Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Blönduóssbær og Engihlíðarhreppur - Skipun yfirkjörstjórnar vegna kosningar til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi, heimild til að láta kosningu fara fram í aðeins einni kjördeild

Blönduóssbær                                              25. mars 2002                        FEL01010140/1031-5604

Skúli Þórðarson, bæjarstjóri

540 BLÖNDUÓS

 

 

Vísað er til erindis yðar og oddvita Engihlíðarhrepps, dags. 20. mars 2002, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á því hvort sveitarstjórnum Blönduóssbæjar og Engihlíðarhrepps sé heimilt að kjósa sameiginlega yfirkjörstjórn sem annist öll verkefni undirkjörstjórnar við sveitarstjórnarkosningar sem fram fara 25. maí 2002. Einnig er spurt hvort sveitarstjórnunum sé heimilt að auglýsa að kosningin fari fram í einni kjördeild þannig að íbúar beggja sveitarfélaganna greiði atkvæði á sameiginlegum kjörfundi í einni kjördeild á Blönduósi á kjördag, 25. maí n.k.

 

Af þessu tilefni skal bent á að samkvæmt 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skal ráðuneytið gefa út tilkynningu um sameiningu sveitarfélaga, þar sem meðal annars skal koma fram hvort kosning skv. 96. gr. sveitarstjórnarlaga skuli fara fram og hvenær. Að því er varðar sameiningu Blönduóssbæjar og Engihlíðarhrepps hefur ráðuneytið ákveðið, í samráði við samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna, að kosið skuli til nýrrar sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélaga samhliða almennum sveitarstjórnarkosningum hinn 25. maí 2002. Jafnframt hefur ráðuneytið ákveðið að sameiningin taki gildi 9. júní 2002, þ.e. þegar umboð sitjandi sveitarstjórna rennur út samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 5/1998 er hvert sveitarfélag ein kjördeild, nema sveitarstjórn hafi ákveðið að skipta því í fleiri kjördeildir. Telur ráðuneytið að umrætt ákvæði gildi um kosningu til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi, enda þótt sameiningin taki ekki formlega gildi fyrr en að loknum kosningunum, en eðlilegt er í ljósi þess að um er að ræða fyrstu kosningu til sameiginlegrar sveitarstjórnar, að sveitarstjórnirnar meti hvort rétt sé að hafa fleiri en eina kjördeild, með tilliti til landfræðilegra eða félagslegra aðstæðna.

 

Jafnframt er óhjákvæmilegt að sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem sameinast kjósi sameiginlega yfirkjörstjórn sem annast undirbúning og framkvæmd kosninganna, sbr. V. kafla sömu laga. Ef sveitarstjórnirnar ákveða að kosning fari fram í aðeins einni kjördeild annast yfirkjörstjórn jafnframt hlutverk undirkjörstjórna, sbr. 2. mgr 14. gr. laga nr. 5/1998.

 

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)     

Guðjón Bragason (sign.)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta