Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hafnað niðurfellingu á holræsa- og vatnsgjöldum vegna húseignar sem ekki hefur verið tekin í notkun

Óskar og Kjartan ehf.

Óskar H. Ólafsson

Sævangi 22

220 Hafnarfirði

Reykjavík, 4. júlí 2000

Tilvísun: FEL00040076/121/SÁ/--

 

 

 

      Hinn 4. júlí 2000 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

      Með erindi, dagsettu 19. apríl 2000, kærði Óskar H. Ólafsson f.h. Óskars og Kjartans ehf. þá ákvörðun Akranesveitu að fella ekki niður holræsa- og vatnsgjöld vegna húseignar hlutafélagsins að Vesturgötu 119, Akranesi.

 

      Erindið var sent til umsagnar stjórnar Akranesveitu með bréfi dagsettu 26. apríl 2000. Jafnframt innti ráðuneytið bæjarstjórn Akraneskaupstaðar með bréfi, dagsettu sama dag, eftir upplýsingum um hvort bæjarstjórnin hefði veitt stjórn Akranesveitu umboð til að taka fullnaðarákvörðun um afgreiðslu slíkra erinda eða hvort bæjarstjórnin liti svo á að unnt væri að skjóta slíkum ákvörðunum stjórnar Akranesveitu til bæjarstjórnar. Svar bæjarstjórnarinnar barst með bréfi dagsettu 29. maí 2000 en umsögn stjórnar Akranesveitu barst með bréfi dagsettu 5. júní 2000.

 

I.    Málavextir og málsástæður

 

      Með bréfi, dagsettu 28. febrúar 2000, sendi Óskar H. Ólafsson f.h. Óskars og Kjartans ehf., stjórn Akranesveitu beiðni um að felld yrðu niður holræsa- og vatnsgjöld af eignarhlutum félagsins í fasteigninni Vesturgötu 119, Akranesi, þar til eignarhlutarnir væru fullbúnir og starfsemi í þeim hafin.

 

      Með bréfi, dagsettu 28. mars 2000, tilkynnti veitustjóri fyrir hönd stjórnar Akranesveitu Óskari að erindi félagsins hefði verið hafnað. Jafnframt tók hann fram að tæknifræðingur Akranesveitu hefði gert grein fyrir þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á eigninni síðastliðið ár að ósk húseiganda og vegna breyttrar starfsemi í húsinu.

 

      Í umsögn bæjarstjórnar frá 29. maí 2000 er staðfest að stjórn Akranesveitu hafi verið falið fullnaðarákvörðunarvald í holræsa- og vatnsgjaldamálum, ásamt því að sjá um umsjón og framkvæmd þessara mála og byggi það á samþykktum bæjarstjórnar. Til stuðnings þessa er meðal annars vísað í reglugerð um fráveitu Akraneskaupstaðar sem samþykkt var í bæjarstjórninni 23. maí 2000.

 

      Í umsögn stjórnar Akranesveitu til ráðuneytisins er skýrt frá því að nýir eigendur að Vesturgötu 119 sem byggð hafi verið á árunum 1956–1975 hafi skipt eigninni upp og óskað þess að fá sjálfstæð vatnsinntök í hvern eignarhluta fyrir sig, sbr. umsókn frá 3. febrúar 1999. Þessum breytingum lauk af hálfu veitunnar síðastliðið sumar og eru nú í húsinu fjögur ný inntök. Jafnframt er tekið fram að húsið sé tengt við fráveitukerfi bæjarins.

 

      Þá er vísað til 1. mgr. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991 en þar segir að sveitarstjórn sé heimilt að innheimta vatnsgjald af öllum fasteignum sem vatnsins geta notið. Þar að auki sé vatnsgjald skilgreint með samsvarandi hætti í a-lið 6. gr. reglugerðar fyrir vatnsveitur sveitarfélaga nr. 421/1992. Að mati veitunnar sé því búið að uppfylla það skilyrði fyrir álagningu vatnsgjalds að unnt sé að nota vatn frá veitunni þegar búið er að tengja fasteign við vatnsveituna. Því sé heimilt að leggja á vatnsgjaldið.

 

      Varðandi holræsagjaldið er vísað til 1. mgr. 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923 en þar segir: „Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði.“ Einnig er vísað til 1. mgr. 88. gr. sömu laga þar sem segir: „Bæjarstjórn leggur holræsi svo, að lóðareigandi hver nái til þeirra í götu, vegi eða opnu svæði, er lóð hans telst til, enda verður maður eigi krafinn um holræsagjald fyrr en svo er.“ Því sé ótvírætt heimilt að leggja á holræsagjald samkvæmt heimild í vatnalögunum þegar fasteign er tengd fráveitukerfi bæjarins.

 

      Að lokum er í umsögninni tekið fram að Akranesveita telji heimilt að leggja á holræsa- og vatnsgjöld þegar fasteign hefur tengst veitu- og frárennsliskerfi en heimild til álagningar gjaldanna taki ekki mið af því hvort einhver starfsemi fari fram í viðkomandi fasteign eða ekki svo sem beiðni félagsins byggðist á. Þar af leiðandi hafnaði veitan erindi Óskars og Kjartans ehf.

 

II.  Niðurstaða ráðuneytisins

 

      Holræsagjöld og vatnsgjöld eru þjónustugjöld. Þjónustugjöldum er ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við þá tilteknu þjónustu sem veitt er gjaldanda. Holræsagjöldum og vatnsgjöldum er ennfremur ætlað að standa undir kostnaði við tiltekna starfsemi á vegum sveitarfélaga.

 

      Í 1. mgr. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991 segir: „Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu.“ Jafnframt er kveðið á um gjaldstofna vatnsgjalds. Samkvæmt skýru orðalagi þessa ákvæðis er vatnsgjald ekki tengt raunverulegri notkun greiðanda á þjónustunni hverju sinni. Skilyrði fyrir gjaldtöku er að greiðandi geti notið vatnsins. Rétt er að taka fram að þegar svo stendur á að þjónustugjald skal greitt án tillits til þess hvort eða að hve miklu leyti þjónustan er notuð þarf að gera kröfu um að viðkomandi gjaldstofn eigi sér stoð í lögum. Að mati ráðuneytisins er sú lagaheimild skýr í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 81/1991. Verður því að telja að Akranesveitu sé heimilt að krefja Óskar og Kjartan ehf. um vatnsgjald geti eign félagsins notið vatns frá veitunni.

 

      Í 1. mgr. 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923 segir: „Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði. Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorttveggja.“ Í 1. mgr. 88. gr. sömu laga segir svo: „Bæjarstjórn leggur holræsi svo, að lóðareigandi hver nái til þeirra í götu, vegi eða opnu svæði, er lóð hans telst til, enda verður maður eigi krafinn um holræsagjald fyrr en svo er.“ Nánari ákvæði um álagningu holræsagjalds eru í reglugerð um holræsagjöld á Akranesi nr. 100/1976. Tilvísun til nýrrar reglugerðar sem samþykkt var 23. maí sl. skiptir ekki máli hér þar sem hún hefur hvorki hlotið staðfestingu félagsmálaráðuneytisins né verið birt í Stjórnartíðindum, sbr. lög um birting laga og stjórnvaldaerinda nr. 64/1943.

 

      Af þessum ákvæðum telur ráðuneytið ljóst að holræsagjald er eins og vatnsgjald óháð því hvort eða að hve miklu leyti gjaldandi nýtir þjónustuna hverju sinni. Heimilt er að leggja gjaldið á um leið og eign er tengd fráveitukerfi og gjaldandi getur notið þjónustunnar. Eins og áður segir þarf í þessum tilfellum að mæla fyrir um gjaldstofn slíks þjónustugjalds í lögum og er það skilyrði uppfyllt hér í vatnalögum. Akranesveitu er því heimilt að heimta holræsagjald af eign félagsins þar sem viðkomandi eign er tengd fráveitukerfi bæjarins.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

      Staðfest er ákvörðun stjórnar Akranesveitu um að innheimta holræsagjald og vatnsgjald af eign Óskars og Kjartans ehf. að Vesturgötu 119, Akranesi.

 

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit: Akranesveita.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta