossum hans og jafnframt að veita honum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tengslum við vörslur sveitarfélagsins. Jafnframt er unnt að líta svo á að með bréfinu hafi verið veittur andmælaréttur vegna hugsanlegrar aflífunar búfjár á grundvelli 4. mgr. 16. gr. laga nr. 103/2002. Ekki er beinlínis tekið fram í ákvæðinu hvaða aðili ber skyldu til að veita andmælarétt. Þrátt fyrir að lögreglustjóri beri ábyrgð á aflífun búfjár, sbr. 5. mgr. 16. gr. sömu laga, er ljóst að búféð er á þessu stigi í vörslum sveitarfélagsins. Af þessum sökum telur ráðuneytið ekki óeðlilegt að bæjarstjóri hafi í bréfi sínu vakið athygli málshefjanda á andmælarétti hans í þessu sambandi.
Málshefjandi hefur bent á að með framgöngu sinni í málinu hafi sveitarfélagið bakað sér ótvíræða skyldu til að kanna sjálfstætt grundvöll vörslusviptingarinnar. Með hliðsjón af öllu framangreindu getur ráðuneytið ekki fallist á þennan skilning málshefjanda. Ákvörðun um vörslusviptingu er á valdi og á ábyrgð lögreglustjóra og því getur sveitarfélagið lögum samkvæmt ekki haft skyldu til að kanna hvort grundvöllur lögreglustjóra fyrir slíkri ákvörðun sé fyrir hendi eða ekki. Ef leggja ætti þennan skilning málshefjanda til grundvallar væri í raun verið að játa sveitarfélaginu heimild til að endurskoða ákvarðanir lögreglustjóra í þessum málum og eru engar lagaheimildir fyrir slíkri skipan mála.
C. Um aðbúnað Sveitarfélagsins Árborgar við vörslu hrossa málshefjanda.
Málshefjandi telur að aðbúnaður sá er Sveitarfélagið Árborg útvegaði fyrir hross hans vegna vörslusviptingarinnar hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru á grundvelli laga. Eins og áður segir byggir málshefjandi þessa fullyrðingu sína meðal annars á því að sú girðing sem hélt graðhestum hans sé netgirðing og hæð hennar frá því að vera 97 cm upp í 120 cm og því hafi hún ekki uppfyllt kröfur reglugerðar um girðingar, nr. 748/2002. Þá hafi aðbúnaðurinn stefnt í hættu hrossum málshefjanda vegna hættulegs drasls á víð og dreif í umræddum haga.
Sveitarfélagið vísar í þessu sambandi til þess að dýralæknir hafi skoðað öll hrossin eftir vörslur sveitarfélagsins og niðurstaða þeirrar læknisskoðunar hafi leitt í ljós að ekkert sem máli skipti í þessu sambandi hafi fundist að heilsu eða ástandi hrossanna. Því sé ljóst að vörslur, umönnun og fóðrun umræddra hrossa hafi verið forsvaranleg.
Á grundvelli girðingalaga, nr. 135/2001, hefur landbúnaðarráðherra sett reglugerð um girðingar, nr. 748/2002. Í 14. gr. reglugerðarinnar eru skilgreindar lágmarkskröfur varðandi vörslu stóðhesta. Er gert ráð
fyrir að girðing skuli að minnsta kosti vera 1,10 m, sbr. 1. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar, auk þess sem bæta skal við hana 2–3 gaddavírsstrengjum þannig að hæð hennar verði allt að 1,30 m, sbr. 2. tölul. 14. gr. sömu reglugerðar.
Samkvæmt málshefjanda var hæð girðingarinnar frá því að vera 97 cm þar sem lægst var og upp í 120 cm. Sveitarfélagið Árborg hefur ekki andmælt þessum staðhæfingum málshefjanda sem röngum og því verður við það miðað að þær séu réttar. Er að mati ráðuneytisins ljóst að vörslum umræddra stóðhesta af hálfu sveitarfélagsins hafi verið ábótavant að þessu leyti og beinir ráðuneytið þeim tilmælum til sveitarfélagsins að fylgt verði umræddum reglum í framtíðinni. Það breytir engu um skyldur sveitarfélagsins að þessu leyti að hrossin hafi verið við góða heilsu að lokinni vörslu sveitarfélagsins. Reglur laga og stjórnvaldsfyrirmæla hafa að geyma vel skilgreind viðmið hvað varðar girðingar sem sveitarfélaginu er skylt að uppfylla í þessu sambandi burtséð frá því hvort brot á þeim leiði til tjóns eða ekki.
Þá hefur málshefjandi eins og áður segir bent á að aðbúnaður hafi verið ófullnægjandi þar sem hrossum hans hafi stafað hætta af drasli í þeim haga er varslan fór fram. Í gögnum málsins er að finna myndir frá málshefjanda og má þar sjá ryðgaðan gaddavír og annað málmrusl innan girðingar þeirrar þar sem hrossum hans var haldið. Sveitarfélagið Árborg bendir hins vegar í þessu sambandi á úttekt á ástandi hrossanna að lokinni vörslu sveitarfélagsins.
Í lögum um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, og reglugerð um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa, nr. 160/2006, sem sett er á grundvelli þeirra laga er ekki að finna ákvæði er skilgreina sérstaklega hvernig aðbúnaði hrossa skuli háttað innan beitarhólfa eða girðinga utan þess sem tilgreint er varðandi skjól fyrir hrossin. Eru því ekki fyrir hendi lagaskilyrði fyrir félagsmálaráðuneytið til að leggja mat á aðbúnað hrossanna að þessu leyti.
Beðist er velvirðingar á að afgreiðsla máls þessa hefur dregist en það stafar af miklum önnum í ráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Stefanía Traustadóttir (sign.)