Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Mál nr. 15/2007

Þann 22. maí 2007 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 15/2007

A

gegn lögreglustjóranum á Akureyri

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 19. mars 2007, kærði A (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun lögreglustjórans á Akureyri (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Tölvupóstur kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 18. desember 2006.

Nr. 2. Tölvupóstur samgönguráðuneytis til kæranda, dags. sama dag.

Nr. 3. Bréf kæranda til samgönguráðherra, ásamt læknisvottorði, dags. 9. janúar 2007.

Nr. 4. Læknisvottorð, dags. 25. október 2006, sent af kæranda í tölvupósti til samgönguráðuneytis, dags. 13. mars 2007.

Nr. 5. Kæra til samgönguráðuneytis, dags. 19. mars 2007, ásamt dómi Héraðsdóms Norðurlands 14. júní 2006, beiðni um endurveitingu ökuleyfis til lögreglustjórans á Akureyri, dags. 24. október 2006 og synjun lögreglustjórans á Akureyri á beiðni um endurveitingu ökuréttar, dags. 12. desember 2006.

Nr. 6. Bréf samgönguráðuneytis dags. 21. mars 2007 til kæranda þar sem staðfest er móttaka á stjórnsýslukæru dags. 19. mars 2007.

Nr. 7. Bréf samgönguráðuneytis til kærða dags. 21. mars 2007 þar sem óskað er eftir sjónarmiðum hans vegna framkominnar stjórnsýslukæru.

Nr. 8. Bréf kærða til ráðuneytisins dags. 3. apríl 2007 með rökstuðningi vegna synjunar á endurveitingu ökuréttar.

Nr. 9 Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 9. apríl 2007.

Kærandi óskar eftir því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði endurveittur ökuréttur. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Þann 9. janúar 2007 barst ráðuneytinu bréf frá kæranda þar sem hún fer þess á leit við samgönguráðherra að sér verði endurveittur ökuréttur sem fyrst. Formleg kæra ásamt fylgiskjölum barst þó ekki fyrr en með bréfi kæranda dags. 19. mars 2007. Ráðuneytið telur rétt að líta svo á að fyrrnefnt bréf kæranda hafi rofið kærufrest og að kæra sé fram komin innan marka 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Kærandi var með viðurlagaákvörðun héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum þann 14. júní 2006, sviptur ökurétti í tvö ár vegna ölvunaraksturs frá og með birtingu dóms þann 18. júní 2006. Áfengismagn í blóði kæranda þegar hann var stöðvaður af lögreglu laugardaginn 28. janúar 2006 mældist 2,15 promill.

Með bréfi kærða dags. 12. desember 2006 var ósk kæranda dags. 24. október 2006 um endurveitingu ökuréttar hafnað. Niðurstaðan var rökstudd með vísan til 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en þar segir að lögreglustjóra sé einungis heimilt að veita ökurétt að nýju hafi svipting staðið í þrjú ár eða lengur.

Með vísan í 3. mgr. 106. gr. umfl. kærði kærandi úrskurðinn til samgönguráðuneytisins þann 19. mars 2007 og krafðist þess að synjun kærða yrði úr gildi felld og fallist yrði á kröfu um endurveitingu ökuréttar. Með bréfi dags. 10. apríl 2007 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um umsögn lögreglustjórans á Akureyri. Var frestur gefinn til 4. maí 2007. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Af hálfu kæranda er því haldið fram að aðstæður hans séu svo sérstakar að þær réttlæti að honum verði veittur ökuréttur að nýju, þrátt fyrir að almenn viðmið standi ekki til þess. Hann starfi á útá landi þar sem engar almenningssamgöngur séu til staðar og sé því algerlega háður því að nota bifreið til að komast á milli staða. Kærandi segir að svipting ökuleyfis í svo langan tíma hafi haft mikil áhrif á daglegt líf sitt, svo og hvað varðar að sinna ættingjum sínum sem hann hafi gert áður en til ökuleyfissviptingar kom og verkefnum tengdum atvinnu sinni.

Kærandi telur að um algerlega afmarkað tilvik hafi verið að ræða þegar hann ók undir áhrifum áfengis og hafi dregið lærdóm af þessari reynslu sinni og muni slíkt ekki henda aftur. Í málinu hafa verið lögð fram vottorð tveggja lækna sem staðfesta frásögn hans og mæla með að honum verður veittur ökuréttur að nýju.

V. Málsástæður og rök kærða

Í bréfi sínu dags. 24. október 2006 vísar kærði til 1. mgr. 106. gr. umfl. ákvörðun sinni til stuðnings, en þar er kveðið svo á að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár geti ríkislögreglustjóri heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Í máli þessu hafi kærandi einungis verið sviptur ökurétti í tvö ár og því eigi ofangreint lagaákvæði ekki við.

Í ljósi ofangreinds telur kærði að ákvörðun sín skuli standa.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur í máli þessu lýtur fyrst og fremst að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda skv. 106. gr. umfl.

Svipting ökuréttar kæranda byggist á því að kærandi mældist með 2,15 promill vínanda í blóði, en samkvæmt 5. mgr. 102. gr. umfl. er lágmarks ökuleyfissvipting 2 ár ef ökumaður reynist með yfir 2 promill vínanda í blóði við akstur ökutækis.

Til þess að unnt sé að veita kæranda ökurétt að nýju innan þess tímafrests sem dómurinn hefur áskilið er það skilyrði samkvæmt 106. gr. umfl. að svipting hafi að minnsta kosti verið ákvörðuð í lengri tíma en þrjú ár. Einungis ef þetta hlutlæga skilyrði fyrir endurveitingu er uppfyllt kemur til skoðunar hvort atvik samkvæmt 2. mgr. eigi við, en ákvæðið kveður á um að endurveitingu skuli því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Þar sem svipting ökuréttar kæranda er einungis í tvö ár kemur ekki til álita að taka afstöðu til þess hvort skilyrði 2. mgr. 106. gr. umfl. um heimild til endurveitingar ökuréttar þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eigi við í máli þessu.

Í ljósi þess sem að ofan greinir verður ekki fallist á að skilyrði 106. gr. umfl. eigi við í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu A um endurveitingu ökuréttar.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta