Þórshafnarhreppur - Almenn skilyrði álagningar. Fyrning
Rafn Jónsson 7. apríl 1997 97030060
Fjarðarvegi 23 122
680 Þórshöfn
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 14. mars 1997, varðandi álagningu gatnagerðargjalda í Þórshafnarhreppi.
Um álagningu gatnagerðargjalda í Þórshafnarhreppi á árinu 1996 gilda lög um gatnagerðargjöld nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, og reglugerð um gatnagerðargjöld í Þórshafnarhreppi í N-Þingeyjarsýslu nr. 183/1984.
Hvað fyrsta hluta erindis yðar varðar skal tekið fram að um er að ræða álagningu gjalda og framkvæmdir sem fram fóru fyrir 13 árum. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila máls. Ráðuneytið lítur svo á að ákvæði þetta eigi við í máli þessu og mun það því ekki taka til efnislegrar meðferðar álagningu gatnagerðargjalds í Þórshafnarhreppi á árinu 1984.
Rétt er hins vegar að benda á að allar tekjur sveitarfélags vegna tiltekinnar framkvæmdar skulu teknar til greina við útreikning gatnagerðargjalda, enda er til þess ætlast að slík gjöld nemi ekki hærri fjárhæð en sem nemur raunkostnaði sveitarfélagsins.
Í öðru lagi er í erindi yðar fjallað um gjalddaga B-gatnagerðargjalds vegna lagningar gangstéttar. Ráðuneytið telur að 2. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjöld sé skýr hvað þetta varðar, en samkvæmt því ákvæði er gatnagerðargjaldið fyrst gjaldkræft þegar lagningu gangstéttarinnar er lokið.
Að lokum er spurt hvort sveitarfélagið hafi heimild til að víkja frá 3. gr. reglugerðarinnar. Ráðuneytið telur að sveitarfélaginu beri að fylgja þeim reglum sem það hefur sjálft sett í reglugerðinni, sem ráðuneytið síðan staðfesti. Breytingar á reglugerðinni taka ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest þær og látið birta í B-deild Stjórnartíðinda.
F. h. r.
Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)