Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Útreikningur vatnsgjalds, arðsemishlutfall og afskriftir af stofnkostnaði

Tryggvi Felixson                                          1. mars 2002                         FEL01110045/1200

Reynihvammi 25

200 KÓPAVOGUR

 

Með erindi, dags. 16. nóvember 2001, óskaði Tryggvi Felixson eftir áliti ráðuneytisisins varðandi útreikning og innheimtu Kópavogsbæjar á vatnsgjaldi fyrir árið 2001.

 

Erindið er í reynd tvíþætt. Í fyrsta lagi kemur fram í erindinu að málshefjandi hafi þann 7. febrúar 2001 sent fyrirspurn til bæjaryfirvalda þar sem óskað var upplýsinga um stofnkostnað og rekstur vatnsveitu í Kópavogi og tekjur bæjarsjóðs af vatnsgjaldi. Svar hafi ekki borist fyrr en 26. október 2001. Er óskað álits ráðuneytisins á því hvort seinlæti bæjaryfirvalda til að svara erindinu teljist ámælisverð stjórnsýsla og hvort bæjaryfirvöldum sé heimilt að krefjast dráttarvaxta af álögðu vatnsgjaldi í ljósi þess að þeir séu tilkomnir vegna seinlætis bæjaryfirvalda að svara erindinu.

 

Í öðru lagi er í erindinu óskað álits ráðuneytisins á því hvort álagt vatnsgjald sé of hátt. Er bent á að þær forsendur álagningar sem fram koma í bréfi Kópavogsbæjar, dags. 26. október 2001, byggi á þeirri forsendu að tæplega 75% gjaldsins sé vegna reiknaðra afskrifta og fjármagnskostnaðar. Staðreyndin sé hins vegar sú að hvorki afskriftir né fjármagnskostnaður eru færðir í reikninga bæjarsjóðs Kópavogsbæjar. Er jafnframt bent á að fram komi í ársskýrslu Kópavogsbæjar fyrir árið 2000 að tekjur vegna vatnsveitu voru tæplega 138 m.kr. umfram rekstrarkostnað og fjárfestingu. Er þeirri skoðun lýst að ef marka má ársreikning bæjarsjóðs ætti álagt vatnsgjald vegna fasteignar málshefjanda að vera 6.839 kr., í stað 27.356 kr. samkvæmt álagningarseðli. Er gerð sú krafa að Kópavogsbær endurgreiði hluta álagðs vatnsgjalds í samræmi við niðurstöðu ráðuneytisins, falli hún á þann veg að vatnsgjaldið sé of hátt.

 

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2001, óskaði ráðuneytið eftir umsögn reikningsskila- og upplýsinganefndar varðandi síðari lið málsins. Lagði ráðuneytið eftirfarandi spurningar fyrir nefndina, en jafnframt var tekið fram að ef nefndin sæi ástæðu til væri þess óskað að hún tæki einnig afstöðu til annarra atriða sem máli kynnu að skipta við úrlausn málsins:

 

Telur nefndin heimilt að taka tillit til afskrifta og fjármagnskostnaðar við ákvörðun vatnsgjalds, enda þótt bókfært stofnfé vatnsveitu sé ekkert?

Telur nefndin að í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi mat á fjárbindingu vatnsveitu og afskriftir verið í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju?

 

Einnig sendi ráðuneytið Kópavogsbæ bréf, dags. 29. nóvember 2001, þar sem óskað var afstöðu bæjarins til athugasemda málshefjanda um ónógan málshraða og kröfu um innheimtu dráttarvaxta. Svar bæjarins er dagsett 19. desember 2001. Í því kemur eftirfarandi fram:

 

"Tryggvi Felixson sendi umrætt erindi í febrúar og ítrekun í apríl en bærinn svaraði honum um miðjan október. Það skal viðurkennt að of langur tími leið þar til svar barst Tryggva en hægt er að benda á tvennt sem var þess að einhverju leyti valdandi. Annars vegar var um óvenjulegt mál að ræða sem þurfti vandaða málsmeðferð. Hins vegar komu fjórir starfsmenn að vinnslu þess og tafðist meðferð málsins af þeim sökum m.a. vegna sumarleyfa og anna á tæknideild. Ekki verður krafist dráttarvaxta vegna vanskila Tryggva á greiðslu vatnsgjalds fyrir ofangreint tímabil."

 

Umsögn reikningsskila- og upplýsinganefndar er dagsett 12. febrúar 2002. Er þar að finna svör við spurningum ráðuneytisins en jafnframt hefur nefndin að eigin frumkvæði farið yfir forsendur álagningar vatnsgjalds miðað við tilteknar forsendur um arðsemihlutfall. Um niðurstöður og rökstuðning nefndarinnar verður fjallað nánar hér á eftir.

 

Álit ráðuneytisins

 

A. Um málshraða Kópavogsbæjar

Í málsgögnum kemur fram að fyrirspurn málshefjanda frá 7. febrúar 2001 var ekki svarað fyrr en 26. október sama ár. Ekki er að sjá að málshefjanda hafi verið gerð grein fyrir því að erindi hans væri til skoðunar bæjaryfirvalda né hvenær niðurstöðu væri að vænta. Málgögn hafa hins vegar að geyma bréf frá bæjaryfirvöldum til málshefjanda, dags. 15. október 2001, þar sem skorað er á málshefjanda að greiða ógreidd fasteignagjöld eða semja um greiðslu þeirra, en ella verði krafan send lögmanni til innheimtu. Verður að telja að betri stjórnsýsluhættir væru, í tilvikum þar sem vænta má að nokkur tími muni líða þar til niðurstöðu er að vænta, að aðilum sé tilkynnt það með skriflegum hætti, svo og hvaða starfsmanns sé unnt að leita til varðandi upplýsingar um gang málsins. Verður að finna að málsmeðferð Kópavogsbæjar að þessu leyti.

 

Jafnframt telur ráðuneytið að þær ástæður sem koma fram í bréfi Kópavogsbæjar, dags. 19. desember, skýri ekki á fullnægjandi hátt hvers vegna fyrirspurn málshefjanda var ekki svarað fyrr en tæpum níu mánuðum eftir að hún barst bæjaryfirvöldum. Telur ráðuneytið að fyrirspurnin hafi verið orðuð með skýrum hætti og þar hafi ekki verið farið fram á aðrar upplýsingar en eðlilegt gat talist. Í úrskurði ráðuneytisins frá 21. september 2001 taldi ráðuneytið ástæðu til að gagnrýna harðlega að bæjaryfirvöld í Kópavogi höfðu verið meira en hálft ár að svara erindi þeim sem hafði borist. Í því máli sem hér er til umfjöllunar er um enn lengri tíma að ræða. Þótt fallast megi á að svar við erindinu hafi útheimt nokkra vinnu telur ráðuneytið ekki unnt að fallast á að sumarleyfi starfsmanna geti talist gild ástæða fyrir því að erindinu var ekki svarað, enda barst það bæjaryfirvöldum í febrúarmánuði. Telur ráðuneytið því óhjákvæmilegt að brýna fyrir bæjaryfirvöldum að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa.

 

Í bréfi Kópavogsbæjar frá 19. desember 2001 kemur fram að ekki verður krafist dráttarvaxta vegna vanskila málshefjanda á greiðslu vatnsgjalds. Telur ráðuneytið því óþarft að fjalla frekar um það atriði.

 

B. Um útreikning vatnsgjalds

Eins og áður er komið fram beindi ráðuneytið tveimur spurningum til reikningsskila- og upplýsinganefndar, sem starfar á grundvelli 18. gr. reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 944/2000.

 

Í fyrsta lagi var nefndin innt eftir því hvort hún teldi heimilt að taka tillit til afskrifta og fjármagnskostnaðar við ákvörðun vatnsgjalds enda þótt bókfært stofnfé vatnsveitu sé ekkert. Í svari nefndarinnar kemur fram að við ákvörðun vatnsgjalds sé eðlilegt að taka tillit til afskrifta, fjármagnskostnaðar og arðgreiðslna af því fé sem sveitarfélagið hefur bundið í rekstri þjónustueiningar, sbr. 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Nefndin gerir þó þann fyrirvara að ekki sé eðlilegt að taka tillit til afskrifta ef við ákvörðun þjónustugjalds er jafnframt talinn með útlagður kostnaður sveitarfélags við endurnýjun sömu mannvirkja.

 

Í öðru lagi var nefndin spurð álits á því hvort hún teldi að í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi mat á fjárbindingu vatnsveitu og afskriftir verið í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju. Í svari nefndarinnar kemur fram að nefndin fór yfir þær forsendur sem tæknideild Kópavogsbæjar notar við mat á stofnkostnaði vatnsveitu. Telur hún að með hliðsjón af matsaðferðum sambærilegs sveitarfélags, lögum og góðri reikningsskilavenju hafi Kópavogsbær staðið eðlilega að mati á stofnkostnaði umræddra mannvirkja. Jafnframt telur nefndin að afskriftarhlutfall það sem Kópavogsbær notar við útreikning árlegrar afskriftar sé innan þeirra marka sem eðlilegt getur talist.

 

Að auki fór reikningsskila- og upplýsinganefnd yfir öll gögn málsins og mat út frá forsendum sem lýst er í umsögn hennar hvort vatnsgjald í Kópavogsbæ geti talist of hátt. Er það niðurstaða nefndarinnar, að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnskostnaðar, að vatnsgjaldið hafi ekki verið ákveðið of hátt.

 

Málshefjandi gerði í bréfi, dags. 4. janúar 2002, athugasemd við orðalag fyrri spurningar ráðuneytisins. Taldi hann eðlilegra að orða spurninguna með svofelldum hætti: "Telur nefndin heimilt að taka tillit til afskrifta og fjármagnskostnaðar við ákvörðun vatnsgjalds, enda þótt bókfært stofnfé vatnsveitu sé ekkert og þó vatnskaupendur hafi árlega greitt allan tilfallandi kostnað við endurnýjun og uppbyggingu vatnsveitunnar?" Í forsendum nefndarinnar er tekin afstaða til þessarar athugasemdar með þeim hætti að nefndin lýsir þeirri skoðun að óeðlilegt sé við afskrift mannvirkja að telja jafnframt með útlagðan kostnað sveitarfélags við endurnýjun sömu mannvirkja. Einnig sé óeðlilegt að telja til afskriftarstofns heimæðar og inntök sem fjármögnuð hafa verið með sérstökum stofn- og tengigjöldum, en í slíkum tilvikum geti verið réttlætanlegt að taka tillit til endurnýjunarkostnaðar við ákvörðun þjónustugjalds.

 

Með vísan til umsagnar reikningsskila- og upplýsinganefndar, og þeirra sjónarmiða sem þar eru rakin, telur ráðuneytið ljóst að álagning vatnsgjalds í Kópavogi á árinu 2001 var í samræmi við ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991. Ráðuneytið telur engu að síður ástæðu til að minna bæjarstjórn Kópavogs á að gæta þess að fara ætíð að ákvæðum reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 944/2000, þar sem meðal annars er kveðið á um að í bókhaldi sveitarfélaga skuli lögð áhersla á að leiða fram beinan rekstrarkostnað einstakra rekstrareininga á reikningsárinu, sbr. 1. mgr. 4. gr. Í 1. mgr. 6. gr. er jafnframt kveðið á um að sveitarfélög skuli leiða fram í bókhaldi sínu með glöggum hætti tekjur og gjöld þeirra rekstrareininga sem fjármagnaðar eru af þjónustugjöldum. Rekstur vatnsveitu fellur undir þetta ákvæði.

 

Ráðuneytið telur að sá langi tími sem leið þar til bæjaryfirvöld í Kópavogi svöruðu erindi málshefjanda bendi til þess að ekki hafi verið gætt fyllilega að því í bókhaldi bæjarins að rekstrarkostnaður vatnsveitu væri nægilega sérgreindur, en slíkt hlýtur að vera skilyrði þess að ákvarðanir um fjárhæð þjónustugjalda byggist á traustum forsendum. Hins vegar skal tekið fram að í reglugerðinni er sveitarfélögum heimilað að fara að ákvæðum eldri reglugerðar, nr. 280/1989, við gerð fjárhagsáætlunar og ársreiknings fyrir reikningsárið 2001. Er því ekki tilefni til frekari athugasemda hvað þetta varðar.

 

Loks skal tekið fram að félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á yfirstandandi þingi um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, þar sem kveðið er á um að sveitarfélagi sem rekur vatnsveitu er ár hvert heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé veitunnar. Er ákvæðinu ætlað að vera til fyllingar ákvæði 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, sem felur í sér almenna heimild fyrir sveitarfélög til að setja sér stefnu um arðgjafar- og arðsemiskröfur í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra. Fram kemur í umsögn reikningsskila- og upplýsinganefndar að arðsemiskröfur þær sem Kópavogsbær hefur gert til vatnsveitu bæjarins er innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í fyrrgreindu frumvarpi.

 

Umsögn reikningsskila- og upplýsinganefndar er fylgiskjal með áliti þessu.

 

 

F. h. r.

Berglind Ásgeirsdóttir  (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Samrit:

Kópavogsbær


 

Fylgiskjal - Álit

reikningsskila- og upplýsinganefndar um ákvörðun vatnsgjalds í Kópavogsbæ, sbr. erindi félagsmálaráðuneytis, dags. 28. nóvember 2001

 

 

1.     Telur nefndin heimilt að taka tillit til afskrifta og fjármagnskostnaðar við ákvörðun vatnsgjalds, enda þótt bókfært stofnfé vatnsveitu sé ekkert?

       

        Reikningsskila- og upplýsinganefnd telur eðlilegt að við ákvörðun vatnsgjalds verði tekið tillit til afskrifta og fjármagnskostnaðar enda sé kostnaður við endurnýjun lagna og annarra vatnsveitumannvirkja ekki jafnframt talinn með við ákvörðun þjónustugjaldsins. 

 

A.  Afskriftir:

Með afskriftum mannvirkja vatnsveitna er kostnaðarverði þeirra dreift á nýtingartíma þeirra til tekjuöflunar.  Hér er því um eðlileg rekstrargjöld að ræða og ber að taka tillit til þeirra við ákvörðun vatnsgjalds.  Þegar tekið er tillit til afskrifta mannvirkja við ákvörðun þjónustugjalds er óeðlilegt að telja jafnframt með útlagðan kostnað sveitarfélags við endurnýjun sömu mannvirkja.  Einnig er óeðlilegt að telja til afskriftarstofns þau mannvirki sem að fullu hafa verið fjármögnuð með sérstökum gjöldum.  Dæmi um slík mannvirki eru heimæðar og inntök sem fjármögnuð hafa verið með sérstökum stofn- og tengigjöldum.  Í slíkum tilvikum er á hinn bóginn réttlætanlegt að taka tillit til endurnýjunarkostnaðar við ákvörðun þjónstugjalds.

 

B.  Fjármagnskostnaður:

Nefndin telur að við ákvörðun þjónustugjalds er eðlilegt að taka tillit til fjármagnskostnaðar sem þjónustueiningar sveitarfélaga bera vegna lána sem beinlínis eru til komin vegna starfsemi þeirra.

 

C.  Arður:

Ennfremur telur nefndin eðlilegt að við ákvörðun þjónustugjalds sé tekið tillit til þess arðs sem sveitarfélagi er heimilt að ákvarða af því fé sem það hefur bundið í rekstri þjónustueiningarinnar, sbr. 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

 

 

2.     Telur nefndin að í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi mat á fjárbindingu vatnsveitu og afskriftir verið í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju?

       

        A.    Fjárbinding

 

        Í gögnum sem borist hafa frá Kópavogsbæ að ósk nefndarinnar koma fram eftirfarandi upplýsingar tæknideildar kaupstaðarins um áætlaðan stofnkostnað við Vatnsveitu Kópavogs:

 

       

        Nefndin hefur farið yfir þær forsendur sem tæknideild Kópavogsbæjar notar við mat á framangreindum stofnkostnaði.  Nefndin telur að með hliðsjón af matsaðferðum sambærilegs sveitarfélags, lögum og góðri reikningsskilavenju hafi Kópavogsbær staðið eðlilega að mati á stofnkostnaði umræddra mannvirkja.

        B.    Afskriftir

 

         Í útreikningum Kópavogsbæjar á afskriftum er stuðst við 3,5% afskriftarhlutfall.  Nefndin telur að hér sé um að ræða mannvirki sambærileg fráveitumannvirkjum sem getið er um í 8. gr. auglýsingar nr. 790/2001.  Þar er gert ráð fyrir að slík mannvirki verði afskrifuð um 4,0% árlega.  Það er því mat nefndarinnar að afskriftarhlutfall það sem Kópavogsbær notar við útreikning árlegrar afskriftar sé innan þeirra marka sem eðlilegt getur talist.

 

 

Viðauki

 

Reikningsskila- og upplýsinganefnd hefur farið yfir þau gögn sem fylgdu með erindi yðar og þau gögn sem nefndinni hefur borist frá Kópavogsbæ að hennar beiðni.  Á grundvelli gagnanna hefur nefndin stillt upp rekstri vatnsveitunnar samkvæmt upplýsingum kaupstaðarins til samanburðar við rekstur hennar sem byggður er m.a. á útreikningum nefndarinnar um reiknaða liði.   Við athugunina taldi nefndin eðlilegt að halda tekjum vegna stofn- og tengigjalda aðgreindum frá öðrum tekjum ásamt kostnaði á móti slíkum þjónustugjöldum.

 

Í útreikningum nefndarinnar, sbr. neðangreinda töflu, var athugað hvaða áhrif mismunandi arðsemishlutfall hefði á niðurstöður þeirra en samkvæmt 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er sveitarfélögum heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra eins og áður hefur verið vikið að.  Nefndin miðaði annarsvegar við 4,8% arðsemihlutfall og hinsvegar við 7,0%.  Lægra hlutfallið byggir á þeim vaxtakjörum sem í gildi eru hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem í gegnum árin hefur m.a. lagt áherslu á lánveitingu til vatnsveitumannvirkja sveitarfélaga.  Hærra hlutfallið byggir á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, þar sem lagt er til að lögfest verði ákvæði sem heimilar eiganda vatnsveitu að áskilja sér allt að 7,0% arð af eigin fé vatnsveitunnar. 

 

 

 

Í samræmi við niðurstöður framangreindra útreikninga nefndarinnar er það mat hennar að vatnsgjald í Kópavogsbæ hafi ekki verið ákveðið of hátt.

 

Reykjavík, 12. febrúar 2002

 

 

                                                                                                                                                                                         

  Gunnlaugur Júlíusson                                       Lárus Finnbogason                             Óskar G. Óskarsson

 

                                                                                                                   

                                                                                  Garðar Jónsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta