Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Kópavogsbær - Réttur umboðsmanna framboðslista til veru í kjördeild

Yfirkjörstjórnin í Kópavogsbæ

Jón Atli Kristjánsson, formaður

Í rafpósti, dags. 22. maí 2002, óskaði yfirkjörstjórnin í Kópavogi álits ráðuneytisins á eftirtöldum álitaefnum:

1.                  Hefur stjórnmálaflokkur ótvíræðan rétt til að hafa fulltrúa sinn í kjördeild á kjördegi?

2.                  Ef svo er, ber oddvita að gefa umboðsmönnum upp nafn þess sem kýs, t.d. með því að lesa strax upphátt nafn kjósandans, eða upplýsa um nafn viðkomandi þegar kjósandi hefur vikið úr kjörfundarstofu?

3.                  Hver er réttarstaða kjósanda sem óskar sérstaklega eftir að nafn hans sé ekki lesið upp og hver eru rétt viðbrögð við slíkri beiðni?

 

Álit ráðuneytisins:

Í 23. gr. og 1. mgr. 49. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, kemur ótvírætt fram að umboðsmönnum lista er heimilt að vera í kjörfundarstofu á meðan kosning stendur yfir. Af öðrum ákvæðum laganna, svo sem 2. mgr. 49. gr., 53. gr, 1. mgr. 67. gr. og 74. gr., má ráða að umboðsmenn hafa víðtækan rétt til þess að fylgjast með framkvæmd kosningarinnar og gera athugasemdir ef þeir telja að kjörstjórn eða kjósendur hegði sér ekki lögum samkvæmt við kosningarathöfnina.

 

Tekið skal fram að ráðuneytið lítur svo á að ákvæði 2. mgr. 54. gr. laganna, sem veitir kjörstjórn heimild til að ákveða að í kjörfundarstofu séu ekki, auk þeirra sem starfa við framkvæmd kosninganna, aðrir en kjósendur sem ætla að greiða atkvæði, taki ekki til umboðsmanna lista, þar sem þeir teljist á meðal þeirra sem starfa við framkvæmd kosninganna.

 

Í lögunum er ekki kveðið á um hvort eða með hvaða hætti kjörstjórn tilkynni umboðsmönnum nöfn kjósenda sem mæta á kjörstað. Með vísan til hlutverks umboðsmanna sem að framan er rakið verður að telja ótvírætt að þeir eiga rétt á að gæta þess að einungis þeir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni. Af þeirri ástæðu verður að telja að kjörstjórn sé skylt að tilkynna umboðsmönnum með þeim hætti sem hún telur heppilegast hvaða kjósendur hafa greitt atkvæði.

 

Telji kjörstjórn óheppilegt að lesa nafn kjósenda upphátt er henni heimilt að tilkynna nafnið með öðrum hætti, svo sem skriflega. Sama gildir ef kjósandi óskar sérstaklega eftir því að nafn hans sé ekki lesið upp.

 

F.h.r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta