Almennt hæfi
Svæðisráð fatl. á N-Vestra 6. apríl 1999 99030050
Valgarður Hilmarsson, formaður 1001
Fremstagili
541 Blönduós
Vísað er til bréfs yðar dags. 12. mars 1999, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á því hvort samrýmst geti lögum að fulltrúar í svæðisráði um málefni fatlaðra gegni jafnframt stöðu félagsmálastjóra eða formanns félagsmálaráðs í sveitarfélagi á viðkomandi svæði. Tilefni fyrirspurnarinnar er fyrirhugaður flutningur á hluta af verkefnum svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra til félagsþjónustu sveitarfélaga á svæðinu. Ráðuneytið skilur erindi yðar svo að spurt sé hvort við framangreindar aðstæður verði ofangreindir fulltrúar í svæðisráði almennt vanhæfir til að gegna setu í ráðinu.
Hvað varðar þá aðstöðu sem fyrirspurn yðar lýtur að gildir 6. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum. Í 3. mgr. ákvæðisins er fjallað um hvernig svæðisráð skuli skipað. Ráðherra skipar ráðið að fengnum tilnefningum frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, þrír fulltrúar eru tilnefndir af svæðisbundnum samtökum sveitarfélaga og skal einn þeirra vera félagsmálastjóri á svæðinu. Jafnframt skal héraðslæknir eiga sæti í ráðinu og loks skipar félagsmálaráðherra einn fulltrúa án tilnefningar.
Þótt í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, sé hvergi beinlínis fjallað um þann möguleika að stjórnvald eða nefndarmaður geti orðið almennt vanhæfur til að gegna stöðu sem hann hefur verið skipaður til að gegna, er viðurkennt í stjórnsýslurétti að sú staða getur vverið fyrir hendi, t.d. þegarmeginhlutverk stjórnsýslunefndar er að hafa eftirlit með lægra settu stjórnvaldi. Er þá tíðni vanhæfistilvika viðkomandi nefndarmanns orðin slík, að ekki verður talið að seta í nefndinni samrýmist stöðu hans sem lægra setts stjórnvalds.
Þar sem í 3. mgr. 6. gr. laga um málefni fatlaðra er beinlínis kveðið á um að í svæðisráði skuli ávallt eiga sæti a.m.k. einn félagsmálastjóri á svæðinu, telur ráðuneytið sýnt að ekki geti orðið um að ræða almennt vanhæfi vegna fulltrúa í svæðisráði sem slíkri stöðu gegnir. Hið sama hlýtur jafnframt að gilda um formann félagsmálaráðs, enda er ljóst af lögskýringargögnum að tilgangur ákvæðisins er að tryggja það að í svæðisráðum sitji jafnan fólk með faglega þekkingu á málefnum fatlaðra. Telur ráðuneytið því að viðkomandi nefndarmenn eigi ótvírætt að halda áfram setu í svæðisráði, en að sjálfsögðu skulu þeir jafnan víkja sæti við afgreiðslu einstakra mála sem þeir hafa haft afskipti af á lægra stjórnsýslustigi eða ef þeir tengjast aðilum málsins með þeim hætti sem lýst er í 3. gr. stjórnsýslulaga.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)