Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Reykjavík - Lögmæti hækkunar vatnsgjalds

Haraldur Sæmundsson                                         30. apríl 1998                                                     98020081

Flókagötu 66                                                                                                                                                1200

105 Reykjavík

            

 

 

 

 

             Þann 30. apríl 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 18. febrúar 1998, kærði Haraldur Sæmundsson til ráðuneytisins meinta ólögmæta hækkun vatnsgjalds í Reykjavík frá 1997 til 1998.

 

             Erindið var sent til umsagnar Reykjavíkurborgar með bréfi, dagsettu 24. febrúar 1998. Umsögn barst ráðuneytinu þann 25. mars 1998 með bréfi, dagsettu 19. sama mánaðar.

 

I.          Málavextir.

 

             Samkvæmt gögnum málsins hefur fast gjald hjá Vatnsveitu Reykjavíkur hækkað úr 2.000 kr. árið 1997 í 2.073 kr. 1998 og fermetragjald hækkað úr 78 kr. í 81 kr.

 

II.         Málsástæður.

 

             Kærandi vitnar í erindi sínu til 11. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991. Umrædd hækkun hafi ekki verið auglýst samkvæmt fyrirmælum 11. gr. og sé því ólögmæt. Ennfremur hafi gjaldskrá Vatnsveitu Reykjavíkur verið birt í Lögbirtingablaðinu þann 11. desember 1996, en samkvæmt lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda nr. 64/1943 með síðari breytingum, beri að birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

 

             Með vísan til þess fer kærandi fram á að hækkun Reykjavíkurborgar á vatnsgjaldi fyrir árið 1998 verði úrskurðuð ólögmæt og að álagning vatnsgjalds fyrir árið 1998 verði óbreytt frá fyrra ári. Jafnframt er þess krafist að gjaldskrár fyrir vatnsgjald hjá Reykjavíkurborg og breytingar á henni verði birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

 

             Í umsögn Reykjavíkurborgar er umsögn um kæruefnið skipt í tvennt og segir svo í umsögninni:

             “1. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 81/1991 um vatnsveitur sveitarfélaga skal sveitarstjórn auglýsa gjaldskrá vatnsveitu og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu. Vatnsveita Reykjavíkur hefur um langt árabil birt gjaldskrár sínar í Lögbirtingablaðinu og þar var gildandi gjaldskrá birt hinn 11. desember 1996. Sú venja að birta gjaldskrána í Lögbirtingablaðinu byggist á 3. gr. laga nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda en þar segir: “Í Lögbirtingablaðinu skal birta ... opinber verðlagsákvæði og annað það, er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi.“

             2. Gjaldskrá Vatnsveitu Reykjavíkur hefur ekki verið breytt frá því sem auglýst var í Lögbirtingablaðinu hinn 11. desember 1996. Í gjaldskránni segir m.a.: “Vatnsgjald ársins 1997 og framvegis þar til annað verður ákveðið er reiknað skv. eftirfarandi reglu: ... Vatnsgjald þetta er miðað við byggingarvísitölu í desember 1996 og uppfærist skv. henni í desember ár hvert.“ Því er aðeins um uppfærslu verðs í samræmi við hækkun byggingarvísitölu að ræða en enga breytingu á gjaldskrá á árinu 1998.“

 

III.        Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um vatnsveitur sveitarfélaga gilda lög nr. 81/1991, með síðari breytingum. Í 11. gr. þeirra laga er svohljóðandi ákvæði:

             “Sveitarstjórn skal setja sér sérstaka gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 7., 8. og 9. gr. laga þessara, sbr. og reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga. Sveitarstjórn skal auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.“

 

             Í athugasemdum með þessari grein frumvarps til laga um vatnsveitur sveitarfélaga segir m.a. svo: “Gjaldskrár þessar þurfa ekki staðfestingar félagsmálaráðuneytisins enda eiga þær eð vera í fullu samræmi við ákvæði frumvarps þessa og fyrrgreinda reglugerð. Ein umræða í sveitarstjórn nægir því. Sveitarstjórn skal kunngera íbúum sveitarfélagsins gjaldskrána á þann hátt sem venja er með opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.“

 

             Í 1. mgr. 2. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda nr. 64/1943, sbr. lög nr. 95/1994, er svohljóðandi ákvæði:

             “Í B-deild Stjórnartíðinda skal birta reglugerðir, erindisbréf, samþykktir og auglýsingar, sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, umburðarbréf, ákvarðanir og úrlausnir ráðuneyta, sem almenna þýðingu hafa, veitingar opinberra starfa og lausn frá þeim, er handhafi æðsta framkvæmdavalds eða ráðherra fer með, reikninga sjóða, ef svo er mælt í staðfestum skipulagsákvæðum þeirra, úrslit alþingiskosninga, skrá yfir félög, firmu og vörumerki, sem tilkynnt hafa verið á árinu, heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun, sem ríkisstjórnin veitir. Einnig skal þar birta reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að gefa út.“ (Undirstrikun ráðuneytisins.)

 

             Síðasta málslið 1. mgr. 2. gr. var bætt við með lögum nr. 95/1994 og segir svo í athugsemdum við frumvarp til þeirra laga:

             “Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Er því ætlað að gera þeim opinberu stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, sem er falið að gefa út reglur um tiltekin málefni samkvæmt ákvæðum í lögum, mögulegt að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur er þau setja. Eins og málum er nú háttað er einungis unnt að birta í B-deild Stjórnartíðinda reglugerðir og annars konar reglur sem gefnar eru út af ráðherra og ráðuneyti. Hafa opinber stjórnvöld og stofnanir því ekki átt þess kost að koma slíkum reglum eða upplýsingum um þær á framfæri í Stjórnartíðindum. Það verður hins vegar að telja til hagræðis að unnt sé að leita slíkra reglna í sama riti og er að finna þær reglur sem útgefnar eru af ráðuneytum. Hefur því verið valinn sá kostur að leggja til að heimila þessum opinberu stjórnvöldum og stofnunum að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur sem þeim ber lögum samkvæmt að gefa út.

             Með því að lögbinda á þennan hátt að birtar skuli í B-deild Stjórnartíðinda slíkar reglur er ljóst að fyrirmæli þau sem í þeim felast taka gildi og hafa bindandi verkanir á sama hátt og reglugerðir og auglýsingar sem gefnar eru út af ráðuneytum, sbr. 7. gr. laganna.“

 

             Ljóst er að 11. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga gerir ekki kröfu um að gjaldskrár fyrir vatnsveitur sveitarfélaga verði birtar í Stjórnartíðindum, heldur er lágmarkskrafan sú að þær verði auglýstar með sama hætti og venja er að birta opinberar auglýsingar í viðkomandi sveitarfélagi. 2. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda heimilar hins vegar sveitarfélögum að birta slíkar gjaldskrár í B-deild

Stjórnartíðinda.

 

             Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að Reykjavíkurborg beri ekki að birta gjaldskrá fyrir Vatnsveitu Reykjavíkur í B-deild Stjórnartíðinda, enda er það venja hjá sveitarfélaginu að birta slíkar ákvarðanir í Lögbirtingablaðinu. Verður því að telja birtingu á gjaldskránni í Lögbirtingablaðinu uppfylla skilyrði 11. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga.

 

             Hvað varðar fjárhæð vatnsgjaldsins árið 1998 skal eftirfarandi tekið fram:

 

             Í auglýsingu um gjaldskrá Vatnsveitu Reykjavíkur, sem birt er í Lögbirtingablaðinu 11. desember 1996, segir svo m.a.:

             “Vatnsgjald ársins 1997 og framvegis þar til annað verður ákveðið er reiknað skv. eftirfarandi reglu:

             “Vatnsgjald er 2.000 kr. fast gjald + 78 kr. á hvern fermetra miðað við hverja matseiningu skv. fasteignamati. ... Vatnsgjald fer aldrei yfir 0,3% af fasteignamati. Vatnsgjald þetta er miðað við byggingarvísitölu í desember 1996 og uppfærist skv. henni í desember ár hvert.““

 

             Í áðurgreindri 11. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga er gert ráð fyrir að í gjaldskrá fyrir vatnsveitu sé að finna nánari ákvæði um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 7., 8. og 9. gr. laganna, sbr. og reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga. Um álagningu vatnsgjalds er fjallað í 7. gr. laganna, sbr. lög nr. 149/1995. Í 4. mgr. 7. gr. segir að sveitarstjórn ákveði upphæð vatnsgjalds “sem nema má allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni“.

 

             Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands eru framreiknaðar fjárhæðir vatnsgjalds samkvæmt gjaldskrá Vatnsveitu Reykjavíkur vegna ársins 1998 þannig að fast gjald er 2.073 kr. og gjald á hvern fermetra er 81 kr.

 

             Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið að tilvitnuð ákvæði í gjaldskrá Vatnsveitu Reykjavíkur stangist ekki á við lög um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991, með síðari breytingum, eða reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga nr. 421/1992, með síðari breytingum, enda verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að álagningin sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í 4. mgr. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Einnig telur ráðuneytið að framreikningur miðað við byggingarvísitölu brjóti ekki í bága við ákvæði laganna, enda er skýrt kveðið á um hann í gjaldskránni og framreikningurinn er miðaður við opinbera vísitölu sem byggð er á sérstökum lögum, sbr. lög um vísitölu byggingarkostnaðar nr. 42/1987.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Hafnað er kröfum um að gjaldskrá Vatnsveitu Reykjavíkur verði birt í B-deild Stjórnartíðinda og kröfu um að álagning vatnsgjalds hjá Reykjavíkurborg fyrir árið 1998 verði úrskurðuð ógild.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit:  Reykjavíkurborg.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta