Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Mosfellsbær - Málsmeðferð við lóðaúthlutun, lögaðilar, meðalhófsregla og jafnræðisregla stjórnsýslulaga

Árni Hrólfsson                                               15. maí 2001                                FEL01030004/1001

Dalatanga 5

270 MOSFELLSBÆR

 

 

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 11. febrúar 2001, sem ráðuneytinu barst til meðferðar 1. mars sl., þar sem óskað var álits ráðuneytisins á lögmæti breytinga sem gerðar voru á reglum um lóðaúthlutun í Mosfellsbæ sem fram fór þann 27. desember 2000.

 

Erindið var sent bæjarstjórn Mosfellsbæjar til umsagnar með bréfi dags. 5. mars sl. Umsögnin barst með bréfi dags. 4. apríl sl. Sama dag gaf ráðuneytið málshefjanda færi á að koma á framfæri viðbótarathugasemdum fyrir 24. apríl. Sá frestur var síðar framlengdur til 30. apríl og barst umsögn hans ráðuneytinu þann dag.

 

Málsatvik.

Fram kemur í erindinu að málshefjandi (Á) rekur eigið verktakafyrirtæki, Árni Hrólfsson ehf., og sótti um einbýlishúsalóð í Höfðahverfi í nafni fyrirtækisins. Eftir að umsóknarfrestur rann út var úthlutunarreglum breytt þannig að lögaðilar komu ekki til greina við úthlutun á einbýlis- og parhúsalóðum, heldur eingöngu á raðhúsalóðum. Var umsókn Á því ekki tekin til greina við úthlutun einbýlishúsalóða. Telur hann að ef hinar breyttu reglur hefðu legið fyrir í upphafi hefði hann sótt um einbýlishúsalóð sem einstaklingur og einnig um raðhúsalóð í nafni verktakafyrirtækis síns. Með því móti hefði hann uppfyllt skilyrði nýju reglnanna og þar með verið gjaldgengur í pottinn.

 

Um úthlutun atvinnuhúsnæðis giltu reglur Mosfellsbæjar um úthlutanir lóða fyrir atvinnuhúsnæði, sem samþykktar voru á fundi bæjarstjórnar 16. ágúst 2000. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að lögaðilar sem sækja um lóðarúthlutun fyrir atvinnuhúsnæði skulu leggja fram endurskoðaða ársreikninga tveggja undangenginna ára. Sé umsækjandi einstaklingur skal leggja fram afrit af skattframtölum síðustu tveggja ára auk greiðslumats frá fjármálastofnun. Ýmis önnur skilyrði eru sett í reglunum, s.s. varðandi fyrri reynslu af umsækjanda o.fl. Þar sem viðurkennt er að umsókn Á uppfyllti önnur skilyrði en það sem að framan er rakið telur ráðuneytið ástæðulaust að rekja þau frekar hér.

 

Í umsögn bæjarstjórnar Mosfellsbæjar (M) kemur fram að ekki fylgdu afrit ársreikninga með umsókn Á. Ágreiningur er með aðilum hvaða þýðingu þetta atriði hefur um úrslit málsins. Kveður M fjárreiðustjóra Mosfellsbæjar hafa leiðbeint Á um þetta atriði og hvatt hann til að bæta úr þessum ágalla, þrátt fyrir að umsóknarfrestur væri runninn út. Í athugasemdum Á kemur fram að fyrirtækið Árni Hrólfsson ehf. var ekki stofnað fyrr en í desember 1999 og yfirtók það starfsemi málshefjanda frá áramótum 1999-2000. Hafi því ekki verið unnt að uppfylla umrætt skilyrði og hafi fylgt umsókninni rekstrargögn Á sjálfs, samkvæmt leiðbeiningum frá byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar. Eftir að í ljós kom að hann fékk ekki úthlutað lóð kveðst Á hafa grennslast fyrir um hvort eitthvað hefði vantað í gögnin og hafi byggingarfulltrúi þá tjáð sér að svo væri ekki. Á kannast við að hafa rætt við fjárreiðustjóra Mosfellsbæjar um framangreint atriði, en telur að það samtal hafi verið vegna umsóknar um lóð fyrir atvinnuhúsnæði við Flugumýri sem auglýst var til umsóknar í janúar 2001. Ráðuneytið telur ekki sérstaka þörf á að grafast frekar fyrir um þetta atriði við meðferð málsins, en aðilar eru sammála um að ekki liggi fyrir skrifleg gögn um framangreind samskipti Á við embættismenn M.

 

Í umsögn M kemur fram að alls bárust 262 umsóknir frá 230 aðilum um lóðirnar. Þar sem fjöldi umsækjenda var mun meiri en falar lóðir þótti bæjarstjórn Mosfellsbæjar ljóst að setja yrði verklags- eða viðmiðunarreglur við úrvinnslu umsókna við þessa lóðaúthlutun til viðmiðunar um hverjir umsækjenda teldust koma til álita við úthlutun. Drög að slíkum viðmiðunarreglum lágu fyrir þann 20. desember 2000 og voru svohljóðandi:

 

1.  Umsækjandi eða maki hans hafi átt lögheimili í Mosfellsbæ ´90, ´95 og í dag.

2.  Umsækjandi og maki hafi eigi fengið úthlutað og þegið lóðarúthlutun fyrir

                        íbúðarhúsnæði sl. 10 ár.

3.  Umsækjandi og maki séu í skilum við bæjarsjóð og stofnanir hans.

4.  Umsækjandi hafi lagt fram fullnægjandi umsókn. Til að umsókn teljist fullnægjandi þarf hún að vera útfyllt eins og umsóknareyðublað segir til um þ.m.t. að veita upplýsingar um tekjur, eignir og skuldir skv. síðasta skattframtali auk upplýsinga um fjárhæð greiðslumats.

5.  Einstaklingar eru eingöngu metnir hæfir um einbýlis- og parhúsalóðir.

 

Drög þessi voru lögð fram á 316. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 27. desember 2000 og voru þau samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur. Þá var á fundinum gengið til atkvæða um útdráttarreglur, en drög að þeim lágu fyrir fyrr þennan dag. Voru drögin samþykkt með fjórum atkvæðum, en ekki er ástæða til að geta efnis þeirra reglna hér. Sama dag og á grundvelli reglnanna dró starfsmaður Mosfellsbæjar í viðurvist fulltrúa sýslumannsembættisins úr hópi þeirra umsækjenda sem taldir voru uppfylla öll skilyrði. Var umsókn ÁH ehf. ekki í þeim hópi, eins og áður er komið fram.

 

II. Málsrök málshefjanda

Í umsögn Á vísar hann til þess að ráðuneytið hefur nú þegar, með úrskurðum uppkveðnum 17. apríl sl., fjallað um lögmæti þess að bæjarstjórn Mosfellsbæjar breytti úthlutunarreglum um íbúðarhúsalóðir þær sem hann sótti um í umrætt sinn. Í fyrrgreindum úrskurðum ráðuneytisins varð niðurstaðan sú að M hefði ekki verið heimilt að setja nýtt skilyrði um að umsækjendur skyldu hafa verið búsettir í Mosfellsbæ. Óskar Á nú eftir áliti ráðuneytisins á því hvort M hafi verið heimilt að breyta úthlutunarreglum eftir að umsóknarfrestur rann út. Jafnframt óskar hann álits ráðuneytisins á því hvort ákvörðun M, um að einungis umsóknir einstaklinga skyldu teknar til greina við úthlutun einbýlis- og parhúsalóða, feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart lögaðilum sem sóttu um slíkar lóðir.

 

III. Málsrök bæjarstjórnar Mosfellsbæjar

Fram kemur í umsögn M að umsókn Á uppfyllti skilyrði upphaflegra úthlutunarreglna Mosfellsbæjar, að því undanskildu að ársreikningar fylgdu ekki umsókninni. Þar sem Á varð ekki við beiðni fjárreiðustjóra Mosfellsbæjar um að bæta úr þeim ágalla hafi umsókn hans ekki verið tekin til greina. Þá segir í umsögninni að umsóknir allra lögaðila sem sóttu um einbýlis- og parhúsalóðir, og uppfylltu skilyrði um úthlutun, hafi verið teknar til greina með þeim hætti að þær voru settar í "pott" með umsóknum um raðhúsalóðir. Það sé því ekki rétt sem Á heldur fram, að umsókn hans hafi verið hafnað af þeirri ástæðu einni að hann sótti um einbýlishúsalóðir.

 

M telur að bæjarstjórnin hafi haft almenna heimild til að úthluta lóðum sveitarfélagsins og setja vinnureglur og viðmiðanir í því efni. Þar sem ekki er að finna í settum lögum reglur um meðferð þess valds verði að telja að ákvörðun um úthlutun ráðist af frjálsu mati bæjarstjórnar. Hún sé þó bundin af þeim almennu reglum sem gilda um töku stjórnvaldsákvarðana sveitarfélaga, einkum ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

         

M telur að umsækjendum um lóðir megi vera ljóst að möguleiki þeirra á að fá úthlutað lóð ræðst af fjölda umsækjenda um viðkomandi lóðir. Þeir geti því aldrei treyst á að fá úthlutað lóð, þrátt fyrir að umsókn og fylgigögn séu að öllu leyti fullnægjandi, enda er ljóst að endanleg úthlutun getur ráðist af mati viðkomandi sveitarstjórnar og/eða hlutkesti. Það geti því ekki talist óeðlilegt að bæjarstjórn ákveði hvaða umsóknir teljist fullnægjandi. Er þá eðlilegt að sveitarstjórn setji sér viðmiðunarreglur til að styðjast við. Við slíkt val verður bæjarstjórn vitaskuld að gæta jafnræðis umsækjenda svo sem kostur er og málefnalegra sjónarmiða. Þá telur M að þrátt fyrir að umsækjendur geti aldrei treyst á að fá úthlutað lóð sé eðlilegt og sanngjarnt að umsækjendur geti fyrirfram gert sér nokkra grein fyrir möguleikum sínum í þeim efnum. Er þá haft í huga að umsækjendur kunna að leggja í kostnað við gerð umsóknar og öflun fylgigagna með henni, svo sem greiðslumats o.fl.

 

M telur að þær reglur sem fram komu á bakhlið umsóknareyðublaðs og líta má á sem grunnreglur, eða lágmarksskilyrði, hafi getað gefið umsækjendum réttmætar væntingar um að þar væru tæmandi talin þau skilyrði sem útilokað gætu umsækjendur frá úthlutun. Að sama skapi hafi þeir umsækjendur sem uppfylltu skilyrði haft réttmætar væntingar um að þeir sætu við sama borð og aðrir umsækjendur sem einnig uppfylltu skilyrðin. Hann viðurkennir að eftir á að hyggja hefði farið betur á því, og verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti, að birta hinar breyttu viðmiðunarreglur þegar í upphafi ferlisins.  Umsækjendur hefðu þá haft tækifæri til að taka ákvörðun, byggða á réttum forsendum um möguleika sína við lóðaúthlutun, um hvort þeir skiluðu inn umsókn. Sá misbrestur verði þó ekki talinn vera þess eðlis að varði ógildi ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um skilyrði sem umsækjendur urðu að uppfylla og úthlutun lóða. Varði hann einungis aðdraganda úthlutunar umræddra lóða en ekki úthlutun lóðanna sem slíkra, eða efni ákvörðunar að baki henni.

 

M bendir á hinn bóginn á að við auglýsingu um úthlutun lóða sé aldrei ljóst um fjölda umsækjenda. Því sé ekki sanngjarnt að gera kröfu til þess að sveitarfélög bindi hendur sínar í upphafi með setningu úthlutunarreglna, á þann hátt að ekki verði settar frekari viðmiðunarreglur. Enn fremur segir M að í undangengnum lóðaúthlutunum hafi ekki komið upp sérstök vandamál þótt sömu úthlutunarreglur og fram komu á umsóknareyðublöðum hafi verið í gildi. Þótt bæjaryfirvöld hafi haft ákveðnar grunsemdir um að mikil eftirspurn kynni að vera eftir umræddum lóðum þá bjuggust þau ekki við svo mikilli eftirspurn sem raun varð á. Verði að hafa þessa staðreynd í huga við umfjöllun málsins.

 

M heldur því fram að þegar endanlegur fjöldi umsókna lá fyrir hafi bæjarstjórn Mosfellsbæjar ekki átt annan kost en að setja þrengri úthlutunarreglur en þær sem settar voru í upphafi og að hún hafi því ekki verið bundin af þeim reglum sem prentaðar voru á bakhlið umsóknareyðublaðs. Óánægja hefði jafnvel orðið meiri hefðu bæjaryfirvöld ákveðið að hafna öllum umsóknum, setja nýjar viðmiðunarreglur og auglýsa síðan að nýju eftir umsóknum.

 

M telur að rökin að baki hinni umdeildu breytingu á viðmiðunarreglum, að ákveða að eingöngu einstaklingar yrðu metnir hæfir til að fá úthlutað einbýlis- og parhúsalóðum, hafi verið þau að tilgangur einstaklinga með umsókn væri sá að reisa sér þak yfir höfuðið. Að baki framkvæmdum lögaðila búi hins vegar jafnan hagnaðarsjónarmið, sem felast í sölu fasteignarinnar til hæstbjóðanda á meðan á framkvæmdum stendur, eða þegar að að þeim loknum. Hafi bæjarstjórn því talið rétt að einstaklingar gengju fyrir lögaðilum við úthlutun umræddra lóða og telur M að sú ákvörðun hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Jafnframt telur M að fyllsta jafnræðis hafi verið gætt milli allra lögaðila innbyrðis umrætt sinn.

 

Með vísan til þess að sú leið sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvað að fara hafi byggst á málefnalegum rökum, og að nauðsynlegt hafi verið að setja frekari viðmiðunarreglur sem fólu í sér frekari skilyrði gagnvart umsækjendum en gert var ráð fyrir í upphafi, telur M að ekki hafi verið gengið á svig við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar í þessu máli. Telur M því að hvorki setning viðmiðunarreglnanna né ákvörðum bæjarstjórnar um úthlutun lóðanna sé ógildanleg, enda hafi ekki verið slíkir meinbugir á reglunum eða málsmeðferðinni að varði ógildingu. Er það skoðun M að umrædd lóðaúthlutun hafi farið fram með eins eðlilegum, sanngjörnum og málefnalegum hætti og unnt var miðað við þær aðstæður sem uppi voru. Lóðaúthlutunin verði því talin fullgild þegar á málið er litið í heild sinni.

         

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

Eins og áður er lýst greinir aðila að nokkru á um málavexti að því er varðar leiðbeiningar sem Á fékk um fylgigögn með umsókn sinni. Er ljóst að umsókn ÁH ehf. var hafnað á grundvelli þess að ársreikningar síðustu tveggja ára fylgdu ekki umsókn fyrirtækisins um einbýlishúsalóð í Höfðahverfi. Telur ráðuneytið ekki unnt að fullyrða um hvor aðila hefur á réttu að standa þar sem engin skrifleg gögn eru til um þessi samskipti. Verður að telja að sönnunarbyrði hvað þetta varðar hvíli á Á. Þar sem upphaflegar málsástæður hans taka til lögmætis ákvörðunar bæjarstjórnar frá 27. desember 2000, um að breyta viðmiðunarreglum vegna lóðaúthlutunar, þykir málið engu að síður tækt til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir þennan ágreining um málsatvik.

 

A. Um heimild bæjarstjórnar Mosfellsbæjar til að breyta viðmiðunarreglum um lóðaúthlutun

Eins og ítarlega er rakið í úrskurðum ráðuneytisins frá 17. apríl sl. er ekki til að dreifa ákvæðum í lögum sem fjalla með beinum hætti um framkvæmd lóðaúthlutunar sveitarfélaga. Fellst ráðuneytið á þann skilning M að úthlutun byggingarlóða sé einungis með óbeinum hætti á meðal þeirra verkefna sem löggjafinn hefur falið sveitarfélögum að inna af hendi. Má í því sambandi benda á að í 6. mgr. 6. gr. eldri sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, var að finna upptalningu á helstu verkefnum sveitarfélaga og er úthlutun byggingarlóða ekki þar á meðal. Þeirri upptalningu var þó ekki ætlað að vera tæmandi og verður að telja að með vísan til venju og eðlis máls sé ekki vafi á því að sveitarfélögum sé heimilt að úthluta byggingarlóðum, líkt og þeim er heimilt að taka ákvarðanir um aðra fjárhagslega hagsmuni sína, sbr. einkum 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

 

Jafnframt telur ráðuneytið að ákvörðun um úthlutun byggingarlóða sé stjórnsýsluákvörðun og eru sveitarstjórnir því bundnar af málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við beitingu þess valds sem þeim er falið samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Ráðuneytið hefur ekki kannað ítarlega hvaða reglur gilda almennt hjá sveitarfélögum um lóðaúthlutun en telur ekki ástæðu til að rengja þá fullyrðingu M að þær reglur séu almennt rúmar. Ráðuneytið telur þó ljóst að reglur sveitarfélaga eru mismunandi hvað þetta varðar og að ekki sé unnt að styðjast við réttarvenjur í því máli sem hér er til umfjöllunar. Verður því einvörðungu fjallað um mál þetta út frá meginreglum stjórnsýsluréttar og sveitarstjórnarlaga.

 

Rök M eru fyrst og fremst þau að bæjarstjórnin hafi staðið frammi fyrir miklum vanda þar sem ekki hafi verið til reglur um hvernig standa ætti að lóðaúthlutun þegar fjöldi umsækjenda væri umfram eftirspurn eftir byggingarlóðum. Í undangengnum lóðaúthlutunum hafi engin slík vandamál verið til staðar og hafi u.þ.b. helmingi lóða þá verið úthlutað til utanbæjarmanna. Telur M að nauðsyn hafi borið til að þrengja úthlutunarreglur frá því sem áður var auglýst og að óánægja hefði jafnvel orðið meiri ef bæjaryfirvöld hefðu fremur ákveðið að hafna öllum umsóknum og auglýsa síðan að nýju eftir umsóknum samkvæmt nýjum viðmiðunarreglum. Telur M einnig að umsækjendum hafi mátt vera ljóst að hinar auglýstu viðmiðunarreglur væru ekki tæmandi þar sem ekki væri að finna í þeim reglur um hvernig ætti að velja á milli þeirra umsækjenda sem fullnægðu grunnskilyrðum og að möguleikar þeirra hlytu að ráðast af fjölda umsókna.

 

Ráðuneytið getur út af fyrir sig fallist á að bæjarstjórnin varð að taka ákvörðun um með hvaða hætti hún ætti að gera upp á milli þeirra umsækjenda sem uppfylltu öll grunnskilyrði. Eins og M bendir á verður jafnræði umsækjenda í slíkum tilvikum best tryggt með hlutkesti. Aðrar aðferðir kunna þó einnig að vera leyfilegar, svo sem að setja frekari verklagsreglur, sem kunna að tryggja samræmi í stjórnsýsluframkvæmd. Við setningu slíkra reglna verður þó, að mati ráðuneytisins, að gæta mikils hófs og verða reglurnar almennt að rúmast innan þeirra skilyrða sem sett voru í upphafi. Þá telur ráðuneytið að slíkar reglur megi ekki afnema eða takmarka verulega það mat sem stjórnvaldi er skylt að beita við úrlausn hvers máls. Auk þess er það grundvallarskilyrði að slíkar reglur séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2487/1998 (SUA 1999:259).

 

Ráðuneytið hefur, í úrskurðum sínum frá 17. apríl sl., komist að þeirri niðurstöðu að hinar nýju viðmiðunarreglur sem settar voru 27. desember 2000 hafi í verulegum atriðum strítt gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 12. og 23. gr. þeirra laga, að því er varðar skilyrði í reglunum um að einstaklingar sem sóttu um einbýlis- og parhúsalóðir skyldu hafa verið búsettir í Mosfellsbæ á árunum 1990, 1995 og 2000. Var þetta skilyrði engan veginn talið rúmast innan þess svigrúms til breytinga sem rakið er að framan.

 

Í því máli sem hér er til umfjöllunar er niðurstaðan ekki jafn augljós. Óneitanlega er um að ræða þrengingu frá áður auglýstum reglum en á móti kemur að  lögaðilar sem sóttu um einbýlis- og parhúsalóðir voru ekki útilokaðir frá úthlutun á grundvelli skilyrðisins, heldur voru umsóknir þeirra settar í flokk með umsóknum um raðhúsalóðir. Telur ráðuneytið að með því móti hafi M gætt ákveðins hófs við meðferð þess valds sem honum er falið samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998. Engu að síður telur ráðuneytið að réttara hefði verið að geta þess strax í upphafi úthlutunar að við úthlutun umræddra lóða myndu einstaklingar njóta forgangs fram yfir lögaðila. Telur ráðuneytið það ekki bera vott um góða stjórnsýsluhætti að gera efnislegar breytingar á úthlutunarreglum svo seint sem raun var á í umrætt sinn. Engu að síður telur ráðuneytið að hér sé ekki um slíkan annmarka að ræða að varðað geti ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar.

 

B. Um jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar

Í fyrrgreindum úrskurðum frá 17. apríl sl. komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að með því að setja skilyrði um búsetu umsækjenda í Mosfellsbæ á árunum 1990, 1995 og 2000 hafi bæjarstjórn Mosfellsbæjar brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar er einungis þörf á að fjalla um hvort sú ákvörðun bæjarstjórnar að úthluta einbýlis- og parhúsalóðum eingöngu til einstaklinga brjóti gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Ótvírætt er að ákvæðið verndar bæði einstaklinga og lögaðila. Eins og áður er rakið telur M að rökin að baki þeirri breytingu á viðmiðunarreglum um úthlutun lóða sem samþykkt var í bæjarstjórn 27. desember 2000, að ákveða að eingöngu einstaklingar yrðu metnir hæfir til að fá úthlutað einbýlis- og parhúsalóðum, hafi verið þau að tilgangur einstaklinga með umsókn um byggingarlóð væri sá að reisa sér þak yfir höfuðið. Að baki framkvæmdum lögaðila búi hins vegar jafnan hagnaðarsjónarmið, sem felast í sölu fasteignarinnar til hæstbjóðanda á meðan á framkvæmdum stendur, eða þegar að að þeim loknum. Hafi bæjarstjórn því talið rétt að einstaklingar gengju fyrir lögaðilum við úthlutun umræddra lóða og telur M að sú ákvörðun hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Jafnframt telur M að fyllsta jafnræðis hafi verið gætt milli allra lögaðila innbyrðis.

 

Ráðuneytið telur að ofangreind rök verði að teljast málefnaleg. Einnig fellst ráðuneytið á að M stóð frammi fyrir ákveðnum vanda þar sem umsóknir voru langt umfram framboð lóða. Jafnframt telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á annað en að sú leið sem valin var, og deilt er um í máli þessu, hafi verið til þess fallin að tryggja að umsækjendur sem hugðu á búsetu í sveitarfélaginu nytu forgangs við lóðaúthlutun. Þá telur ráðuneytið að með því að umsóknir lögaðila sem sóttu um einbýlis- og parhúsalóðir voru teknar til greina við úthlutun raðhúsalóða hafi M ekki gengið lengra við beitingu valds þess sem honum er falið að lögum en þörf var á í umrætt sinn. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að ekki hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að ákveða að einungis einstaklingar skyldu metnir hæfir til að sækja um einbýlis- og parhúsalóðir umrætt sinn.

 

C. Samantekt

Með vísan til alls framansagðs er það niðurstaða ráðuneytisins að það geti ekki talist góðir stjórnsýsluhættir að breyta viðmiðunarreglum um úthlutun lóða og setja nýtt skilyrði um það eftir að umsóknarfrestur er liðinn að einungis einstaklingar fái úthlutað einbýlis- og parhúsalóðum. Engu að síður telur ráðuneytið að með breytingunni hafi ekki verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem breytingin var reist á málefnalegum sjónarmiðum og gekk ekki lengra en nauðsynlegt gat talist. Ráðuneytið telur því að umrædd breyting varði ekki ógildingu en leggur áherslu á að bæjarstjórn Mosfellsbæjar vandi framvegis vinnubrögð við lóðaúthlutun í bæjarfélaginu.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta