Tálknafjarðarhreppur - Niðurfelling holræsagjalds af eignum sem ekki eru tengdar aðalfráveitukerfi
Tálknafjarðarhreppur 30. apríl 2001 FEL01040009/1200
Ólafur M. Birgisson
Miðtúni 1
460 Tálknafjörður
Vísað er til erindis yðar frá 26. mars sl., þar sem óskað er umsagnar ráðuneytisins um beiðni frá fiskvinnslufyrirtæki um niðurfellingu holræsagjalds þrjú ár aftur í tímann af fiskvinnsluhúsi við Strandgötu á Tálknafirði. Kemur fram í erindinu að fiskvinnsluhúsið stendur nálægt fjöruborðinu og liggur leiðsla úr því gegnum lóðina út í fjöru. Þetta á jafnframt við um mörg íbúðarhús við sömu götu. Er óskað upplýsinga um hvort ráðuneytið hafi úrskurðað í hliðstæðum málum og hver sá úrskurður sé. Einnig er spurt hvernig fari með málefni útrása hjá sveitarfélögum, sem verða að vera komnar í lag í síðasta lagi árið 2005, ef sveitarfélag getur ekki krafist fráveitugjalds fyrir þessari lögn.
Ráðuneytið skilur erindi yðar svo að fráveita frá umræddu fiskvinnsluhúsi hafi verið lögð út í sjó án þess að sveitarfélagið kostaði þá framkvæmd. Þetta kemur þó ekki skýrt fram í bréfi yðar. Sama máli gegnir væntanlega um íbúðarhús við sömu götu. Fasteignir þessar hafa því að því er virðist aldrei tengst né átt kost á að tengjast fráveitukerfi hreppsins. Ekki kemur fram hvort þetta fyrirkomulag stafi af tæknilegum vandkvæðum, svo sem hæðarmun götu og fasteigna, sem hugsanlega gera það að verkum að tenging við fráveitukerfi verði óhæfilega dýr kostur.
Ráðuneytið hefur ekki fjallað áður um nákvæmlega sams konar mál. Í áliti ráðuneytisins frá 6. júlí 1998 (ÚFS 1998:96), um Akranesveitu, er þó fjallað um svipað álitaefni og í erindi yðar, þ.e. um rétt fasteignareigenda til niðurfellingar holræsagjalds ef fasteign tengist ekki fráveitukerfi bæjarins. Þar segir meðal annars:
"Í 87. gr. vatnalaga segir svo: “Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði. Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorugtveggja.“ Samkvæmt 88. gr. laganna verður eigandi fasteignar ekki krafinn um holræsagjald fyrr en bæjarstjórn hefur lagt holræsi þannig að lóðareigandi nái til þeirra. Hins vegar er lóðareigendum eða húseigendum skylt að standa sjálfir straum af kostnaði við gerð holræsis er flytji frá húsum og lóðum allt skólp út í aðalræsi, sbr. 2. mgr. 88. gr. laganna.
Í 3. mgr. 88. gr. laganna segir síðan: “Nú stendur svo á, að sérstaklega kostnaðarsamt er að leggja holræsi frá aðalræsi yfir lóð manns, og getur hann þá krafið sig undanþeginn holræsagjaldi, ef hann getur komið skólpi frá sér með öðrum hætti, er heilbrigðisnefnd telur fulltryggan, enda verði ekki metið, að það baki nágrönnum óþægindi eða tjón.“ Jafnframt er tekið fram í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um holræsi á Akranesi að hverjum þeim sem á húseign, sem hægt er að tengja við holræsakerfi bæjarins, sé skylt að tengja þá húseign við holræsakerfi bæjarins. Af gögnum þeim er liggja fyrir í máli þessu er ekki ljóst að fyrir hendi séu einhverjir teljanlegir erfiðleikar við lagningu tengingar við holræsakerfið sem liggur að Esjubraut 49, né álit heilbrigðisnefndar eða bæjarverkfræðings um að tengingar sé ekki þörf."
Í umræddu máli hafði ráðuneytið ekki nægileg gögn undir höndum til að veita afdráttarlaust svar við því álitaefni hvort skylt væri að greiða holræsagjald af tiltekinni fasteign. Hins vegar kom fram í svari ráðuneytisins að ef fráveituvatni fasteignar var veitt í rotþró, og ekki var unnt að tengja fasteignina við fráveitukerfi bæjarins, bæri eiganda hennar ekki að greiða holræsagjald. Með vísan til þeirrar niðurstöðu telur ráðuneytið rétt að svara fyrirspurn yðar á eftirfarandi hátt, en tekið skal fram að fyrirvari er gerður um að staðreyndir máls þess sem hér er til umfjöllunar séu með þeim hætti sem lýst er að framan:
1. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um holræsi í Tálknafjarðarhreppi nr. 309/1995, er þeim húseigendum sem þess eiga kost skylt að tengjast holræsakerfi hreppsins. Ef fasteignir sem liggja að sjó eiga þess ekki kost að tengjast fráveitukerfi hreppsins ber ekki að greiða af þeim holræsagjald.
2. Eins og bent er á í erindi yðar er sveitarfélögum gert skylt að koma fráveitumálum í lag í síðasta lagi árið 2005. Í reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 er að finna reglur um hreinsun skólps og takmarkanir á því að hleypa óhreinsuðu skólpi í sjó fram. Telur ráðuneytið líklegt að Tálknafjarðarhreppur verði að endurskoða núverandi fyrirkomulag fráveitumála á Tálknafirði og er í því sambandi bent á að eftirlit fráveitumála er í höndum heilbrigðisnefnda á hverju starfssvæði. Ef heilbrigðisnefnd telur núverandi fyrirkomulag óviðunandi getur hún m.a. gert kröfu um að atvinnufyrirtæki komi fyrir fullnægjandi hreinsibúnaði. Þá getur nefndin krafist þess að fráveituvatn einstakra húsa, sem ekki verður veitt í fráveitukerfi, verði þess í stað veitt um rótþró.
3. Ráðuneytið telur að lokum rétt að benda á að samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995 ber stjórnvöldum að eiga frumkvæði að endurgreiðslu þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið.
F. h. r.
Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)