Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Ísafjarðarbær - Hámark og lágmark holræsagjalds

Arngrímur Arngrímsson                                      7. maí 1997                                                         97020092

Baldursgötu 23                                                                                                                                               121

101 Reykjavík

            

             Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 25. febrúar 1997, varðandi álagningu holræsagjalds á fasteign yðar að Hafnarstræti 11, Ísafirði.

 

             Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum um málið frá Ísafjarðarbæ og bárust þær upplýsingar með bréfum, dagsettum 4. mars og 9. apríl 1997.

 

             Um álagningu holræsagjalds í Ísafjarðarbæ fer eftir reglugerð nr. 39/1997, sem sett er á grundvelli 4. mgr. 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923, með síðari breytingum.

 

             Í 1. mgr. 87. gr. vatnalaga er að finna meginregluna um álagningu holræsagjalds og segir þar svo: “Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði. Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorttveggja.”

 

             Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um holræsagjald í Ísafjarðarbæ nr. 39/1997 segir svo:

             “Upphæð holræsagjaldsins skal vera 0,16% af fasteignamati íbúðarhúsa og lóða, og 0,16% af fasteignamati atvinnuhúsnæðis og lóða samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald. Gjöld samkvæmt grein þessari er bæjarstjórn heimilt að hækka eða lækka allt að 50% án þess að samþykki ráðuneytisins komi til.”

 

             Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ var ákveðið að hámark holræsagjalds fyrir árið 1997 skyldi vera 15.800 kr. og lágmark 6.500 kr.

 

             Með vísan til framangreindra ákvæða telur ráðuneytið að ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, sem tilkynnt var fasteignaeigendum í Ísafjarðarbæ með bréfi, dagsettu 3. febrúar 1997, um hámark og lágmark holræsagjalds fyrir árið 1997 geti ekki rúmast innan núgildandi 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 39/1997. Orðalag ákvæðisins er skýrt hvað varðar viðmiðun gjaldsins, þ.e. miðað skal við tiltekið hlutfall af fasteignamati húsnæðis. Ef ætlun sveitarstjórnar er að ákveða lágmark og/eða hámark holræsagjalda ber að setja ákvæði um slíkt í reglugerð um holræsagjald sem síðan skal hljóta staðfestingu félagsmálaráðuneytisins.

 

             Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að ráðuneytið telur hins vegar með vísan til vatnalaga og fyrrgreindrar reglugerðar heimilt að innheimta holræsagjald af hverjum hluta fasteignar sem metinn er sérstaklega, t.d. hverri íbúð í fjölbýlishúsi.

 

             Dregist hefur að svara erindi yðar vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta