Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Austur-Eyjafjallahreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 23. maí 1998

Sigurður Sigurjónsson                                         30. október 1998                                               98060064

Ytri-Skógum, Austur-Eyjafjallahreppi                                                                                                      1022

861 Hvolsvöllur

 

 

 

 

 

             Hinn 30. október 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 18. júní 1998, kærðu Sigurður Sigurjónsson, Ytri-Skógum, Austur-Eyjafjallahreppi, og Magnús Eyjólfsson, Hrútafelli, Austur-Eyjafjallahreppi, til félagsmálaráðuneytisins úrskurð, dagsettan 12. júní 1998, sem nefnd skv. 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kvað upp um ágreining um gildi kjörskrár og kjörseðla í sveitarstjórnarkosningum í Austur-Eyjafjallahreppi hinn 23. maí 1998. Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Ráðuneytið óskaði með bréfi, dagsettu 23. júní 1998, til sýslumannsins á Hvolsvelli eftir að afrit af öllum gögnum sem varða rannsókn framangreindrar nefndar á málinu yrðu send ráðuneytinu. Gögnin bárust ráðuneytinu hinn 25. júní 1998.

 

             Við meðferð málsins hjá ráðuneytinu var talið óhjákvæmilegt að kanna frekar atvik varðandi flutning á lögheimili þeirra þrettán einstaklinga, sem tilgreindir eru í kærunni, meðal annars með því að upplýsa hvort þeir hafi í raun flutt í sveitarfélagið eða ekki. Var fyrst með bréfi, dagsettu 21. júlí 1998, óskað eftir að sýslumaðurinn á Hvolsvelli rannsakaði málið meðal annars með vísan til d-liðar 92. gr. laga nr. 5/1998. Svar barst frá sýslumanninum með bréfi, dagsettu 17. ágúst 1998, þar sem tekið var fram að embættið teldi ekki efni til að svo stöddu að hefja rannsókn á meintum kosningaspjöllum. Var þá með vísan til 14. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1952 óskað með bréfi, dagsettu 26. október 1998, eftir greinargerð frá sýslumanninum um hvort einhverjir af umræddum einstaklingum hefðu uppfyllt skilyrði 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 varðandi fasta búsetu í Austur-Eyjafjallahreppi er þeir tilkynntu lögheimilisflutning í sveitarfélagið fyrr á þessu ári. Greinargerð sýslumannsins barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 28. október 1998.

 

             Auk framangreindra gagna aflaði ráðuneytið upplýsinga frá Hagstofu Íslands, þjóðskrá, er málið vörðuðu.

 

I.          Málavextir og málsástæður.

 

             Með bréfi til sýslumannsins á Hvolsvelli, dagsettu 29. maí 1998, kærðu Sigurður Sigurjónsson, Ytri-Skógum, Austur-Eyjafjallahreppi, og Magnús Eyjólfsson, Hrútafelli, Austur-Eyjafjallahreppi, gildi kjörskrár og kjörseðla í sveitarstjórnarkosningum í Austur-Eyjafjallahreppi hinn 23. maí 1998.

 

             Niðurstaða kosninganna var sú að E-listi hlaut 68 atkvæði og þrjá menn kjörna en L-listi hlaut 56 atkvæði og tvo menn kjörna. Auðir og ógildir seðlar voru þrír.

 

             Kæran barst sýslumanninum á Hvolsvelli hinn 29. maí 1998. Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 skipaði sýslumaður hinn 4. júní 1998 nefnd til að úrskurða í málinu. Nefndin kvað upp úrskurð sinn hinn 12. júní 1998 að fenginni umsögn kjörstjórnar Austur-Eyjafjallahrepps. Auk þess hélt nefndin fund þann 10. júní 1998 með kærendum, kjörstjórn og hreppsnefnd.

 

             Nefndin lýsti málavöxtum og málsástæðum með eftirfarandi hætti:

             “Byggt er á því að 13 kjörgengir einstaklingar sem nánar eru tilgreindir í kæru, hafi flutt lögheimili sitt í sveitarfélagið í apríl s.l., án þess að sá lögheimilisflutningur sé í samræmi við skilyrði 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Þessir aðilar eigi því ekki rétt á að vera á kjörskrá Austur-Eyjafjallahrepps því þeir uppfylli ekki lögbundin skilyrði til þess. Telja kærendur að d-liður 92. gr. laga 5/1998 hafi gagngert verið settur til að koma í veg fyrir slíka lögheimilisflutninga, enda þyki ekki eðlilegt að menn taki þátt í vali á sveitarstjórn í sveitarfélagi þar sem þeir eiga ekki hagsmuna að gæta. Loks telja kærendur að sumir kjósendur í sveitarfélaginu hafi setið heima, í stað þess að neyta kosningarréttar síns, þar sem þeim hafi fundist vegið að rétti sínum sem íbúa sveitarfélagsins til að hafa áhrif á umhverfi sitt og stjórn þess. Kærandi sem sæti átti í hreppsnefnd, ásamt öðrum hreppsnefndarmanni lögðu fram mótmæli við kjörskrá á hreppsnefndarfundi þann 12. maí s.l., og létu bóka sömu mótmæli og koma fram í kæru þessari. ...

             Kærendur telja að kjörseðlar hafi ekki uppfyllt skilyrði 37. gr. laga 5/1998, þar sem seðlarnir hafi ekki verið með upphleyptu letri eða aðgreindir með upphleyptum langstrikum. Þannig eigi að aðgreina listana með feitum langstrikum. Telja kærendur að listarnir hafi ekki verið nægilega aðgreindir þannig að kjósendur gætu greint hvorn listann þeir voru að kjósa. ...

             Kærendur telja framangreinda annmarka hafa haft áhrif á úrslit kosninganna, en einungis skildu 12 atkvæði listana 2. E-listi hlaut 68 atkvæði, L-listi 56 atkvæði 2 atkvæði voru auð og 1 ógilt. Hefði kosning verið gallalaus telja kærendur einsýnt að úrslit hefðu orðið önnur.

             Svör kjörstjórnar:

             1. Kjörskrá

             Kjörstjórn bendir á að undirbúningur og gerð kjörskrár sé samkvæmt III. kafla laga 5/1998, ekki á vegum kjörstjórnar. Bendir hún á að engar athugasemdir hafi borist við kjörskrá á meðan hún lá frammi.

             2. Kjörseðlar.

             Kjörstjórn segir kjörseðla vera sömu gerðar og notaðir voru í fjölmörgum öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi. Bendir kjörstjórn á, að í lögum nr. 5/1998 sé ekkert ákvæði er kveði á um að kjörseðlar skuli vera upphleyptir. Telur kjörstjórn að kjörseðlar hafi að öllu leyti verið í samræmi við 37. gr. laga 5/1998, og bendir á að ekki séu aðrar línur á seðlinum “feitari“ en línan er aðskilur listana. Telur kjörstjórn að gerð kjörseðla geti á engan hátt hafa haft áhrif á úrslit kosninga, enda hafi aðeins 1 atkvæði verið metið ógilt, auðir seðlar verið 2 og 8 manns á kjörskrá hafi ekki neytt atkvæðisréttar, og kjörsókn hafi verið 94,1%.

             Svar oddvita hreppsnefndar vegna kjörskrár:

             Í bréfi dags. 4. þ.m., upplýsir Margrét Einarsdóttir oddviti, að kjörskrá byggð á upplýsingum frá Hagstofu Íslands, hafi verið lögð fram, yfirfarin og samþykkt á fundi hreppsnefndar Austur Eyjafjallahrepps þann 12. maí s.l. Kjörskráin hafi legið frammi á skrifstofu hreppsins í tilskilinn tíma og hafi tilkynningar þess efnis verið hengdar uppi á auglýsingatöflu í félagsheimilinu Fossbúð og í söluskálanum á Steinum. Hreppsnefnd hafi engar athugasemdir borist vegna framlagðar kjörskrár.“

 

             Jafnframt er í úrskurðinum greint svo frá fundi sem nefndin átti þann 10. júní 1998 með kærendum, kjörstjórn og hreppsnefnd:

             “Var fundarmönnum þar fyrst gerð grein fyrir því að formanni úrskurðarnefndar hefði borist yfirlýsing eins hinna 13 einstaklinga sem athugasemdir voru gerðar við, að hann hefði ekki neytt kosningarréttar og staðfesti kjörstjórn það.

             1. Kjörskráin

             Greindi oddviti aðspurð frá því að 20 manns hefðu flutt lögheimili sitt í sveitarfélagið í apríl s.l., og þar af 16 kosningabærir einstaklingar.

             Aðspurður sagði annar kærenda, Magnús Eyjólfsson, að þeir hefðu kært þá 13 af þessum aðilum sem þeir teldu vera stuðningsmenn meirihluta, en hina 3 hefðu þeir talið líklega stuðningsmenn minnihluta og því séu þeir ekki kærðir. Tók hinn kærandinn þá fram að það hafi verið hann og Sigurður Björgvinsson sem lagði fram bókunina á hreppsnefndarfundinum þann 12. maí, varðandi 13 menningana, og að skráð orð Magnúsar séu hans eigin, en ýmsum aðilum hafi verið sleppt sem einnig höfðu nýlega flutt.

             Aðspurðir um gögn fyrir ásökunum sínum um hvatir að baki lögheimilisflutningum þessara 13 aðila, kváðust kærendur ekki hafa annað að byggja á en sitt huglæga mat, og gátu þeir ekki lagt fram nein frekari gögn er styddu þessa skoðun.

             Aðspurðir sögðu kærendur að þeir hefðu ekki kært kjörskrá þegar hún lá fyrir, því þeir hefðu haft þær upplýsingar úr félagsmálaráðuneyti að þess þyrfti ekki, þar eð þeir hefðu látið bóka athugasemd á hreppsnefndarfundinum 12. maí s.l.

             Einn úr kjörstjórn lýsti því að margir þessara 13 aðila hefðu starfað við kennslu í sveitarfélaginu án þess að flytja lögheimili sitt fyrr en nú.

             Loks lýsti kjörstjórn því að mögulegt væri að þessi 12 atkvæði er hér um ræðir gætu breytt úrslitum kosninga.

             2. Kjörseðillinn

             Fyrst var það upplýst af kjörstjórn að engar athugasemdir hafi verið gerðar á kjörstað við gerð kjörseðilsins.

             Aðspurð sagði kjörstjórn að á kjörstað hafi ekki verið spjald með upphleyptu blindraletri. Hinsvegar væri aðeins ein sjónskert manneskja í sveitarfélaginu, og hefði henni verið kynntur réttur sinn til að óska aðstoðar, sem hún hefði ekki notfært sér.

             Um áhrif meints galla á kjörseðlinum, telja kærendur að hugsanlega hafi 1 atkvæði orðið ógilt vegna hans, en segja að umkvörtun snúi að ónógri aðstoð við sjónskerta og að skil milli lista á seðlinum hafi ekki verið nægilega skörp. Einn og sér dugi hinn gallaði kjörseðill þó ekki til að hafa áhrif á úrslit kosninga, að mati kærenda.“

 

             Niðurstöðu sína rökstuddi nefndin með eftirfarandi hætti:

             “Í máli þessu hafa ekki verið lögð fram nein þau gögn er stutt geta þá ásökun kærenda, að hver og einn hinna 13 einstaklinga er þeir vilja láta taka af kjörskrá, hafi flutt lögheimili sitt til málamynda í Austur Eyjafjallahrepp í andstöðu við d-lið 92. gr. laga 5/1998. Telur úrskurðarnefndin það ekki í sínu valdi að meta það hvaða hvatir lágu að baki hjá hverjum og einum að flytja lögheimili sitt í sveitarfélagið. Bendir nefndin einnig á að ekki komu fram neinar athugasemdir við kjörskrá, utan þá er minnihluti hreppsnefndar lagði fram á fundinum 12. maí s.l. Lítur nefndin svo á að hreppsnefnd hafi þá í samræmi við 10. gr. svkosnl., tekið á þessu álitaefni. Sú ákvörðun var ekki borin undir dómstóla.

             Hreppsnefnd samdi kjörskrá í samræmi við 4. gr. laga 5/1998, sem var almenningi til sýnis í samræmi við 9. gr. svkosnl., og komu engar athugasemdir fram við kjörskrá, önnur en sú er áður er lýst.

             Úrskurðarnefnd sér ekki grundvöll til að ógilda hinar kærðu kosningar á þeim grunni að kjörskrá hafi ekki verið rétt, enda virðist hún uppfylla öll þau formskilyrði sem upp eru talin í lögum nr. 5/1998 um sveitarstjórnarkosningar.

             Varðandi gerð kjörseðils telur nefndin að gerð hans sé í fullu samræmi við fyrirmæli 37. gr. svkosnl. Ekki eru gerðar kröfur um upphleypt letur og línu á seðlinum sjálfum í lögunum. Þá er lína sú er skilur milli lita feitletruð, þó ekki sé línan breiðari en línan er myndar kassa utan um framboðslistana báða, þó betra sé að svo hefði verið. Skil milli lista á kjörseðli eru að mati nefndarinnar nægilega skýr. Gerð kjörseðils veldur því ekki ein og sér ógildi kosninga.

             Nefndin telur hinsvegar að þá athugasemd verði að gera við framkvæmd kosninganna, að í kjörklefa var ekki spjald með upphleyptu blindraletri, svo er 2. mgr. 57. gr. laganna kveður skýrt á, upplýst hefur verið að þetta hafði þó engin áhrif á úrslit kosninganna.“

 

             Niðurstaða nefndarinnar var því sú að sveitarstjórnarkosningarnar í Austur-Eyjafjallahreppi sem fram fóru hinn 23. maí 1998 væru gildar.

 

             Eins og áður hefur komið fram kærðu Sigurður Sigurjónsson og Magnús Eyjólfsson úrskurðinn til félagsmálaráðuneytisins hinn 18. júní 1998. Til viðbótar röksemdafærslum í upphaflegri kæru til sýslumannsins á Hvolsvelli taka kærendur fram að við skýringu á því hvort viðkomandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu eigi að fara eftir 1. og 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990. Í kærunni kemur meðal annars fram að “kærendur telja að ofangreindir einstaklingar eigi ekki rétt á að vera á kjörskrá Austur-Eyjafjallahrepps, þar sem þeir uppfylli ekki lögbundin skilyrði í því sambandi, og lögheimili þeirra hafi verið flutt aðeins til að verða settir þar á kjörskrá. Í því sambandi vilja kærendur benda á að til dæmis hafi lögheimili tveggja einstaklinga verið flutt til oddvita, Margrétar Einarsdóttur að Skógum, og lögheimili tveggja til varaoddvita, Ólafs Tryggvasonar að Raufarfelli.“ Jafnframt benda kærendur á að ákvæði d-liðar 92. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 sé ætlað að “stemma stigu við slíkum flutningum skömmu fyrir kosningar, enda þykir ekki eðlilegt að menn taki þátt í vali sveitarstjórna í þeim sveitarfélögum þar sem þeir hafa ekki hagsmuna að gæta.“

 

             Kærendur gera ennfremur athugasemdir við vinnubrögð úrskurðarnefndar en um það segir meðal annars að “um sé að ræða stjórnsýslunefnd sem úrskurða ber í slíkum málum og á henni hvílir því m.a. sú skylda að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærendur telja að það sé á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að úrskurða um hvort lögheimili þeirra aðila, sem áður eru taldir, hafi verið flutt til þess að hafa áhrif á úrslit kosninganna í Austur-Eyjafjallahreppi, og hafi nefndinni því borið að leita eftir athugasemdum frá þeim aðilum, sem kærendur nefna í kæru sinni, enda liggur fyrir að það yrði sérlega erfitt og í raun útilokað fyrir kærendur að annast slíkt.“ Kærendur telja einsýnt að ef kosningin hefði verið gallalaus hefðu úrslitin getað orðið önnur þar sem einungis tólf atkvæði skildu milli framboðslistanna tveggja.

 

             Í kærunni kemur einnig fram að “kærendur telja að kjörseðlar hafi ekki uppfyllt skilyrði 37. gr. laga nr. 5/1998, þar sem seðlarnir hafi ekki verið með upphleyptu letri eða aðgreindir með upphleyptum langstrikum. Skil milli lista á seðlinum hafi ekki verið nægilega skörp.“ Ennfremur segir “að ákvæði VII. kafla laga nr. 5/1998 byggi á því að kjörseðlar séu skýrir og þeir sem kosningarrétt eiga samkvæmt greindum lögum geti greint hvaða lista þeir eru að kjósa.“

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Um kjörskrá.

 

          Í 4. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 segir að sveitarstjórnir geri kjörskrár til sveitarstjórnarkosninga á grundvelli kjörskrárstofna sem Hagstofa Íslands (þjóðskrá) lætur þeim í té. Ennfremur segir svo í 5. gr. laganna: “Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 2. gr. og skráðir voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag.“ Sveitarstjórnarkosningar fóru fram 23. maí 1998 og var viðmiðunardagur kjörskrár því 2. maí 1998.

 

             Hagstofa Íslands, þjóðskrá, sendi öllum sveitarstjórnum bréf, dagsett 20. apríl 1998, þar sem vakin er athygli á nýjum ákvæðum laga varðandi viðmiðunardag kjörskrár. Í bréfinu segir síðan meðal annars:

             “Þetta þýðir að kjörskrárstofnar Hagstofunnar, sbr. 4. gr. laganna, vegna sveitarstjórnarkosninganna 23. maí 1998, verða miðaðir við skráð lögheimili manna í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 2. maí 1998.

             Sveitarstjórnir verða því á næstu dögum að senda Hagstofunni jafnóðum allar tilkynningar sem þeim berast um breytt lögheimili manna og eigi síðar en 2. maí 1998. Hægt er að senda flutningstilkynningar í bréfasíma þjóðskrár: 562-3312.

             Lögheimilisflutningar milli sveitarfélaga, sem eiga sér stað eftir 2. maí 1998, koma ekki til álita við sveitarstjórnarkosningar í vor.“

 

             Hagstofa Íslands sendi síðan kjörskrárstofna til allra sveitarfélaga í vikunni eftir viðmiðunardag kjörskrár og voru stofnarnir miðaðir við þær tilkynningar um lögheimilisflutninga sem borist höfðu Hagstofunni 2. maí eða fyrr.

 

             Á kjörskrárstofn vegna sveitarstjórnarkosninga í Austur-Eyjafjallahreppi hinn 23. maí 1998 voru því tekin nöfn allra þeirra íbúa sveitarfélagsins, sem fullnægðu kosningarréttarskilyrðum hinn 2. maí 1998, sbr. 2. gr. laga nr. 5/1998. Tilkynningar um lögheimilisflutninga þeirra þrettán einstaklinga sem um ræðir bárust Hagstofu Íslands, þjóðskrá, allir fyrir 2. maí 1998 og voru þeir því á kjörskrárstofni þeim sem Hagstofan sendi Austur-Eyjafjallahreppi, sbr. framangreint.

 

             Um heimild til að leiðrétta kjörskrárstofn þann sem Hagstofa Íslands sendir frá sér er fjallað í 10. gr. laga nr. 5/1998 og er ákvæðið svohljóðandi:

             “Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Slíka leiðréttingu má gera fram á kjördag.

             Óheimilt er að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hefur ekki borist þjóðskrá fyrir þann tíma er greinir í 5. gr.

             Sveitarstjórn skal enn fremur fram á kjördag leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát eða um að einhver hafi öðlast, eftir atvikum misst, íslenskt, danskt, finnskt, norskt eða sænskt ríkisfang.“

 

             Samkvæmt þessu ákvæði er það því sveitarstjórn sem sér um að leiðrétta kjörskrárstofn eftir því sem tilefni gefst til. Þau tilefni geta einkum varðað öflun eða glötun ríkisfangs, lát manns, íslenskur ríkisborgari er dvelur erlendis uppfyllir skilyrði laganna um kosningarrétt og hefur af einhverjum ástæðum ekki verið færður á kjörskrá. Þá verður einnig að líta svo á að hér geti einnig átt undir mistök við kjörskrársamningu (einstaklingur verið ranglega tekinn af henni eða bætt við), þ.e. t.d. ef flutningur hefur verið unninn ranglega af Hagstofu Íslands, sveitarstjórnir hafa vanrækt að koma flutningstilkynningum til Hagstofunnar eða þær misfarist.

 

             Skýrt kemur fram í 5. gr. laga nr. 5/1998 að taka skuli þá á kjörskrá sem uppfylla skilyrði 2. gr. laganna og skráðir voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Um skráningu lögheimilis gilda lög um lögheimili nr. 21/1990 og í 1. og 2. mgr. 1. gr. þeirra laga segir svo:

             “Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.

             Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

 

             Verður ekki annað ráðið af öllum framangreindum lagaákvæðum en að kjörskrá skuli almennt endurspegla fasta búsetu í landinu og að einstaklingur skuli hafa kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann á fasta búsetu þann dag er þrjár vikur eru til kjördags, þ.e. þar sem hann á með réttu að hafa skráð lögheimili.

 

             Miðað við fyrrgreind ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, sbr. lög um lögheimili nr. 21/1990, verður því að telja að efnislegar forsendur verði að liggja að baki tilkynningum um breytingar á lögheimilisskráningu. Efnislega röng lögheimilisskráning getur þannig leitt til þess að notuð verði röng kjörskrá við kosningar. Verða slík vinnubrögð ætíð talin ámælisverð og geta þau leitt til ógildingar kosninga.

 

             Í niðurstöðum greinargerðar embættis sýslumannsins á Hvolsvelli frá 28. október 1998 segir svo:

             “Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir þeirri vitneskju sem undirritaður hefur varðandi umrædda 13 einstaklinga sem kærendur sveitarstjórnarkosninga í Austur-Eyjafjallahreppi hafa talið að ætti að strika út af kjörskrá. Eftir að hafa farið lauslega yfir aðstæður viðkomandi virðist undirrituðum óhætt að fullyrða með nokkurri vissu að u.þ.b. helmingur þessara einstaklinga hafi fullnægt skilyrðum þeirra lagaákvæða sem vísað er til í bréfi yðar. Jafnframt virðist undirrituðum langflestir hafa haft gildar ástæður fyrir flutningi lögheimilis, þótt undirrituðum dyljist ekki að fyrirhugaðar sveitarstjórnarkosningar hafi ýtt á viðkomandi að breyta skráningu fyrir þá fresti sem settir voru í lögum um sveitarstjórnarkosningar.“

 

             Af gögnum málsins er ljóst að einn hinna umræddu þrettán einstaklinga greiddi ekki atkvæði við sveitarstjórnarkosningarnar í Austur-Eyjafjallahreppi hinn 23. maí 1998. Í framboði voru tveir listar og munaði tólf atkvæðum á þeim. Ætla má því að tólf atkvæði gætu hafa haft áhrif á úrslit kosninganna, því ef listarnir hefðu hlotið jafnmörg atkvæði hefði þurft að hluta til um hvor listinn fengi 5. mann kjörinn í hreppsnefndina. Ráðuneytið telur hins vegar ljóst af greinargerð sýslumannsins á Hvolsvelli að efnislegar forsendur hafi verið að baki lögheimilisskráningu um helmings umræddra einstaklinga í sveitarfélaginu. Af þeim sökum og með vísan til 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 verður því ekki talið að forsendur séu til að ógilda sveitarstjórnarkosningar þær sem fram fóru í Austur-Eyjafjallahreppi hinn 23. maí 1998, þrátt fyrir að líkur hafi verið leiddar að því að nokkrir einstaklingar hafi ranglega verið skráðir með lögheimili í sveitarfélaginu.

 

Um kjörseðla.

 

             Samkvæmt 35. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 lætur yfirkjörstjórn í hverju sveitarfélagi gera kjörseðla sem notaðir eru við atkvæðagreiðslu á kjörfundi. Í 37. gr. laganna eru síðan fyrirmæli um hvernig útlit kjörseðils skuli vera og segir þar svo:

              “Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina að um sé að ræða sveitarstjórnarkosningar í tilteknu sveitarfélagi, dagsetningu þeirra og ártal.

             Þar sem bundnar hlutfallskosningar fara fram skal prenta framboðslistana hvern við annars hlið í röð eftir bókstöfum þeirra og skal ætla hverjum lista um 6 sm breidd en lengd skal miðuð við fulla löglega tölu frambjóðenda. Niður undan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð ásamt stöðu og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Listarnir skulu aðgreindir með feitum langstrikum og skal að minnsta kosti 1/2 sm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.

             Þess skal getið um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök eða annað framboð hann er í kjöri á þann hátt að prenta með skýru letri neðan við listabókstafinn en ofan við nöfnin á listanum: Listi ... (nafn stjórnmálasamtakanna eða annars framboðs).“

 

             Ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna gera því ekki kröfu um að letrið á kjörseðlum skuli vera upphleypt og ekki gera þau heldur ráð fyrir að framboðslistarnir skuli aðgreindir með upphleyptum langstrikum. Með vísan til þessa og röksemda að öðru leyti í hinum kærða úrskurði um þennan lið kærunnar verður ekki talið að málsástæða þessi geti leitt til ógildis kosninganna.

 

 

             Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna umfangs málsins, mikilla anna og sumarleyfa í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Úrskurður nefndar, sem skipuð var af sýslumanninum á Hvolsvelli hinn 4. júní 1998, dagsettur 12. júní 1998, er staðfestur.

 

Páll Pétursson (sign.)

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

Samrit:  Magnús Eyjólfsson

Afrit:   Hreppsnefnd Austur-Eyjafjallahrepps

             Kjörstjórn Austur-Eyjafjallahrepps

             Sýslumaðurinn á Hvolsvelli

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta