Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Mál nr. 12/2007

Ár 2007, 24. ágúst er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 12/2007

A

gegn

undanþágunefnd.

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. mars 2007, kærðu Faxaflóahafnir sf., fyrir hönd A, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun undanþágunefndar um synjun um undanþágu til skipstjórnar á dráttarbátum Faxaflóahafna, Leyni og Jötni.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun undanþágunefndar verði felld úr gildi og að sér verði veitt undanþága til skipstjórnar á nefndum bátum.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1 Stjórnsýslukæra, dags. 21. mars 2007.

- Bréf sýslumannsins á Akranesi til A, dags. 2. september 2005.

- Bréf Siglingastofnunar Íslands til Faxaflóahafna sf., dags. 15. nóvember 2005.

- Afrit úr bókum sýslumannsins á Akranesi um undanþágur sjómanns, dags. 15. febrúar 2007.

- Bréf Faxaflóahafna sf. til Siglingastofnunar, dags., 15. febrúar 2007, ásamt þar til greindum fylgigögnum.

- Bréf undanþágunefndar til Faxaflóahafna sf., dags. 5. mars 2007.

Nr. 2 Bréf ráðuneytisins til undanþágunefndar, dags. 26. mars 2007.

Nr. 3 Bréf undanþágunefndar til ráðuneytisins, dags. 15. maí 2007.

Nr. 4 Bréf ráðuneytisins til Faxaflóahafna sf., dags. 18. maí 2007.

Nr. 5 Bréf Faxaflóahafna sf. til ráðuneytisins, dags. 4. júní 2007.

Nr. 6 Bréf ráðuneytisins til Faxaflóahafna, dags. 22. júní 2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Framangreind stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæruheimild í 26. gr. sömu laga.

III. Málsatvik

Kærandi sótti um undanþágu til starfa sem skipstjóri á dráttarbátum Faxaflóahafna sf., með umsókn dags. 15. febrúar 2007. Undanþágunefnd hafnaði umsókn kæranda með bréfi dags. 5. mars 2007 á þeim forsendum að ekki fylgdi fullnægjandi sönnun þess að skortur væri á mönnum með nægjanleg skipstjórnarréttindi.

Með stjórnsýslukæru dags. 21. mars 2007, kærði kærandi framangreinda ákvörðun til samgönguráðuneytisins.

Ráðuneytið sendi stjórnsýslukæruna til umsagnar undanþágunefndar með bréfi dags. 26. mars 2007. Ráðuneytinu barst umsögn undanþágunefndar með bréfi dags. 15. maí 2007.

Með bréfi dags. 18. maí 2007, gaf ráðuneytið kæranda kost á því að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn undanþágunefndar. Ráðuneytinu barst bréf frá kæranda, dags. 4. júní 2007.

Ráðuneytið taldi ekkert nýtt koma fram í síðara bréfi kæranda er gæfi tilefni til þess að óska umsagnar undanþágunefndar. Þar sem í málinu hafði ekki komið fram að skortur hefði verið á mönnum þegar sótt var um undanþáguna, gaf ráðuneytið kæranda kost á því með bréfi dags. 22. júní 2007 að sýna fram á skortinn. Ráðuneytinu barst ekki svar við erindinu.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi fer þess á leit við ráðuneytið að það felli ákvörðun undanþágunefndar úr gildi og sér verði veitt undanþága til starfa sem skipsstjóri á dráttarbátum Faxaflóahafna, Leyni og Jötni.

Kærandi hefur m.a starfað á dráttarbátnum Leyni um skeið en sýslumaðurinn á Akranesi ógilti útgefið atvinnuskírteini hans með bréfi dags. 2. september 2005 þar sem það hafði verið ranglega útgefið. Kærandi kveður hins vegar að Siglingastofnun hafi veitt sér undanþágu til að gegna áfram starfi skipstjóra með bréfi dags. 15. nóvember 2005. Hafi undanþágan verið veitt til 1. janúar 2006 en hafi verið framlengd til 30. júní 2006. Gert var að skilyrði við veitingu undanþágunnar að fyrir lægju áform kæranda um að afla sér tilskilinna atvinnuréttinda. Kveður kærandi að ekki hafi verið gengið eftir því við veitingu undanþágunnar eða síðar að starf kæranda væri sérstaklega auglýst.

Kærandi hafi farið þess á leit við undanþágunefnd með bréfi dags. 15. febrúar 2007, að sér yrði veitt undanþága til starfa sem skipstjóri á dráttarbátunum Jötni og Leyni. Í bréfinu var vísað til ákveðinna sjónarmiða sem talið var að þyrfti að líta til við töku ákvörðunar. Þau sjónarmið sem vísað var m.a til voru að kærandi hafi nýverið sótt námsskeið til fróðleiks og þekkingarauka, alls 36 stundir vottað af Fjöltækniskóla Íslands. Þá bendir kærandi á að í ljósi nýrra áhafnalaga nr. 30/2007 er taka gildi 1. janúar 2008, hyggist hann afla sér viðunandi skipstjórnarréttinda til að stjórna skipum styttri en 24 metrar.

Liggur því fyrir að kærandi muni afla sér tilskilinna réttinda líkt og undanþágunefnd hefur áður gert að skilyrði. Í ljósi þess og að kærandi hefur víðtæka og langa reynslu af sjómennsku og starfi á bátum og skipum og þar sem ákvörðun undanþágunefndar var íþyngjandi og beinist að atvinnuréttindum hans, er þess farið á leit við ráðuneyti að undanþágan verði heimiluð.

V. Málsástæður og rök kærða

Undanþágunefnd vísar til þess að kæranda hafi verið veitt undanþága árið 2005 til að gegna stöðu skipstjóra á dráttarbátunum Leyni og Jötni ásamt tveimur öðrum starfsmönnum Reykjavíkurhafnar. Undanþágurnar hafi verið háðar því skilyrði að viðkomandi einstaklingar öfluðu sér réttinda til þess að gegna þessum stöðum. Hinir tveir starfsmennirnir hafa aflað sér þeirra réttinda sem til þarf í viðkomandi stöðu en kærandi hafi ekki gert það.

Undanþágunefnd bendir á að námskeið kæranda, til fróðleiks og þekkingarauka, sé haldið fyrir skipsstjórnarmenn sem ekki hafi tilskilinn siglingartíma á síðustu 5 árum til endurnýjunar skipstjórnarréttinda, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 118/1996, með síðari breytingum. Þá sé undanþágunefndinni kunnugt um að á nefndum bátum sé starfandi einstaklingur með þau réttindi sem til þarf til að stjórna bátunum.

Í ljósi framangreinds, auk þess sem umsókn kæranda fylgdi ekki fullnægjandi sönnun þess að starfið hafi verið auglýst í fjölmiðlum, var umsókn um undanþágu kæranda hafnað.

VI. Álit og niðurstöður ráðuneytisins.

Samkvæmt gögnum málsins lítur ágreiningsefni þessa máls að því hvort kærandi geti fengið undanþágu til skipstjórnar á tveimur bátum án þess að hafa sannreynt hvort um skort á mönnum til að gegna stöðunni hafi verið að ræða. Bátarnir Jötunn og Leynir eru 43,70 brl. en kærandi hefur 30 brl. réttindi til skipstjórnar.

Meginreglur um atvinnuréttindi skipstjóra er að finna í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 (hér eftir atvinnuréttindalaganna) og er nánar kveðið á um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna í reglugerð nr. 118/1996 með áorðnum breytingum (hér eftir reglugerðarinnar).

Í málinu liggur fyrir að skipin sem krafist er undanþágu til skipstjórnar á, eru 43,70 brl. Til þess að geta starfað sem skipstjóri á 43,70 brl. skipi þarf viðkomandi að vera 20 ára eða eldri og hafa siglingatíma og menntun í samræmi við ákveðin stig stýrimannaskóla. Í því tilviki sem hér um ræðir þarf viðkomandi að meginreglu að hafa a.m.k 80 rúmlesta réttindi (A2) sbr. ákvæði til bráðabirgða í 6. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi hefur 30 rúmlesta réttindi, sbr. 1. mgr. 7. gr. atvinnuréttindalaganna, er gefur honum skírteini (A1) sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Réttindin gefa kæranda rétt sem skipstjóri á skipi sem er 30 rúmlestir eða minna.

Frá framangreindum meginreglum, er að finna ákveðnar undantekningar. Í 1. mgr. 21. gr. atvinnuréttindalaganna segir að sé skortur á mönnum með nægileg réttindi til skipstjórnar sé heimilt að veita manni, sem ekki fullnægir skilyrðum laganna, undanþágu til starfa á tilteknu skipi eða tiltekinni gerð skipa um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en 6 mánuði í senn. Í 2. mgr. 21. gr. laganna segir að samgönguráðherra skipi fimm manna nefnd, undanþágunefnd, til þess að fjalla um slík mál, líkt og hér um ræðir og starfar hún samkvæmt starfsreglum nr. 247/2007 (hér eftir nefndar starfsreglurnar).

Ákvæði 21. gr. atvinnuréttindalaganna er heimildarákvæði er felur undanþágunefnd mat á því í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi aðili geti gegnt tiltekinni stöðu, sem hann hefur ekki öðlast réttindi til að gegna lögum samkvæmt, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða. Hefur undanþágunefnd framangreindar starfsreglur til viðmiðunar við mat á hæfni tiltekinna einstaklinga.

Starfsreglurnar fela í sér ákveðnar viðmiðunarreglur í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum undanþágunefndar. Starfsreglurnar eru því ekki fast mótaðar efnisreglur er binda hendur undanþágunefndar við ákvarðanir sínar þar sem leggja verður sjálfstætt mat á hvert mál fyrir sig.

Eina lögmælta skilyrðið sem uppfylla þarf skv. 21. gr. atvinnuréttindalaganna er skortur á mönnum. Þarf sá er sækir um undanþágu að sýna fram á þennan skort. Sé sýnt fram á að um skort sé að ræða, tekur undanþágunefnd viðkomandi mál til skoðunar og metur hvort viðkomandi aðili geti gegnt þeirri stöðu sem sótt er um.

Óumdeilt er að kærandi auglýsti ekki stöðuna lausa til umsóknar sbr. 2. gr. starfsreglnanna eða gerði annan reka til þess að sýna fram á að skortur væri á mönnum til þess að gegna stöðunni. Miðað við bréfaskriftir kæranda og Siglingastofnunar Íslands, mátti kærandi vita að skilyrði frekari undanþága væri að starfið væri auglýst og að enginn réttindamaður hefði sótt um starfið. Ekki er á það fallist með kæranda að synjun undanþágunefndar á umsókn kæranda hafi verið íþyngjandi og beinst að atvinnuréttindum hans. Kærandi hefur ekki atvinnuréttindi til að gegna því starfi er hann sækir um. Ákvörðun undanþágunefndar getur því eðli málsins samkvæmt ekki verið íþyngjandi jafnvel þó um synjun sé að ræða.

Þegar af þeirri ástæðu, að ekki hefur verið sýnt fram á skort á mönnum sbr. áskilnað 21. gr. atvinnuréttindalaganna, kemur ekki til skoðunar hvort kærandi uppfylli viðmið undanþágunefndar um hæfni, menntun og önnur atriði til að stjórna þeim bátum sem sótt er um undanþágu á. Ráðuneytið staðfestir því ákvörðun undanþágunefndar, frá 5. mars 2007.

Ráðuneytið hvetur kæranda til þess að afla sér þeirra réttinda, sem lögum samkvæmt þarf til þess að stjórna nefndum skipum.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun undanþágunefndar, frá 5. mars 2007, um að synja A, sem skipstjóri á dráttarbátunum Leyni og Jötni er staðfest.

Unnur Gunnarsdóttir

Karl Alvarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta