Mosfellsbær - Málsmeðferð við lóðaúthlutun, úthlutunarreglum breytt afturvirkt, meðalhófsregla, jafnræðisregla
Unnur Þormóðsdóttir 17. apríl 2001 FEL01010070/1001
Borgarheiði 3 V
810 HVERAGERÐI
Vísað er til erindis yðar, dags. 29. desember 2000, sem barst ráðuneytinu 12. janúar sl., varðandi lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. desember 2000 um lóðaúthlutun. Í erindi yðar óskið þér eftir áliti ráðuneytisins á eftirtöldum atriðum:
1. Var löglega staðið að úthlutun lóða í Mosfellsbæ?
2. Eru einhver lög sem heimila eða banna að breyta reglum með þeim hætti sem gert var í Mosfellsbæ?
3. Er hægt að fara fram á endurúthlutun?
4. Ef svarið við 3) er neitandi, er þá hægt að krefja bæjarstjórn um bætur vegna útlagðs kostnaðar?
Erindi yðar var kynnt bæjarstórn Mosfellsbæjar í bréfi ráðuneytisins dags. 15. janúar sl. Einnig hafa ráðuneytinu borist erindi frá Agli Helgasyni og Axel Eiríkssyni vegna sama máls. Umsögn bæjarstjórnar varðandi öll þrjú málin, dags. 27. febrúar, barst ráðuneytinu þann 28. febrúar. Með bréfi ráðuneytisins sama dag var yður gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum yðar í málinu, telduð þér þess þörf.
Um þau atriði sem fyrirspurn yðar varðar er fjallað ítarlega í meðfylgjandi úrskurði ráðuneytisins í kærumáli Axels Eiríkssonar gegn bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Um ítarlegri rökstuðning fyrir svörum ráðuneytisins vísast til úrskurðarins. Ráðuneytið telur hins vegar rétt að benda á að sá grundvallarmunur er á máli yðar og máli Axels Eiríkssonar, að umsókn hans var talin fullnægja þeim viðmiðunarreglum sem auglýstar voru á bakhlið umsóknareyðublaðs um lóðaúthlutun. Nafn yðar er hins vegar ekki að finna á lista yfir þá 108 einstaklinga sem þetta átti við um. Í umsögn bæjarstjórnar Mosfellsbæjar var þessarar mikilvægu staðreyndar að engu getið. Það var því ekki fyrr en ráðuneytið fór að rannsaka málið að skýringar fengust frá bæjarstjórn Mosfellsbæjar á þessu atriði. Í símbréfi bæjarritara Mosfellsbæjar, dags. 3. apríl sl., er upplýst að yður hafði láðst að setja á umsóknareyðublaðið upplýsingar um hvernig þér hygðust fjármagna framkvæmdirnar. Enn fremur bendir bæjarritari á að erlent skattframtal fylgdi umsókninni án frekari skýringa, en starfsmenn bæjarins voru ókunnugir því formi.
Álit ráðuneytisins.
1.Ráðuneytið telur að svonefndar "viðmiðunarreglur vegna mats á hæfum umsækjendum (einstaklingum) um lóðir við Svölu- og Súluhöfða, sem dregið verður um”, sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti 27. desember 2000, séu andstæðar ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar, 11., 12. og 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og góðum stjórnsýsluháttum.
2.Vísað er til þeirra lagaákvæða sem talin eru upp í 1. svari.
3.Niðurstaða ráðuneytisins í máli Axels Inga Eiríkssonar er sú að ekki séu skilyrði til þess að ógilda lóðaúthlutun. Byggist það fyrst og fremst á því að þau mistök sem urðu við málsmeðferð bæjarstjórnar Mosfellsbæjar er ekki sök þeirra sem fengu úthlutað lóðum umrætt sinn. Telur ráðuneytið að of mikil röskun yrði gagnvart þeim hópi, sem þegar hefur lagt í kostnað vegna málsins, ef lóðunum yrði úthlutað að nýju.
4.Ráðuneytið hefur ekki úrskurðarvald um það hvort um bótaskyldu er að ræða í þessu máli. Í ljósi þess að ráðuneytið telur að alvarlegir hnökrar hafi verið á málsmeðferð bæjarstjórnar ákvað ráðuneytið engu að síður að beina þeim tilmælum til bæjarstjórnar að hafnar yrðu viðræður við þá umsækjendur sem uppfylltu skilyrði um lóðaúthlutun samkvæmt eldri reglum. Leiði þær viðræður ekki til þess að fundin verði lausn á málinu sem báðir aðilar geta sætt sig við eiga kærendur þess kost að höfða mál fyrir dómstólum.
Eins og áður segir er sá munur á yðar máli og öðrum málum sem leitað hefur verið með til ráðuneytisins, að umsókn yðar var ekki metin fullnægjandi þar sem gögn vantaði með umsókninni. Var umsókn yðar því ekki metin fullgild samkvæmt eldri reglum Mosfellsbæjar og því telur ráðuneytið að sú breyting sem gerð var á úthlutunarreglum þann 27. desember 2000 hafi ekki verið ástæða þess að umsókn yðar var útilokuð frá sjálfri lóðaúthlutununinni. Af þessu leiðir að ráðuneytið telur ólíklegt að um bótaskyldu geti verið að ræða í yðar tilviki, en eins og áður sagði hefur ráðuneytið ekki úrskurðarvald um það atriði, heldur er það dómstóla að meta hvort bótaskylda er fyrir hendi.
Loks telur ráðuneytið rétt að benda yður á að bréf þetta er byggt á upplýsingum frá bæjarstjórn Mosfellsbæjar sem yður var ókunnugt um og þér hafið því ekki fengið tækifæri til að tjá yður um. Er því ekki öruggt að mál þetta sé að fullu upplýst. Meðal annars liggur ekki fyrir í málinu hvaða leiðbeiningar yður voru veittar af hálfu starfsmanna Mosfellsbæjar um útfyllingu umsóknar eða úrbætur þeirra ágalla sem voru á umsókninni. Er yður heimilt að leita aftur til ráðuneytisins ef þér teljið yður geta fært fram nýjar upplýsingar eða málsástæður sem máli kynnu að skipta við úrlausn málsins.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)