Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Mál nr. 16/2006

Þann 8. desember 2006 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


úrskurður


í stjórnsýslumáli nr. 16/2006


A

gegn Lögreglustjóranum í Reykjavík

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. september 2006, kærði A (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Lögreglustjórans í Reykjavík, (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Bréf kæranda til kærða, dags. 23. ágúst 2006.

Nr. 2. Svar Lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 1. september 2006.

Nr. 3. Stjórnsýslukæra dags. 23. september 2006.

Nr. 4. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 2. október 2006.

Nr. 6. Bréf ráðuneytisins til kærða dags. 10. október 2006.

Nr. 7. Bréf kærða til ráðuneytisins dags. 24. október 2006.

Nr. 8. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 7. nóvember 2006

Nr. 9. Bréf kæranda til ráðuneytisins dags. 15. nóvember 2006

Kærandi óskar eftir því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði endurveittur ökuréttur. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Kærandi var með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur þann 19. des. 2003 sviptur ökurétti vegna ölvunaraksturs í þrjú ár frá og með 5. maí 2004. Áður hafði kærandi verið sviptur ökurétti vegna sama umferðarlagabrots í tólf mánuði frá og með 5. maí 2003 með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Suðurlands. Samanlögð svipting var því fjögur ár samfleytt og voru liðin rúmlega þrjú ár og þrír mánuðir af sviptingartímabilinu þegar umsókn um endurveitingu barst til embættis kærða þ. 23. ágúst s.l.

Kærandi sótti um endurveitingu ökuréttar til kærða með bréfi dags. 23. ágúst 2006. Með bréfi kærða dags. 1. sept. 2006 var ósk kæranda um endurveitingu hafnað. Niðurstaðan var rökstudd með vísan til 106.gr. ufl. sem kveður á um að endurveiting komi aðeins til greina að um sé að ræða sviptingu ökuréttar vegnar ölvunaraksturs til lengri tíma en til þriggja ára.

Kærandi kærði úrskurðinn til samgönguráðuneytisins þann 23. september 2006. Með bréfi, dags. 2. október var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið til stjórnsýslulegrar meðferðar í ráðuneytinu í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Þann 10. október 2006 bauð ráðuneytið kærða að koma á framfæri athugasemdum við stjórnsýslukæruna. Með bréfi dags. 24. október komu frekari athugasemdir kærða fram. Með bréfi dags. 7. nóv. 2006 gaf ráðuneytið kæranda kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum við efni bréfs kærða frá 24. október s.l. og barst bréf hans 22. nóvember s.l, en það er dagsett 15. nóvember.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi segir að svipting ökuleyfis í svo langan tíma hafi haft mikil áhrif á daglegt líf sitt bæði hvað varðar að sækja vinnu og tómstundir og hafi svo löng ökuleyfissvipting ýtt undir þunglyndiseinkenni sem hann sé að reyna að vinna bug á. Hann telur að allt líf sitt hafi nú tekið miklum breytingum til hins betra og sé hann nú í fastri vinnu og nýtur þjóðfélagsþegn. Fer hann því fram á að mál sitt verði skoðað með velvild og skilningi. Jafnframt höfðar hann til réttlætiskenndar þeirra sem ákvörðunina taka og telur að sú refsing sem hann hefur orðið að sæta sé næg til þess að hann geri sér grein fyrir alvöru málsins.

V. Málsástæður og rök kærða

Í bréfi sínu dags. 24. október 2006 vísar kærði til 1. mgr. 106. gr. ufl. ákvörðun sinni til stuðnings, en þar er kveðið svo á að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár geti ríkislögreglustjóri heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Slíkt eigi einungis við um hvert einstakt brot og vísar kærði í því sambandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 1896/1996 en þar reyndi á svipað mál. Viðkomandi hafði gengist undir sátt um sviptingu ökuréttar í eitt ár en verið síðan sviptur ökurétti í þrjú ár til viðbótar í beinu framhaldi af fyrri sviptingu. Var álit umboðsmanns á þá leið að samanlagður tími tveggja eða fleiri sviptinga skapi ekki rétt til endurveitingar ökuréttar skv. 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga. Þá vísar kærði til úrskurðar samgönguráðuneytisins í máli nr. 4/2006 en þar var sú túlkunarvenja staðfest að sviptingardómar vegna ölvunaraksturs leggist að öllu jöfnu ekki saman. Af þeirri ástæðu geti samanlögð tímalengd ökuleyfissviptingar í lengri tíma en þrjú ár ekki verið grundvöllur undanþágu frá 1. mgr. 106. gr. ufl., enda myndi slík niðurstaða í máli þessu gera síðari dóminn að engu.

Í ljósi ofangreinds telur kærði að ákvörðun sín skuli standa.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda skv. 106. gr. ufl. Fyrsti málsliður lagaákvæðisins er svo hljóðandi:

?Nú hefur maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár og getur þá ríkislögreglustjóri, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju?.

Fyrir liggur að kærandi var sviptur ökurétti með tveimur dómum, frá og með 5. maí 2003 í tólf mánuði og síðan í þrjú ár frá og með 5. maí 2004. Séu báðir dómarnir lagðir saman nemur sviptingin samtals fjórum árum.

Til þess að unnt sé að veita kæranda ökurétt að nýju þarf að athuga hvort svipting ökuréttar verði metin sem ein heild þannig að 1. mgr. 106. gr. ufl. eigi við þar sem greinin áskilur að svipting þurfi að minnsta kosti hafa verið ákvörðuð í lengri tíma en þrjú ár. Einungis ef þetta hlutlæga skilyrði fyrir endurveitingu er uppfyllt kemur til skoðunar hvort atvik skv. 2. mgr. eigi við, en ákvæðið kveður á um að endurveitingu skuli því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Ekki verður á það fallist að fella beri bæði málin saman og meðhöndla sem eitt mál, enda hefur sú venja skapast að ekki verði lagðar saman tímalengdir tveggja eða fleiri sviptingardóma í ölvunarakstursmálum, þegar farið er framá endurveitingu ökuréttar skv. 1. mgr. 106. gr. ufl. Þessi framkvæmd 1. mgr. 106 gr. ufl. hefur verið staðfest af umboðsmanni Alþingis, enda myndi önnur túlkun leiða til þess að ítrekuð brot leiddu ekki til aukinnar refsingar. Þar af leiðandi kemur ekki til álita að taka afstöðu til þess hvort skilyrði 2. mgr. 106. gr. ufl. um heimild til endurveitingar ökuréttar þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eigi við í máli þessu.

Í ljósi þess sem að ofan greinir og með tilliti til þess að um tvö aðskilin brot og tvo dóma er að ræða verður ekki fallist á að skilyrði 1. mgr. 106. gr. ufl. sé fyrir hendi.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu A um endurveitingu ökuréttar.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta