Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Mál nr. 6/2005

Ár 2005, 1. júní, er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 6/2005,

A Sýslumanninum í Keflavík

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með bréfi, dags. 1. mars 2005, kærði A (kærandi) ákvörðun Sýslumannsins í Keflavík (kærði) frá 23. febrúar 2005, um að synja sér um réttindi til aksturs bifhjóls.

Kærandi gerir kröfu um að samgönguráðuneytið hlutist til um að hann fái réttindi til aksturs bifhjóls viðurkennd og til vara er þess farið á leit að ráðuneytið kalli kæranda í aksturspróf á bifhjól sér að kostnaðarlausu og að í framhaldi af því fái hann réttindin skráð.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Bréf kæranda til sýslumannsins í Njarðvík, dags. 2. desember 2004

2. Bréf kæranda til sýslumannsins í Keflavík, dags. 21. febrúar 2005

3. Afrit af prófskírteini kæranda, dags. 4. janúar 1990

4. Svarbréf kærða dags. 23. febrúar 2005

5. Stjórnsýslukæra dags. 1. mars 2005.

6. Umsagnarbeiðni ráðuneytisins til kærða, sýslumannsins í Keflavík, dags. 19. apríl 2005

7. Tilkynning ráðuneytis til kæranda um stöðu málsins, dags. 19. apríl 2005

8. Umsögn kærða, dags. 27. apríl 2005

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið hefur jafnframt aflað frekari gagna í samræmi við ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Kærandi sendi kærða erindi með bréfum, dags. 2. desember 2004 og 21. febrúar 2005, og óskaði eftir því að fá skráð réttindi á bifhjól í ökuskírteini sitt. Hann kveðst hafa tekið próf í janúar 1990 og fengið útgefið prófskírteini fyrir akstur á leigubifreiðum og vörubifreiðum fyrir 5 smálesta farm eða meira. Hann hafi ætlað sér að taka einnig próf á bifhjól en prófunarhjólið hafi verið bilað og því hafi ekki orðið úr akstursprófi. Hann hafi því aldrei fengið réttindi útgefin á bifhjól.

Kærði hafnaði beiðni kæranda með bréfi dags. 23. febrúar 2005 með þeim rökum að gögn sem gætu stutt kröfur hans fyndust ekki hjá embættinu þrátt fyrir umfangsmikla leit. Þá kemur fram í svarbréfi kærða að leit hjá Umferðarstofu hafi heldur ekki borið árangur. Í framhaldi af því sendi kærandi ráðuneytinu erindi þar sem kærð er ákvörðun sýslumannsins í Keflavík og gerð krafa um að ráðuneytið hlutist til um leiðréttingu skírteinis og til vara að það hlutist til um að kalla kæranda í aksturspróf á bifhjól honum að kostnaðarlausu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi fer fram á að ráðuneytið leiðrétti skráningu á ökuskírteini hans þannig að skráð verði bifhjólaréttindi á skírteinið. Hann kveðst hafa ætlað að taka bæði rútupróf og mótorhjólapróf á sama tíma en vegna þess að mótorhjólið sem hann átti að taka prófið á hafi verið bilað hafi verið ákveðið að taka akstursprófið síðar. Ekkert hafi hins vegar orðið úr því. Hann kveðst hafa ekið skellinöðru og mótorhjóli frá 15 ára aldri og sig skorti ekki æfingu. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að félagi sinn B geti vottað um atvik málsins. Hann kveður brýnt að hann fái réttindin skráð sér að kostnaðarlausu.

V. Málsástæður og rök sýslumannsins í Keflavík

Ráðuneytið óskaði umsagnar kærða um erindið. Umsögnin barst ráðuneytinu þann 28. apríl 2005. Þar vísar kærði til þess að engin gögn finnist hjá embættinu eða hjá Umferðarstofu sem staðfesti geti kröfu kæranda og vísar til fyrri röksemda. Af þeim sökum er beiðni kæranda hafnað.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur aðila snýst um það hvort kærandi eigi rétt á að fá tiltekin réttindi skráð á ökuskírteinið sitt þrátt fyrir að hann hafi ekki þreytt öll tilskilin próf. Kærandi vísar kæru sinni til stuðnings til þess að nokkrir menn hafi þreytt próf í Keflavík og fengið skírteini á sama tíma og hann í janúar 1990. Hann hafi hins vegar ekki tekið verklegt bifhjólapróf vegna þess að bifhjólið hafi verið bilað og ákveðið hafi verið að taka keyrsluprófið seinna. Af einhverjum ástæðum hafi þetta dregist úr hófi og að nú sé svo komið að hann vilji fá leiðréttingu sinna mála.

Fyrir liggur í málinu að engin þau gögn sem gætu stutt kröfu kæranda finnast hjá embætti sýslumannsins í Keflavík. Þá finnast heldur engin gögn hjá Umferðarstofu. Ráðuneytið hefur aflað frekari upplýsinga hjá framangreindum embættum.

Samkvæmt upplýsingum frá Umferðastofu er framkvæmdin á þann veg að hafi maður ekki lokið prófaferlinu innan tiltekins tímafrests fyrnist skriflega prófið. Á árinu 1990 þegar kærandi tók skriflegt próf á bifhjól gilti um það reglugerð nr. 787/1983. Á þeim tíma sá Bifreiðaeftirlit ríkisins um ökupróf en það var lagt niður árið 1992. Aftur á móti gildir nú um bæði skrifleg og verkleg próf reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini en samkvæmt 40. gr. reglugerðarinnar skal umsækjandi hafa staðist verklega prófið innan 6 mánaða frá því skriflega var tekið. Að sögn kæranda tók hann skriflegt próf á bifhjól fyrir 15 árum. Hann lét undir höfuð leggjast að fylgja því eftir með akstursprófi og óskar nú eftir að fá réttindi skráð á ökuskírteini sitt þar sem stjórnvöld hafi ekki haft frumkvæði að því að hann tæki verklegt próf. Hann hefur ekki stutt yfirlýsingar sínar neinum gögnum og engin gögn finnast þessum staðhæfingum til stuðnings hjá stjórnvöldum.

Þegar af þessum ástæðum telur ráðuneytið engin efni til að taka kröfu kærandi til greina. Ekki heldur er unnt að taka varakröfu kæranda til greina þar sem það stenst ekki núgildandi reglugerð (nr. 501/1997) um að skriflegt próf fyrnist á 6 mánuðum. Ráðuneytið bendir kæranda á að sækja rétt sinn á grundvelli núgildandi laga og reglugerðar um ökuskírteini nr. 501/1997.

Með vísan til þess sem að framan greinir staðfestir ráðuneytið ákvörðun sýslumannsins í Keflavík, dags. 23. febrúar 2005, um að hafna beiðni um að skrá bifhjólaréttindi í ökuskírteini kæranda.

Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir hér með ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um að hafna beiðni A um að skrá bifhjólaréttindi í ökuskírteini hans.

F.h.r.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta