Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hafnarfjarðarkaupstaður - Frestun ákvörðunar, andmælaréttur, skortur á tilkynningu um málsmeðferð

Juralis ehf.
17. júlí 2006
FEL06050018

Sveinn Guðmundsson hdl.

Borgartúni 20

105 Reykjavík

Þann 9. maí 2006 barst ráðuneytinu erindi, dags. 6. maí sl., varðandi málsmeðferð

Hafnarfjarðarkaupstaðar á umsókn ARCO ehf. um lóðaúthlutun í bænum. Erindið var sent

Hafnarfjarðarkaupstað til umsagnar með bréfi, dags. 12. maí 2006. Umsögn bæjarstjórnar er dagsett 31.

maí 2006. Með bréfi, dags. 1. júní sl., var málshefjanda send umsögnin og gefinn kostur á að koma

athugasemdum á framfæri. Athugasemdir málshefjanda, dags. 1. júlí 2006, bárust ráðuneytinu þann 4.

júlí sl.

I. Málavextir og málsástæður.

Málshefjandi sótti um raðhúsa- og parhúsalóð að Völlum 3, 5 og 6 í Hafnarfirði með umsókn, dags. 26.

október 2005. Þann 14. desember 2005 gerði bæjarráð Hafnarfjarðarkaupstaðar tillögu til bæjarstjórnar

um að ARCO skyldi úthlutað lóð að Völlum 5. Á fundi bæjarstjórnar þann 20. desember 2005 var

ákvörðun um úthlutun á lóð til ARCO frestað.

Málshefjandi heldur því fram að honum hafi verið úthlutað lóð á áðurnefndum fundi bæjarráðs þann

14. desember 2005. Hafnarfjarðarkaupstaður fellst ekki á framangreindan skilning málshefjanda. Á

fundi bæjarráðs hafi einungis verið lögð fram tillaga til bæjarstjórnar um að úthluta málshefjanda lóð

að Völlum 5. Bendir Hafnarfjarðarkaupstaður á 9. gr. reglna bæjarins um úthlutun á byggingarrétti fyrir

raðhús og fjölbýlishús, en þar segir svo: „Bæjarráð úthlutar lóðum og byggingarrétti að fengnum

tillögum frá bæjarráði.“ Telur Hafnarfjarðarkaupstaður því ljóst að endanlegt vald til lóðaúthlutunar sé í

höndum bæjarstjórnar, en bæjarráð hafi einungis heimild til að leggja fram tillögur. Jafnframt skuli í

þessu tilliti höfð hliðsjón af fundargerð umrædds fundar bæjarráðs þann 14. desember 2005, en þar

segir m.a.: „Bæjarráð leggur eftirfarandi til við bæjarstjórn: Eftirtaldir lögaðilar hafa fengið úthlutað

lóðum á Völlum 5 ... Arco ehf. Raðhús.“ Af þessu sé ljóst að einungis var um tillögur að ræða en ekki

endanlega úthlutun.

Þá kemur fram í erindi málshefjanda að á fundi bæjarstjórnar þann 20. desember 2005 hafi umræddri

úthlutun verið frestað þar sem forsendur að baki umsókninni hefðu breyst án þess að fullnægjandi

skýringar hefðu borist og án þess að málshefjanda hafi verið gefinn kostur til að andmæla afgreiðslu

þessari. Hafi hann því ritað bréf þann 13. janúar sl. þar sem hann mótmælti frestun úthlutunarinnar.

Málshefjandi bendir á að í bréfi bæjarstjóra frá 8. febrúar 2006 sé því haldið fram að tengiliður

fyrirtækisins hafi haft samband við forseta bæjarstjórnar og upplýst að upp úr samstarfi hans við ARCO

hefði slitnað og hann félli frá umræddri umsókn. Um það atriði tekur Hafnarfjarðarkaupstaður fram að

sú ákvörðun að fresta úthlutun til ARCO hafi verið tekin þar sem verulegar forsendur að baki

umsókninni hafi breyst þegar slitnað hefði upp úr samstarfi ARCO við áðurnefndan tengilið og hafi þá

verið ljóst að forsendur fyrir lóðaumsókninni hefðu verið brostnar.

Af hálfu ARCO er því haldið fram að fyrirtækinu hafi ekki verið gefinn kostur á að mótmæla

frestuninni. Þar með hafi andmælaréttar fyrirtækisins ekki verið nægilega gætt í málsmeðferð

Hafnarfjarðarkaupstaðar. Þessu mótmælir Hafnarfjarðarkaupstaður enda hafi sjónarmið ARCO

varðandi lóðaumsókn fyrirtækisins komið fram í bréfi þess til bæjarins, dags. 13. janúar 2006 og síðar í

bréfi dags. 6. mars 2006.

Þá tekur málshefjandi fram að ef borinn sé saman listi umsækjenda um lóðir milli funda bæjarráðs þann

14. desember og bæjarstjórnar þann 20. desember liggi fyrir að ARCO er eini aðilinn sem ekki fékk

afgreiðslu í samræmi við lóðaumsókn sína. Með skírskotun til jafnræðisreglu krefjist ARCO þess að

fyrirtækinu verði úthlutað lóð þeirri sem til stóð að úthluta því. Hafnarfjarðarkaupstaður tekur fram í

þessu sambandi að það hefði verið skýlaust brot á jafnræði umsækjenda og rannsóknarskyldu

stjórnvalda ef bæjarstjórnin hefði úthlutað ARCO lóðinni þrátt fyrir upplýsingar um verulega breyttar

forsendur umsóknarinnar.

Loks tekur Hafnarfjarðarkaupstaður fram að aldrei hafi verið litið svo á að fallið hafi verið frá umsókn

ARCO eða hún verið dregin til baka. Enn eigi eftir að úthluta nokkrum lóðum til lögaðila á Völlum 5

og umsókn ARCO, ásamt umsóknum annarra lögaðila, hafi því ekki enn verið afgreidd formlega.

II. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Ákvörðun um frestun máls er tekin við meðferð máls, en er ekki stjórnsýsluákvörðun sem kveður á um

réttindi eða skyldur einstaklings. Meðan málið er á þessu stigi og ekki hefur verið tekin í því endanleg

ákvörðun hefur félagsmálaráðuneytið ekki úrskurðarvald um það skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr.

45/1998. Þessi skilningur er auk þess í samræmi við kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993,

en þar segir í 2. mgr. að ákvarðanir, sem ekki bindi endi á mál, verði ekki kærðar fyrr en mál hafi verið

til lykta leitt.

Mál þetta er á hinn bóginn tekið til athugunar á grundvelli eftirlitshlutverks félagsmálaráðuneytisins

skv. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og veitt um það álit.

A. Vald bæjarráðs varðandi lóðaúthlutanir.

 

Eins og áður hefur fram komið er kveðið svo á um í 9. gr. reglna Hafnarfjarðarkaupstaðar um úthlutun

á byggingarrétti fyrir raðhús og fjöleignarhús að bæjarstjórn úthluti lóðum og byggingarrétti að

fengnum tillögum frá bæjarráði. Það liggur því ljóst fyrir að endanlegt vald til lóðaúthlutunar er í

höndum bæjarstjórnar. Aftur á móti er ástæða til að benda á það að í fundargerð bæjarráðs þann 14.

desember 2005 er orðalag sem hægt er að misskilja, en þar segir að eftirtaldir aðilar „hafa fengið

úthlutað lóðum að Völlum 5“. Bendir ráðuneytið á nauðsyn þess að málsmeðferð stjórnvalda sé glögg

og greinileg. Þrátt fyrir þessa ónákvæmni í fundargerð verður að teljast liggja ljóst fyrir af reglum

Hafnarfjarðarkaupstaðar, og af aðfararorðum að áðurnefndri setningu í sömu fundargerð þar sem segir

að bæjarráð „leggur eftirfarandi til við bæjarstjórn“, að á umræddum bæjarráðsfundi hafi ekki farið

fram bindandi úthlutun á lóðinni að Völlum 5 til málshefjanda, enda hafði bæjarráð ekki vald til slíkrar

úthlutunar.

B. Frestun bæjarstjórnar á ákvörðun í máli ARCO. Rannsóknarregla og sjónarmið aðila máls.

 

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu var ákvörðun um lóðaúthlutun til ARCO

frestað þar sem slitnað hefði upp úr samstarfi ákveðins tengiliðar við ARCO. Við þær aðstæður taldi

Hafnarfjarðarkaupstaður nauðsynlegt að fram færi endurmat á umsókn ARCO og við það endurmat

hafi legið ljóst fyrir að fyrirtækið uppfyllti ekki þær lágmarkskröfur sem Hafnarfjarðarkaupstaður geri

til lögaðila við lóðaúthlutanir. Samkvæmt þessu fór frekari rannsókn málsins fram með endurmati á

því.

Í málinu liggur á hinn bóginn fyrir að við frekari rannsókn málsins, endurmat á umsókn ARCO við

breyttar aðstæður, var ekki óskað eftir sjónarmiðum fyrirtækisins áður en ákvörðun var tekin um

framhald málsmeðferðarinnar sem var frestun málsins í þessu tilviki. Telja verður að mál þetta sé

þannig vaxið að nauðsynlegt hefði verið að leita sjónarmiða ARCO um lóðaumsóknina eftir að slitnaði

upp úr samstarfi ARCO við áðurnefndan tengilið til að málið yrði nægjanlega upplýst. Svo var ekki

gert og ákvörðun tekin um frestun umsóknar ARCO á fundi bæjarstjórnar 20. desember 2005.

Þá kemur ekki fram í gögnum málsins að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi sent ARCO tilkynningu um

frestunina eftir að hún var ákveðin á fundi bæjarstjórnar 20. desember 2005. Það var því ekki fyrr en

málshefjandi hafði snúið sér til Hafnarfjarðarkaupstaðar með bréfi, dags. 13. janúar 2006, að hann fékk

viðbrögð frá Hafnarfjarðarkaupstað um málið með bréfi, dags. 8. febrúar 2006.

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að málsmeðferð Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi verið

nokkuð ábótavant áður en tekin var ákvörðun um frestun á fundi bæjarstjórnar þann 20. desember

2005. Jafnframt er það aðfinnsluvert að ekki kemur fram að ARCO hafi verið tilkynnt ákvörðun

bæjarstjórnar um frestun á úthlutun lóðar til fyrirtækisins eftir að sú ákvörðun um frestun var tekin.

C. Um jafnræðisreglu.

 

Málshefjandi hefur haldið því fram að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi með frestun á afgreiðslu umsóknar

hans brotið meginreglu stjórnsýsluréttarins um jafnræði aðila máls. Eins og áður kemur fram í áliti

þessu þá er litið svo á að ekki hafi enn verið tekin fullnaðarákvörðun í málinu. Af þessum sökum liggja

ekki enn fyrir nægilegar upplýsingar til þess að mögulegt sé að meta hvort jafnræðisreglan hafi verið

brotin í málinu eða ekki. Vegna þessa er ekki mögulegt að taka afstöðu til þessarar málsástæðu

málshefjanda að svo stöddu.

D. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Eftir því sem gögn málsins sem ráðuneytið hefur undir höndum bera með sér hefur enn ekki verið tekið

fullnaðarákvörðun í bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar um úthlutun lóðar til ARCO.

Af reglum Hafnarfjarðarkaupstaðar um lóðaúthlutanir liggur ljóst fyrir að vald til úthlutunar lóða er hjá

bæjarstjórn.

Hvað meðferð málsins varðar skorti nokkuð á að málsmeðferðin væri fyllilega í samræmi við vandaða

stjórnsýsluhætti. Er þar í fyrsta lagi vísað til fundargerðar bæjarráðs frá 14. desember 2005, sem birt

var á heimasíðu bæjarins, sem hægt var að misskilja sem svo að bæjarráð hefði úthlutunarvald um lóðir

í sínum höndum. Þá liggur fyrir í málinu að ARCO var ekki tilkynnt sérstaklega um að frestun á

umsókn hans stæði til og skýrð ástæða fyrir henni áður en ákvörðunin var tekin á fundi bæjarstjórnar

20. desember 2005 og fyrirtækinu gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem gat

verið nauðsynlegt til að málið yrði nægilega upplýst. Þá var ARCO ekki tilkynnt sérstaklega um frestun

umsóknarinnar eftir fund bæjarstjórnar 20. desember 2005.

Hvað jafnræðisreglu viðvíkur er ekki mögulegt að taka afstöðu til þessarar málsástæðu málshefjanda að

svo stöddu.

Ráðuneytið mun með bréfi dags. 17. júlí 2006 koma þeim tilmælum á framfæri við

Hafnarfjarðarkaupstað að fært verið til betri vegar það sem aðfinnsluvert var í þessu máli.

Fyrir hönd ráðherra

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

17. júlí 2006 - Hafnarfjarðarkaupstaður - Frestun ákvörðunar, andmælaréttur, skortur á tilkynningu um málsmeðferð

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta