Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hafnarfjarðarkaupstaður - Lögmæti hækkunar holræsagjalds

Gísli Jónsson                                                         28. maí 1998                                                       98010114

Brekkuhvammi 4                                                                                                                                             121

220 Hafnarfirði

 

 

 

 

 

             Þann 28. maí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 23. janúar 1998, kærði Gísli Jónsson til ráðuneytisins ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar um hækkun holræsagjalds fyrir árið 1998 og í bréfi, dagsettu 26. janúar 1998, kom fram viðbót við fyrra kæruefni.

 

             Erindið var sent til umsagnar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar með bréfi, dagsettu 27. janúar 1998. Beiðni um umsögn var ítrekuð með bréfi, dagsettu 7. apríl 1998, og símbréfi, dagsettu 24. sama mánaðar. Umsögn barst ráðuneytinu loks þann 30. apríl 1998 með bréfi, dagsettu 29. sama mánaðar.

 

I.          Málavextir og málsástæður.

 

             Á álagningarseðli Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna fasteignagjalda 1998 kom fram að holræsagjald hefði verið ákveðið 0,15% af gjaldstofni, en gjaldið var 0,10% árið 1997.

 

             Kærandi vitnar til 4. og 5. mgr. 1. gr. reglugerðar um holræsagjöld í Hafnarfirði nr. 507/1975 og á grundvelli þess er álagning Hafnarfjarðarkaupstaðar á holræsagjaldi 1998 kærð og þess krafist “að ráðuneytið sjái til þess að álagningin verði innan þeirrar heimildar, sem reglugerð nr. 507/1975 kveður á um.“

 

             Í viðbótarerindi kæranda segir síðan svo:

             “Reglugerð sú, nr. 507/1975, sem vitnað er til í kærunni, var sett skv. vatnalögum nr. 15/1923 en þar segir í 87. gr. tölulið 4: “Holræsagjald skal ákveða í reglugerð“. Eins og fram kom í kærunni var í reglugerð nr. 507/1975 ákveðið að holræsagjald í Hafnarfirði skyldi vera 0,08% af heildarfasteignamati. Annað holræsagjald hefur ekki verið birt í reglugerð. Hins vegar er í umræddri reglugerð framsal til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar til að hækka eða lækka holræsagjaldið um allt að 50% án staðfestingar ráðuneytisins og þar með án birtingarskyldu. Ekki er að finna í vatnalögum neina heimild fyrir slíku framsali og verður það því að teljast ólögmætt.

             Hugsunin á bak við birtingarskyldu á gjaldskrám sem staðfestar eru af ráðherra er sú, að Stjórnartíðindin séu öruggur upplýsingagrunnur og að þar megi á hverjum tíma finna allar gildandi gjaldskrár sem ráðherra staðfestir eða gefur út. Framsal til óæðra stjórnvalds er því andstætt ákvæðunum um birtingarskyldu.

             Með vísun til framanritaðs er álagning bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á holræsagjaldi umfram 0,08% af heildarfasteignamati hér með kærð. Þess er krafist að hækkunin 1998 úr 0,10% í 0,15% verði að fullu dregin til baka og gjaldið jafnframt lækkað í 0,08%. Ennfremur að endurgreitt verði oftekið holræsagjald þau s.l. ár, sem það hefur verið umfram 0,08%, að svo miklu leyti sem fyrningarlög heimila.“

 

             Í umsögn Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 29. apríl 1998 um kæruna segir m.a. svo:

             “Ef umrædd hækkun holræsagjaldsins úr 0,10% í 0,15% af fasteignamatsvirðingu verður úrskurðuð ógild, líta bæjaryfirvöld svo á að þar sem vilji bæjarstjórnar standi til slíkrar hækkunar muni hæsta leyfilega holræsagjald skv. reglugerð um holræsagjöld í Hafnarfirði nr. 507/1975 gilda þetta árið, eða 0,12% af fasteignamatsvirðingu, sbr. 4. og 5. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar.

             Munu framkvæmdir í holræsamálum Hafnarfjarðar miðast við þá fjárhæð sem innheimtist á þessum grunni, en reikna má með að bæjarstjórn Hafnarfjarðar muni samþykkja breytingu á reglugerðinni til hækkunar á leyfilegu hámarki gjaldsins, sem komi síðan til framkvæmda á næsta ári.“

 

II.              Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í 4. mgr. 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923 segir m.a. svo: “Holræsagjald skal ákveða í reglugerð.“ Í 90. gr. sömu laga er mælt fyrir um að reglugerðir um holræsi og holræsagjald sem sveitarstjórn semur skuli senda ráðherra til staðfestingar.

 

             Á grundvelli framangreindra ákvæða hefur reglugerð um holræsagjöld í Hafnarfirði nr. 507/1975 verið samin og staðfest.

 

             Í 4. og 5. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar segir meðal annars:

             “Af öllum fasteignum, sem greiða ber af holræsagjald skv. 1. mgr., skal greiða holræsagjald, sem nemur 0,08% ... af heildarfasteignamati eignarinnar, þ.e.a.s. af mati mannvirkja ásamt mati lóðar.

             Bæjarstjórn getur hækkað eða lækkað um allt að 50% framantalin gjöld, öll þeirra eða hvert um sig, án þess að leita þurfi staðfestingar ráðuneytisins.“

 

             Skýrt er því kveðið á um í 4. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar að holræsagjald í Hafnarfjarðarkaupstað er 0,08% af “heildarfasteignamati“ og samkvæmt heimild í 5. mgr. sömu greinar getur bæjarstjórn einungis hækkað eða lækkað gjaldið um 50% án staðfestingar ráðuneytisins.

 

             Ljóst er því að bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hafði ekki heimild til að hækka holræsagjaldið í 0,15% án staðfestingar ráðuneytisins á breytingu á reglugerðinni. Bæjarstjórnin hafði einvörðungu svigrúm til að hækka gjaldið í 0,12%.

 

             Það skal sérstaklega tekið fram að ráðuneytið telur að ákvæði 5. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar rúmist innan ákvæða 4. mgr. 87. gr. vatnalaga, enda geti sveitarfélagið á hverjum tíma sýnt fram á raunkostnað á móti innheimtum gjöldum, þ.e. vegna stofn- og rekstrarkostnaðar holræsakerfis. Er í því samhengi sérstaklega vitnað til 5. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 þar sem segir að sveitarfélög skuli “hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem þau annast.“ Fjölmörg dæmi er að finna um slíkar hækkunar- og lækkunarheimildir í reglugerðum og samþykktum um holræsagjöld sveitarfélaga síðustu áratugi sem félagsmálaráðuneytið hefur staðfest.

 

             Dregist hefur að kveða upp úrskurð þennan vegna mikilla anna í ráðuneytinu, meðal annars vegna sveitarstjórnarkosninga.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar um að hækka holræsagjald fyrir árið 1998 í 0,15% af “heildarfasteignamati“ er ólögmæt. Bæjarstjórn er ekki heimilt að innheimta hærra gjald en sem nemur 0,12% af gjaldstofni samkvæmt gildandi reglugerð.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Afrit:  Bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar.

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta