Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Vestmannaeyjabær - Uppsögn leigusamninga við frístundabændur, jafnræðisregla

Bændasamtök Vestmannaeyja
26. apríl 2006
FEL06010061

Óskar Pétur Friðriksson, formaður

Skólavegi 37

900 Vestmannaeyjum

Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dags. 12. janúar 2006, þar sem þér farið fram á að

ráðuneytið rannsakaði og veitti formlegan úrskurð vegna meintra brota Vestmannaeyjabæjar

gagnvart félögum í Bændasamtökum Vestmannaeyja.

Erindi yðar var sent Vestmannaeyjabæ til umsagnar með bréfi, dags. 20. janúar 2006, og barst

umsögn með bréfi bæjarstjóra, dags. 15. febrúar 2006. Einnig bárust frá yður viðbótargögn og

upplýsingar með bréfi dags. 31. janúar 2006.

Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins til yðar, dags. 20. janúar 2006, telur ráðuneytið

athugasemdir yðar við greinaskrif garðyrkjustjóra Vestmannaeyjabæjar ekki vera kæranlegar

til ráðuneytisins. Fram kemur í sama bréfi að ráðuneytið hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort

erindi yðar væri að öðru leyti tækt til afgreiðslu á grundvelli málskotsheimildar í 103. gr.

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Fram kemur í bréfi bæjarstjóra frá 15. febrúar sl. að bærinn

krefst þess að erindinu verði vísað frá ráðuneytinu af ástæðum sem þar eru tilgreindar.

Samkvæmt gögnum málsins leigja margir félagsmenn í Bændasamtökum Vestmannaeyja

beitiland og slægjur af Vestmannaeyjabæ. Margir þessara leigusamninga eru nú útrunnir og

hefur bærinn viljað ganga frá nýjum leigusamningum. Um efni samninganna hefur verið haft

samráð við Bændasamtök Vestmannaeyja og Hestamannafélagið Gáska en samningsform og

úthlutunarreglur vegna leigu á túnum í eigu bæjarins hlutu samþykki í bæjarstjórn þann 8.

desember 2005. Á það er réttilega bent í umsögn Vestmannaeyjabæjar að samningar um

beitarafnot og slægjur eru einkaréttarlegs eðlis og teljast þeir því ekki til sveitarstjórnarmálefna

í skilningi 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Ágreiningur um efni slíkra samninga og framkvæmd

þeirra sætir því ekki málskoti til ráðuneytisins og verður af þeirri ástæðu að vísa erindi yðar frá

ráðuneytinu.

Ráðuneytið telur rétt að taka fram, með vísan til 102. gr. sveitarstjórnarlaga, að ólík sjónarmið

gilda um samninga um annars vegar beitiland og hins vegar um ráðstöfun lands undir

íþróttamannvirki eða skógrækt. Í gildi eru íþróttalög, nr. 64/1998, þar sem lagðar eru

margvíslegar skyldur á sveitarfélög gagnvart íþróttafélögum, sbr. einkum 2. og 7. gr. laganna.

Einnig eru í gildi lög um landgræðslu, nr. 17/1965, og lög um skógrækt, nr. 3/1955, auk fleiri

laga um skylt efni. Af framangreindum ástæðum telur ráðuneytið það ekki vera brot á

jafnræðisreglu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þótt ýmsir aðilar sem falla undir

framangreind lög þurfi ekki að greiða afgjald fyrir land sem þeir hafa á leigu frá

Vestmannaeyjabæ.

Að því er varðar meinta upptöku eigna leigutaka vegna þeirrar stefnu bæjaryfirvalda, sem fram

kemur í erindi yðar, að leigutökum skuli ekki bættar landbætur og girðingar, skal bent á að

leigutakar geta leitað til dómstóla með slík ágreiningsmál.

Afgreiðsla málsins hefur dregist vegna annríkis í ráðuneytinu.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Guðrún A Þorsteinsdóttir (sign.)

26. apríl 2006 - Vestmannaeyjabær - Uppsögn leigusamninga við frístundabændur, jafnræðisregla. (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta