Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Raufarhafnarhreppur - Réttur almennings til ljósritunar úr fundargerðarbók sveitarstjórnar

Reynir Þorsteinsson                                          4. desember                             FEL02110081/1001

Einholti 3

250 GARÐUR

 

 

Vísað er til erindis yðar frá 21. nóvember 2002, varðandi aðgang að fundargerðarbókum Raufarhafnarhrepps vegna fyrirhugaðrar málssóknar á hendur sveitarfélaginu. Í erindinu er gerð krafa um að ráðuneytið úrskurði að yður skuli veittur óheftur aðgangur að fundargerðarbók Raufarhafnarhrepps 1994-1998 og að þér óskið eftir afritum af allri fundargerðarbókinni og að hvert ljósrit sé staðfest af sveitarstjóra með undirskrift og embættisstimpli.

 

Um aðgang almennings að opinberum gögnum og skjölum gilda ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, með síðari breytingum. Samkvæmt 10. gr. þeirra laga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Stjórnvald getur sett það að skilyrði að beiðni um aðgang að gögnum sé skrifleg. Samkvæmt 12. gr. sömu laga ákveður viðkomandi stjórnvald hvort umbeðin gögn skuli sýnd eða ljósrit veitt af skjölum eða afrit af öðrum gögnum sé þess kostur.

 

Fram kemur í erindi yðar að hinn 20. nóvember 2002 hafið þér komið á skrifstofu Raufarhafnarhrepps og óskað þar munnlega eftir aðgangi að tveimur fundargerðarbókum sveitarstjórnar Raufarhafnarhrepps. Aðgangur var veittur að fundargerðarbók frá 1998 til 2002 og var yður leyft að ljósrita úr henni 35 bls. en síðan var yður synjað um að fá að ljósrita úr eldri fundargerðarbók. Eftir nokkur orðaskipti var yður bent á að óska skriflega eftir umbeðnum ljósritum. Ljóst er að beiðni yðar varðar nokkurn fjölda ljósrita og að sú ástæða sem yður var gefin fyrir synjun um frekari aðgang en þegar var veittur var mikið annríki á skrifstofu sveitarfélagsins.

 

Ekki verður séð af erindi yðar að þér hafið orðið við framangreindum tilmælum um að leggja fram skriflega beiðni um aðgang að framangreindri fundargerðarbók eða að fá afhent ljósrit úr henni. Samkvæmt 11. gr. upplýsingalaga skal taka ákvörðun um hvort aðgangur er veittur svo fljótt sem unnt er. Af ákvæðum laganna má ráða að ekki er skylt að afgreiða slíka beiðni um leið og hún er lögð fram. Þá er hvergi í lögunum að finna ákvæði sem skyldar stjórnvald til að veita þeim sem óskar eftir afriti gagna aðstöðu til að ljósrita gögnin sjálfur. Af framangreindum ástæðum telur ráðuneytið ekki ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð sveitarstjóra eða starfsmanna Raufarhafnarhrepps umrætt sinn.

 

Með vísan til alls sem að framan er rakið er yður hér með bent á að senda skriflega beiðni um afhendingu ljósrita úr fundargerðarbók Raufarhafnarhrepps 1994-1998 og væntir ráðuneytið þess að orðið verði við þeirri beiðni eins fljótt og unnt er. Bent skal á að heimilt er að bera synjun um að veita ljósrit af gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem starfar á grundvelli V. kafla upplýsingalaga, innan 30 daga frá því tilkynning berst um synjun stjórnvalds.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

Afrit:

Raufarhafnarhreppur

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta