Mýrdalshreppur - Kaupskylda á mannvirkjum og öðrum framkvæmdum og úrbótum á Dyrhólum
Lögrún sf. 19. maí 2000 Tilvísun: FEL00040081/16-8508
Jón Höskuldsson, hdl.
Skólavörðustíg 12
101 Reykjavík
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 20. apríl sl., þar sem kærð er ákvörðun hreppsnefndar Mýrdalshrepps um að hafna kaupskyldu á hluta af mannvirkjum og öðrum framkvæmdum og umbótum á Dyrhólum í Mýrdalshreppi.
Af kærunni verður ekki annað ráðið en að málið varði hvort hreppsnefnd Mýrdalshrepps hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt ábúðarlögum nr. 64/1976. Fram kemur að ágreiningur er milli umbjóðanda yðar og sveitarfélagsins um að hve miklu leyti ábúðarlögin leggi skyldur í þessum efnum á sveitarfélagið. Að auki er í kærunni haldið fram að hreppsnefndin hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 skal félagsmálaráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Samkvæmt þessu nær úrskurðarvaldið yfir formlegu atriðin við töku ákvörðunar, sbr. sveitarstjórnarlög og stjórnsýslulög, en ekki efnisinnihald, þ.e. atriði sem byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnarinnar. Að auki á ráðuneytið ekki úrskurðarvald um ákvarðanir sveitarstjórna ef slíkt vald er falið öðrum ráðuneytum eða stofnunum með lögum.
Meint brot hreppsnefndar Mýrdalshrepps í máli þessu á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga tengjast beint hinum efnislega ágreiningi, þ.e. hvort og að hve miklu leyti um er að ræða kaupskyldu sveitarfélagsins samkvæmt ábúðarlögum. Félagsmálaráðuneytið hefur ekki úrskurðarvald um túlkun ábúðarlaga en stjórnskipulega heyra þau lög undir landbúnaðarráðuneytið. Er því óhjákvæmilegt að vísa erindi yðar frá félagsmálaráðuneytinu.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)