Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Leirár- og Melasveit - Afhending gagna til aðila máls

Löggarður ehf.                                                        9. desember 1997                                              97100071

Guðni Á. Haraldsson hrl.                                                                                                                     16-3504

Kringlunni 6

103 Reykjavík

 

 

             Þann 9. desember 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 7. október 1997, kærði Guðni Á. Haraldsson hrl., fyrir hönd Þórdísar Njálsdóttur, Heiðarskóla, Leirár- og Melasveit, til félagsmálaráðuneytisins neitun skólanefndar Heiðarskóla um afhendingu á gögnum sem nefndin hefur í fórum sínum og varða Þórdísi.

 

             Erindið var sent til umsagnar skólanefndar Heiðarskóla með bréfi, dagsettu 15. október 1997.  Umsögn Jóns Hauks Haukssonar hdl., fyrir hönd skólanefndarinnar, barst með bréfi, dagsettu 4. nóvember 1997.

 

I.          Málavextir og málsástæður.

 

             Þórdís Njálsdóttir hefur starfað við kennslu við Heiðarskóla s.l. 7 ár.  Á liðnu sumri frétti hún að veturinn áður hefðu komið fram kvartanir frá foreldrum nemenda í 1. bekk skólans.  Var henni tjáð af skólastjóra að málið væri til athugunar hjá honum, skólanefnd og byggðasamlagi skólans.

 

             Þann 26. september 1997 gerði hún formlega kröfu á hendur skólanefnd Heiðarskóla um að henni yrðu afhent þau gögn er fyrir lægju hjá skólanefnd um málið.  Var þeirri kröfu hafnað með bréfi formanns skólanefndar, dagsettu 29. sama mánaðar.

 

             Kærandi gerir þá kröfu að lagt verði fyrir skólanefnd að afhenda Þórdísi Njálsdóttur ljósrit allra umræddra ganga sem eru í fórum nefndarinnar og varða mál þetta.  Þeirri kröfu til stuðnings vitnað kærandi til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða.

 

             Í gögnum frá skólanefndinni kemur fram að beiðni Þórdísar hafi verið hafnað m.a. á þeim grundvelli að óljóst geti talist hvort Þórdís skuli teljast aðili að umræddu máli fyrir skólanefnd.  Stjórn byggðasamlags Heiðarskóla hafi málið formlega til umfjöllunar, en skólanefndin hafi gert tillögur til stjórnarinnar um málið að beiðni foreldra nokkurra barna við skólann.  Þórdís hafi fengið afhentan lista yfir athugasemdir foreldranna og jafnframt verið boðuð á fund skólanefndar til að ræða þær.  Ennfremur er vitnað til ákvæða stjórnsýslulaga sem takmarka upplýsingarétt og raktar ástæður nefndarinnar fyrir því að takmarka upplýsingaréttinn í þessu tilviki, m.a. um að umrædd bréf teljist vera trúnaðarmál milli skólanefndar og viðkomandi foreldra.

 

             Að auki kemur fram í umsögn frá lögmanni skólanefndarinnar að skólanefnd hafi gert tillögur til stjórnar byggðasamlags skólans um lausn málsins, en stjórnin hafi ekki gefið skólastjóra fyrirmæli um að þeim tillögum skyldi fylgt.  “Tillögum skólanefndar var ekki fylgt og þegar það lá fyrir, auk þess sem aðgerðir, sem skólastjóri hafði gripið til, virtust engan árangur bera, vísaði skólanefnd ágreiningsmálinu til umfjöllunar í menntamálaráðuneytinu.  Menntamálaráðuneytið hefur nú sent málið til stjórnar byggðasamlags Heiðarskóla til úrlausnar, enda er það hið rétta stjórnvald til að taka ákvörðun um lausn málsins eða viðbrögð að öðru leyti.”

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir m.a. svo:  “Aðili máls á rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða.”  Ákvæði þetta á eingöngu við um rétt aðila máls til aðgangs að gögnum máls þar sem tekin verður stjórnvaldsákvörðun.

 

             Ráðuneytið telur ljóst af gögnum málsins að skólanefnd Heiðarskóla hafi ekki verið það stjórnvald sem taka skyldi stjórnvaldsákvörðun í umræddu máli.  Slík ákvörðun, ef tekin verður, er í höndum stjórnar byggðasamlags Heiðarskóla.  Af gögnum málsins er ennfremur ljóst að sú stjórnvaldsákvörðun hefur ekki verið tekin, en málið er til meðferðar hjá stjórninni.  Í verkahring stjórnarinnar er þar af leiðandi að gæta þess að reglna stjórnsýslulaga sé fylgt við meðferð og afgreiðslu málsins.

 

             Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að krafa kæranda um afhendingu gagna frá skólanefnd Heiðarskóla falli ekki undir ákvæði 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga.

 

             Hins vegar telur ráðuneytið að um framangreinda kröfu geti ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996 gilt.  Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. þeirra laga verður synjun stjórnvalds, hér skólanefndar Heiðarskóla, um að veita aðgang að gögnum samvæmt þeim lögum borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn.

 

             Með vísan til alls framangreinds er vísað frá félagsmálaráðuneytinu kröfu um að lagt verði fyrir skólanefnd Heiðarskóla að afhenda Þórdísi Njálsdóttur ljósrit allra gagna sem er að finna í fórum skólanefndarinnar og varða mál hennar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Kröfu um að lagt verði fyrir skólanefnd Heiðarskóla að afhenda Þórdísi Njálsdóttur ljósrit allra gagna sem er að finna í fórum skólanefndarinnar og varða mál hennar er vísað frá félagsmálaráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Skólanefnd Heiðarskóla.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta