Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Eyrarsveit - Skil milli eldri og nýrra laga um gatnagerðargjald við álagningu þess

Eyrarsveit                                                                23. desember 1997                                            97120016

Björg Ágústsdóttir sveitarstjóri                                                                                                                  122

Grundargötu 30

350 Grundarfjörður

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 3. desember 1997, þar sem óskað er eftir túlkun ráðuneytisins á lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996.  Svör ráðuneytisins eru eftirfarandi:

 

1.         “Um er að ræða lóðir sem úthlutað er og byggt á fyrir 1.1.1997 og standa við götur þar sem gengið er frá slitlagi eftir 1.1.1997.  Eftir hvaða lögum skal farið með álagningu og innheimtu gatnagerðargjalda?”

 

             Í 1. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996 er svohljóðandi ákvæði:

             “Lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 41/1974 sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku laga þessara.  Ákvæði eldri laga um álagningu gjalda vegna slíkra framvæmda gilda einungis um lóðir sem úthlutað hefur verið eða veitt hefur verið byggingarleyfi á fyrir gildistöku laga þessara.”

 

             Með vísan til orðalags ákvæðisins telur ráðuneytið ljóst að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gatnagerðargjald samkvæmt eldri reglum (B-gatnagerðargjald samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974) þegar um er að ræða lóðir sem úthlutað hefur verið eða byggt hefur verið á fyrir 1. janúar 1997.

 

2.         “Um er að ræða lóðir sem úthlutað er og byggt á eftir 1.1.1997 og standa við götur þar sem a) gengið hefur verið frá slitlagi fyrir meira en 5 árum, b) gengið er frá slitlagi eftir 1.1.1997.  Eftir hvaða lögum skal farið með álagningu og innheimtu gatnagerðargjalda í hvoru tilviki?”

 

             Eins og fram hefur komið áður af hálfu ráðuneytisins er sveitarfélögum ekki heimilt að innheimta svokallað B-gatnagerðargjald ef meira en fimm ár eru liðin frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð, sbr. orðalag 4. gr. laga um gatnagerðargjöld nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975.

 

             Ef gengið er frá slitlagi eftir 1. janúar 1997 og um er að ræða lóðir sem úthlutað er eða byggt er á eftir 1. janúar 1997 telur ráðuneytið að lög um gatnagerðargjald nr. 17/1996 gildi um álagningu gjalda.  Samkvæmt framangreindu orðalagi 1. töluliðar ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 17/1996 geta eldri reglur einungis átt við um lóðir sem úthlutað hefur verið eða byggt hefur verið á fyrir 1. janúar 1997.

 

3.         “Um er að ræða viðbyggingar/stækkanir húsa eftir 1.1.1997, húsin standa við götur þar sem a) gengið hefur verið frá slitlagi fyrir meira en 5 árum, b) gengið er frá slitlagi eftir 1.1.1997.  Eftir hvaða lögum skal farið með álagningu og innheimtu gatnagerðargjalda í hvoru tilviki.”

 

             Um a-lið spurningarinnar gildir sama svar og við a-lið 2. töluliðar erindis yðar.

 

             Um b-lið spurningarinnar gildir sama svar og við b-lið 2. töluliðar erindis yðar, enda hafi byggingarleyfi fyrir viðkomandi viðbyggingu eða stækkun verið gefið út eftir 1. janúar 1997.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta