Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Reykjavíkurborg - Úthlutun styrkja til tónlistarskóla, jafnræðisregla

Tónskóli Hörpunnar
15. júlí 2005
FEL04110041/1001

Kjartan Eggertsson, skólastjóri

Bæjarflöt 17

112 REYKJAVÍK

Hinn 15. júlí 2005 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2004, sendi Kjartan Eggertsson, f.h. forráðamanna Tónskóla

Hörpunnar, hér eftir nefndur kærandi, félagsmálaráðuneytinu stjórnsýslukæru þar sem þess var

krafist að ráðuneytið legði fyrir Reykjavíkurborg, hér eftir nefnd kærði, að framfylgja nú þegar

reglum þeim sem borgin setti um gerð þjónustusamninga við tónlistarskólana 18. febrúar 2003

og uppfylla þar með fyrirmæli samkeppnisráðs um að mismuna ekki tónlistarskólum.

Þess er krafist að ákvörðun Reykjavíkurborgar, sem fram kom í tilkynningu með tölvubréfi,

dags. 9. júní 2004, til allra tónlistarskóla og birtist kæranda með úthlutun til hans með

þjónustusamningi frá 7. október 2004, verði felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að

endurúthluta styrkjum til tónlistarskóla borgarinnar í samræmi við samþykkt og reglur

Reykjavíkurborgar frá 18. febrúar 2003 og ákvæði laga um jafnrétti og málefnalega stjórnsýslu.

Kæran var send kærða til umsagnar með bréfi, dags. 14. desember 2004. Umsögn kærða er

dagsett 11. janúar 2005. Meðfylgjandi umsögninni var lögfræðiálit Sigurðar Líndals og álit

lögfræðinganna Eggerts B. Ólafssonar og Tómasar Jónssonar, dags. 23. apríl 2004. Umsögnin,

ásamt fylgiskjölum, var send kæranda og bárust athugasemdir hans ráðuneytinu með bréfi, dags.

20. janúar 2005. Umsögnin var send Reykjavíkurborg til upplýsingar með bréfi, dags. 26. janúar

2005.

Kærandi átti tvo fundi með starfsmanni félagsmálaráðuneytis, þann 24. febrúar og 2. mars 2005,

til að skýra mál sitt frekar. Þar var kæranda bent á að kæran væri vanreifuð að því leyti að þar

kæmi ekki fram hvaða ákvörðun kærða væri kærð til ráðuneytisins og hvers væri krafist. Var

kæranda leiðbeint um að erindið væri ekki hæft til úrskurðar skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr.

45/1998. Til að svo gæti orðið þyrfti málshefjandi að senda framhaldserindi til ráðuneytisins þar

sem útfært væri hvaða ákvörðun kærða væri skotið til ráðuneytisins og hver kröfugerðin væri.

Með erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 3. mars 2005, er efni upphaflegrar stjórnsýslukæru

nánar afmarkað, vísað til 103. gr. sveitarstjórnarlaga og tekið fram að kærð sé ákvörðun

fræðsluráðs Reykjavíkur um að fresta framkvæmd samþykktar Reykjavíkurborgar um

fyrirkomulag tónlistarfræðslu frá 18. febrúar 2003. Var sú ákvörðun kynnt skólastjórum

tónlistarskóla með tölvubréfi, dags. 9. júní 2004, undirrituðu af Atla Guðmundssyni, ráðgjafa í

tónlistarfræðslu. Krafist er að framangreind ákvörðun fræðsluráðs Reykjavíkur frá 9. júní 2004

verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Reykjavíkurborg að endurúthluta styrkjum til tónlistarskóla

borgarinnar í samræmi við ofangreinda samþykkt, ákvæði laga um jafnrétti og málefnalega

stjórnsýslu.

Með bréfi ráðuneytisins til borgarlögmanns, dags. 4. mars 2005, voru lagðar fram nokkrar

spurningar þar sem óskað var frekari skýringa á málinu. Jafnframt var áðurnefnt bréf kæranda,

frá 3. mars 2005, sent borgarlögmanni til kynningar.

Athugasemdir borgarlögmanns, dags. 28. apríl 2005, bárust ráðuneytinu samdægurs og voru þær

sendar kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. maí 2005.

I. Málavextir.

 

Málavextir koma fram í stjórnsýslukæru og öðrum gögnum málsins.

Kærandi sneri sér til Samkeppnisstofnunar með erindi, dags. 29. desember 2000, þar sem kvartað

var yfir mismunun sem kærandi taldi sig sæta í samanburði við aðra tónlistarskóla. Málinu lauk

með áliti samkeppnisráðs frá 27. júní 2001, en þar beindi samkeppnisráð þeim tilmælum til

kærða að endurskoða framkvæmd styrkveitinga á grundvelli laga um fjárhagslegan stuðning við

tónlistarskóla, nr. 75/1985, þannig að hún mismuni ekki þeim sem starfa á viðkomandi markaði

og verði í samræmi við markmið samkeppnislaga (álit nr. 4/2001).

Þann 27. janúar 2002 sneri kærandi sér til félagsmálaráðherra með stjórnsýslukæru vegna

framkomu Reykjavíkurborgar gagnvart Tónskóla Hörpunnar í viðleitni skólans við að fá að

njóta sambærilegra rekstrarstyrkja og aðrir tónlistarskólar í borginni“. Úrskurður setts

félagsmálaráðherra, dags. 2. september 2002, fól í sér að ákvörðun fræðsluráðs Reykjavíkur um

að synja kæranda um styrk á grundvelli laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr.

75/1985, fari ekki í bága við lög. Ekki var heldur talið að farið hafi verið gegn jafnræðisreglu í

tengslum við málið. Því voru ekki efni til að ógilda ákvörðun fræðsluráðs Reykjavíkur.

Með erindi, dags. 18. október 2002, sneri kærandi sér á ný til Samkeppnisstofnunar og óskaði

eftir því að stofnunin tæki upp álit sitt, nr. 4/2001, vegna meintrar mismununar af hálfu kærða í

styrkveitingum til tónlistarskóla, þar sem kærði hafi ekki orðið við þeim tilmælum sem þar komu

fram.

Þann 18. febrúar 2003 voru samþykktar í borgarráði Reykjavíkurborgar reglur um fyrirkomulag

tónlistarfræðslu. Reglurnar eru þrenns konar, þ.e. samþykkt um fyrirkomulag tónlistarfræðslu,

ferill eða vinnureglur við gerð þjónustusamninga vegna tónlistarkennslu í Reykjavík og loks

viðmiðunarreglur vegna þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. Skyldu nýir

þjónustusamningar samkvæmt reglunum taka fyrst gildi haustið 2003.

Samkeppnisráð lauk máli kæranda með áliti, dags. 5. júní 2003. Niðurstaðan var sú að

samkeppnisráð taldi að með þeim reglum sem kærði setti í febrúar 2003 hafi kærði farið að

tilmælum þeim sem fram komu í áliti ráðsins nr. 4/2001. Samkeppnisráð taldi aftur á móti

ámælisvert hversu langur tími leið frá því að álit ráðsins nr. 4/2001 var birt 27. júní 2001 þar til

kærði varð við tilmælum ráðsins og setti viðmiðunar- og vinnureglur í febrúar 2003 (álit nr.

17/2003).

Í greinargerð fræðsluráðs Reykjavíkur frá haustinu 2003, sbr. skjalið „Tónlistarskólar. Úthlutun

styrkja til þeirra“, dags. 4. september 2003, segir svo í tengslum við viðmiðunarreglur

Reykjavíkurborgar frá febrúar 2003 að tvö meginmarkið hafi verið höfð að leiðarljósi við gerð

reglnanna, þ.e. „að settar yrðu reglur sem ekki mismunuðu þeim sem starfa á viðkomandi

markaði (sbr. álit Samkeppnisráðs nr. 4/2001), og að gæta þess að fjárveiting til þessa

málaflokks haldist innan ramma fjárhagsáætlunar“. Í greinargerðinni sagði jafnframt: „Næsta

vor verði úthlutað til skólanna eftir nýjum reglum innan ramma fjárveitinga til tónlistarskóla.

Haustið 2003 gerði Reykjavíkurborg þjónustusamning við alla tónlistarskóla í borginni til

bráðabirgða til eins árs. Með þeirri úthlutun var skólastjórum tilkynnt að þeir skólar sem voru að

fá úthlutun í fyrsta sinn fengju fjárframlag með lágmarksnemendafjölda samkvæmt reglunum,

þ.e. með 50 nemendum.

Þann 16. apríl 2004 tilkynnti Fræðslumiðstöð Reykjavíkur skólastjórum tónlistarskóla að allir

nemendur tónlistarskóla skyldu sækja um skólavist á miðlægum skráningarvef borgarinnar.

Þann 9. júní 2004 tilkynnti Fræðslumiðstöð Reykjavíkur að tónlistarskólunum yrði úthlutað til

bráðabirgða „90% af því sem þeir höfðu á síðasta ári“, en 10% skyldi ráðstafað samkvæmt

eftirspurn.

Kærandi ásamt skólastjóra Gítarskóla Íslands rituðu fræðsluráði Reykjavíkur bréf, dags. 29. júlí

2004, þar sem mótmælt var efni tilkynningarinnar frá 9. júní 2004 um 90% úthlutun til

tónlistarskólanna af því sem þeir höfðu á síðasta ári. Segir svo í bréfi skólastjóranna að þau

áform séu í engu samræmi við fyrri yfirlýsingar borgaryfirvalda og að þeir vænti þess að frá

þeim verði horfið og þjónustusamningar gerðir við skólana í samræmi við tilmæli

samkeppnisyfirvalda.

Með bréfi, dags. 5. ágúst 2004, veitti menntamálaráðuneytið Tónskóla Hörpunnar sérstaka

samþykkt til rekstrar tónlistarskóla skv. 5. tölul. 1. gr. laga um fjárhagslegan stuðning við

tónlistarskóla, nr. 75/1985.

Með bréfi Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur til kæranda, dags. 9. ágúst 2004, kemur fram að þar

sem komið hefðu upp vandkvæði hjá tónlistarskólunum varðandi skráningu nemenda í miðlægt

skráningarkerfi borgarinnar hafi verið ákveðið að á næsta skólaári verði úthlutun miðuð við að

hver tónlistarskóli fái tryggingu fyrir sem nemur allt að 90% af nemendafjölda síðasta skólaárs.

Þetta sé gert til að skólunum sé ekki haldið í of mikilli óvissu á sama tíma og þeir séu að

skipuleggja starf næsta vetrar. Þeim 10% sem á vanti verði síðan úthlutað þegar ljósar liggi fyrir

hver verði aðsókn að einstökum skólum.

Í málinu liggur fyrir skjal frá kærða frá haustinu 2004, „Tónlistarskólar, nemendafjöldi og

fjárframlög 2004“, en þar kemur fram að kærandi fái úthlutað fyrir 58 nemendur af 126.

Þann 7. október 2004 var gerður tónlistarskólasamningur milli Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur

og kæranda í samræmi við framangreint skjal frá Reykjavíkurborg um að skólinn fengi úthlutun

með 58 nemendum af 126.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

 

Sjónarmið kæranda koma fram í stjórnsýslukæru, dags 17. nóvember 2004, athugasemdum

kæranda við umsögn borgarlögmanns, dags. 20. janúar 2005, og á tveimur fundum í

félagsmálaráðuneyti, þann 24. febrúar og 2. mars 2005.

Kærandi bendir á að mikil aðsókn er að tónlistarnámi í Reykjavík og tónlistarskólar hafi því

sprottið upp vegna mikillar eftirspurnar. Tónlistarskólar borgarinnar séu frá ýmsum tímum.

Þegar ný hverfi í borginni byggjast upp, eins og Grafarvogshverfi, er eftirspurn eftir

tónlistarnámi fyrir börn mikil. Tónskóli Hörpunnar hafi starfað í sex ár, en fyrst fengið

fjárframlag frá Reykjavíkurborg haustið 2003 eftir fjögurra ára starfsemi.

Kærandi leggur áherslu á að kærði hafi ekki framfylgt eigin reglum frá febrúar 2003 við úthlutun

til kæranda haustið 2004. Þær reglur hafi verið settar í samræmi við forsendur í áliti

samkeppnisráðs nr. 4/2001 um að mismuna ekki tónlistarskólunum. Í greinargerð fræðsluráðs

Reykjavíkur frá 4. september 2003 komi fram hverjar séu forsendur reglnanna. Þar segir svo: „Í

febrúar staðfesti borgarráð nýjar viðmiðunarreglur um gerð þjónustusamninga við

tónlistarskóla. Tvö meginmarkmið voru höfð að leiðarljósi: að settar yrðu reglur sem ekki

mismunuðu þeim sem starfa á viðkomandi markaði (sbr. álit samkeppnisráðs nr. 4/2001), og að

gæta þess að fjárveiting til þessa málaflokks haldist innan ramma fjárhagsáætlunar.“ Kærandi

tekur fram að hér hafi verið um að ræða fyrstu reglur sem kærði setji sér um tónlistarskólana, en

þær tvær úthlutanir sem átt hafi sér stað eftir setningu reglnanna, þ.e. haustið 2003 og 2004, hafi

ekki verið í samræmi við þær. Báðar úthlutanirnar hafi verið til bráðabirgða til að bjarga málum

frá ári til árs í stað þess að farið væri eftir reglunum frá febrúar 2003. Við úthlutun haustið 2003

hafi skólastjórum verið tilkynnt að þeir skólar sem væru að fá úthlutun í fyrsta sinn fengju

fjárframlag með lágmarksnemendafjölda samkvæmt reglunum, þ.e. með 50 nemendum, en þá

hafi nemendur Tónskóla Hörpunnar verið 110. Kærandi hafi fallist á að una því þar sem um

bráðabirgðafyrirkomulag væri að ræða. Síðan hafi Fræðslumiðstöð Reykjavíkur tilkynnt þann 9.

júní 2004 að næsta úthlutun yrði einnig til eins árs og þá miðað við 90% af fyrri úthlutun. Það er

sú ákvörðun sem kærð er eins og áður hefur komið fram.

Kærandi bendir á að ákvörðun fræðsluráðs Reykjavíkur, sem fram hafi komið í tilkynningu til

tónlistarskólanna frá 9. júní 2004 um að fresta ákvörðunum varðandi nýjar reglur um

tónlistarskóla og úthluta til bráðabirgða 90% af því sem tónlistarskólar höfðu á síðasta ári, hafi

komið misjafnlega niður á skóla eftir því hvað þeir hafi fengið úthlutað oft. Tónskóli Hörpunnar,

sem er sex ára gamall skóli og hafi einungis fengið tvær úthlutanir frá Reykjavíkurborg, haustið

2003 og 2004, sé því í annarri stöðu gagnvart úthlutunum en skólar sem hafi verið lengur að

störfum og fengið úthlutanir fyrr. Kærandi bendir á að við fyrri úthlutunina haustið 2003 hafi

skólanum verið greiddur lágmarksstyrkur fyrir 50 nemendur, án tillits til fjölda nemenda.

Forsendur fyrir þeirri úthlutun hafi verið þær að sú úthlutun skyldi aðeins gilda í eitt ár og þá

væri skólum sem væru að fá úthlutun í fyrsta sinn skammtaður lágmarksstyrkur þar sem ekki

hefði gefist tími til að koma reglunum í framkvæmd. Ætlunin væri að þær skyldu koma að fullu

til framkvæmda haustið 2004. Skólastjórar þessara skóla hafi því ákveðið, haustið 2003, að una

þessu og aðhafast ekkert í eitt ár. Þegar í ljós hafi komið að næsta úthlutun, haustið 2004, var

ákveðin 90% af fyrri úthlutun, þ.e. 90% af lágmarksúthlutun til skóla kæranda, hafi mismunun

milli skóla verið staðreynd. Til stuðnings þessu leggur kærandi fram eftirfarandi töflu:

Skóli Nemendafjöldi Nemendafjöldi sem nýtur Framlag miðað við

haustið 2003 styrks haustið 2004 nemendafjölda fyrra árs

 

Allegro 51 55 102%

Do re mi 141 104 74%

Domus Vox 76 53 70%

FÍH 200 179 89%

Nýi söngsk. 72 62 86%

Nýi Tónlsk. 177 164 93%

Suzukitónlsk. 130 132 101%

Söngsk. í R. 137 126 91%

Tónlsk. Árb. 83 83 100%

Tónlsk. í Graf. 177 163 92%

Tónlsk. í R. 164 154 94%

Tónmsk. R. 250 228 91%

Tónsk. Eddu B. 164 151 92%

Tónsk. Gr. í Gr. 51 53 104%

Tónsk. Sigursv. 578 525 91%

Gítarsk. Ísl.1) 151 62 41%

Tónsk. Hörp.1) 110 58 53%

1) Fengu úthlutun í fyrsta sinn haustið 2003.

Kærandi telur að hin kærða ákvörðun, þ.e. úthlutun til hans í október 2004, sé í fyrsta lagi ekki í

samræmi við reglur kærða frá febrúar 2003 né þær forsendur sem bjuggu að baki reglunum. Í

öðru lagi samræmist úthlutunin ekki grundvallarreglum stjórnsýslulaga um jafnræði. Það að

ákveða úthlutun 90% af fjárhæð fyrra árs, án tillits til þess að þá hafði skóli kæranda fengið sína

fyrstu úthlutun sem var lágmarksúthlutun án tillits til nemendafjölda, sé augljóslega andstæð

jafnræðisreglu og ómálefnalega að verki staðið. Hin kærða ákvörðun hafi þannig falið í sér að

kærði skammtaði kæranda fjármagn til kennslu 58 nemenda þó ljóst væri að á þeim tíma væru

nemendur skólans 126. Aðrir skólar hafi fengið styrk með nánast öllum sínum nemendum. Kærði

hafi með þessu valdið kæranda fjárhagslegu tjóni. Kærandi hafi þá þegar ráðið kennara til starfa

miðað við þau fyrirheit sem gefin höfðu verið og skólinn ákvarðað námsgjöld miðað við sömu

forsendur. Kærandi búi því enn við það að honum og nemendum hans sé mismunað af hálfu

kærða. Kærandi tekur fram að í máli þessu hafi það vafist mjög fyrir kærða „að mæla

raunverulega eftirspurn“. Sú staðhæfing sé furðuleg í því ljósi að á hverju hausti liggi fyrir

hversu mörg börn greiði skólagjöld í skólann sinn og því þurfi ekki annað en að telja nemendur í

hverjum skóla og leggja saman.

Kærandi heldur því fram að samkeppnisstaða skólans við að veita góða þjónustu á lægsta verði

hafi verið skert og ljóst að kærði hafi ítrekað brotið þá reglu sem getið er um í áliti

samkeppnisráðs frá 27. júní 2001, en þar segir: „keppinautum er ómögulegt að keppa á

jafnræðisgrunni nema að þeir búi við sömu samkeppnisskilyrði, en hluti af því er að vita

fyrirfram við hvaða hlutlæga mælikvarðar Reykjavíkurborg styðst við úthlutun styrkja.“

Í athugasemdum kæranda við umsögn kærða ítrekar hann að kæran fjalli einungis um þær reglur

sem kærði hafi sett í febrúar 2003, en ekki farið eftir. Þær reglur hafi verið settar til að uppfylla

fyrirmæli samkeppnisráðs í áliti nr. 4/2001. Þær reglur hafi ekki verið felldar úr gildi og engar

aðrar reglur verið settar í staðinn. Í reglunum sé kveðið á um að tónlistarskóli þurfi að hafa að

lágmarki 50 nemendur, en kærði noti þessa 50 nemenda viðmiðun sem hámark við úthlutun til

nýrra skóla. Ekkert standi í reglunum um hlutfallslegar skerðingar og þeir útreikningar og

viðmiðanir sem kærði geri séu alfarið reikningsaðferðir kærða og ekki í samræmi við forsendur

reglnanna sem eru fyrirmæli samkeppnisráðs í áliti nr. 4/2001. Þá mótmælir kærandi því að

kærði hafi í samráði við forráðamenn tónlistarskóla ákveðið að endurskoða reglurnar. Umrætt

samráð hafi aðeins verið haft við fáa útvalda skóla og enn hafi ekkert orðið úr því að setja aðrar

reglur eða breyttar reglur. Því hafi ákvörðun kærða í júní 2004 um að úthlutun fyrir skólaárið

2004/2005 yrði miðuð við 90% af fjölda nemenda úr Reykjavík, sem notið höfðu styrks árið

áður, verið brot á reglum kærða. Þá mótmælir kærandi athugasemd kærða þar sem hann segir að

það sé alrangt hjá kæranda að aðrir skólar hafi haustið 2004 fengið styrk með nánast öllum sínum

nemendum. Því til staðfestingar bendir kærandi á töflu frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur um

nemendafjölda haustið 2003 og fjárframlög haustið 2004 sem sýni fram á að fullyrðing hans sé

rétt, samanber töflu framar í þessum úrskurði.

Þá bendir kærandi á að kærði hafi þegar tekið Tónskóla Hörpunnar inn á styrktarkerfið sitt og því

skipti ekki máli lögfræðiálit sem borgin aflaði þess efnis að hún getið hafnað að taka inn nýja

skóla. Þá tekur kærandi fram að vangaveltur kærða um það hvort í áliti samkeppnisráðs felist

fyrirmæli eða tilmæli eða hvort samkeppnisráð hafi lagaheimild til afskipta af málefnum

Reykjavíkurborgar komi máli þessu ekki við. Reykjavíkurborg hafi þegar sett reglur samkvæmt

áliti samkeppnisráðs og málið snúist um að hún hafi ekki farið eftir þeim.

Að lokum tekur kærandi fram að hann sé ekki að fara fram á að kærði leggi meira fé í

málaflokkinn en gert er nú, heldur sé það dreifing fjármagnsins sem málið snúist um, þ.e.

jafnræði milli skólanna innbyrðis.

III. Málsástæður og lagarök kærða.

 

Sjónarmið kærða koma fram í svari hans við spurningum ráðuneytisins, dags. 11. janúar 2005, og

umsögn, dags. 28. apríl 2005.

Kærði tekur fram að samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985,

beri tónlistarskólum að uppfylla ákveðin skilyrði. Viðmiðunarreglur borgarinnar byggi á

framangreindum lögum og þar eru sett nánari skilyrði um styrkveitingar, meðal annars um gerð

þjónustusamninga. Í viðmiðunarreglunum komi meðal annars fram að tónlistarskóli þurfi að hafa

að lágmarki 50 nemendur sem stundi nám til viðurkenndra áfangaprófa samkvæmt aðalnámskrá

tónlistarskóla. Þegar nýir tónlistarskólar hafi fengið þjónustusamning í fyrsta sinn eftir að

viðmiðunarreglurnar tóku gildi haustið 2003 hafi úthlutun til þeirra verið miðuð við þennan

lágmarksnemendafjölda. Á móti hafi nemendafjöldi þeirra skóla sem fyrir voru verið skertur

hlutfallslega sem þessu nemur, en fjárveiting til málaflokksins gerði ekki ráð fyrir aukningu.

Þá tekur kærði fram að ákveðið hafi verið að endurskoða fyrrnefndar viðmiðunarreglur frá

febrúar 2003. Starfshópur hafi verið skipaður til verksins og áttu þar sæti fulltrúi frá

forráðamönnum tónlistarskóla, stéttarfélagi tónlistarmanna, ásamt fulltrúa úr skólanefndum

tónlistarskóla, fulltrúa Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og óháðum aðila sem var formaður

hópsins. Starfshópurinn hafi skilað tillögu að nýjum reglum í mars 2004 þar sem meðal annars

hafi verið gert ráð fyrir að lágmarksnemendafjöldi hvers skóla yrði hækkaður úr 50 í 150. Ekki

hafi í reglunum verið gert ráð fyrir að veita fámennari skólum styrk. Tillögurnar hafi verið lagðar

fyrir fræðsluráð Reykjavíkur á fundi 25. maí 2004, en þar hafi verið gerð athugasemd við

ákvæðið um 150 nemenda lágmarkið og dregið í efa að það stæðist jafnræðisreglur. Í framhaldi

hafi verið ákveðið að leita álits lögfræðinga um hvort Reykjavíkurborg væri heimilt að setja

lágmarkið svo hátt. Í ágúst 2004 hafi borginni borist álit Sigurðar Líndals þar sem fram komi að

hann telji að borginni sé heimilt að binda styrk við tiltekinn lágmarksnemendafjölda. Í

millitíðinni hafi verið talið nauðsynlegt að draga úr rekstraróvissu tónlistarskólanna því þeir

þyrftu að skipuleggja komandi skólaár með ákveðnum fyrirvara. Í júní 2004 hafi skólunum því

verið tilkynnt að úthlutun fyrir skólaárið 2004/2005 yrði miðuð við 90% af fjölda nemenda úr

Reykjavík sem notið höfðu styrks árið áður og þeim 10% sem eftir voru yrði úthlutað á

grundvelli eftirspurnar þegar hún lægi fyrir.

Í október 2004 hafi legið fyrir að eftirspurn um pláss í tónlistarskólunum í Reykjavík var 3.831

nemandi. Fjárveiting hafi nægt til að tryggja skólavist fyrir 2.509 nemendur. Á grundvelli 90%

reglunnar hafi verið búið að tryggja þeim skólum sem fyrir voru í kerfinu úthlutun fyrir 2.380

nemendur. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að bæta við tveimur nýjum skólum með 50

nemendur hvor. Til ráðstöfunar hafi því verið fjármagn fyrir 29 nemendur sem dreift yrði til

skólanna á grundvelli eftirspurnar. Þar af hafi kærandi fengið 8 nemendur. Þeir skólar sem hafi

starfað lengst og byggt upp góða kennsluaðstöðu fengu af þessum sökum greiðslu fyrir færri

nemendur en áður. Kærandi hafi hins vegar fengið aukningu.

Loks er því mótmælt sem alröngu sem fram komi hjá kæranda að kærði hafi skammtað skólanum

fyrir 58 nemendur þótt ljóst væri að nemendur væru 126 og aðrir skólar fengið styrk með nánast

öllum sínum nemendum. Kærði bendir á að eins og lýst hafi verið áður sótti 3.831 nemandi um

skólavist í tónlistarskólunum, en aðeins 2.509 fengu samþykkta fjárúthlutun. Það sé því ljóst að

1.322 nemendur hafi ekki fengið samþykkta fjárúthlutun. Hins vegar sé líklegt að ýmsir

tónlistarskólar hafi tekið inn einhverja af þeim nemendum sem ekki fengu úthlutanir, samanber

það sem fram komi í kæru.

Að lokum tekur kærði fram að samkvæmt lögfræðiáliti frá Lögfræðistofu Reykjavíkur sé vafa

undirorpið hvort samkeppnislög taki til fræðslustarfsemi á vegum einkarekinna tónlistarskóla.

Þar við bætist að enda þótt talið yrði að starfsemi tónlistarskóla falli undir samkeppnislög þá

virðist samkeppnisráð skorta lagaheimild fyrir áliti sínu nr. 4/2001 og afskiptum af lögmætum

stjórnvaldsathöfnum Reykjavíkurborgar á sviði fjárveitinga til tónlistarskóla.

Í umsögn kærða frá 28. apríl 2005, þar sem spurningum ráðuneytisins frá 8. mars 2005 er svarað,

kemur eftirfarandi helst fram: Úthlutun Reykjavíkurborgar, 90% af úthlutun haustsins 2003, sem

tilkynnt hafi verið tónlistarskólum í júní 2004 og komið hafi fram í úthlutun til kærða í október

2004, hafi að mati kærða algerlega samræmst þeim reglum sem settar höfðu verið, þ.e. „ekkert í

reglunum mæli gegn því að úthlutun hafi ekki átt að vera með þeim hætti sem hún var“. Kærði

tekur fram að í áliti samkeppnisráðs hafi áhersla verið lögð á að úthlutunarreglur væru skýrar.

Með því að gefa út yfirlýsingu í júní 2004 um að skólunum yrði tryggð fjárveiting fyrir 90% af

nemendafjölda fyrra árs og að afgangi fjárveitingar yrði skipt á grundvelli eftirspurnar, hafi verið

gefin skýr skilaboð um hvernig úthlutunin færi fram.

Um það hvort úthlutun Reykjavíkurborgar til Tónskóla Hörpunnar haustið 2004 teldist vera í

samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga tekur kærði fram að nýir tónlistarskólar þurfi að

uppfylla ákveðin skilyrði til að eiga rétt á styrk frá Reykjavíkurborg. Þeir skólar sem uppfylli

skilyrðin geti fengið styrk fyrir 50 nemendur fyrsta árið samkvæmt reglum borgarinnar frá

febrúar 2003. Þessi aðferð lækki fjárveitingu til annarra tónlistarskóla miðað við að fjármagn til

málaflokksins í heild sinni sé óbreytt. Nýir skólar fái því ákveðið forskot á kostnað eldri skóla.

Eftir fyrsta árið hafi þeir verið settir undir sama hatt og þeir sem fyrir voru. Þessi regla sé að áliti

kærða í fullu samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, aðilum sé ekki mismunað nema á

grundvelli málefnalegra sjónarmiða sem skýrt komi fram í settum úthlutunarreglum. Öll

sambærileg mál séu leyst á grundvelli reglunnar.

Að lokum svarar kærði spurningu ráðuneytisins um úthlutun næsta árs svo að ráðgert sé að beita

sömu reglu og gert hafi verið við úthlutun 2004, þó þannig að hlutfallið 90% verði 95%. Það

þyki nauðsynlegt til að tryggja skólum ákveðið starfsöryggi. Tónlistarskólar leggi mikið

fjármagn fram til að byggja upp kennsluaðstöðu, til kaupa á hljóðfærum og öðrum tækjum og

taki þá mið af þeim fjölda nemenda sem sækist eftir námi hjá þeim. Miklar sveiflur í úthlutun

milli ára geti gert skólunum mjög erfitt fyrir rekstrarlega. Hafa beri þó í huga að aldrei sé

úthlutað fé fyrir fleiri nemendur en í raun stundi nám í hverjum skóla fyrir sig.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Eins og rakið er í málavöxtum hér að framan leitaði kærandi til Samkeppnisstofnunar í lok

desember 2000 og kvartaði yfir mismunun sem hann taldi sig beittan af hálfu kærða í samanburði

við aðra tónlistarskóla. Á þeim tíma hafði kærandi ekki fengið úthlutun frá kærða. Málinu lauk

með áliti samkeppnisráðs þar sem þeim tilmælum var beint til kærða að endurskoða framkvæmd

styrkveitinga á grundvelli laga nr. 75/1985 (álit nr. 4/2001).

Þann 18. febrúar 2003 setti Reykjavíkurborg reglur um fyrirkomulag tónlistarfræðslu og

vinnureglur við gerð þjónustusamninga vegna tónlistarkennslu.

Mál þetta er þannig til komið að það var með úthlutun Reykjavíkurborgar til Tónskóla

Hörpunnar samkvæmt þjónustusamningi þeirra á milli frá 7. október 2004, sem kæranda varð

endanlega ljóst hvernig tilhögun Reykjavíkurborgar um styrkveitingu haustið 2004 yrði háttað.

Aðferð Reykjavíkurborgar við úthlutun fyrir árið 2004 var kynnt öllum tónlistarskólum 9. júní

2004. Stjórnsýsluákvörðun í máli þessu felst því í framangreindri úthlutun til kærða sem fram

kemur í þjónustusamningi frá 7. október 2004. Ráðuneytið tekur fram að kærði hefur ekki

andmælt því að félagsmálaráðuneytið taki á máli þessu sem málefni sveitarfélags skv. 103. gr.

sveitarstjórnarlaga og ber þannig ekki fyrir sig að samningurinn milli hans og kæranda frá 7.

október 2004 sé einkaréttarlegs eðlis.

Kærufrestur í málinu telst því frá 7. október 2004 og er upphafleg stjórnsýslukæra frá 17.

nóvember 2004, með nánari útfærslu með bréfi, dags. 3. mars 2005, fram komin innan þriggja

mánaða kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Erindið er því tækt til úrskurðar skv.

103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Krafa kæranda er að úthlutun sú sem birtist kæranda í þjónustusamningi milli hans og kærða frá

7. október 2004 verði felld úr gildi og kærða gert að endurúthluta styrkjum til tónlistarskóla

borgarinnar í samræmi við samþykkt og reglur Reykjavíkurborgar, ákvæði laga um jafnrétti og

málefnalega stjórnsýslu.

Ráðuneytið afmarkar meðferð sína í máli þessu við stjórnsýslulög og óskráðar meginreglur

stjórnsýsluréttar. Samkeppnishlið málsins heyrir undir samkeppnisyfirvöld. Í áliti

samkeppnisráðs, nr. 4/2001, segir svo um hlutverk ráðsins: „Markmið samkeppnislaga er að efla

virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta

þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og

takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri

fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 5. gr. laganna er það hlutverk samkeppnisráðs að gæta þess að aðgerðir

opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera

samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði.“

Með vísan til framangreinds tekur ráðuneytið ekki afstöðu til þeirra þátta málsins er varða

hugsanlegt brot kærða á samkeppnislögum.

Með hliðsjón af framansögðu varðar mál þetta þá efnislegu niðurstöðu Reykjavíkurborgar sem

fram kemur í úthlutun borgarinnar til Tónskóla Hörpunnar í þjónustusamningi þeirra á milli frá

7. október 2004 og hvort sú niðurstaða hafi verið í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar frá 18.

febrúar 2003, ákvæði laga um jafnrétti og málefnalega stjórnsýslu.

A. Lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.

Um rétt tónlistarskóla til fjárframlaga frá sveitarfélögum gilda lög um fjárhagslegan stuðning við

tónlistarskóla, nr. 75/1985. Þar eru tilgreind þau skilyrði sem skóli þarf að fullnægja til að geta

talist tónlistarskóli í skilningi laganna, þar á meðal að skólinn hafi hlotið sérstakt samþykki

menntamálaráðuneytis og jafnframt samþykki viðkomandi sveitarstjórnar ef skólinn er rekinn af

öðrum aðila, svo og að í skólanum séu a.m.k. 30 nemendur sem stundi nám til viðurkenndrar

prófraunar, sbr. 1. gr. laganna.

Tónlistarskólar geta eins og áður kom fram ýmist verið reknir af sveitarfélögum eða öðrum

aðilum. Sé tónlistarskóli rekinn af öðrum aðila skal hann njóta styrks samkvæmt ákvæðum

laganna, enda fullnægi hann þeim kröfum laganna sem gerðar eru til reksturs slíks skóla, sbr. 3.

gr. Í 10. gr. laganna segir síðan svo: „Tónlistarskólar, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum,

skulu fá greiddan úr sveitarsjóði launakostnað kennara og skólastjóra í samræmi við

rekstraráætlun og þær breytingar sem verða á launatöxtum í samræmi við framangreinda

kjarasamninga. Greiðsla skal fara fram mánaðarlega samkvæmt nánara samkomulagi milli

skólastjórnar og sveitarstjórnar.“ Þetta þýðir að greiðsla sveitarfélags til tónlistarskóla markast

af rekstraráætlun, þ.e. áætluðu kennslumagni, og greiðist mánaðarlega samkvæmt

þjónustusamningi milli aðila. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps til laganna segir um skyldur

sveitarfélaga um greiðslu til tónlistarskóla í eigu annars aðila að gengið sé „út frá því að

sveitarfélög greiði tónlistarskólum í eigu þriðja aðila allan launakostnað vegna kennslu

mánaðarlega í samræmi við samþykkt kennslumagn og kjarasamninga“.

Samkvæmt 11. gr. laganna skulu tónlistarskólar innheimta skólagjöld sem er ætlað að standa

undir öðrum kostnaði við skólareksturinn en launakostnaði kennara og skólastjóra, að svo miklu

leyti sem sá kostnaður er ekki borinn af öðrum aðilum.

Með hliðsjón af framansögðu markast skylda sveitarfélags til að styrkja tónlistarskóla sem rekinn

er af öðrum aðila af því kennslumagni sem samþykkt er af hálfu sveitarstjórnar.

Um fyrirkomulag þetta samkvæmt lögum nr. 75/1985 segir svo í áliti samkeppnisráðs nr. 4/2001:

Núverandi styrkjafyrirkomulag er þess valdandi að samkeppnisstaða einkarekinna

tónlistarskóla er ekki sú sama enda þótt skólarnir séu að keppa á sama markaði, þ.e. markaði

fyrir tónlistarkennslu grunnskólabarna. Rekstrarkostnaður þeirra er að flestu leyti sambærilegur

nema hvað varðar launakostnað kennara. Reykjavíkurborg greiðir þann launakostnað í formi

styrkja til þeirra tónlistarskóla sem njóta fjárhagslegs stuðnings á grundvelli laga nr. 75/1985 á

meðan keppinautar eins og kvartandi sem ekki nýtur styrkja verður að taka tillit til

launakostnaðar kennara við verðlagningu á þjónustu sinni til nemenda, þ.e. grunnskólabarna.

Keppinautum er ómögulegt að keppa á jafnræðisgrunni nema að þeir búi við sömu

samkeppnisskilyrði en hluti af því er að vita fyrirfram við hvaða hlutlæga mælikvarðar

Reykjavíkurborg styðst við úthlutun styrkja.

Umrætt styrkjafyrirkomulag er til þess fallið að skapa samkeppnislegt ójafnræði milli keppinauta

í skilningi samkeppnislaga. Ljóst er að Reykjavíkurborg er bæði rétt og skylt að gæta þess að

fjárhagslegur stuðningur við tónlistarskóla fari ekki úr böndum. Samkeppnisráð fær hins vegar

ekki séð að nauðsynlegt sé að útiloka tiltekna tónlistarskóla frá fjárhagslegum stuðningi til að

stemma stigu við auknum kostnaði á þessu sviði. Ákvörðun um fjárframlög til tónlistarskóla á

grundvelli laga nr. 75/1985 er alfarið í höndum borgarráðs og hefur það alla möguleika til að

takmarka kostnað á þessu sviði. Ákvæði laga um fjárstuðning við tónlistarskóla eru einnig skýr

hvað varðar skilyrði til styrkveitingar. ... Fjöldi styrkþega, þ.e. tónlistarskóla, ætti ekki að hafa

áhrif á kostnað Reykjavíkurborgar þar sem um fyrirfram samþykkt kennslumagn væri að ræða

heldur myndi heildarstyrkfjárhæð eða kennslustundir, dreifast á alla tónskóla sem uppfylla

skilyrði laga nr. 75/1985. Styrkur til hvers skóla myndi þá ráðast af heildarstyrkfjárhæðinni og

fjölda styrkþega.“ Í framhaldi af þessu beindi samkeppnisráð þeim tilmælum til

Reykjavíkurborgar að hún endurskoði framkvæmd styrkveitinga á grundvelli laga nr. 75/1985

þannig að hún mismuni ekki þeim skólum sem starfa á viðkomandi markaði.

B. Reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sem reknir eru af

öðrum aðila en sveitarfélagi.

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti þann 18. febrúar 2003 „samþykkt um fyrirkomulag

tónlistarnáms í Reykjavík“, „feril eða vinnureglur við gerð þjónustusamninga vegna

tónlistarkennslu í Reykjavík“ og „viðmiðunarreglur vegna þjónustusamnings Reykjavíkurborgar

við tónlistarskóla“. Voru þetta fyrstu reglur sem Reykjavíkurborg setti um úthlutun til

tónlistarskóla.

Í vinnureglunum kemur meðal annars fram að ákveðin fjárhæð sé til ráðstöfunar árlega, að gerð

verð reikniformúla um kostnað á einstaklinga í tónlistarnámi sem taki mið af mismunandi stigum

í námi. Jafnframt verði forsendur þjónustusamninga útbúnar þar sem meðal annars komi fram

fjöldi nemenda í borginni sem styrktir verða á hverju skólastigi fyrir sig, aldurskipting nemenda,

dreifing almenns tónlistarnáms í borgarhlutum o.fl.

Í greinargerð fræðsluráðs Reykjavíkur frá 4. september 2003 segir að tvö meginmarkmið hafi

verið höfð að leiðarljósi þegar hinar nýju viðmiðunarreglur um gerð þjónustusamnings við

tónlistarskóla voru samdar, þau „að settar yrðu reglur sem ekki mismunuðu þeim sem starfa á

viðkomandi markaði (sbr. álit samkeppnisráðs nr. 4/2001), og að gæta þess að fjárveiting til

þessa málaflokks haldist innan ramma fjárhagsáætlunar“.

Í áliti samkeppnisráðs nr. 17/2003 segir svo um framangreindar viðmiðunarreglur

Reykjavíkurborgar: „telur samkeppnisráð að með þessum viðmiðunarreglum og vinnureglum

hafi Reykjavíkurborg farið að tilmælum þeim sem fram koma í áliti ráðsins nr. 4/2001.

Við vinnslu þessa úrskurðar óskaði ráðuneytið eftir nánari skýringum kærða um stöðu

framangreindra reglna Reykjavíkurborgar. Þar kom fram það sjónarmið borgarinnar að reglurnar

væru vinnureglur sem beitt væri við framkvæmd á úthlutun styrkja til tónlistarskóla. Reglurnar

væru eðli málsins samkvæmt í stöðugri endurskoðun miðað við þann ramma sem borginni væru

settar með fjárframlögum til málaflokksins. Reglurnar væru opnaðar á hverju ári fyrir nýjum

skólum. Aðalatriðið væri að mati kærða að beitt væri málefnalegu sjónarmiði við úthlutun á þeim

afmörkuðu fjármunum sem borgin hefði til tónlistarskóla. Þannig væri málefnalegt af borginni að

taka inn nýja skóla og jafnframt málefnalegt að nýir skólar fari ekki um leið í sama flokk og

skólar sem reknir hafa verið lengi og hafi ákveðnar væntingar til styrkveitinga sem nýir skólar

geti ekki haft. Frá sjónarhóli kærða væri aðalatriðið að takmarka aðgengi að afmörkuðum

fjárveitingum til tónlistarskóla á hlutlægan hátt.

C. Úthlutun Reykjavíkurborgar til kæranda með samningi 7. október 2004.

Þegar Tónskóli Hörpunnar fékk úthlutun í fyrsta sinn haustið 2003 hafði skólastjórum nýrra

skóla verið tilkynnt að þeir sem væru að fá úthlutun í fyrsta sinn fengju fjárframlag með

lágmarksnemendafjölda samkvæmt reglunum frá febrúar 2003, þ.e. með 50 nemendum. Á þeim

tíma voru nemendur Tónskóla Hörpunnar 110.

Þann 9. júní 2004 var tónlistarskólum í Reykjavík tilkynnt að þeir fái til bráðabirgða úthlutað

90% af því sem þeir höfðu á síðasta ári en 10% yrði ráðstafað samkvæmt eftirspurn.

Við úthlutun til kæranda í annað sinn með þjónustusamningi, dags. 7. október 2004, var kæranda

á ný úthlutað fyrir lágmarksfjölda nemenda, þ.e. fyrir 50 nemendur, að viðbættum 8 samkvæmt

10% reglunni, alls 58 nemendur. Nemendur skólans voru þá alls 126. Um úthlutunina segir kærði

svo í umsögn sinni frá 28. apríl 2005: „Tilvitnuð ákvörðun samræmist algerlega þeim reglum

sem settar höfðu verið, þ.e.a.s. ekkert í reglunum mæli gegn því að úthlutun hafi ekki átt að vera

með þeim hætti sem hún var. Í umræddu áliti Samkeppnisráðs var lögð áhersla á að

úthlutunarreglur væru skýrar. Með því að gefa út yfirlýsingu um að skólunum yrði tryggð

fjárveiting fyrir 90% af nemendafjölda fyrra árs og afgangi fjárveitingar yrði skipt á grundvelli

eftirspurnar var verið að gefa skýr skilaboð um hvernig úthlutun færi fram.“ Jafnframt segir svo í

umsögn kærða: „Nýir tónlistarskólar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að eiga rétt á styrk frá

Reykjavíkurborg. Uppfylli þeir skilyrðin geta þeir fengið styrk fyrir 50 nemendur fyrsta árið skv.

áðurnefndum reglum frá 2003. Þetta lækkar fjárveitingu til annarra tónlistarskóla samsvarandi

miðað við að heildarfjármagn sé óbreytt til málaflokksins. Nýir skólar fá því ákveðið forskot á

kostnað eldri skóla. Eftir fyrsta árið eru þeir hins vegar settir undir sama hatt og þeir sem fyrir

eru. Þessi regla er að okkar áliti í fullu samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Aðilum er

ekki mismunað nema á grundvelli málefnalegra sjónarmiða sem skýrt koma fram í settum

úthlutunarreglum. Öll sambærileg mál eru leyst á grundvelli reglunnar.

Að mati kærða er hér byggt á málefnalegu og hlutlægu sjónarmiði með úthlutun til nýrra skóla

miðað við eldri skóla. Sama regla gildir um nýja skóla innbyrðis og með því sé jafnræðisreglu

stjórnsýsluréttar fullnægt. Kærði telur ekki mögulegt að skilgreina hvað átt sé við með nýjum

skólum, það ráðist af fjárhagsramma sem Reykjavíkurborg hefur hverju sinni til tónlistarskóla.

Nýir tónlistarskólar njóta styrks með lágmarksfjölda nemenda, þ.e. 50 nemendum, auk framlags

samkvæmt 10% reglunni, ekki aðeins fyrsta árið, heldur meðan heildarfjárframlag til

málaflokksins leyfir ekki meira.

Meginefni máls þessa er það hvort úthlutun sú með 58 nemendum, sem kærandi fékk frá kærða

með þjónustusamningi frá 7. október 2004, sé í andstöðu við lög eða reglur. Þau lög og reglur

sem koma til athugunar eru: Lög um fjárhagslegan stuðning til tónlistarskóla, nr. 75/1985,

stjórnsýslulög nr. 37/1993, einkum jafnræðisregla, meginreglur stjórnsýsluréttar um málefnalega

málsmeðferð og reglur Reykjavíkurborgar sem samþykktar voru í borgarráði 18. febrúar 2003.

Ráðuneytið telur að finna megi að nokkrum atriðum varðandi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar við

veitingu fjárstyrks til kæranda í máli þessu. Er þar fyrst að nefna hversu óljós staða reglna

Reykjavíkurborgar frá 18. febrúar 2003 er. Frá sjónarhóli kæranda eiga reglurnar að tryggja

öllum skólum, jafnt yngri sem eldri, sams konar stöðu og leggur kærandi þar mikið upp úr þeim

reglum sem og greinargerð fræðsluráðs frá 4. september 2003 um markmiðið með reglunum.

Kærði telur hins vegar að reglurnar séu eingöngu vinnureglur eða „innanhússreglur“ sem enginn

réttur verði byggður á, enda hafi reglurnar verið óbirtar. Þær séu eðli sínu samkvæmt í stöðugri

endurskoðun með hliðsjón af ákvörðunum borgarstjórnar um fjárframlög til málaflokksins á

fjárhagsáætlun fyrir hvert ár og þriggja ára áætlun. Að mati ráðuneytisins hníga ýmis rök til þess

að endurskoða þurfi lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, en frá þeim

tíma hafa ríkari kröfur verið gerðar um vandaða stjórnsýslu og skýrleika í störfum hennar. Í því

ljósi er sérlega brýnt að reglur sveitarfélags um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sem

rekinn er af þriðja aðila séu skýrar og gagnsæjar og að staða þeirra gagnvart aðilum utan og

innan stjórnkerfisins sé ekki vafa undirorpin.

Í öðru lagi er aðfinnsluvert að ekki liggur fyrir skýr skilgreining á því hvað átt sé við með nýjum

tónlistarskólum í málsmeðferðinni, þ.e. tónlistarskólum sem eru að fá sínar fyrstu úthlutanir. Sú

staða er af hálfu kærða eingöngu skýrð út frá heildarfjárframlögum til málaflokksins.

Tvennt framangreint býður upp á mismunandi skilning kæranda og kærða á grundvallaratriðum á

borð við jafnræði og mismunun og getur ekki talist nægilega skýr og vönduð stjórnsýsla. Gera

verður þá kröfu til stjórnvalds að reglur séu það skýrar að þær veki ekki væntingar borgaranna

sem ekki eru í samræmi við tilgang stjórnvaldsins með setningu reglnanna og markmið þeirra.

Þá bendir ráðuneytið á að tilkynning fræðsluráðs Reykjavíkur frá 9. júní 2004 sem tekur til

úthlutunar haustið 2004, þar á meðal úthlutunar til kærða í annað sinn, er óljós hvað varðar nýju

skólana og ekki liggur fyrir í gögnum málsins bókun eða samþykkt frá fræðsluráði, borgarráði

eða borgarstjórn sem býr að baki tilkynningunni, enda þótt eftir því hafi verið leitað af hálfu

ráðuneytisins.

Þrátt fyrir framangreinda ágalla á stjórnsýslu og málsmeðferð Reykjavíkurborgar í þessu máli,

telur ráðuneytið að ekki sé unnt með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum að staðhæfa að um brot á

lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, stjórnsýslulögum, reglum

Reykjavíkurborgar eða meginreglum stjórnsýsluréttar hafi verið að ræða við hina kærðu úthlutun

sem fram kom í þjónustusamningi aðila 7. október 2004. Lög um fjárhagslegan stuðning við

tónlistarskóla gera ráð fyrir að tónlistarskólar sem reknir eru af öðrum en sveitarfélagi skuli njóta

styrks samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. 1. mgr. 3. gr., en í niðurlagi málsgreinarinnar segir að

sveitarstjórn taki „afstöðu til þess hvort hún fallist á greiðslur til skólans úr sveitarsjóði“. Gert er

því ráð fyrir tilteknum sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaganna að þessu leyti, sbr. einnig 78. gr.

stjórnarskrárinnar og 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Áður hefur verið fundið að óskýrleika Reykjavíkurborgar hvað varðar stöðu reglna þeirra sem

samþykktar voru í febrúar 2003, en að mati ráðuneytisins verður ekki talið að reglurnar hafi

sömu stöðu og bindandi reglur eða reglugerðir sem settar eru af stjórnvöldum, eftir atvikum

staðfestar af æðra stjórnvaldi og síðan birtar með lögformlegum hætti. Verður því að fallast á það

sjónarmið kærða að um viðmiðunarreglur sé að ræða sem sætt geti reglulegri endurskoðun í

tengslum við þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru ár hvert samkvæmt fjárhagsáætlun

sveitarfélagsins. Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að lög nr. 75/1985 og

reglur Reykjavíkurborgar frá 18. febrúar 2003 veiti kæranda ekki nægilegt haldreipi til að byggja

mál sitt á og vísast til þess sem að framan er rakið um það efni.

Við úthlutun fjármagns til tónlistarskóla árið 2004 gilti sama regla fyrir þá skóla sem hlotið

höfðu styrk árið á undan. Að því leyti var jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins fylgt af hálfu

Reykjavíkurborgar. Hvað varðar meinta mismunun milli nýrra skóla og eldri telur ráðuneytið

ástæðu til að benda á að með vísun til þeirra laga og reglna sem tónlistarskólar falla undir verður

að telja að sveitarfélögin hafi umtalsvert sjálfstæði við það að meta og ákveða á hvern hátt

styrkveitingar hefjast til nýrra tónlistarskóla og hver staða þeirra sé gagnvart eldri skólum.

Viðmiðun Reykjavíkurborgar um að heildarfjármagn til málaflokksins ráði því með hverjum

hætti nýir skólar fái styrki geti því almennt ekki talist andstætt jafnræðisreglu eða meginreglunni

um málefnalega málsmeðferð, enda fái nýir skólar sömu málsmeðferð innbyrðis. Að því er

varðar spurningu um hvort fjárstyrkur kærða til nýrra tónlistarskóla í samanburði við eldri skóla

samræmist samkeppnislögum, svo sem í tengslum við meinta hindrun við að nýr aðili komist inn

á samkeppnismarkað, er ljóst að ráðuneytið hefur ekki um það atriði úrskurðarvald, heldur

samkeppnisyfirvöld, sbr. lög nr. 44/2005.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða ráðuneytisins sú að ekki séu forsendur til að ógilda

ákvörðun kærða um fjárstyrk til kæranda sem fram kemur í samningi milli aðila 7. október 2004.

Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og jafnframt hefur

gagnaöflun verið tímafrek.

ÚRSKURÐARORÐ

 

Hafnað er kröfu um að félagsmálaráðuneytið ógildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um fjárstyrk til

Tónskóla Hörpunnar sem fram kemur í samningi milli aðila 7. október 2004.

F. h. r.

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

15. júlí 2005 - Reykjavíkurborg - Úthlutun styrkja til tónlistarskóla, jafnræðisregla (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta