Borgarbyggð - Ráðuneytið hefur ákveðið með úrskurði að ógilda sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru í Borgarbyggð 25. maí 2002
Landslög, lögfræðistofa
Jón Sveinsson, hrl.
Tryggvagötu 11
101 Reykjavík
Reykjavík, 30. júlí 2002
Tilvísun: FEL02060027/1022/SÁ/--
Þann 30. júlí 2002 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með bréfi, dagsettu 18. júní 2002, hefur Jón Sveinsson hrl., fyrir hönd Framsóknarfélags Mýrasýslu, skotið til félagsmálaráðuneytisins úrskurði, dagsettum 11. júní 2002, sem kveðinn var upp af nefnd sem skipuð var af sýslumanni skv. 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, til að fjalla um gildi sveitarstjórnarkosninga í Borgarbyggð sem fram fóru 25. maí 2002. Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998.
Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í erindinu til ráðuneytisins:
§ Aðallega að úrskurður kjörnefndarinnar verði felldur úr gildi og honum vísað til nefndarinnar á ný til lögmætrar meðferðar.
§ Til vara að úrskurður kjörnefndar verði felldur úr gildi og að niðurstöður kosninga til sveitarstjórnar í Borgarbyggð þann 25. maí sl. verði ógiltar og þeim breytt á þann veg að í stað annars manns á L–lista verði fjórði maður á B–lista talinn hafa náð kosningu.
§ Til þrautavara að úrskurður kjörnefndar verði felldur úr gildi og að fram fari endurtalning allra atkvæða sem greidd voru á kjörfundi og utan kjörfundar eftir að endurúrskurðuð hafa verið öll þau atkvæði sem einhver vafi lék á um gildi og ógildi við talningu atkvæða. Leiði slík endurúrskurðun og endurtalning atkvæða til breyttrar niðurstöðu þá er þess krafist að niðurstöður kosninganna til sveitarstjórnar í Borgarbyggð verði ógiltar og þeim breytt til samræmis við niðurstöðu slíkrar endurtalningar.
Ráðuneytið óskaði með bréfi, dagsettu 19. júní 2002, til sýslumannsins í Borgarnesi eftir að afrit af öllum gögnum sem vörðuðu rannsókn og meðferð framangreindrar nefndar á málinu yrðu send ráðuneytinu. Sama dag var yfirkjörstjórn Borgarbyggðar sent bréf þar sem óskað var eftir að gerðabók yfirkjörstjórnar og ágreiningsseðlar þeir sem málið vörðuðu yrðu sendir ráðuneytinu. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu þann 21. júní 2002.
Eftir að farið hafði verið yfir fyrirliggjandi gögn málsins var talið nauðsynlegt að skoða nánar kjörgögn til að ná sem bestri yfirsýn áður en málið yrði tekið til úrskurðar. Var það gert á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 28. júní 2002 fóru tveir starfsmenn ráðuneytisins til sýslumannsins í Borgarnesi sem varðveitti kjörkassa með öllum kjörgögnum og skoðuðu alla atkvæðaseðla sem notaðir höfðu verið við kosningarnar.
I. Úrskurður kjörnefndar
Með bréfi, dagsettu 31. maí 2002, kærði Jón Sveinsson hrl., fyrir hönd Framsóknarfélags Mýrasýslu, til sýslumannsins í Borgarnesi sveitarstjórnarkosningar er fram fóru í Borgarbyggð þann 25. maí 2002. Skipaði sýslumaðurinn hinn 3. júní 2002 kjörnefnd skv. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, til að úrskurða um kæruna. Í nefndina voru skipaðir þeir Jón Haukur Hauksson hdl., Stefán Skjaldarson skattstjóri og Tryggvi Bjarnason hdl.
Kröfur kæranda voru eftirfarandi:
„... aðallega að niðurstöður kosninganna til sveitarstjórnar í Borgarbyggð verði ógiltar og þeim breytt á þann veg að í stað annars manns á L–lista verði fjórði maður á lista umbjóðanda míns talinn hafa náð kosningu.
Til vara er þess krafist að öll atkvæði greidd á kjörfundi og utan kjörfundar verði endurtalin og að endurúrskurðuð verði þau atkvæði sem úrskurðuð voru ógild af kjörstjórn við talningu. Leiði slík endurtalning og endurúrskurðun vafaatkvæða til breyttrar niðurstöðu þá verði niðurstöður kosninganna til sveitarstjórnar í Borgarbyggð ógiltar og þeim breytt til samræmis við niðurstöður endurtalningar.“
Í úrskurði kjörnefndar frá 11. júní 2002 er málsatvikum og niðurstöðum lýst þannig:
„Málavextir eru þeir, að fram fór kosning til sveitarstjórnar í Borgarbyggð þann 25. maí 2002. Í framboði voru þrír listar; B listi Framsóknarmanna, D listi Sjálfstæðismanna og L listi, Borgarbyggðarlistinn.
Að loknum kjörfundi fór talning atkvæða fram að viðstöddum umboðsmönnum framboðslista. Niðurstaða talningar var að B listi Framsóknarflokksins fékk 522 atkvæði, D listi Sjálfstæðisflokksins fékk 546 atkvæði, og L listi, Borgarbyggðarlistinn, fékk 261 atkvæði. Samkvæmt gerðarbók yfirkjörstjórnar fór endurtalning fram, en niðurstaða var óbreytt.
Yfirkjörstjórn úrskurðaði ógild 8 utankjörstaðaatkvæði, þar sem “ágalli var á útfyllingu fylgibréfa” eins og segir í gerðarbók yfirkjörstjórnar. Höfðu kjósendur ekki ritað nafn sitt á fylgibréfið. Enn fremur var “Seðill merktur B, ásamt öðrum auðkennum” ógiltur. Er bókað í gerðarbók yfirkjörstjórnar að umboðsmenn B lista hafi mótmælt þeim úrskurði.
Niðurstaða talningar atkvæða leiddi til þess að jafnmörg atkvæði voru að baki 4. manns B–lista og 2. manns L–lista. Var varpað hlutkesti og hlaut 2. maður á L–lista sætið í sveitarstjórn.
III.
Í kæru er gerð grein fyrir málavöxtum eins og þeir horfa við kæranda. Þar segir m.a.:
“Við endurtalningu atkvæða var eitt atkvæði metið ógilt, án þess að athugasemd hefði verið við það gerð við fyrstu talningu, á þeim grundvelli að auk hefðbundins kross framan við listabókstafinn “B” var teiknaður eins konar hálfhringur og punktur við krossinn. Hvorki krossinn né umrædd aukastrik náðu út fyrir þann ramma, sem kjósendum er ætlaður til að merkja við listabókstafinn “B”. Á sama tíma voru atkvæði þar sem hringur var dreginn um viðkomandi listabókstaf metin gild.
Þá munu vera nokkur dæmi þess að við talningu atkvæða hafi sömu reglu ekki verið beitt við úrskurðun vafaatkvæða, hvort heldur um var að ræða atkvæði sem greidd voru á kjörfundi eða utan kjörfundar. Samræmis var því ekki gætt við úrskurðun vafaatkvæða. Einnig munu dæmi þess að atkvæði sem áður höfðu verið úrskurðuð gild hafi síðar verið úrskurðuð ógild.”
III.1
Aðalkrafa kæranda, um að niðurstaða kosninganna verði ógilt, byggir á þeirri málsástæðu, að eitt atkvæði hafi ranglega verið úrskurðað ógilt en það hefði ella fallið B listanum í skaut og því hefði fjórði maður á B lista átt að hljóta fleiri atkvæði en 2. maður L listans og því átt að vera rétt kjörinn í sveitarstjórn.
Er í kærunni vitnað til d–liðar 78. gr. l. nr. 5/1998, en þar segir:
“Atkvæði skal meta ógilt: [?]
d. ef áletrun er á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt eða annarleg merki sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan”.
Kærandi segir að ákvæðið eigi að sporna við að kjörseðlar séu auðkenndir þannig að þekkja megi þá með vissu síðar meir, en að meginregla laganna sé sú, að mikið þurfi að koma til, til að atkvæði verðið úrskurðað ógilt. Þá telur kærandi að löggjafinn hafi ætlast til þess “að kjósandinn njóti vafans í þessum efnum svo lengi sem ráðið verður hver vilji hans er og hverjum viðkomandi kjósandi greiddi atkvæði sitt”. Þessu til stuðnings vísar kærandi til orðalags d–liðar 78. gr.; “sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan”, en ekkert liggi fyrir um að það hafi verið ætlun kjósandans. Telur kærandi “að merkingin við hlið krossins á kjörseðlinum er smávægileg og síst auðkennandi fyrir seðilinn, enda ekki sérstök eða einkennandi á neinn hátt.”
Þá vísar kærandi ennfremur til stuðnings kröfu sinni til 1. mgr. 79. gr. l. nr. 5/1998, en þar segir:
“Atkvæði skal ekki meta ógilt þó að gallað sé ef greinilegt er hvernig það á að falla, nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn, en t.d. aftan við hann, þó að kross sé ólögulegur, þó að á utankjörfundarseðli fylgi orðið listi listabókstaf að óþörfu, þó að í stað listabókstafs standi heiti stjórnmálasamtaka o.s.frv”
Telur kærandi að ákvæðið beri að skýra þannig, að mikið þurfi að bregða útaf til að atkvæði verði metið ógilt ef á atkvæðaseðli eru einhver önnur auðkenni en kross. “Að sama skapi er ótvírætt að allur vafi við mat á gildi kjörseðils verður undantekningarlaust skýrður kjósandanum í hag, sbr. orðin “?skal ekki meta ógilt þó að gallað sé....” og “nema augljóslega komi í bága við...”. Séu ákvæði 1. mgr. 79. gr. lesin í samhengi við ákvæði d–liðs 78. gr. má sjá að það er skilyrði fyrir ógildi atkvæðis að augljóst sé að kjósandinn hafi sett áletrun á kjörseðilinn í þeim tilgangi að gera hann auðkennilegan. Umbjóðandi minn telur að svo langt verði ekki gengið að því er varðar þennan tiltekna kjörseðil.” Telur kærandi að þau auðkenni sem voru á hinum umdeilda kjörseðli hafi ekki verið slík, að valda eigi ógildi kjörseðilsins, og að um minniháttar frávik hafi verið að ræða. Bendir kærandi á að merking á kjörseðlinum hafi verið innan ramma B–listans og að kjósandinn hafi ekki átt við aðra bókstafi eða lista. Telur kærandi að það vegi þungt og að vilji kjósandans hafi verið skýr.
III.2
Kærandi gerir varakröfu og krefst hann þess að fram fari nákvæm endurtalning allra atkvæða. Vísar kærandi til þess að þar sem atkvæðaskipting reyndist jöfn á milli B og L lista, þá sé það eðlilegt og rökrétt að telja aftur atkvæði sem greidd voru, bæði á kjörfundi og utan kjörfundar. Þá telur kærandi sig hafa ástæðu til að ætla að ekki hafi verið beitt sambærilegum sjónarmiðum við að úrskurða vafaatkvæði. Krefst kærandi þess að öll vafaatkvæði verði úrskurðuð á ný, bæði þau sem voru greidd á kjörfundi og utan kjörfundar.
Til frekari stuðnings bendir kærandi á að uppi séu grunsemdir um að ekki hafi verið farið með utankjörfundaratkvæði með sama hætti í öllum tilvikum. “Þannig hafi t.d. átta atkvæði greidd utan kjörfundar verið úrskurðuð ógild þar sem viðkomandi kjósendur höfðu ekki ritað nöfn sín undir fylgiskjöl með atkvæðunum en eitt samskonar atkvæði var metið gilt og tekið til greina við talningu atkvæða. Þetta eina atkvæði kom fram í kjördeild í Lyngbrekku og hafði verið blandað saman við önnur atkvæði úr þeirri deild þegar áðurnefnd átta atkvæði voru metin ógild. Hér var samræmis því augljóslega ekki gætt. Um gildi slíkra atkvæða vísast til g–liðar 1. mgr. 86. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, sbr. 4. mgr. 43. gr. sömu laga og g–liðar 1. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sbr. 2. mgr. 63. gr. þeirra laga.”
Loks vísar kærandi til almennra jafnræðisreglna, sem hann telur að eigi að tryggja jafna stöðu framboða og frambjóðenda, hlutleysi og sanngirni við framkvæmd kosninga. Eigi þessar reglur sér stoð í 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. “Telja verður afar óeðlilegt að atkvæði, sem háð eru nákvæmlega sama annmarkanum, fái ólíka meðferð kjörstjórnar og séu ýmist metin gild eða ógild, eins og upp mun hafa komið við ákvörðun kjörstjórnar um gildi atkvæða, bæði atkvæða sem greidd voru á kjörfundi og eins atkvæða sem greidd voru utan kjörfundar. Styður sú meðferð á atkvæðunum kröfu umbjóðanda míns um endurúrskurðun allra vafaatkvæða.”
Í lok kæru sinnar víkur kærandi að hlutkestinu. Þar sem það er ekki ein af málsástæðum kæranda fyrir ógildingu niðurstöðu kosninganna þykir kjörnefnd ekki ástæða til að rekja athugasemdir kæranda um hlutkestið.
IV.
Í samræmi við 93. gr. l. nr. 5/1998 hefur yfirkjörstjórn Borgarbyggðar skilað inn umsögn um kæruna. Hún barst kjörnefndinni með símbréfi að kveldi 5. júní 2002.
V.1
Í upphafi umsagnar yfirkjörstjórnar er gerð athugasemd við þá tilhögun kæranda að vera með aðalkröfu og varakröfu. Telur yfirkjörstjórnin að slík kröfugerð sé eigi eðlileg. Byggi kæra á fleiri en einu atriði verði að taka þau öll til umfjöllunar.
Þá gerir yfirkjörstjórn athugasemdir við atriði er fram koma í kæru og telur að ekki sé í öllu farið með rétt mál. Skal nú gerð grein fyrir athugasemdum yfirkjörstjórnar, eftir því sem þýðingu hefur við úrlausn kæruefnisins.
a) Yfirkjörstjórn andmælir því að það hafi fyrst verið við endurtalningu atkvæða að gerðar hafi verið athugasemdir við gildi eins atkvæðis. Hafi það verið gert um leið og atkvæðið kom í ljós og yfirkjörstjórn fékk það í hendur. Kvað yfirkjörstjórn upp úrskurð um gildi þess eins og henni bar skylda til og vitnar yfirkjörstjórn til 3. mgr. 81. gr. l. nr. 5/1998.
b) Þá gerir yfirkjörstjórn athugasemdir við lýsingu í kæru á umdeildu atkvæði og kveður yfirkjörstjórn lýsinguna ekki rétta.
c) Þá víkur yfirkjörstjórn að því sem fram kemur í kæru, að ekki hafi verið gætt samræmis við úrskurði um vafaatkvæði, og að dæmi hafi verið um að atkvæði sem áður hafi verið úrskurðuð gild hafi síðar verið úrskurðuð ógild. Er tekið fram í athugasemdum yfirkjörstjórnar að í kærunni sé ekki tilgreint hvaða atkvæði þarna sé átt við, og tekur yfirkjörstjórn fram að þetta sé ekki rétt í kærunni. Tekið er fram að við talningu hafi tólf atkvæði verið úrskurðuð ógild, og af þeim hafi níu verið greidd utan kjörfundar, en þrjú á kjörfundi. Átta utankjörfundaratkvæði voru úrskurðuð ógild þar sem undirskrift vantaði á fylgibréfin með atkvæðunum, en eitt utankjörfundaratkvæði var úrskurðað ógilt þar sem á það var ritað nafn einstaklings en ekki listabókstafur framboðs. Þá hafi ekki verið ágreiningur um ógildi tveggja atkvæða, sem voru greidd á kjörfundi.
V.2
Varðandi aðalkröfu kæranda er tekið fram að yfirkjörstjórn hafi einróma komist að þeirri niðurstöðu að hið umdeilda atkvæði væri ógilt þar sem á kjörseðlinum væru merki, sett af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan, sbr. d. lið 78. gr. laga nr. 5/1998. Mótmælir yfirkjörstjórn því að um sé að ræða smávægilega merkingu. Um sé að ræða kross á seðlinum, hring með tveimur punktum yfir og lítið strik inni í hringnum. Telur yfirkjörstjórn slíka merkingu ekki smávægilega og að um sé að ræða fjögur merki og að merkingin sé með þeim hætti að telja verði nánast útilokað að komið hefðu fram tveir seðlar með sömu merkingu. Breyti það engu þó öll merkin séu innan ramma B listans. Þá segir: “Engin skynsamleg skýring getur legið að baki hjá kjósanda að merkja seðil með þessum hætti en ætlast jafnframt til að atkvæði, sem er auðkennt með þessum hætti, verði talið gilt. Yfirkjörstjórn telur hafið yfir allan vafa að merking á umræddum kjörseðli sé með þeim hætti sem greinir í d. lið 78. gr. laga nr. 5/1998 og atkvæðið því augljóslega ógilt. Ákvæði 79. gr. laganna breytir þar engu og getur ekki leitt til þess að atkvæðið verði talið gilt.”
V.3
Um varakröfu kæranda tekur yfirkjörstjórn fram, að atkvæði hafi verið talin sex sinnum að lokinni kosningunni og niðurstaðan hafi ávallt verið sú sama. Hafi fyrst verið talið þrívegis, en eftir að ljóst varð að jafnt var á milli 4. manns B lista og 2. manns á L lista hafi verið talið þrisvar í viðbót. Telur yfirkjörstjórn engan vafa leika á að rétt hafi verið talið.
Þá telur yfirkjörstjórn að óhjákvæmilegt hafi verið að úrskurða ógilda átta utankjörfundaatkvæði, þar sem undirritun kjósanda vantaði á fylgibréf. Ekki hafi verið gengið frá fylgibréfi með atkvæðunum, svo sem fyrir er mælt í 2. mgr. 63. l. nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, en þau lög gildi um greiðslu atkvæðis utan kjörfundar, sbr. 4. mgr. 43. gr. l. nr. 5/1998. Kjósanda sé skylt að undirrita fylgibréf með atkvæði sínu, en það hafi ekki verið gert. Hafi yfirkjörstjórn einróma komist að þeirri niðurstöðu að atkvæðin væru ógild. Máli sínu til stuðnings vitnar yfirkjörstjórn til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 31. júlí 1998.
Yfirkjörstjórn gerir grein fyrir því í umsögn sinni að eitt utankjörfundaratkvæði með sömu ágalla og þau átta sem úrskurðuð voru ógild hafi verið sett í kjörkassa í einni kjördeild, ásamt fleiri utankjörfundaratkvæðum. Hafi viðkomandi undirkjörstjórn yfirsést annmarkinn á atkvæðinu. Hafi atkvæðið því óhjákvæmilega verið talið með öðrum atkvæðum. Það hafi hins vegar verið afstaða yfirkjörstjórnar að þessi mistök gætu ekki réttlætt að átta önnur atkvæði með sama ágalla, sem yfirkjörstjórnin taldi ógild, yrðu talin með.
VI.
Yfirkjörstjórn Borgarbyggðar hefur afhent kjörnefndinni hinn umdeilda kjörseðil og hafði kjörnefndin seðilinn undir höndum við uppkvaðningu þessa úrskurðar. Þá hefur kjörnefndin haft aðgang að gerðarbók yfirkjörstjórnar og fengið ljósrit af fundargerð frá 25. maí s.l. Þá fékk kjörnefndin að sjá fylgibréf með þeim átta utankjörfundaratkvæðum, sem úrskurðuð voru ógild. Á þau vantaði undirritun kjósanda.
Í 1. mgr. 58. gr. l. nr. 5/1998 segir að kjósandi við bundnar hlutfallskosningar greiði atkvæði þannig “að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru”. Þá er tekið fram í 60. gr. laganna að kjósandi eigi að gæta þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögunum.
Hinn umdeildi kjörseðill lítur þannig út:
Eins og sést hefur auk kross fyrir framan listabókstafinn B verið settur hringur með tveim punktum yfir og líkist bókstafnum Ö. Að auki hefur verið sett lítið strik hægra megin við hringinn. Úrlausnarefnið er því hvort þau merki á kjörseðlinum sem eru umfram krossinn, sbr. 1. mgr. 58. gr. l. nr. 5/1998, valdi því að atkvæðið teljist ógilt, sbr. d. lið 1. mgr. 78. gr. s.l., eða hvort meta skuli atkvæðið gilt þrátt fyrir þetta, sbr. 1. mgr. 79. gr. s.l.
Það er mat kjörnefndar að þau merki sem eru á kjörseðlinum umfram krossinn geri kjörseðilinn auðkennanlegan. Ætla má að þau séu sett af ásettu ráði og ekki er um að ræða minniháttar frávik. Kjörnefndin telur að atkvæðið fari augljóslega í bága við ákvæði laga um kosningu til sveitarstjórnar nr. 5/1998 og skuli því metið ógilt, sbr. d lið 78. gr. s.l. Er úrskurður yfirkjörstjórnar í Borgarbyggð um ógildingu þessa atkvæðis því staðfestur.
Kærandi gerir í kæru sinni “varakröfu”. “Í ljósi þess hversu jöfn atkvæðaskiptingin reyndist á milli B–lista og L–lista við talningu atkvæða er bæði eðlilegt og rökrétt að fram fari nákvæm endurtalning allra atkvæða, bæði atkvæða sem greidd voru á kjörfundi og þeirra sem greidd voru utan kjörfundar.” Í umsögn yfirkjörstjórnar kemur fram að atkvæði hafi verið talin sex sinnum, en ekki er bókað um fjölda endurtalninga í gerðarbók. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til að eitthvað athugavert hafi verið við talningu atkvæða. Engar athugasemdir við endurtalninguna eru bókaðar af hálfu umboðsmanna framboðslista í gerðarbók yfirkjörstjórnar. Fellst kjörnefnd ekki á að það eitt að atkvæði hafi fallið jöfn á milli framboðslista sé nægileg ástæða til að fallast á kröfu kæranda um endurtalningu atkvæða.
Þá byggir kærandi kröfu sína um endurtalningu á því að yfirkjörstjórn hafi ekki gætt sömu eða sambærilegra sjónarmiða við að úrskurða vafaatkvæði og krefst kærandi þess að öll vafaatkvæði verði tekin til úrskurðar að nýju. Ekki eru tilgreind ákveðin dæmi þessu til staðfestingar. Yfirkjörstjórn Borgarbyggðar úrskurðaði 8 utankjörfundaratkvæði ógild þar sem undirritun kjósanda vantaði á fylgibréfið. Hefur kjörnefnd skoðað fylgibréfin. Er upplýst að eitt slíkt ógilt atkvæði hafi vegna mistaka verið sett í kjörkassa. Var það talið með öðrum greiddum atkvæðum, enda ógerningur að finna atkvæðið eftir að það var komið í kjörkassa. Ekki er gerð krafa um að kosningin verði ógilt af þessum sökum. Auk þeirra 8 utankjörfundaratkvæða, sem fyrr voru nefnd, úrskurðaði yfirkjörstjórn 4 atkvæði ógild. Á einum utankjörfundarseðli hafði verið skrifað nafn einstaklings, en ekki listabókstafur; annar var merktur L lista, en með útstrikun á D lista; þriðji ekki merktur neinum lista, og sá fjórði er merktur B lista með fleiri merkingum. Ekki verður séð að fleiri vafaatkvæði hafi komið til kasta yfirkjörstjórnar. Telur kjörnefnd að kærandi verði að tilgreina ákveðin vafaatkvæði til að krafa hans teljist tæk til úrskurðar.
Svo sem nú hefur verið rakið er það afstaða kjörnefndar að hafna beri kröfum kæranda, Framsóknarfélags Mýrasýslu.“
II. Kæra til ráðuneytisins
Eins og fyrr segir var úrskurður kjörnefndar kærður til félagsmálaráðuneytisins með bréfi, dagsettu 18. júní 2002. Í erindi kæranda til ráðuneytisins eru eftirfarandi kröfur gerðar:
„Umbjóðandi minn gerir þá kröfu aðallega að úrskurður kjörnefndarinnar verði felldur úr gildi og honum vísað til nefndarinnar á ný til lögmætrar meðferðar. Til vara er þess krafist að úrskurður kjörnefndar verði felldur úr gildi og að niðurstöður kosninga til sveitarstjórnar í Borgarbyggð þann 25. maí sl. verði ógiltar og þeim breytt á þann veg að í stað annars manns á L–lista verði fjórði maður á lista umbjóðanda míns talinn hafa náð kosningu. Til þrautavara er þess krafist að úrskurður kjörnefndar verði felldur úr gildi og að fyrir verði lagt að fram fari endurtalning allra atkvæða sem greidd voru á kjörfundi og utan kjörfundar eftir að endurúrskurðuð hafa verið öll þau atkvæði sem einhver vafi lék á um gildi og ógildi við talningu atkvæða. Leiði slík endurúrskurðun og endurtalning atkvæða til breyttrar niðurstöðu þá verði niðurstöður kosninganna til sveitarstjórnar í Borgarbyggð ógiltar og þeim breytt til samræmis við niðurstöðu slíkrar endurtalningar.“
Um málavexti er vísað í meginatriðum til kæru frá 31. maí sl. og greinargerðar umboðsmanna B–lista á talningarstað. Í greinargerð umboðsmannanna er fyrst og fremst ítrekuð sú málavaxtalýsing sem fram kemur í upphaflegri kæru varðandi endurtalningu atkvæða og þau atvik er leiddu til þess að umræddur atkvæðaseðill var úrskurðaður ógildur. Jafnframt tekur kærandi fram að kjörnefnd hafi aflað sér umsagnar yfirkjörstjórnar en ekki gefið kæranda kost á því að fjalla um umsögn yfirkjörstjórnarinnar og kynna sér önnur helstu gögn málsins áður en hún kvað upp úrskurð sinn. Þess hafi þó sérstaklega verið óskað í kæru.
Kærandi rökstyður kröfur sínar til ráðuneytisins með eftirfarandi hætti:
„III.1. Aðalkrafa.
Um kærur sem berast vegna sveitarstjórnarkosninga fjallar þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefni, sbr. 2. mgr. 93. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna. Nefndin skal leita umsagnar yfirkjörstjórnar um kæru sem skal láta uppi álit sitt innan viku frá því að hún fékk kæruna. Kjörnefnd skal síðan kveða upp úrskurð sinn innan viku þar frá. Að öðru leyti er í lögum nr. 5/1998 ekki nánar fjallað um störf nefndarinnar.
Nefnd þá sem hér um ræðir verður að telja lögbundna stjórnsýslunefnd í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda unnt að skjóta niðurstöðum hennar til æðra stjórnvalds, félagsmálaráðuneytis. Í 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. sömu laga að lögin gildi þegar stjórnvald, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.
Þar sem ekki er fjallað með ítarlegum hætti um störf og málsmeðferð nefndarinnar í lögum nr. 5/1998 koma stjórnsýslulög nr. 37/1993 til nánari fyllingar hvað varðar málsmeðferð enda er nefndinni ætlað að taka ákvörðun um rétt og skyldur manna. Nefndinni ber því í störfum sínum að fara eftir öllum meginreglum stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu, jafnræði, meðalhóf, andmælarétt, og rökstuðning. Vísast þessu til stuðnings til álita umboðsmanns Alþingis sem gengið hafa um málsmeðferð fyrir sambærilegum stjórnsýslunefndum þegar viðkomandi lög kveða ekki nánar á um hana.
Í kæru umbj. míns dags. 31. maí sl. var þess sérstaklega krafist að umbj. mínum yrði gefinn kostur á að fjalla um umsagnir og önnur gögn sem fram kynnu að verða lögð í málinu áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í því. Kjörnefndin gaf hins vegar hvorki umbj. mínum né undirrituðum kost á því með eðlilegum og viðunandi hætti.
Í bréfi formanns kjörnefndarinnar dags. 6. júní 2002 ..., en því bréfi fylgdi umsögn yfirkjörstjórnar í Borgarbyggð ..., segir meðal annars:
”Í 93. gr. l .nr. 5/1998 er ekki gert ráð fyrir því að kærandi skili inn greinargerð eða athugasemdum frekar en þegar komi fram í kæru. Má af því ráða að þegar í kæru skuli koma fram kröfur kæranda og þau sjónarmið eða málsástæður sem kæra byggist á. Teljum við nefndarmenn að ekki sé lagaheimild fyrir því að taka við skriflegri greinargerð eftir að kæra er komin fram.”
Daginn eftir sendi undirritaður nefndinni svohljóðandi bréf ...:
“Ég skil bréfið þannig að þið óskið ekki eftir athugasemdum við umsögn yfirkjörstjórnar. Full ástæða hefði þó verið til þess enda telja umboðsmenn B–listans sem voru við talningu að ekki sé rétt með farið af hálfu yfirkjörstjórnar í ýmsum atriðum, sérstaklega þeim sem snúa að úrskurðun vafaatkvæða og meðferðar utankjörfundaratkvæða.”
Þrátt fyrir nefnt bréf gaf nefndin ekki færi á að koma að athugasemdum við umsögn yfirkjörstjórnar áður en úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp.
Í áðurnefndu bréfi kjörnefndar frá 6. júní sl. ..., sem barst skrifstofu undirritaðs á faxi síðari hluta þess dags, kemur fram í niðurlagi að nefndarmenn hafi mælt sér mót við formann yfirkjörstjórnar kl. 09.00 í fyrramálið (daginn eftir eða föstudaginn 7. júní) á lögreglustöðinni í Borgarnesi og ætli sér þá að fá í hendur hið umdeilda atkvæði og gerðarbók yfirkjörstjórnar. Tekið er síðan fram að undirrituðum sé heimilt að vera viðstaddur. Undirritaður var við önnur lögfræðistörf utan skrifstofu nefndan eftirmiðdag 6. júní og kom ekki á skrifstofuna fyrr en milli kl. 09.30 og 10.00 föstudaginn 7. júní. Útilokað var þá að mæta til fundarins í Borgarnesi. Ámælisvert er að nefndin skuli ekki hafa með samráði við aðila valið sameiginlegan tíma sem hentaði öllum. Greinilegt er af orðalagi bréfsins að nefndin hafði þá þegar rætt við formann yfirkjörstjórnar og mælt sér við hann mót en yfirkjörstjórn hafði þá þegar skilað inn sinni umsögn. Að þessu leyti gætti nefndin því alls ekki að jafnræði aðila og virti ekki upplýsingaskyldu sína um fyrirliggjandi gögn með viðunandi hætti svo og skyldur sínar um eðlilega og sanngjarna málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum.
Svo sem rakið er hér að framan virti kjörnefndin hvorki upplýsinga- og rannsóknarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum né andmælarétt umbj. míns samkvæmt sömu lögum svo sem eðlilegt og rétt hefði verið við þær aðstæður sem hér um ræðir. Framangreindir gallar á málsmeðferð lögskipaðrar stjórnsýslunefndar leiða ótvírætt til ógildis ákvörðunar hennar og heimvísunar málsins til lögmætrar meðferðar á ný.
III.2. Varakrafa.
Umbjóðandi minn telur að atkvæði, þar sem eins konar hringur og tveir punktar ásamt striki voru teiknuð við hlið kross við listabókstafinn B, hafi verið ranglega úrskurðað ógilt. Í d–lið 78. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 segir:
“Atkvæði skal meta ógilt: [?]
d. ef áletrun er á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt eða annarleg merki sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan”.
Þessu ákvæði er ætlað að sporna við því að kjörseðlar séu auðkenndir á þann hátt að greina megi þá með vissu síðar meir. Það er augljóst að meginregla laganna er sú, að mikið þurfi til að koma svo að atkvæði verði úrskurðað ógilt af þessum sökum. Að sama skapi er ljóst að löggjafinn hefur ætlast til þess að kjósandinn njóti vafans í þessum efnum svo lengi sem ráðið verður hver vilji hans er og hverjum viðkomandi kjósandi greiddi atkvæði sitt. Þetta má ráða af orðalagi d–liðar 78. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, sem vitnað var til hér að framan, en þar er gert að skilyrði ógildingar að ætla megi (“ætla má”) að umframáletrun eða annarleg merki séu sett “? af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan”. Ekkert liggur hins vegar fyrir um að sú hafi verið ætlunin í þessu tilviki. Bendir umbjóðandi minn í því sambandi á, að merkingin við hlið krossins á kjörseðlinum er smávægileg og minniháttar og síst auðkennandi fyrir seðilinn, enda ekki sérstök eða einkennandi á neinn hátt.
Á atkvæðaseðilunum er ekki “merki” af neinum toga. Um er að ræða hring sem ætla má að kjósandi hafi ætlað sér í upphafi að setja utan um listabókstafinn. Bæði fullorðið fólk og eins þeir sem eru að kjósa í fyrsta sinn átta sig ekki ætíð fyllilega á því hvernig beri að auðkenna kjörseðilinn. Bent er á að á seðlinum sjálfum eru engar leiðbeiningar um slíkt og ekki alltaf sjálfgefið að kjósandi hafi tök á því að lesa leiðbeiningar um hvernig merkja beri kjörseðil, en slíkar leiðbeiningar liggja iðulega frammi á borði eða eru á vegg í kjördeild. Viðurkennt er í kosningum að atkvæðaseðill með hring utan um listabókstafinn telst gilt atkvæði. Sama á við ef bæði hringur og kross (x) er við listabókstafinn. Ekki verður því séð að mikill munur sé á því hvort hringur er utan við bókstafinn ef krossinn er þar jafnframt. Atkvæði með hring einum sér án kross fyrir framan bókstafinn ber einnig að telja gilt atkvæði því augljóst er að kjósandinn er að merkja við þann tiltekna bókstaf og engan annan. Vankunnátta, sjóndepra, ýmis konar veikindi eða ellihrörleiki geta ótvírætt haft þau áhrif að kjósandi merki við listabókstaf með öðrum hætti en almennt tíðkast og í stað þess að fá nýjan seðilinn eftir áritun sína, haldi áfram útfyllingunni í trausti þess að hún sé smávægileg og í lagi. Það sem meginmáli skiptir hér er að vilji kjósandans sé skýr.
Við slíkar aðstæður sem hér um ræðir ber ekki að túlka orðalag nefnds d–liðar 78. gr. jafn þröngt og ósveigjanlega og kjörnefnd gerir í úrskurði sínum. Mörg dæmi eru þekkt úr talningum atkvæða, bæði í sveitarstjórnarkosningum og Alþingiskosningum, að sambærileg atkvæði því sem hér er deilt um hafi verið úrskurðuð gild. Hefur verið gengið svo langt að atkvæði sem merkt eru með hringjum utan um listabókstaf, krossum (einum eða fleirum) og örvum eða auðkennum sem vísa á listabókstafinn, jafnvel þó að þau séu utan ramma viðkomandi listabókstafs, teljist gild atkvæði enda beri þau glöggan vott um vilja viðkomandi kjósanda. Hin þrönga túlkun d–liðar 78. gr. hefur því almennt vikið fyrir 1. mgr. 79. gr. laganna ef lesa má vilja kjósandans með einhverjum hætti úr því sem hann gerir og ekki er af hans hálfu með neinum hætti átt við önnur framboð. Það skiptir hér miklu.
Framangreind sjónarmið eru áréttuð í 1. mgr. 79. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, en þar segir:
“Atkvæði skal ekki meta ógilt þó að gallað sé ef greinilegt er hvernig það á að falla, nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði”.
Með þessu eru öll tvímæli tekin af um það, að mikið þurfi út af að bregða svo að atkvæði verði metið ógilt sökum þess að á kjörseðli eru einhver auðkenni önnur en kross. Að sama skapi er ótvírætt að allur vafi við mat á gildi kjörseðils verður undantekningarlaust skýrður kjósandanum í hag, sbr. orðin “?skal ekki meta ógilt þó að gallað sé....”. Séu ákvæði 1. mgr. 79. gr. lesin í samhengi við ákvæði d–liðar 78. gr. má sjá að það er skilyrði fyrir ógildi atkvæðis að “augljóst sé” að kjósandinn hafi sett áletrun á kjörseðilinn í þeim tilgangi að gera hann auðkennilegan. Umbjóðandi minn telur að svo langt verði ekki gengið að því er varðar þennan tiltekna kjörseðil. Í umræddu tilviki er jafnframt ljóst að “ef greinilegt er hvernig það (atkvæðið – innskot) á að falla” þá á ekki að meta það ógilt, sbr. upphaf 1. mgr. 79. gr. laganna.
Í þessu sambandi má einnig vísa til þeirra dæma, sem talin eru í síðari málslið 1. mgr. 79. gr., en þar segir:
“Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn, en t.d. aftan við hann, þó að kross sé ólögulegur, þó að utankjörfundaratkvæði fylgi orðið listi listabókstaf að óþörfu, þó að í stað listabókstafs standi heiti stjórnmálasamtaka o.s.frv.”.
Minniháttar frávik við greiðslu atkvæðis veldur samkvæmt framansögðu ekki ógildi atkvæðis. Verður að telja það sama eiga að gilda um þann kjörseðil, sem hér er fjallað um, enda eru frávik á honum ekki frekar til þess fallin að gera hann auðkennilegan en þau frávik sem talin eru í dæmaskyni í síðari málslið 1. mgr. 79. gr. laganna. Þar er upptalningin ekki tæmandi talin og því hvert tilvik túlkun háð. Skiptir vilji kjósandans mestu við slíka túlkun.
Loks er minnt á að nefnd merking á atkvæðaseðilinn er innan ramma B–listans og því af hálfu kjósandans ekki með neinum hætti átt við aðra bókstafi eða önnur framboð. Skiptir það miklu í þessu efni enda vilji kjósandans hér skýr.
Með vísan til framangreinds telur umbjóðandi minn að listi hans hafi fengið einu atkvæði fleira en talið var, og að fjórði maður á hans lista eigi því að koma í stað annars manns á L–lista í komandi sveitarstjórn.
III.3. Þrautavarakrafa.
Eðlilegt og rökrétt er í ljósi þess hversu jöfn atkvæðaskiptingin reyndist á milli B–lista og L–lista við talningu atkvæða að fram fari nákvæm skoðun bæði gildra og ógildra atkvæða og þess gætt að við úrskurðun allra atkvæða sem ekki eru eingöngu merkt með krossi (x) gildi sömu meginreglur.
Um framkvæmd atkvæðatalningar er fjallað í X. kafla laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Í 1. mgr. 81. gr. laganna er tekið fram að úrskurða skuli ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir. Við slíka úrskurðun ber að sjálfsögðu að viðhafa þá reglu að sambærileg sjónarmið gildi um úrskurðun einstakra seðla í öllum tilvikum. Annað er beinlínis rangt. Umbj. minn hefur ástæðu til að ætla að svo hafi ekki verið gert og gerir því kröfu til þess að öll atkvæði sem ekki eru eingöngu merkt með krossi (x) verði tekin til umfjöllunar á ný, bæði þau sem greidd voru á kjörfundi og eins þau atkvæði sem greidd voru utan kjörfundar.
Í dæmaskyni er bent á að atkvæði með hring utan um listabókstaf voru úrskurðuð gild en hins vegar ekki atkvæði það sem fjallað er um undir varakröfu hér að framan sem var bæði með hring og kross fyrir framan listabókstaf, svo sem nánar hefur verið vikið að. Að mati umbj. míns hefði fremur átt að meta slíkt atkvæði (síðarnefnda atkvæðið) gilt enda vilji kjósandans enn skýrari í því tilviki.
Þá liggur fyrir að ekki var farið með atkvæði greidd utan kjörfundar með sama hætti í öllum tilvikum. Þannig voru átta atkvæði greidd utan kjörfundar úrskurðuð ógild þar sem viðkomandi kjósendur höfðu ekki ritað nöfn sín undir fylgiskjöl með atkvæðunum en eitt samskonar atkvæði var metið gilt og tekið til greina við talningu atkvæða. Þetta eina atkvæði kom fram í kjördeild í Lyngbrekku og hafði verið blandað saman við önnur atkvæði úr þeirri deild þegar áðurnefnd átta atkvæði voru metin ógild. Hér var samræmis í mjög veigamiklu atriði því augljóslega ekki gætt. Um gildi slíkra atkvæða vísast til g–liðar 1. mgr. 86. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, sbr. 4. mgr. 43. gr. sömu laga og g–liðar 1. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sbr. 2. mgr. 63. gr. þeirra laga. Þegar fyrir lágu þessi óumdeildu mistök og í ljósi þeirrar jöfnu atkvæðaskiptingar sem hér um ræðir hefði yfirkjörstjórn átt að úrskurða kosninguna ógilda enda ekki unnt í ljósi þeirra mistaka sem gerð höfðu verið að fá fram óumdeilda og rétta niðurstöðu. Þetta bar yfirkjörstjórn að gera að eigin frumkvæði, “ex officio”. Það var hins vegar ekki gert.
Framangreind tvö dæmi sýna að samræmis var í mikilvægum atriðum ekki gætt við meðferð og úrskurðun bæði atkvæða greiddum á kjörfundi og utankjörfundaratkvæða.
Umbjóðandi minn vísar í þessu sambandi einnig til almennra jafnræðisreglna, sem hafa verður í heiðri til að tryggja jafna stöðu framboða og frambjóðenda og hlutleysi og sanngirni við framkvæmd kosninga til sveitarstjórna, en þær hafa stoð í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944, og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telja verður afar óeðlilegt að atkvæði, sem háð eru sambærilegum eða sama annmarka, fái ólíka meðferð kjörstjórnar og séu ýmist metin gild eða ógild, eins og upp mun hafa komið við ákvörðun kjörstjórnar um gildi atkvæða, bæði atkvæða sem greidd voru á kjörfundi og eins atkvæða sem greidd voru utan kjörfundar. Styður sú meðferð á atkvæðunum kröfu umbjóðanda míns um endurúrskurðun allra atkvæða sem ekki voru einungis merkt með krossi (x).”
Kærandi gerir enn fremur nokkrar athugasemdir við úrskurð kjörnefndar frá 11. júní sl. Varðandi umfjöllun nefndarinnar um aðalkröfu í kæru er kærandi algjörlega ósammála rökstuðningi kjörnefndar fyrir niðurstöðu sinni og er honum mótmælt. “Fyrir það fyrsta er því mótmælt að um “merki” sé að ræða á kjörseðlinum. Þegar um merki er fjallað í skilningi laganna er yfirleitt átt við þekkt merki félaga, fyrirtækja, stofnana eða stjórnmálasamtaka. Svo er ekki í þessu tilviki. Þannig eru atkvæði sem bera merki öfgahreyfinga talin ógild. Í því tilviki sem hér um ræðir er um óskiljanlegt “pár” að ræða sem ekki verður séð að neinn beinn tilgangur hafi verið með annar en sá að merkja við viðkomandi bókstaf. Í öðru lagi ... gerir hringur sá og aukastrik sem rituð eru á kjörseðilinnn hann alls ekki auðkennanlegan, ekki frekar en t.d. hringur utan um viðkomandi listabókstaf. Í þriðja lagi er mótmælt þeirri getgátu kjörnefndar að “merki sem eru á kjörseðlinum umfram krossinn” séu sett af ásettu ráði. Sú fullyrðing er algjörlega órökstudd og hefur enga stoð í raunveruleikanum. Miklu líklegra er að áritunin hafi verið sett af misgáningi og/eða í fljótfærni af hálfu kjósanda, eins og áður er rakið. Í fjórða lagi er því mótmælt að ekki hafi verið um minniháttar frávik að ræða. Vísast til þess að hringur utan um listabókstaf telst gilt atkvæði og einnig hringur fyrir framan listabókstaf í stað kross. Tvöföld merking, hringur og kross, hlýtur að verða telja minniháttar frávik í skilningi laganna, sbr. 1. mgr. 79. gr. Loks er í fimmta lagi því mótmælt að atkvæðið fari augljóslega í bága við ákvæði laga nr. 5/1998. Nefndin virðist í því efni eingöngu líta á d–lið 78. gr. laganna og tekur ekkert tillit til vilja kjósandans, sbr. 1. mgr. 79. laganna. Greinarnar tvær verður að lesa og virða saman af fullri sanngirni. Af þessum sökum er ástæða til að gera athugasemd við að kjörnefndin skuli ekki hafa gert minnstu tilraun til að skýra og túlka gildandi lög í þágu kjósandans sem einstaklings, svo sem orðalag síðari málsliðar 1. mgr. 79. gr. gefur beinlínis tilefni til.“
Varðandi varakröfu telur kærandi að kjörnefndin hafi beinlínis misskilið orðalag og efni varakröfunnar. Síðan segir í kærunni til ráðuneytisins:
„Í kæru [til sýslumanns, innskot ráðuneytisins] segir orðrétt: “Til vara er þess krafist að öll atkvæði greidd á kjörfundi og utan kjörfundar verði endurtalin og að endurúrskurðuð verði þau atkvæði sem úrskurðuð voru ógild af kjörstjórn við talningu. Leiði slík endurtalning og endurúrskurðun vafaatkvæða til breyttrar niðurstöðu þá verði niðurstöður kosninganna til sveitarstjórnar í Borgarbyggð ógiltar og þeim breytt til samræmis við niðurstöðu endurtalningar.” Með þessu orðalagi er fyrst og fremst farið fram á endurúrskurðun atkvæða sem minnsti vafi lék á um gildi og endurtalningu atkvæða eftir slíka umfjöllun og endurskoðun. Í þessu efni er einnig átt við atkvæði sem úrskurðuð voru gild en auðkennd höfðu verið með öðrum hætti en krossi svo sem rakið er ... hér að framan.
Við framangreindar aðstæður hlaut kjörnefndin að verða að taka afstöðu til þess hvort unnt væri að komast að óyggjandi niðurstöðu í ljósi þess óumdeilda galla sem upplýstist við lokameðferð atkvæða og talningu og áður en úrslit voru kynnt. Er þar átt við eitt utankjörfundaratkvæði sem talið var gilt en augljóslega átti að telja ógilt. Í ljósi þessa er í raun óframkvæmanlegt að endurtelja atkvæðin með réttum hætti og hefði því mátt ætla að niðurstaða kjörnefndar gæti ekki orðið önnur en sú að ógilda bæri kosninguna í heild sinni. Sérstaka kröfu í þessu efni þurfti umbj. minn ekki að setja fram. Með varakröfu sinni gerði hann það þó með óbeinum hætti. Loks er enn minnt á að gera verður afar strangar kröfur til þess að sambærilegar reglur gildi um meðferð og úrskurðun atkvæða.
Þá er því mótmælt að ekki hafi verið nefnd einstök dæmi um mismunandi meðferð atkvæða. ... Ef nánari tilvísun skorti að mati nefndarinnar var henni í lófa lagið að spyrjast frekar fyrir. Það gerði hún ekki og virti með því ekki eðlilega rannsóknarskyldu sína.“
III. Niðurstaða ráðuneytisins.
Um kosningakærur er fjallað í XIV. kafla laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Er þar að finna fyrirmæli um hvert kærum skal beint, kærufresti, hvaða aðilar skuli kveða upp úrskurð og innan hvaða tímamarka. Að auki er fjallað um hvaða sveitarstjórn skal starfa ef kosning er úrskurðuð ógild og að lokum er gert ráð fyrir að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Aðrar reglur um málsmeðferð í kosningakærumálum er ekki að finna í lögum nr. 5/1998 og ekki er sérstaklega vísað til annarra laga um málsmeðferð.
Í ljósi þess að ekki eru frekari málsmeðferðarreglur í lögum nr. 5/1998 svo og þess að úrskurði kjörnefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998 verður skotið til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 3. mgr. sömu greinar, telur ráðuneytið ljóst að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gildi um meðferð kjörnefndar og ráðuneytisins á kosningakærum eftir því sem við getur átt.
Um aðalkröfu kæranda
Kærandi gerir þá aðalkröfu að úrskurður kjörnefndar verði felldur úr gildi og honum vísað til nefndarinnar á ný til lögmætrar meðferðar. Er varðandi þá kröfu fyrst og fremst byggt á því að nefndin hafi hvorki virt upplýsinga- og rannsóknarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum né andmælarétt kæranda.
Fram kemur í gögnum málsins að kjörnefndin taldi sér ekki heimilt „að taka við skriflegri greinargerð kæranda eftir að kæra er komin fram“. Er þetta ritað í tengslum við þá kröfu kæranda að honum yrði gefinn kostur á að fjalla um umsögn um kæruna og önnur gögn sem fram kynnu að verða lögð áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu.
Um andmælarétt er fjallað í 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en ákvæðið hljóðar svo:
„Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.“
Eins og áður er rakið telur ráðuneytið ljóst að þetta ákvæði gildi við meðferð kjörnefndar á kosningakærum. Kærandi þarf því almennt ekki sérstaklega að gera kröfu um að eiga kost á að fjalla um umsögn um kæru eða önnur gögn. Kjörnefnd er skylt að afla slíkrar umfjöllunar frá kæranda en þó aðeins ef ekki liggur fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.
Að mati ráðuneytisins liggur ekkert fyrir í gögnum málsins, hvorki gögnum sem lágu fyrir kjörnefnd né viðbótargögnum með kæru til ráðuneytisins, sem leitt getur til þess að kjörnefnd hafi ótvírætt verið skylt að afla viðbótargagna eða umsagnar frá kæranda áður en úrskurður var kveðinn upp. Upphafleg kæra var skýr og rökstudd og umsögn og gögn sem aflað var frá yfirkjörstjórn voru ekki þess eðlis að röksemdum kæranda yrði alfarið kollvarpað. Þau atriði sem aðila greinir helst á um er hvernig það bar til að eitt atkvæði var tekið til úrskurðar af yfirkjörstjórn og síðan úrskurðað ógilt. Telur ráðuneytið að það atriði sé ekki þess eðlis að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Í 1. mgr. 81. gr. laga nr. 5/1998 segir að yfirkjörstjórn skuli úrskurða ágreiningsseðla „jafnóðum og þeir koma fyrir“. Ekki er í ákvæðinu gert ráð fyrir sérstökum tímamörkum í þeim efnum. Er þannig mögulegt að til dæmis við þriðju endurtalningu atkvæða komi fram seðill sem vafi leikur á um að sé gildur og ber yfirkjörstjórn að taka seðilinn til úrskurðar þó hann hafi verið talinn með gildum atkvæðum fram að því.
Einnig gerir kærandi athugasemd við það að honum hafi verið gefinn of stuttur fyrirvari til að vera viðstaddur fund kjörnefndar með yfirkjörstjórn til að skoða umdeild kjörgögn. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um lög nr. 37/1993 telur ráðuneytið að kjörnefnd sé almennt ekki skylt að veita kæranda rétt til að vera viðstaddur slíkan fund, enda er hann fyrst og fremst ætlaður fyrir kjörnefnd til að afla nauðsynlegra upplýsinga frá gagnaðila kæranda svo unnt sé að taka mál til úrskurðar. Ef hins vegar farin er sú leið að bjóða kæranda að vera viðstaddur slíkan fund telur ráðuneytið að nefndin verði að gæta þess að kæranda berist upplýsingar um fundartíma í tæka tíð. Þó verður að hafa hliðsjón af því að ekki getur verið um mikið svigrúm að ræða í þessum efnum, enda er kjörnefnd skylt að kveða upp úrskurð sinn innan tiltölulega þröngra tímamarka, sbr. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998.
Með hliðsjón af öllu framangreindu telur ráðuneytið að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi gilt við meðferð kjörnefndar á kærumáli vegna sveitarstjórnarkosninga í Borgarbyggð þann 25. maí 2002. Ekki hafa hins vegar að mati ráðuneytisins komið fram slíkir ágallar á málsmeðferðinni að nauðsynlegt teljist að vísa málinu aftur til nefndarinnar til „lögmætrar meðferðar“ eins og kærandi krefst. Jafnframt telur ráðuneytið að slík heimvísun sé ekki í anda hinna sérstöku reglna laga nr. 5/1998 um góðan málshraða í kærumálum varðandi kosningar. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að hafna aðalkröfu kæranda um að úrskurður kjörnefndarinnar verði felldur úr gildi og honum vísað til nefndarinnar á ný til lögmætrar meðferðar.
Um varakröfur kæranda
Í 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er að finna rannsóknarreglu laganna og hljóðar ákvæðið svo:
„Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“
Þegar um er að ræða málsatvik sem hafa augljóslega þýðingu við úrlausn tiltekins máls verður ávallt að rannsaka þau nánar af hinu æðra stjórnvaldi svo hægt verði að komast að efnislega réttri niðurstöðu. Í bæði varakröfu og þrautavarakröfu kæranda er fjallað um gildi einstakra atkvæða sem greidd voru við sveitarstjórnarkosningarnar í Borgarbyggð. Eru málsatvik sem varða kröfur þessar svo nátengd að ráðuneytið telur einsýnt að fjalla verði saman um varakröfu og þrautavarakröfu kæranda, sbr. einnig rannsóknarskyldu þá sem hvílir á ráðuneytinu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga.
Í samræmi við þá skyldu taldi ráðuneytið nauðsynlegt að skoða nánar kjörgögn frá sveitarstjórnarkosningunum í Borgarbyggð áður en úrskurður yrði lagður á málið. Fóru tveir starfsmenn ráðuneytisins hinn 28. júní sl. til sýslumannsins í Borgarnesi sem varðveitti kjörkassa með öllum kjörgögnum. Teknir voru til skoðunar allir atkvæðaseðlar sem notaðir höfðu verið við kosninguna með tilliti til þess að kanna hvort annars konar merking en kross fyrir framan listabókstaf var á þeim, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 5/1998, og eftir atvikum jafnframt breytt nafnaröð á þeim lista sem kjósandi kaus, sbr. 2. mgr. sömu greinar, eða frambjóðanda á lista sem kjósandi kaus var hafnað með yfirstrikun, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Eftirfarandi frávik fundust fyrir utan þá atkvæðaseðla sem yfirkjörstjórn hafði úrskurðað ógilda og voru þegar í vörslu ráðuneytisins:
1. Á atkvæðum greiddum „B Lista Framsóknarflokks“:
§ Atkvæði greidd utan kjörfundar:
o Kross og bandstrik fyrir framan listabókstafinn B [„X – B“] – (1 atkvæði)
o B með punkti fyrir aftan [„B.“] – (2 atkvæði)
o Einungis nafn flokksins [„Framsóknarflokkurinn“] – (1 atkvæði)
o Bókstafur og nafn flokksins [„B listi framsóknarflokks“] – (1 atkvæði)
§ Atkvæði greidd á kjörfundi:
o Kross fyrir aftan listabókstaf – (26 atkvæði)
o Kross fyrir framan listabókstaf og kross við nafn efsta manns á lista – (1 atkvæði)
o Kross ofan í listabókstaf – (4 atkvæði)
o Kross nær út fyrir ramma þar sem listabókstafur er og niður á nafnalista – (2 atkvæði)
o Kross fyrir framan listabókstaf og aukastrik innan ramma sama lista – (2 atkvæði)
o Kross fyrir framan listabókstaf og aukastrik utan ramma – (1 atkvæði)
o Kross fyrir framan listabókstaf sem nær örlítið upp fyrir rammann – (1 atkvæði)
o Kross og bandstrik fyrir framan listabókstaf [„X – B“] – (5 atkvæði)
o Ólögulegur kross fyrir framan listabókstaf – (2 atkvæði)
o Enginn kross fyrir framan listabókstaf en kross fyrir framan eitt nafn á lista– (2 atkvæði)
o Enginn kross fyrir framan listabókstaf en strikað yfir eitt nafn á lista – (2 atkvæði)
o Merki fyrir framan listabókstaf er v–laga [„V“] – (1 atkvæði)
o Merki fyrir framan listabókstaf líkist V en gæti verið ólögulegur kross auk þess sem merkt er við frambjóðendur á sama lista – (1 atkvæði)
§ Samtals: Fimm atkvæði greidd utan kjörfundar og 50 atkvæði greidd á kjörfundi.
2. Á atkvæðum greiddum „D Lista Sjálfstæðisflokks“:
§ Atkvæði greidd utan kjörfundar:
o Bókstafur og nafn flokksins [„Sjálfstæðisflokkurinn X D“] – (1 atkvæði)
§ Atkvæði greidd á kjörfundi:
o Kross fyrir aftan listabókstaf – (31 atkvæði)
o Kross ofan í listabókstaf – (3 atkvæði)
o Kross fyrir framan listabókstaf sem nær örlítið upp fyrir rammann – (2 atkvæði)
o Kross og bandstrik fyrir framan listabókstaf [„X – D“] – (3 atkvæði)
o Kross fyrir framan listabókstaf og aukastrik innan ramma annars lista, B listans – (1 atkvæði)
o Kross fyrir framan listabókstaf og kross við eitt nafn á sama lista – (1 atkvæði)
o Ólögulegur kross fyrir framan listabókstaf – (7 atkvæði)
o Hringur utan um listabókstaf – (1 atkvæði)
o Enginn kross fyrir framan listabókstaf en krossað við eitt nafn á lista – (1 atkvæði)
o Enginn kross fyrir framan listabókstaf en númer skrifuð fyrir framan þrjú nöfn á lista – (1 atkvæði)
§ Samtals: Eitt atkvæði greitt utan kjörfundar og 51 atkvæði greitt á kjörfundi.
3. Á atkvæðum greiddum „L Lista Borgarbyggðarlista“:
§ Atkvæði greidd utan kjörfundar:
o Bókstafurinn L og rituð nöfn fimm einstaklinga sem voru á listanum [breytt röð manna á lista] – (1 atkvæði)
§ Atkvæði greidd á kjörfundi:
o Kross fyrir aftan listabókstaf – (12 atkvæði)
o Kross ofan í listabókstaf – (1 atkvæði)
o Kross nær út fyrir ramma þar sem listabókstafur er og niður á nafnalista – (1 atkvæði)
o Kross og bandstrik fyrir framan listabókstaf [„X – L“] – (1 atkvæði)
o Ólögulegur kross fyrir framan listabókstaf – (1 atkvæði)
o Hringur utan um listabókstaf – (2 atkvæði)
§ Samtals: Eitt atkvæði greitt utan kjörfundar og 18 atkvæði greidd á kjörfundi.
Eingöngu voru könnuð framangreind frávik og fjöldi þeirra skráður en ekki var framkvæmd heildarendurtalning atkvæða. Samkvæmt gögnum málsins var talning framkvæmd sex sinnum af yfirkjörstjórn ætíð með sömu niðurstöðu og telur ráðuneytið þar af leiðandi óþarft að telja öll atkvæði á nýjan leik. Unnt er því að byggja á þeim niðurstöðutölum sem skráðar eru í gerðabók yfirkjörstjórnar. Samkvæmt þeim féllu atkvæði þannig að B–listi hlaut 522 atkvæði, D–listi 546 atkvæði og L–listi 261 atkvæði. Vegna þess að jafn mörg atkvæði voru að baki fjórða manni á B–lista og öðrum manni á L–lista var varpað hlutkesti milli listanna um níunda og síðasta sætið í bæjarstjórn. Vann L–listi það hlutkesti.
Eins og gerð er grein fyrir hér að framan komu fram við kosningarnar níu atkvæði sem greidd höfðu verið utan kjörfundar þar sem fylgibréf með kjörseðlum höfðu ekki verið undirrituð af kjósendum í viðeigandi línu á fylgibréfinu. Eitt af þessum atkvæðum var metið gilt af undirkjörstjórn og sett í kjörkassa í þeirri kjördeild ásamt öðrum atkvæðum. Var það atkvæði talið eins og hvert annað utankjörfundaratkvæði og er því ómögulegt að segja til um hvort það var greitt einhverjum af ofangreindum listum eða hvort um var að ræða autt eða ógilt atkvæði af annarri ástæðu en þeirri að fylgibréf með kjörseðlinum var óundirritað.
Þau átta utankjörfundaratkvæði sem eftir stóðu voru metin ógild af yfirkjörstjórn á þeirri forsendu að kjósendur hefðu ekki ritað undir fylgibréf með kjörseðlinum. Er sú niðurstaða í samræmi við úrskurði ráðuneytisins frá 3. júlí 1990, 27. júlí 1990 og 31. júlí 1998. Í síðastnefnda úrskurðinum er sérstaklega tekið fram að lög um kosningar til Alþingis og lög um kosningar til sveitarstjórna geri ekki greinarmun á því hvort kjörstjóri utan kjörfundar hefur gert mistök eða viðkomandi kjósandi. Síðari breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna hafa ekki efnislega varðað þau ákvæði sem þessi niðurstaða byggist á en þau ákvæði eru nú í 2. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, sbr. og 4. mgr. 43. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
Með skírskotun til þessarar niðurstöðu og röksemda fyrir henni fellst ráðuneytið á þá niðurstöðu yfirkjörstjórnar og kjörnefndar að ógilda beri þá utankjörfundaratkvæðaseðla þar sem fylgibréf voru ekki verið undirrituð af kjósendum.
Við nánari skoðun ráðuneytisins á fylgibréfum þeirra átta utankjörfundaratkvæða, sem samkvæmt framansögðu voru lýst ógild af yfirkjörstjórn og því ekki talin með öðrum atkvæðum, hefur komið í ljós að á einu þeirra hafði kjósandi ritað nafn sitt en þó ekki í rétta línu á fylgibréfinu. Er undirritun kjósanda á línu sem undir stendur „(Staða)“ neðst á fylgibréfinu og er þar fyrir ofan lína sem kjörstjóri ritar nafn sitt á og setur embættisstimpil. Orðið „staða“ í þessu samhengi á við um viðkomandi kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna. Er þetta eini ágalli þessa fylgibréfs.
Í 1. og 2. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, er fjallað um hvernig kjósandi greiðir atkvæði utan kjörfundar, en þau ákvæði eiga við um kosningar til sveitarstjórna, sbr. 4. mgr. 43. gr. laga nr. 5/1998. Ákvæði 1. og 2. mgr. 63. gr. laga nr. 24/2000 hljóða svo:
„Kjósandi, sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar, skal gera kjörstjóra grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kjörstjóri skal halda sérstaka skrá yfir þá sem greiða atkvæði hjá honum, sbr. 1. mgr. 66. gr.
Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn. Skal hann síðan aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn á þann hátt er segir í 2. mgr. 62. gr. og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið. Því næst áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.“
Í samræmi við lagaákvæði þetta eru á fylgibréfi með utankjörfundaratkvæði yfirlýsingar sem kjósandi annars vegar og kjörstjóri hins vegar skulu undirrita. Hljóðar yfirlýsing kjósanda svo:
„Ég lýsi því yfir að ég get ekki sótt kjörfund á kjördegi á kjörstað mínum. Ég lýsi því jafnframt yfir að ég hef aðstoðarlaust, í einrúmi og án þess að nokkur annar hafi séð, ritað atkvæði mitt á kjörseðilinn, sett atkvæðið í umslagið og límt það aftur.“
Yfirlýsing kjörstjóra sem ber yfirskriftina „vottorð“ hljóðar svo:
„Það vottast hér með að ofannefndur kjósandi hefur í minni viðurvist undirritað ofangreinda yfirlýsingu eigin hendi á þeim stað og tíma sem greindur er, og að atkvæðagreiðslan hefur átt sér stað í einrúmi og án þess að nokkur annar hafi séð. Kjósandinn hefur gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt.“
Þá er í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 5/1998, sbr. 19. gr. laga nr. 27/2002, að finna svofellt ákvæði:
„Ekki skal taka til greina utankjörfundaratkvæði ef:
a. sendandinn er ekki á kjörskrá,
b. sendandinn er búinn að greiða atkvæði,
c. sendandinn hefur afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild, sbr. 51. gr.,
d. sendandinn hefur látist fyrir kjördag,
e. í sendiumslaginu er meira en eitt fylgibréf og eitt kjörseðilsumslag,
f. sjáanlegt er að ekki hafi verið notuð hin fyrirskipuðu kjörgögn er dómsmálaráðuneytið hefur látið gera,
g. ekki hefur verið farið eftir þeim reglum sem settar hafa verið um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eða
h atkvæðið hefur ekki verið greitt á þeim tíma sem greinir í 57. gr. og 5. mgr. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.“
Ráðuneytið telur ljóst að kjósandi sá sem hér um ræðir hafi ritað nafn sitt á fylgibréfið með því atkvæði sem hann greiddi utan kjörfundar. Verður að líta svo á að það frávik að nafnið var ritað í aðra línu en þar er gert ráð fyrir sé svo lítilfjörlegt að það geti ekki leitt til þess að atkvæðið verði talið ógilt í skilningi g-liðar 1. mgr. 68. gr. laga nr. 5/1998, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 79. gr. laganna. Þótt brýnt sé að öllum formreglum sé fylgt við atkvæðagreiðslu væri fráleitt ef smávægileg frávik eins og þetta, sem telja verður að sá opinberi starfsmaður er stjórnaði utankjörfundaratkvæðagreiðslunni beri ábyrgð á, yrði til þess að atkvæði kjósanda félli dautt og ómerkt. Af þeim sökum var hér ótvírætt um að ræða gilt atkvæði sem yfirkjörstjórn bar skylda til að taka til greina og telja með öðrum atkvæðum.
Eitt af megineinkennum almennra og lýðræðislegra kosninga hér á landi er að þær skulu vera leynilegar, sbr. 31. gr. stjórnarskrárinnar og 19. gr. laga nr. 5/1998. Ef vafi hefur þótt leika á því hvort sveitarstjórnarkosningar eða sambærilegar kosningar hafi verið leynilegar hefur Hæstiréttur litið svo á að það atriði skuli leiða til ógildingar kosninganna, sbr. dóma réttarins varðandi sveitarstjórnarkosningar í Geithellnahreppi (Hrd. 1982, bls. 192) og varðandi atkvæðagreiðslu um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar (Hrd. 1994, bls. 2640).
Ljóst er að ef atkvæði þetta verður opnað hvort sem er af ráðuneytinu eða yfirkjörstjórn er ekki unnt að tryggja viðkomandi kjósanda nægjanlega leynd um hvernig hann kaus. Af þeim sökum væri það andstætt fyrrgreindum fyrirmælum laga um leynilegar kosningar ef umslagið með kjörseðli kjósandans yrði nú opnað og atkvæði hans talið með öðrum atkvæðum.
Samkvæmt því sem að framan greinir liggur ljóst fyrir að eitt atkvæði sem greitt var utan kjörfundar við sveitarstjórnarkosningarnar í Borgarbyggð 25. maí sl. var tekið gilt og talið með öðrum atkvæðum þótt slíkt sé andstætt fyrirmælum laga. Jafnframt var annað utankjörfundaratkvæði við sömu kosningar ekki tekið til greina og talið með öðrum atkvæðum þótt það hafi verið skylt lögum samkvæmt.
Í 94. gr. laga nr. 5/1998 segir orðrétt:
„Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“
Það er ljóst miðað við fyrrgreindar atkvæðatölur að þeir gallar á kosningunni að telja annað umræddra atkvæða ranglega með öðrum atkvæðum og líta ranglega framhjá hinu, kunna að hafa haft áhrif á úrslit kosninganna, þ.e. hvort B–listi fengi fjóra bæjarfulltrúa kjörna eða L–listi tvo bæjarfulltrúa. Það er hins vegar ekki mögulegt úr því sem komið er að ganga úr skugga um það, eins og gerð er grein fyrir hér að framan, hver úrslit kosninganna hefðu orðið ef þessir gallar hefðu ekki komið fram. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að ógilda kosningarnar og mæla fyrir um nýjar kosningar í þeirra stað skv. 90. og 91. gr. laga nr. 5/1998.
Að því er varðar atkvæði það greitt á kjörfundi sem yfirkjörstjórn úrskurðaði ógilt og er fyrst og fremst tilefni kæru til sýslumanns og ráðuneytisins, sbr. mynd á bls. 6 í úrskurði þessum, vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:
Jafnvel þótt fallist yrði á það með kæranda að atkvæði þetta teldist greitt B–lista, hefðu umrædd tvö utankjörfundaratkvæði samt sem áður getað haft áhrif á úrslit kosninganna, svo sem á þann veg að L–listi fengi tvo fulltrúa kjörna ef utankjörfundaratkvæðið sem taka átti til greina hefði verið greitt þeim lista. Þar sem spurningin um hvort kjörfundaratkvæði þetta er gilt eða ógilt breytir ekki áhrifum þeirra ágalla sem að framan eru raktir á gildi kosninganna, er ekki þörf á að leysa úr því álitaefni í þessum úrskurði.
Vegna eðlis máls þessa var reynt að hraða meðferð þess í ráðuneytinu. Atvik varðandi gildi eins af átta utankjörfundaratkvæðum komu hins vegar ekki í ljós fyrr en á síðari stigum meðferðar þess og urðu til þess að málið reyndist umfangsmeira en talið var í fyrstu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Úrskurður nefndar, sem skipuð var af sýslumanninum í Borgarnesi þann 3. júní 2002, dagsettur 11. júní 2002, er úr gildi felldur.
Sveitarstjórnarkosningar er fram fóru í Borgarbyggð þann 25. maí 2002 eru ógildar. Skulu kosningarnar fara fram að nýju svo fljótt sem auðið er.
Páll Pétursson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Afrit: Bæjarstjórn Borgarbyggðar
Sýslumaðurinn í Borgarnesi
Yfirkjörstjórn Borgarbyggðar