Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Kópavogur - lögmæti uppsagnar verksamnings: Mál nr. 7/2008

Ár 2008, 17. apríl er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 7/2008

A

gegn

Bæjarstjórn Kópavogsbæjar.

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 17. desember 2007, kærði B f.h. A, (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun um óréttmæta uppsögn og eftirfarandi fyrirvaralausa brottvikningu B úr starfi af hálfu fjölskyldudeildar Félagsþjónustu Kópavogs (hér eftir nefnd kærði).

Er þess krafist af hálfu kæranda að kærði falli frá uppsögninni og standi við upphaflegan samning.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 17. febrúar 2007, ásamt eftirfarandi fylgigögnum:
a. Yfirlit/dagbók kæranda, 19. sept. 2007 og 10. okt. 2007.
b. Bréf kæranda til kærða dags. 17. október 2007.
c. Frásögn af fundi 17. október 2007.
d. Verktakasamningur milli kærða og Alfa ehf. dags. 12. mars 2007.
e. Bréf kærða til A og kæranda dags. 12. október 2007.

nr. 2. Bréf félagsmráðun. til kæranda dags. 20. desember 2007.
nr. 3. Bréf kærða til samgönguráðun. dags. 4. febrúar 2008.
nr. 4. Umsögn Helga Birgissonar hrl. f.h. kærða dags. 15. febrúar 2008.
nr. 5. Bréf samgöngurn. til kæranda dags. 18. febrúar 2008.
nr. 6. Bréf kæranda til samgöngurn. ódags., sent m. tp. 20. febrúar 2008.
nr. 7. Tölvupóstur samgöngurn. til kæranda dags. 13. mars 2008 og svar
kæranda sama dag.
nr. 8. Bréf kæranda til samgöngurn. dags. 15. mars 2008 og vottorð úr
fyrirtækjaskrá útg. 14. mars 2008.

Að auki liggja fyrir ýmsir tölvupóstar milli B og kærða vegna sáttaumleitana eftir að kæra var lögð fram og sendir voru samgönguráðuneytinu í afriti, á tímabilinu 23. janúar til 5. febrúar 2008.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.


II. Kærufrestur og kæruheimild

Framangreind kæra barst félagsmálaráðuneytinu þann 13. desember 2007 en hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda 12. október 2007. Kæra er því innan kærufrests skv. 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands sem samþykkt voru á Alþingi 14. desember s.l. er í I. þætti laganna kveðið á um flutning á forræði sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins þann 1. janúar 2008. Mál þetta er því afgreitt í samgönguráðuneytinu.


II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins gerðu Félagsþjónusta Kópavogs og kærandi með sér verktakasamning um tiltekna vinnu sem verktaki skyldi inna af hendi í athvarfi á vegum fjölskyldudeildar félagsþjónustunnar. Samningur þessi var tímabundinn frá 12. mars 2007 til 10. júní 2008, með þriggja mánaða uppsagnarfresti á samningstíma.

Samningur þessi var undirritaður af B f.h. kæranda og f.h. kærða af yfirmanni fjölskyldudeildar kærða.

Með bréfi dags. 12. október 2007 til kæranda var samningnum sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara frá 15. október 2007. Uppsögn var undirrituð af X.

Kærandi mótmælti uppsögninni með bréfi 17. október 2007 og skoraði á yfirmann fjölskyldudeildar/Félagsþjónustunnar að taka málið til nákvæmrar skoðunar.

Með stjórnsýslukæru dags. 13. desember 2007 kærði kærandi framangreinda uppsögn og krafðist þess að fallið yrði frá henni og staðið við upphaflegan samning.

Kærða var með bréfi dags. 20. desember 2007 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 15. febrúar 2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 18. febrúar 2008 og bárust athugasemdir þann 20. febrúar 2008.

Í janúar 2008 og fram í byrjun febrúar 2008 leituðu aðilar sátta en án árangurs og skýrir það seint fram komna umsögn kærða.

Við meðferð málsins hjá ráðuneytinu kom í ljós að formsatriði varðandi kæruaðild var ábótavant og var kæranda, með tölvupósti þann 13. mars s.l., gefinn kostur á að bæta úr því. Leiðrétting dags. 15. mars s.l. barst síðan ráðuneytinu ásamt vottorði úr fyrirtækjaskrá.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.


III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst þess að fjölskyldudeild Félagsþjónustu Kópavogs falli frá uppsögn og standi við upphaflegan samning.

B f.h. kæranda lýsir málavöxtum þannig í kæru að hann hafi hafið störf við unglingasmiðjuna Dalhús 12. mars 2007 og allt gengið vel fram til 19. september 2007. Þá hafi stjórnandi úrræðisins ráðlagt honum að segja upp stöðu sinni sem kærandi kveðst hafa neitað. B telur sig ávallt hafa fengi góða umsögn um starf sitt og breytingar á viðhorfi hvað það varðar verði ekki skýrðar á annan veg en séu af persónulegum toga.

B telur að Félagsþjónustan/X hafi brugðist skyldum sínum og notað ósæmilegar aðfarir við að koma sér frá störfum. Telur B sig hafa átt rétt á að fá áminningu hafi framkoma sín í starfi verið talin ámælisverð í stað þess að samningnum sé sagt upp og honum vikið úr starfi símleiðis.

B kveðst hafa verið í stöðugu sambandi við starfsmann félagsþjónustunnar, X, frá því málið kom upp og ítrekað óskað eftir skriflegri staðfestingu á brottvikningunni. Þá hafi hann við móttöku á uppsagnarbréfi mótmælt uppsögninni á staðnum í vitna viðurvist.

Í andmælum kæranda við umsögn kærða lýsir hann aðdraganda verktakasamningsins með þeim hætti að B hafi staðið til boða af hálfu Félagsþjónustunnar að taka starfinu, annað hvort sem launþegi eða fá greiðslur sem verktaki. Ekki hafi komið fram í starfsauglýsingu að um verktöku væri að ræða heldur hafi í viðtali við yfirmann fjölskyldudeildar, þar sem honum bauðst starfið, komið fram að hann gæti annað hvort komið að því sem launþegi eða fengið greitt sem verktaki. Frumkvæði að samningnum hafi því ekki verið frá B komið heldur hafi honum verið bent á að það gæti komið betur út fyrir hann að senda reikninga sem verktaki og hafi hann valið þann kostinn sem honum hafi þótt betri. Vinna hafi verið unnin af B en reikningar gefnir út af kæranda.

Kærandi bendir einnig á að uppsagnarbréfið sé ekki undirritað í umboði félagsmálastjóra Félagsþjónustunnar heldur sé það einungis undirritað af X án vísbendinga til stöðu hans eða umboðs.

Kærandi áréttar að ekki verði séð að uppgefin ástæða fyrir uppsögn og brottvikningu úr starfi sé tengd við endurskipulagningu starfseminnar eins og haldið er fram heldur sé það einungis bein afleiðing af persónulegri óvild Y og í beinu framhaldi af tilmælum Y um uppsögn.


IV. Málsástæður og rök kærða

Af hálfu kærða er málavöxtum lýst þannig að í ársbyrjun 2007 hafi af hálfu fjölskyldudeildar Félagsþjónustu Kópavogs verið ráðist í tilraunaverkefni er fólst í vinnu með börnum og unglingum sem áttu í verulegum vanda. Mjög illa hafi gengið að ráða hæft starfsfólk og hafi sumir umsækjendur, þ.á.m. B, gert kröfu til þess að verða ráðinn sem verktaki. Þar sem um tímabundið verkefnið var að ræða og ljóst að ekki tækist að manna stöður hafi verið látið tilleiðast að ráða í nokkrar með verktöku.

Verktakasamningur hafi verið gerður við kæranda 12. mars 2007 og samkvæmt honum hafi kærandi tekið að sér verkið en B látið þá þjónustu í té sem samningurinn fjallaði um.

Kærði kveður þetta fyrirkomulag hafa verið einstakt og þar sem B hafi í raun haft stöðu launþega gagnvart fjölskyldudeildinni hafi þetta ráðningarfyrirkomulag verið óheppilegt enda tíðkist það ekki lengur.

Kærði áréttar að um tilraunaverkefni hafi verið að ræða og haustið 2007 hafi ákveðnar skipulagsbreytingar verið ákveðnar og því hafi samningnum við kæranda verði sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara.

Samningurinn hafi upphaflega verið undirritaður af yfirmanni fjölskyldudeildar en sá hafði látið af störfum þegar samningnum var sagt upp. Þar sem nýr yfirmaður hafði ekki verið ráðinn var uppsagnarbréfið undirritað af tilteknum starfsmanni í umboði félagsmálastjóra Félagsþjónustu Kópavogs.

Kærði tekur fram að þótt gerður hafi verið verktakasamningur við kæranda þá hafi við uppsögn B úr starfi verið farið samkvæmt kjarasamningum og þeim einkaréttarlegu reglum sem gilda á almennum vinnumarkaði. B hafi verið boðið nýtt starf hjá félagsþjónustunni sem hann hafnaði.


V. Samningaumleitanir aðila

Eftir að kæra koma fram leituðust aðilar við að leysa málið með samningum. Rétt þykir að rekja í stuttu máli þær viðræður að því leyti sem ráðuneytið var upplýst um gang þeirra og endalok.

Samkvæmt þeim gögnum sem ráðuneytið hefur var haldinn fundur með B, fulltrúum Kópavogsbæjar, félagsmálastjóra, starfsmannastjóra og forstöðukonu fjölskyldudeildar þann 17. janúar 2008. Fundargerð liggur fyrir og kemur þar fram sú afstaða B að hann fái að vinna út umsamið tímabil með óbreyttum hætti. Lagt hafi verið fram af hálfu kærða boð um aðra vinnu og hafi B ætlað að skoða það en óskaði eftir skriflegu erindi frá kærða hvað það varðar. Uppsögn frá 15. október með 3ja mánaða uppsagnarfresti var áréttuð og rætt um að til greina kæmi að nýr samningur yrði gerður út tímabilið.

Hjá B kom fram að hann óskaði eftir því að fá að vinna við úrræðið, ef það héldi áfram, um ókomna tíð og taldi samstarf geta gengið þrátt fyrir þessa uppákomu. Hann myndi ekki senda reikning fyrir tímabilið lok des. til 15. jan. fyrr en framhaldið lægi ljóst fyrir.

Í kjölfarið, þann 21. janúar 2008, var B sent tilboð um nýtt starf hjá kærða og að nýr starfssamningur yrði þá gerður við hann frá 15. janúar til 10. júní 2008. Þessu hafnaði B með bréfi 24. janúar 2008 þar sem segir að augljóst sé að ekki sé vilji til að hann vinni áfram við úrræðið og ekki verði séð af tilboðinu að komið sé til móts við hann hvað varðar einhliða og óviðunandi uppsögn og tafarlausa brottvikningu úr starfi. Gerir B áfram þá kröfu að uppsögn verði dregin til baka og staðið við greiðslur samkvæmt upphaflegum samningi.

Í áframhaldandi tölvupóstsamskiptum milli aðila 28. janúar 2008 og ráðuneytið fékk afrit af kemur síðan fram frekari staðfesting þess að ekki náðist sátt milli aðila.


VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

I. Ráðuneytið telur rétt í upphafi að fjalla um kæruaðild.

Samkvæmt gögnum málsins er A sá sem á kæruaðild í máli þessu, enda geta hlutafélög átt aðild samkvæmt 1. gr. ssl. Kæran var hins vegar upphaflega sett fram af hálfu B í eigin nafni en ekki f.h. félagsins.

Sú meginregla gildir í stjórnsýslurétti, að aðildarskortur leiði til frávísunar á sviði stjórnsýsluréttar, sbr. bls. 254 í skýringarriti Páls Hreinssonar hæstaréttardómara um stjórnsýslulögin útg. 1994. Í því ljósi og vegna ríkrar leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, taldi ráðuneytið rétt að benda B á ágalla á kæruaðild og gefa honum færi á að bæta úr því. Það gerði B síðan með bréfi dags. 15. mars s.l. þar sem fram kemur að kæran er sett fram af B f.h. A og fylgdi með vottorð úr fyrirtækjaskrá þar sem fram kemur að B er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins.

Ráðuneytið telur að með þessu hafi verið bætt úr aðildarskorti og verði málinu því ekki vísað frá af þeirri ástæðu.

II. Kærandi krefst ógildingar á uppsögn á samningi sem gerður var milli hans og kærða. Byggir kærandi á því að B, starfsmaður kæranda, sem sinnti þjónustunni sem samningurinn fjallaði um, hafi haft stöðu starfsmanns hjá kærða. Hann hafi því átt rétt á áminningu áður en til brottvikningar úr starfi og uppsögn samningsins kom. Af hálfu kærða er á því byggt að uppsögn B hafi farið samkvæmt kjarasamningi og almennum reglum vinnuréttarins enda hafi verið litið á B sem starfsmann kærða þrátt fyrir að hann sinnti starfi sínu á grundvelli verktakasamnings.

Í málinu liggur fyrir umræddur samningur. Samningurinn ber yfirskriftina „Verktakasamningur“ og er þar kveðið á um að kærandi inni af hendi tiltekið verk fyrir kærða á ákveðnu tímabili, gegn gjaldi. Auk þess er kveðið á um uppsagnarfrest á samningstíma sem er þrír mánuðir. Samkvæmt samningnum eiga því báðir aðilar þess kost að segja samningnum upp enda engar skorður settar við nýtingu uppsagnarákvæðisins. Þrátt fyrir að samningurinn sé augljóslega að efni til verktakasamningur milli aðila verður ekki annað séð af málatilbúnaði beggja en þeir hafi báðir litið svo á að um málamyndagerning væri að ræða og líta ætti á B, starfsmann kæranda, sem starfsmann kærða við framkvæmd samningsins.

Ráðuneytið telur ástæðu til að gera athugasemdir við slík vinnubrögð. Um er að ræða að samningur er gerður við fyrirtæki sem er sjálfstæður lögaðili sem um gilda ákveðnar reglur og sem ber sem slíkur ákveðnar skyldur s.s. skattalegar. Það að B er einn eigandi félagsins breytir engu þar um og leiðir ekki til að hægt sé að líta svo á að hann komi í stað félagsins gagnvart kærða og verði starfsmaður kærða. Staða verktaka gagnvart verkkaupa er, eðli málsins samkvæmt, allt önnur en staða launþega gagnvart vinnuveitanda og gilda um það gjörólíkar reglur á sviði vinnuréttar. Í máli þessu er það kærandi sem er vinnuveitandi B og ber réttindi og skyldur gagnvart honum sem slíkur en ekki kærði.

Ráðuneytið fellst því ekki á það með aðilum kærumáls þessa að B, starfsmaður og eigandi kæranda, hafi haft stöðu starfsmanns kærða og hafi sem slíkur átt rétt á uppsögn úr starfi sem fara skyldi eftir lögum og reglum sem gilda um opinbera starfsmenn.

III. Það álitaefni sem er til úrskurðar er hvort uppsögn verktakasamnings milli fjölskyldudeildar Félagsþjónustu Kópavogs (kærða) og kæranda hafi verið lögmæt.

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Úrskurðarvald ráðuneytisins nær yfir hina formlegu hlið, þ.e. hvort lögfestar sem ólögfestar reglur hafi verið virtar við afgreiðslu mála, en ekki efnisinnihald, þ.e. atriði sem byggja á frjálsu mati stjórnvaldsins. Þá verður að vera um að ræða ákvörðun sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds en ekki ákvörðun sem alfarið er einkaréttarlegs eðlis.

Samningur sá sem hér um ræðir er um kaup stjórnvalds á tiltekinni þjónustu af einkaaðila. Hér er því um samning einkaréttarlegs eðlis að ræða sem um gilda almennar reglur samningaréttar, þ.á.m. um uppsögn hans.

Það sem hér þarf að taka afstöðu til er því hvort um samninginn gilda einnig stjórnsýslureglur, hvort sem er stjórnsýslulög eða óskráðar reglur stjórnsýsluréttar og hvort þeirra reglna var jafnframt gætt með fullnægjandi hætti við uppsögnina.

Hæstiréttur hefur litið svo á að ákveði sveitarfélag að fela aðila alfarið að sjá um að veita þjónustu sem því er með lögum ætlað að annast, eigi ákvæði stjórnsýslulaga við um slíkan þjónustusamning. Er um það fjallað í dómi réttarins frá 29. mars 1999 í máli nr. 318/1998. Í því máli hafði verið gerður þjónustusamningur við einstaklinga um rekstur meðferðarheimilis fyrir börn og unglinga með heimild í 4. mgr. 51. gr. laga nr. 58/1992 en þar kemur fram að félagsmálaráðuneytið skuli sjá um að sérhæfð heimili og stofnanir væru tiltæk fyrir börn og ungmenni og slíkt væri rekið af ríkinu eða einkaaðilum undir yfirumsjón og eftirliti Barnaverndarstofu. Segir Hæstiréttur að ekki sé unnt að líta svo á samningurinn hefði verið þess eðlis að ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993 girtu fyrir að önnur ákvæði laganna en þar greinir (hæfisreglurnar) geti átt við um hann. Þetta þýðir með öðrum orðum að Hæstiréttur taldi ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um samninginn þótt hann væri gerður á einkaréttarlegum forsendum.

Velferðarþjónusta sveitarfélaga er verkefni sem sveitarstjórn er falið með lögum að annast. Lög kveða hins vegar ekki á um með hvaða hætti þjónustan skuli veitt heldur er það ákvörðun sveitarfélagsins. Sveitarfélagi er því í sjálfsvald sett hvort það ákveður að fela öðrum framkvæmd verkefnisins og á hvaða hátt, svo framarlega sem lagaskyldan til að inna þjónustuna af hendi er uppfyllt. Í þessu máli ákvað kærði að gera samning við kæranda um tiltekið verk innan úrræðisins en kærði hafði sjálfur með höndum hið lögbundna hlutverk sitt. Er um að ræða samning milli stjórnvalds og einkaaðila, um kaup stjórnvaldsins á tiltekinni þjónustu einkaaðilans.

Aðstæður í þessum máli voru því að það miklu leyti með öðrum hætti en í nefndum dómi Hæstaréttar að ráðuneytið telur ekki unnt að líta svo á að í dóminum felist fortakslaust að ákvæði stjórnsýslulaganna eigi við um samninginn. Fær það jafnframt stoð í því að í 1. gr. stjórnsýslulaganna segir að lögin gildi ekki um samninga og verður því, að mati ráðuneytisins, að skýra það þröngt að hvaða leyti lögin eru látin ná til einkaréttarlegra samninga þótt samningsaðili sé stjórnvald.

Þótt ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um samninginn þá er hér um að ræða samning þar sem annar samningsaðilinn er stjórnvald. Hafa fræðimenn litið svo á að um alla samninga sem stjórnvöld gera gildi ákveðnar réttarreglur stjórnsýsluréttarins og má um það vísa til bls. 192-195 í doktorsritgerð Páls Hreinssonar hæstaréttardómara útg. 2005. Er þar m.a. um að ræða reglur um valdmörk stjórnvalda, rannsóknarregluna og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda.

IV. Eins og fram hefur komið nær úrskurðarvald ráðuneytisins til formhliðar mála og kemur því til skoðunar hvort uppsögn samningsins hafi verið með formlega réttum hætti, samkvæmt almennum reglum samningaréttar og einnig ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar en ekki er tekin afstaða til þess hvort efnislega var rétt að segja samningnum upp.

Í samningnum er kveðið á um gagnkvæma uppsagnarheimild samningsaðila án skilyrða. Ágreiningslaust er að samningnum var sagt upp með bréfi dags. 12. október 2007 og skyldi uppsögn gilda frá 15. október 2007. Eins og rakið hefur verið gerði kærði verktakasamning við kæranda um tiltekið verk. Uppsagnarbréf kærða er stílað á B en heiti kæranda, A, er handskrifað á bréfið. Meðal fylgigagna með kæru er afrit uppsagnarbréfsins með nefndri breytingu og telur ráðuneytið því að uppsögn hafi borist réttum samningsaðila enda ekki gerður ágreiningur um það í málinu að svo hafi ekki verið.

Verkkaupi í umræddum samningi var fjölskyldudeild Félagsþjónustu Kópavogs og var hann undirritaður af yfirmanni fjölskyldudeildar. Ekki er gerður ágreiningur um heimild viðkomandi til að gera slíkan samning og verður því ekki fjallað nánar um það hér heldur gengið út frá því að svo hafi verið.

Sú meginregla gildir almennt, nema um annað sé samið, að samningi verður einungis sagt upp af hálfu samningsaðila enda verður sá sem uppsögn beinist að geta treyst því að uppsögn stafi frá þar til bærum aðila. Að öðrum kosti hefur uppsögn ekki þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, þ.e. að fella samning úr gildi. Hér er um að ræða almenna meginreglu í samningarétti og gildir hún um samninga almennt, hverjir svo sem samningsaðilar eru. Af þessari meginreglu leiðir að gagnvart kæranda var yfirmaður fjölskyldudeildarinnar einn bær um að segja samningnum upp, eða sá sem hann leiddi umboð sitt frá. Uppsögn af hálfu annars aðila gat því einungis farið fram á grundvelli sérstaks umboðs honum til handa.

Uppsagnarbréfið var undirritað af X án tilgreiningar á starfsheiti hans eða tilvísunar til umboðs til hans til að segja samningnum upp gagnvart kæranda. Þótt í umsögn kærða komi fram að bréfið hafi verið undirritað af þessum aðila í umboði félagsmálastjóra Félagsþjónustunnar, lágu engar upplýsingar fyrir um það umboð þegar uppsögnin fór fram og ekki er að sjá að kærandi hafi á þeim tíma verið upplýstur um umboðið. Þá liggur ekkert frekar fyrir í málinu um nefnt umboð eða efni þess. Ekki liggur heldur fyrir hver staða X hjá kærða var á þessum tíma né er að sjá af gögnum málsins að X hafi haft umboð stöðu sinnar vegna til að segja upp samningnum.

Í ljósi alls framangreinds telur ráðuneytið það mikinn vafa leika á að X hafi haft umboð til að segja upp samningnum, að túlka ber það kæranda í hag. Ráðuneytið telur því að uppsögn á verktakasamningnum á milli kærða og kæranda ekki hafa verið framkvæmd af þar til bærum aðila og því af þeirri ástæðu verið ólögmæt og óskuldbindandi gagnvart kæranda.

V. Þá telur ráðuneytið að sé litið til almennra reglna stjórnsýsluréttarins megi byggja sömu niðurstöðu á reglunni um valdmörk stjórnvalda sem segja til um hvaða starfsmaður stjórnsýslunnar er bær að lögum til að binda stjórnvald með tilteknum hætti, s.s. hvað varðar heimild til uppsagnar á samningi. Þá má vísa til rannsóknarreglunnar um að kærða hafi borið að upplýsa nægilega um atvik máls sem leiddu til uppsagnarinnar, áður en samningnum var sagt upp og gæta þess að uppsögn grundvallist á málefnalegum sjónarmiðum. Uppsögnin hafi því jafnframt, sé tekið mið af almennum réttarreglum stjórnsýsluréttar, verið ólögmæt og þar með ekki skuldbindandi gagnvart kæranda.

Dregist hefur að kveða upp úrskurð í máli þessu vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurðarorð


Fallist er á kröfu B f.h. A um að uppsögn verktakasamnings milli fjölskyldudeildar Félagsþjónustu Kópavogs og A hafi verið ólögmæt.

Ragnhildur Hjaltadóttir


Svanhvít Axelsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta