Akureyrarkaupstaður - Kærufrestur, málshraði og jafnræðisreglan
Leikskóli Guðnýjar Önnu ehf. 15. maí 1996 96010152
Sigurjón Haraldsson framkvæmdastjóri 16-6000
Móasíðu 1
603 Akureyri
Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 24. janúar 1996, þar sem gerð er fyrirspurn um hvort Akureyrarkaupstaður hafi brotið stjórnsýslulög í samskiptum og meðferð mála Leikskóla Guðnýjar Önnu ehf. hjá sveitarfélaginu.
Erindið var sent til umsagnar bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar með bréfi, dagsettu 31. janúar 1996. Þann 11. mars 1996 hafði umsögn ekki borist og var því ítrekað óskað eftir umsögn með bréfi, dagsettu sama dag, og aftur með bréfi, dagsettu 28. mars 1996. Umsögn barst loks ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 19. apríl 1996.
Í erindinu eru rakin atvik varðandi samskipti yðar við Akureyrarkaupstað allt frá haustinu 1992. Er því rétt að gera grein fyrir gildistöku stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæði laganna um kærufrest.
Um kærufrest er fjallað í 27. gr. laganna og segir svo í 1. mgr.: “Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.”
Samkvæmt 35. gr. öðluðust lögin gildi þann 1. janúar 1994. Síðan segir svo í 2. og 3. mgr. 35. gr.:
“Beita skal lögum þessum einvörðungu um mál sem koma til meðferðar hjá stjórnvöldum eftir gildistöku laganna. Sé mál tekið upp að nýju eða ákvörðun kærð til æðra stjórnvalds eftir gildistöku laga þessara skal beita lögunum um þau mál upp frá því.
Ákvæðum 27. gr. um kærufrest skal aðeins beita um þau mál þar sem ákvörðun hefur verið tilkynnt eftir gildistöku laganna.”
Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að ráðuneytinu ber ekki að fjalla um atvik og ákvarðanir sveitarstjórna ef þeim er ekki beint til ráðuneytisins með kæru eða álitsbeiðni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Ráðuneytið telur þó rétt að gera grein fyrir reglum um nokkur þeirra atriða sem tilgreind eru í erindinu.
Það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldi sem berst skriflegt erindi ber að svara erindinu með sama hætti, þ.e. skriflega, og jafnframt svo fljótt sem unnt er, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Ef erindi og svör eru skrifleg er auðveldara að henda reiður á samskiptum aðilanna og jafnframt er öll sönnun auðveldari heldur en ef samskiptin eru munnleg. Ráðuneytið mun því brýna fyrir Akureyrarkaupstað að gæta þessara reglna varðandi samskipti við yður.
Hvað varðar fyrirspurn um hvort jafnræðis hafi verið gætt gagnvart Leikskóla Guðnýjar Önnu ehf. miðað við úthlutun stofnstyrks Akureyrarkaupstaðar til leikskóla Hvítasunnumanna er rétt að taka fram að sá stofnstyrkur var samþykktur af bæjarráði Akureyrarkaupstaðar þann 29. júlí 1987. Telja verður að svo langt hafi liðið milli þeirrar afgreiðslu og síðari beiðna Leikskóla Guðnýjar Önnu ehf. að ekki sé unnt að bera málin saman m.t.t. jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna.
Í lögum um leikskóla nr. 78/1994 og reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/1995 er ekki að finna ákvæði um skyldu sveitarfélaga til að veita einkaaðilum stofn- eða rekstrarstyrk vegna leikskóla. Ljóst er þó að Akureyrarkaupstaður hefur sett sér reglur um veitingu slíkra styrkja, en af gögnum málsins er einnig ljóst að þær reglur þarfnast endurskoðunar í ljósi núgildandi laga um leikskóla. Þegar sveitarfélag hefur sett slíkar reglur verður að telja þær bindandi fyrir sveitarfélagið þar til annað er ákveðið af sveitarstjórn. Verður í því sambandi einnig að hafa í huga ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem fjallar um jafnræðisregluna. Þannig ber Akureyrarkaupstað að meðhöndla sambærilegar umsóknir um stofn- eða rekstrarstyrki fyrir leikskóla með sambærilegum hætti. Jafnframt ber að taka tillit til 1.-3. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Félagsmálaráðuneytið hefur með hliðsjón af þeim ákvæðum ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við styrkveitingar sveitarfélaga til einstakra verkefna á vegum einkaaðila, svo fremi sem sveitarfélögin sinna lögbundnum verkefnum sínum.
Afgreiðsla erindis yðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og tafa Akureyrarkaupstaðar á að veita ráðuneytinu umsögn um málið.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Ljósrit: Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar.