Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu - synun endurveitingu ökuréttinda: Mál nr. 33/2008
Þann 15. ágúst 2008 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður
í stjórnsýslumáli nr. 33/2008
A
gegn
lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru þann 6. mars 2008 kærði A (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur kærði), frá 29. febrúar s.l. að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
Nr. 1. Bréf kæranda til kærða, dags. 14. febrúar 2008.
Nr. 2. Bréf kærða til kæranda, dags. 29. febrúar 2008.
Nr. 3 Bréf kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 6. mars 2008.
Nr. 4. Endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 18. janúar. 2006.
Nr. 5. Endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjaness, dags. 27. júní 2005 - 20. mars. 2006.
Nr. 6. Bréf samgönguráðuneytis til kæranda, dags. 22. apríl 2008.
Nr. 7. Bréf samgönguráðuneytis til kærða, dags. 20. júní 2008.
Nr. 8. Umsögn kærða, dags. 1. júlí 2008.
Nr. 9. Bréf samgönguráðuneytis til kæranda, dags. 15. júlí 2008.
Nr. 10. Tölvupóstur kæranda til samgönguráðuneytisins 5. ágúst 2008.
Framangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.).
II. Málsatvik
Málavextir eru þeir að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum þann 18. janúar 2006 og birtur kæranda þann 7. febrúar 2006 var kærandi sviptur ökurétti í þrjú ár vegna ölvunaraksturs á grundvelli 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 (umfl.), sbr. 1. mgr. 100. gr. umfl.
Þá var kærandi með dómi Héraðdóms Reykjaness, uppkveðnum þann 20. mars 2006 á ný sviptur ökurétti vegna ölvunaraksturs, nú í 18 mánuði frá 7. febrúar 2009 að telja, á grundvelli 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr.1. mgr. 100. gr. umfl.
Með bréfi dags. 14. febrúar 2008 óskaði kærandi eftir því við kærða að dómur vegna ölvunarakstursbrota yrði styttur og honum yrði veittur ökuréttur á ný. Því var hafnað af hálfu kærða með bréfi dags. 29. febrúar 2008.
Kærandi kærði synjunina til ráðuneytisins með bréfi dags. 6. mars 2008 sem móttekið var hjá ráðuneytinu þann 7. apríl s.l.
Óskað var umsagnar kærða um fram komna kærðu með bréfi þann 20. júní s.l. og barst umsögn þann 1. júlí s.l. Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar þann 15. júlí s.l. og bárust andmæli hans ráðuneytinu með tölvupósti þann 5. ágúst s.l.
Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í bréfi sínu dags. 14. febrúar 2008 til kærða leggur kærandi áherslu á mikilvægi þess að honum verði veittur ökuréttur að nýju. Ölvunaraksturstilfelli hans tvö hafi átt sér stað í kjölfar hjúskaparslita og annarra áfalla í lífi hans. Kærandi kveðst hafa verið hætt kominn í nóvembermánuði árið 2003 þegar hann gekkst undir uppskurð vegna kransæðastíflu. Kærandi hafi eignast barn í október 2004 og tók við að hans sögn hatrömm forræðisdeila sem stóð fram til ársins 2006. Lyktaði deilunni á þann veg að kærandi hlaut fullt forræði yfir barni sínu. Atburðarrásin í heild hafi gengið afar nærri kæranda. Hann hafi þjáðst af þunglyndi í kjölfar þessa atburða, sem almennt hafi gengið nærri andlegri líðan hans.
Kærandi kveðst hafa gengist undir áfengismeðferð í febrúarmánuði 2006. Að hans sögn hafi líf hans tekið nýja stefnu í kjölfar þess. Hann starfi nú sem kennari við framhaldsskóla úti á landi og haldi þar heimili ásamt barni sínu.
Kærandi kveðst ekki ætla að gera lítið úr brotum sínum með framlagðri kæru. Þó telur hann sig ekki eiga annarra kosta völ en að leita úrskurðar æðra stjórnvalds vegna synjunar á beiðni um endurveitingu ökuréttar þar sem barn hans þurfi á sértækri aðstoð að halda, sem m.a. felist í tal- og iðjuþjálfun. Kærandi þurfi að sækja þessa þjónustu til nágrannabæja og sé honum sem einstæðum föður það mjög óhægt um vik þar sem hann hafi ekki ökuréttindi.
Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga sé lögreglustjóra heimilt að veita ökurétt á ný ef svipting hefur staðið í þrjú ár. Því séu lítt skiljanleg þau rök lögreglustjóra að ekki sé unnt að líta svo á að samanlagður tími tveggja eða fleiri sviptinga skapi sama rétt samkvæmt ákvæðinu.
Kærandi áréttar mikilvægi þess að fá ökurétt á ný í andmælum sínum og þá einkum vegna aðstæðna barns síns.
IV. Málsástæður og rök kærða
Í bréfi sínu dags. 29. febrúar s.l. til kæranda vísar kærði til 1. mgr. 106. gr. umfl. til stuðnings því að ekki sé unnt að fallast á beiðni kæranda. Þar segir að hafi ökumaður verið sviptur ökurétti í lengri tíma en þrjú ár geti lögreglustjóri, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Samkvæmt ákvæði þessu sé ekki heimilt að breyta ákvörðun um tímabundna ökuréttarsviptingu nema þegar svipting hafi varað í meira en þrjú ár. Ekki sé unnt að líta svo á að samanlagður tími tveggja eða fleiri sviptinga skapi sama rétt samkvæmt ákvæðinu. Í sakarvottorði komi fram að þann 18. janúar 2006 hafi kærandi verið sviptur ökurétti í þrjú ár frá 7. febrúar s.á og síðan aftur þann 20. mars 2006 í 18 mánuði til viðbótar frá 7. febrúar 2009.
Þá kemur fram í umsögn kærða að samanlögð svipting ökuréttar sé fjögur ár og sex mánuðir samfleytt. Þegar kærandi hafi sótt um endurveitingu ökuréttar þann 14. febrúar s.l. hafi aðeins verið liðin tvö ár af sviptingartímabilinu.
Kærði bendir á að við afgreiðslu á umsókn kæranda hafi verið höfð hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1896/1996 enda sé þar um sambærilegt mál að ræða. Þar hafi viðkomandi gengist undir sátt um sviptingu ökuréttar í eitt ár en hafi síðan verið sviptur ökurétti í þrjú ár til viðbótar í beinu framhaldi af fyrri sviptingunni. Var álit umboðsmanns á þá leið að samanlagður tími tveggja eða fleiri sviptinga skapi ekki rétt til endurveitingar ökuréttar á grundvelli 1. mgr. 106. gr. umfl. Þá hafi enn fremur verið litið til úrskurða samgönguráðuneytisins í málum 4/2006 og 16/2006 þar sem þessi túlkun ákvæðisins hafi verið staðfest þrátt fyrir að sérstakar aðstæður hafi leitt til annarrar niðurstöðu í máli nr. 4/2006. Telur kærði að eins og atvikum sé háttað í fyrirliggjandi máli sé ekki hægt að víkja frá framangreindri túlkunarvenju og því hafi verið rétt að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.
V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
Ágreiningur í máli þessu lýtur fyrst og fremst að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda samkvæmt 106. gr. umfl.
Eins og fram hefur komið er kveðið svo á 1. gr. 106. gr. umfl. að veita megi þeim ökurétt að nýju sem sviptur hefur verið ökurétti lengur en þrjú ár þegar svipting hefur staðið í þrjú ár. Þá segir í 2. mgr. 106. gr. að endurveiting sé einungis heimil að sérstakar aðstæður mæli með því.
Ráðuneytið telur ákvæðið skýrt um að til að unnt sé að meta hvort heimilt sé að veita ökuréttindi á ný, sbr. 2. mgr. 106. gr., verði skilyrði 1. mgr. að vera uppfyllt, þ.e. að viðkomandi hafi verið sviptur ökuréttindum lengur en í þrjú ár og svipting staðið í a.m.k. þrjú ár.
Það er mat ráðuneytisins, með vísan til framangreinds álits umboðsmanns Alþingis, að ekki sé heimilt að leggja samanlagðan tíma tveggja eða fleiri sviptinga að jöfnu svo það skapi kæranda rétt til endurveitingar ökuréttinda á grundvelli 1. mgr. 106. gr. umfl. Það skilyrði 1. mgr. 106. gr. að svipting ökuréttinda hafi verið lengur en í þrjú ár er því ekki uppfyllt. Þá bendir ráðuneytið á það skilyrði að sviptingin hafi staðið í a.m.k. þrjú ár áður en endurveiting kemur til álita er ekki heldur uppfyllt þar sem kærandi var fyrst sviptur ökuréttindum frá 7. febrúar 2006 að telja og hafði því einungis verið án ökuréttinda í tvö ár þegar hann sótti um endurveitingu. Þar sem skilyrði 1. mgr. 106. umfl. er ekki uppfyllt, telur ráðuneytið ekki koma til skoðunar í máli þessu hvort atvik samkvæmt 2. mgr. 106. gr. umfl. eigi við, þ.e. um að endurveitingu skuli því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.
Í ljósi þess sem að framan greinir verður ekki fallist á að skilyrði 1. mgr. 106. gr. umfl. um endurveitingu ökuréttar eigi við í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu A um endurveitingu ökuréttar er hafnað.
Ragnhildur Hjaltadóttir
Unnur Gunnarsdóttir